Póst- og fjarskiptastofnun

Þriðjudaginn 17. desember 1996, kl. 21:25:35 (2333)

1996-12-17 21:25:35# 121. lþ. 47.8 fundur 149. mál: #A Póst- og fjarskiptastofnun# frv. 147/1996, 150. mál: #A fjarskipti# (heildarlög) frv. 143/1996, 151. mál: #A póstþjónusta# (heildarlög) frv. 142/1996, KPál
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur

[21:25]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Póstur og sími er stofnun sem hefur frá fyrstu áratugum þessarar aldar þróast með þjóðinni og er óhætt að segja að þessi stofnun hafi farsællega náð því að þjóna Íslendingum með svo miklum ágætum að í rauninni eru fá dæmi um annað eins þótt víðar væri leitað. Það var ekki spáð vel fyrir þessari stofnun á sínum tíma, en tíminn hefur sem sagt leitt annað í ljós.

Okkur Íslendingum hefur síðustu ár þótt það sjálfsagt að Póstur og sími væri hér á landi með þá þjónustu sem hægt er að búast við hvar sem er annars staðar í heiminum. Við höfum ekki gert okkur grein fyrir því hvað t.d. gjaldskrá þessarar stofnunar er samkeppnisfær og í rauninni einstök miðað við það sem við höfðum áður talið. Við sem vorum svo lánsamir að geta farið í ferð til Noregs og Danmerkur til að kynna okkur aðferðir Norðmanna og Dana við að gera símastofnanir sínar að hlutafélögum urðum mjög varir við það hversu þessir frændur okkar dáðust að því hvernig tæknivæðing og uppbygging póstsins og símans á Íslandi hefði virkað og hversu fljótir þeir væru að tileinka sér þær nýjungar sem til eru í heiminum.

Það kom einnig fram í Kaupmannahöfn þar sem dreginn var fram listi yfir gjaldskrár pósts og síma í öllum OECD-ríkjum að í langflestum tilvikum var Póstur og sími með lægstu gjaldskrá sem þekktist. Ég verð að viðurkenna það að ég vissi það ekki fyrr en ég sá það úti í Danmörku hversu vel Póstur og sími stóð sig í gjaldskrármálum miðað við aðrar þjóðir og ég hygg að fleiri en ég hafi komið þar af fjöllum. En það sýnir kannski hversu hógværlega Póstur og sími hefur farið í þessi mál að tíunda það hversu hagkvæmur sá rekstur hefur verið.

Það er svo sem ekki verið að segja neitt nýtt með því að það er sjálfsagt að breyta umgjörð Pósts og síma eins og sambærilegra stofnana í heiminum sem eru að þróast inn á ný svið fjarskipta, inn á ný svið viðskipta og inn á nýtt svið frjálsræðis sem er að skapast á þessum vettvangi í Evrópu og víðar í hinum vestræna heimi. Það var því mjög nauðsynlegt og tímabært skref að gera Póst og síma að hlutafélagi og í rauninni óhjákvæmilegt skref til að mæta bæði samkeppni og þeim mikla hraða sem er í t.d. hlutafjárkaupum og uppbyggingu fyrirtækja erlendis, til að geta fylgst með nýjungum og til að geta mætt betur samkeppni sem kæmi hér heima. Af þessum ástæðum og mörgum fleirum taldi ég ásamt öðrum í meiri hluta Alþingis, að hlutafjárvæðing Pósts og síma væri nauðsynleg.

[21:30]

Þau frumvörp sem við fjöllum um hér í dag eru í rauninni leikreglur sem verður að fara eftir þegar einkaleyfi Pósts og síma hefur verið afnumið og búast má við mikilli erlendri samkeppni á næstu árum og jafnvel strax á næsta ári.

Þau þrjú frv. sem hér um ræðir hafa verið lengi til umræðu í hv. samgn. þar sem ég á sæti. Ég get ekki tekið undir að þar hafi komið fram margar athugasemdir við frv. sem þar liggja frammi. Eigi að síður hafa verið ýmsar vangaveltur um að þar mætti breyta. Ég held samt að okkur sem að þessum málum höfum komið sé ljóst að sama hversu vel við mundum vanda okkur við þau frv. sem hér eru lögð fram hljóti að verða miklar breytingar á þeim nánast árlega þar sem hraðinn og breytingarnar á þessum markaði eru ófyrirsjáanlegar. Ég hygg því að minni háttar breytingar hljóti alltaf að vera í spilunum þannig að við getum aðlagað bæði reglur og lög og náttúrlega markaðinn fyrir þeirri samkeppni sem við eigum von á. Við þurfum líka að átta okkur á því að eins og þetta lítur út í dag er ekki nema eitt fyrirtæki á Íslandi sem getur tekið á móti erlendri samkeppni og það er Póstur og sími eða Póstur og sími hf. eins og fyrirtækið verður eftir áramót.

Við vonum náttúrlega að með þeirri miklu uppbyggingu sem þar hefur átt sér stað muni fyrirtækið hafa burði til að geta þjónað landinu öllu og mætt um leið þeim kostnaði sem óhjákvæmilega hlýst af því að vera í mikilli samkeppni. Auðvitað verður Póstur og sími að sýna umburðarlyndi gagnvart veikburða fyrirtækjum sem eru að reyna að hasla sér völl á Íslandi í samkeppni við Póst og síma. Ég trúi því að þeir aðilar sem þar stjórna sjái að samkeppni hér heima, sem getur aldrei orðið nema lítil, muni ekki gera annað en að styrkja Póst og síma. Ég treysti því að þeir árekstrar sem þar hafa komið upp undanfarna mánuði verði leystir í sátt og samlyndi.

Það hefur aðeins heyrst að stjórnarandstæðingar, minni hluti samgn., hafa talið að ástæða væri til að skoða þessi frv. mun betur og fresta því að lögfesta þau fyrr en að vori komanda. Ég held að það sé ekki skynsamlegt að fara út í þá seinkun því samkvæmt frv. er ekki gert ráð fyrir gildistökuákvæði frv. um Póst- og fjarskiptastofnun fyrr en 1. apríl á næsta ári. Þá getum við sagt sem svo að það séu aðeins níu mánuðir þar til algjört frelsi verður á fjarskiptum og Póstur og sími þegar farinn að starfa samkvæmt hlutafélagalögum. Ef eitthvað væri mundi ég segja að við værum of seint á ferðinni með þetta. Að draga það í þeirri von að það verði betra frv. út úr því held ég að sé misskilningur. Eins og ég sagði áðan er ljóst að við þurfum að endurskoða slík lög á hverju ári og þar með að læra hvernig þessu verði best stjórnað.

Ég tek að sjálfsögðu undir ýmislegt sem hv. minnihlutamenn hafa sagt, m.a. að kostnaður við Póst- og fjarskiptastofnun hlýtur að verða verulegur. Ég held samt að menn viðurkenni að Póst- og fjarskiptastofnun verður að vera til þegar um er að ræða frjálsan markað og eftirlit með honum og eftirlit með mörgum jafnvel mismunandi fyrirtækjum starfandi á þessu sviði. Þar af leiðandi er óhjákvæmilegt annað en að hafa um það eitthvert eftirlit og ráðgjöf sem ráðuneytið getur stuðst við.

Ég tek ekki undir þá gagnrýni sem mér finnst hafa komið á svokallaða úrskurðarnefnd sem á að skipa samkvæmt þessum lögum og að þar sé um að ræða nefnd sem muni alfarið fara eftir hentistefnu samgrh. hverju sinni þar sem skipunin sé ekki alfarið skulum við segja úti í bæ eða í höndum Alþingis. Eftir þeim upplýsingum sem við í samgn. fengum eru svona úrskurðarnefndir til annars staðar í Evrópu, nefndir sem gegna sambærilegu hlutverki, og þær eru alfarið skipaðar af ráðherrum viðkomandi málaflokks. Hér erum við að tala um að Verkfræðingafélag Íslands skipi einn, Hæstiréttur annan og ráðherra þann þriðja. Ef eitthvað er þá er þetta mun lýðræðislegra, ef það mætti orða það þannig, og fjær framkvæmdarvaldinu heldur en tíðkast í nágrannaríkjum okkar og þeim ríkjum sem við berum okkur helst saman við. Ég tel því, herra forseti, að í megindráttum getum við sagt að þessi undirbúningur og þessi frv. séu það þroskuð að við eigum að geta samþykkt þau hér á þinginu fyrir jól þannig að þau geti orðið að lögum og hægt sé að fara að vinna eftir þeim. Okkur veitir heldur ekkert af þeim tíma sem fram undan er til að þroska bæði þessar stofnanir og þroska þær með Pósti og síma þegar hann verður að hlutafélagi því þessi fyrstu skref og fyrstu mánuðir skipta oft mestu um samstarf svona stofnana á jafnréttisgrundvelli.

Að lokum, herra forseti, vil ég aðeins koma inn á önnur mál er hafa tengst þessari umræðu. Það er varðandi starfsmenn Pósts og síma sem nú verða starfsmenn Pósts og síma hf. Eins og hv. þm. rekur minni til var mikil umræða um það hvernig færi með starfsmannamál og hvort þeir starfsmenn sem nú eru hjá þessari stofnun mættu eiga von á að tapa vinnunni eða verða á allt öðrum kjörum heldur en þeir hafa verið hingað til. Í þeirri umræðu sem fór þá fram m.a. með hv. þm. Ögmundi Jónassyni formanni BSRB og með hæstv. ráðherra var því lofað, og ég veit að við það verður staðið, að allir starfsmenn sem unnið hafa hjá Pósti og síma fái sambærileg störf hjá Pósti og síma hf. og engum manni verði sagt upp. Ég ræddi einnig sérstaklega við hv. þm. Ögmund Jónasson um kjör og samninga sem fram undan væru eins og um lífeyrisréttindi og annað, að menn gerðu fastlega ráð fyrir því að um þau réttindi sem ekki væri hægt að ávinna sér í nýja fyrirtækinu, fyrir þá sem væru að taka sér inn svokallaða eftirmannsreglu eða annað, að um það yrði samið við Póst og síma hf. Það hefur verið minn skilningur alla vega á þessu að það sem ekki væri hægt að tryggja með lagasetningunni yrði gert með samningum milli starfsmannafélaganna og Pósts og síma hf. Í mínum huga hefur það alltaf verið ljóst að hlutur starfsmannanna yrði ekki fyrir borð borinn.

Því hefur verið slegið fram að starfsmenn væru að missa vinnuna hjá Pósti og síma og fengju jafnvel ekkert annað starf í staðinn. Ég hef persónulega spurt að því hvort þetta væri staðreynd og það hefur verið sagt að svo væri ekki. Þetta væri misskilningur. (Gripið fram í: Hverja þá?) Hverja hef ég spurt? Ég hef spurt æðstu menn sem við þetta starfa. Ég ætla ekki að nafngreina neina. Ég get gert það síðar. Mér hefur verið tjáð að svo væri ekki. Ég ætla ekki að efast um að mér sé sagt rétt frá í þessu efni. Ef annað kemur á daginn þá er ég jafntilbúinn til að taka á því máli með forustumönnum starfsmannafélaga og þeirra aðila sem að þessu koma að öðru leyti og ná fram þeim leiðréttingum sem um var talað í upphafi. Í þessu tilliti, hvað varðar starfsmennina, eiga orð að standa.