Málefni fatlaðra

Fimmtudaginn 12. desember 1996, kl. 18:35:23 (2125)

1996-12-12 18:35:23# 121. lþ. 42.3 fundur 228. mál: #A málefni fatlaðra# (yfirtaka sveitarfélaga o.fl.) frv., félmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur

[18:35]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga á þskj. 308 um breytingu á lögum um málefni fatlaðra. Þetta frv. er samið af nefnd sem ég skipaði 3. apríl 1996 til að endurskoða lög um málefni fatlaðra. Í nefndinni áttu sæti hv. þm. Ásta B. Þorsteinsdóttir, tilnefnd af Landssamtökunum Þroskahjálp, Einar K. Guðfinnsson alþingismaður, tilnefndur af þingflokki sjálfstæðismanna, Haukur Þórðarson yfirlæknir, frá Öryrkjabandalagi Íslands, Hjörleifur Kvaran borgarlögmaður, tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Ólafur Örn Haraldsson alþingismaður, sem jafnframt var formaður nefndarinnar. Í nefndinni sat einnig Árni Gunnarsson, aðstoðarmaður félmrh. og formaður stjórnarnefndar um málefni fatlaðra. Ritari nefndarinnar var Margrét Margeirsdóttir deildarstjóri.

Tilefni endurskoðunar laga um málefni fatlaðra á árinu 1996 er að finna í ákvæði til bráðabirgða II í gildandi lögum, en þar segir að lögin skuli endurskoðuð innan fjögurra ára frá gildistöku þeirra með hliðsjón af endurskoðun laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga og heildarsamtök fatlaðra. Jafnframt segir í fyrrnefndu ákvæði að við endurskoðun laganna skuli miða að því að auka ábyrgð sveitarfélaga á málefnum fatlaðra.

Frumvarpi þessu má skipta í tvo meginþætti. Meginefni frumvarpsins er að finna í bráðabirgðaákvæði og það lýtur að yfirtöku sveitarfélaga á málefnum fatlaðra. En aðrar breytingar eru flestar nauðsynlegar vegna breytinga á öðrum lögum.

Eftir að nefndin tók til starfa varð samkomulag um það við forustumenn Sambands íslenskra sveitarfélaga að stefna að því að sveitarfélögin yfirtækju málefni fatlaðra 1. janúar 1999. Þá þótti rétt í ljósi þess að bíða með hina gagngerðari endurskoðun þessara laga og einungis breyta þeim ákvæðum sem mjög nauðsynlega þurftu að breytast vegna annarra lagabreytinga. Meginefni þessa frv. er sem sagt sú stefnumörkun að málefni fatlaðra skuli færast yfir til sveitarfélaganna 1999, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum að sjálfsögðu og að undangengnum samningum. Það er meginefni þessa frv. og ég tel að það sé mikilvægt að hafa góðan fyrirvara á þessu. Við getum lært ýmislegt af yfirfærslu grunnskólans til sveitarfélaganna og notað tímann vel.

Áður en af þessari yfirfærslu verður er eðlilegt að fram fari gagngerð endurskoðun á lögunum um málefni fatlaðra og þau verði felld inn í lögin um félagsþjónustu sveitarfélaga því eins og menn vita er það viðurkennt að fatlaðir eru í sjálfu sér ekki frábrugðnir öðrum íbúum sveitarfélaganna og eðlilegt að þeir njóti hliðstæðrar fyrirgreiðslu og hliðstæðrar félagslegrar þjónustu og aðrir íbúar sveitarfélaga.

Það er gaman að geta þess að nú þegar hefur þessi yfirfærsla verið gerð í einu kjördæmi landsins þ.e. í Norðurlandskjördæmi eystra. Í fyrravor tók Akureyri sem reynslusveitarfélag við málefnum fatlaðra á Eyjafjarðarsvæðinu. Á þeim mánuðum sem síðan eru liðnir lítur allt út fyrir að það komi einstaklega vel út. Það er verið að ganga frá samningum, og ég vonast eftir að fá tækifæri til þess að undirrita þá innan örfárra daga, við Húsavík um yfirtöku á málefnum fatlaðra í Norður-Þingeyjarsýslu og meiri hluta Suður-Þingeyjarsýslu, þ.e. þrír hreppar í Suður-Þingeyjarsýslu njóta þjónustu frá Akureyri. Ég geri mér vonir um að í þessu kjördæmi fáist fram til 1. janúar 1999 dýrmæt reynsla af því að málefni fatlaðra séu á forræði sveitarfélaganna og við getum stuðst við þá reynslu í framtíðinni.

Þessu frv. fylgir nokkuð ítarleg grg. og ég vísa til hennar, herra forseti. En það er rétt að geta þess að hagsmunasamtök fatlaðra hafa á undanförnum árum bent á það að einn liður í blöndun fatlaðra og ófatlaðra sé að þjónusta við fatlaða og ófatlaða sé hlið við hlið og aðgreining milli fatlaðra og ófatlaðra sé óæskileg. Og þetta styður það að hafa um málefnið einn lagabálk.

Það er nauðsynlegt þegar málaflokkurinn færist til sveitarfélaganna að vera mjög vel á verði um það að sérþekking innan málaflokksins glatist ekki og að svo verði búið um hnútana að einum aðila verði falið að halda utan um þekkingaröflun og varðveislu hennar, svo og ráðgjöf til sveitarfélaganna. Nefndin, sem vann að frv., bendir í þessu sambandi á Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins og eins og fram kemur í ákvæði til bráðabirgða er lagt til að um þá stofnun verði sett sérstök lög. Nefndin bendir einnig á að við flutning málaflokksins til sveitarfélaganna verði engu að síður séð til þess að fyrir hendi verði sérhæfð þjónusta á landsvísu og auk þess verði hugað að því hvernig réttindagæsla fatlaðra verði best tryggð með því móti að einum aðila verði falið að hafa þar yfirsýn.

Þetta er meginbreytingin, herra forseti, að marka þá stefnu að færa málaflokkinn til sveitarfélaganna. Aðrar breytingar í frv. eru nauðsynlegar þar sem þær leiðir af breytingum á öðrum lögum. Í fyrsta lagi lög um grunnskóla, nr. 66/1995, en með þeim var fræðslustjóraembætti lagt niður. Svo og lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, en samkvæmt þeim lögum skulu embættismenn skipaðir tímabundið. Á báðum þessum atriðum er tekið í frv. Auk þessara fyrrnefndu nauðsynlegu breytinga eru þau nýmæli lögð til í 4. gr. frv. að styrkur Framkvæmdasjóðs fatlaðra til framkvæmdaaðila sem byggja félagslegar íbúðir til leigu fyrir fatlaða sé sá sami hvort sem framkvæmdaaðili er sveitarfélag eða félagasamtök. Það þykir rétt að gæta þarna jafnréttis og jafnræðis og það er hugsunin í þessu.

Það lagt til í frv. að gildistaka 2. og 3. gr. verði bundin við 1. janúar 1997. Það er í samræmi við gildistökuákvæði í frv. til laga um breytingu á sérákvæðum í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins sem lagt hefur verið fram. Það þykir rétt að ákvæði sem varðar tímbundna skipun embættismanna innan málefna fatlaðra eigi heima í þessu frv. fremur en í fyrrnefndu frv. Mér er ljóst að það er skammur tími til stefnu. Nefndin skilaði áliti fyrir tveimur eða þremur vikum og því miður tókst ekki að koma frv. til umræðu á Alþingi fyrr en nú. Með vísun til þess að það eru ákveðnir lausir endar um áramót ef frv. nær ekki fram að ganga vil ég biðja hv. félmn. að líta á það með velvild hvort ekki væri tiltækilegt að afgreiða þetta fyrir áramót, þ.e. að frv. næði afgreiðslu áður en þingið fer í jólahlé.

[18:45]

Eftir því sem ég sé best hefur nefndin orðið sammála um þessar breytingar en einn nefndarmaður, hv. þm. Ásta B. Þorsteinsdóttir, lagði til tvær frekari breytingar og ég vísa til þeirra á fskj. III þar sem þær eru taldar upp. Þingmaðurinn lagði til að sérstök lög um greiningu fatlana, ráðgjöf og aðra sérfræðiþjónustu á landsvísu yrðu sett og nýr liður bættist við ákvæði til bráðabirgða sem þyrfti að setja um lög um réttindagæslu á landsvísu. Ég tek enga afstöðu til þessara atriða en ég tel rétt að þau bíði þá heildarendurskoðunar. Ég er alls ekki að leggjast gegn því að slík lagasetning fari fram ef mönnum svo sýnist nauðsynlegt.

Ég verð hins vegar að gera athugasemd við nokkrar setningar í greinargerðinni eða athugasemdum sem hv. þm. setur fram. Það er varðandi þjónustu við fatlaða í Finnlandi. Í athugasemdum segir, herra forseti:

,,Í Finnlandi hefur þjónusta við fatlaða óheft verið flutt til sveitarfélaganna án þess að aðgát væri höfð á ofangreindum þáttum. Afleiðingar þess hafa verið mjög alvarlegar m.a. dauðsföll íbúa í einstökum sveitarfélögum, að því að talið er vegna lélegs aðbúnaðar og þjónustu.``

Þetta eru hræðilegar fréttir og ég vona að þær séu ekki réttar og sannarlega ætla ég að vona að okkur takist hér á landi að færa þennan málaflokk til sveitarfélaganna án þess að þvílíkir hlutir þurfi fram að koma.

Herra forseti. Ég ætla ekki að orðlengja þetta meira í bili. Ég er fús að verða við ósk sem fram hefur komið um að ræða málefni fatlaðra á breiðari grundvelli eða á öðrum vettvangi, þ.e. utan dagskrár, samkvæmt beiðni sem fram hefur komið þegar forsetum þykir henta. En ef hv. þingmenn æskja þess get ég reynt að svara spurningum sem settar voru fram í bréfi Þroskahjálpar sem mér barst fyrir nokkru síðan, en þar var farið fram á það að hér yrði efnt til umræðu utan dagskrár eða umræðu á Alþingi á degi fatlaðra hinn 3. desember. Til þess gafst nú ekki tækifæri. En ef menn svo kjósa þá er ég tilbúinn síðar í þessari umræðu að fara yfir það bréf og reyna að svara þeim atriðum sem Þroskahjálp spurði um.

Að lokinni þessari umræðu geri ég tillögu um að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. félmn.