Póst- og fjarskiptastofnun

Miðvikudaginn 18. desember 1996, kl. 15:38:48 (2385)

1996-12-18 15:38:48# 121. lþ. 49.3 fundur 149. mál: #A Póst- og fjarskiptastofnun# frv. 147/1996, 150. mál: #A fjarskipti# (heildarlög) frv. 143/1996, 151. mál: #A póstþjónusta# (heildarlög) frv. 142/1996, LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[15:38]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er dálítið merkilegt af form. samgn. að líta svo á að þegar gagnrýndar eru gríðarlegar heimildir þessarar stofnunar þar sem gengið er lengra í heimildum heldur en jafnvel lögregla íslenska ríkisins hefur, að þá líti hann á það sem málfundaæfingu. Þegar bent er á að þar sé gengið lengra en mannréttindasamningur kveður á um þá er það bara málfundaæfing. Kannski er mannréttindasamningurinn þá bara skrifleg æfing, eða hvað? Hvers konar málflutningur er þetta eiginlega? Virðulegur forseti. Ég verð að hryggja hv. þm. með því að í lögum um Samkeppnisstofnun er hvergi nokkurs staðar kveðið á um að ekki þurfi dómsúrskurð til húsleitarheimildar. Hvergi nokkurs staðar. Það er kveðið á um að þeir geti farið í vettvangskönnun en það er hvergi kveðið á um að það þurfi ekki dómsúrskurð og það er meginregla í íslenskum rétti að dómsúrskurð þurfi til þess að fara inn á heimili annars fólks og til þess að fara inn á starfsstöð. Hér er ekkert um það, ekki aukatekið orð. Þannig að málflutningurinn sem hann taldi að hér hefði hrunið eins og spilaborg, bara í einu vetfangi, stendur enn, traustari en fyrr, aldrei traustari. Og hér er reyndar í frv. sem við erum að ræða gengið miklu lengra. En ég verð að viðurkenna að það er gengið nokkuð langt hérna þó það sé ekki gengið eins langt og fyrir mér eru það nú ekki mikil rök að halda því fram að svo megi böl bæta að benda á eitthvað annað. Ekki finnast mér það þung rök. Ég verð að segja það alveg eins og er. Svo, virðulegur forseti, það stendur hvert einasta orð af því sem hér var sagt áðan. Ég vænti þess og trúi því að form. samgn. boði til fundar á milli 2. og 3. umr. og taki þetta til skoðunar.