Lax- og silungsveiði

Mánudaginn 16. desember 1996, kl. 17:02:11 (2274)

1996-12-16 17:02:11# 121. lþ. 45.10 fundur 239. mál: #A lax- og silungsveiði# (Veiðimálastofnun) frv., KÁ
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur

[17:02]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Aðeins örfá orð um þetta mál. Mér sýnist að hér sé þjóðþrifamál á ferðinni og verið sé að gera eðlilega breytingu í ljósi þróunar í stjórnsýslu hér á landi. En ég get ekki látið hjá líða að gera athugasemdir við vinnubrögð og að lýsa furðu minni á því að það skuli vera mælt fyrir þessu máli á mánudegi í síðustu viku fyrir jól og að ráðherra skuli fara fram á að málið verði afgreitt núna í vikunni. Það kann að vera að hv. landbn. hafi ríkulega þekkingu á þessu máli og geri sér grein fyrir því hvað hér er á ferð og að málið kalli ekki á mikla skoðun. Ég veit hins vegar að þetta mál kom til efh.- og viðskn. og þar var farið fram á að það yrði tekið inn í bandorm. Þar þótti mönnum afar sérkennilegt að fá algjörlega nýtt mál inn á milli umræðna, mál sem í sjálfu sér kemur ráðstöfunum í ríkisfjármálum ekkert við, enda kemur fram hér að þessar breytingar hafa engin áhrif á fjármál ríkisins. Málið var sent landbn. og þar fékk það sömu viðtökur, þ.e. á þá leið að eðlilegast væri að málið fengi þinglega meðferð og kæmi fram sem frv.

Ég vildi að það kæmi fram, hæstv. forseti, að ég skil ekki hvers vegna málið er svona seint fram komið og vil hafa alla fyrirvara varðandi það að þetta mál verði afgreitt nú í vikunni nema hæstv. ráðherra rökstyðji það betur og sannfæri okkur um að nauðsyn sé á því og að hann skýri jafnframt hvers vegna þetta mál er ekki fyrr fram komið. Hins vegar skal ég ekki standa í vegi fyrir því að þetta komist í gegn ef svona brýna nauðsyn ber til. En við hljótum að gera athugasemdir við það, þegar svo skammt lifir þingtímans fram að jólahléi, að menn skuli koma með ný mál svona í síðustu vikunni, nema brýna nauðsyn beri til.