Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997

Fimmtudaginn 19. desember 1996, kl. 11:04:57 (2431)

1996-12-19 11:04:57# 121. lþ. 50.7 fundur 119. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997# (breyting ýmissa laga) frv. 140/1996, RG
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur

[11:04]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Það mál sem hér er til umræðu er eitt af stóru málunum sem tengjast afgreiðslu fjárlaga hverju sinni, ráðstafanir í ríkisfjármálum. Þetta eru þær lagabreytingar sem þarf til til þess að áform ríkisstjórnar sem birtast í fjárlagagerðinni nái fram að ganga. Þess vegna hefur það verið svo að þessi umræða um ríkisfjármálin hefur oft verið sú beittasta sem fram fer hér í tengslum við stefnu ríkisstjórnar og þær aðgerðir sem hún grípur til við fjárlagagerð hverju sinni. Þannig er með ríkisfjámálin að þau eru sett fram í bandormi, sem er frekar ólýðræðislegt form eins og ég hefur áður vikið að. Þar er raðað saman lagabreytingum, breytingum á mörgum lögum og þau eru rædd í einu lagi. Það er frekar auðvelt, kjósi menn svo, að fara hraðferð á lýðræðið með slíku frumvarpi. Þannig gerðist það í fyrra að í einu vetfangi voru aftengd nærri 40 lagaákvæði og sum þeirra og reyndar mjög mörg kváðu á um lögbundna tekjustofna sem á sínum tíma höfðu verið settir í lög við öfluga umræðu og sterka pólitíska umfjöllun. Mér finnst það mjög alvarlegt, virðulegi forseti, og ég rifja það upp til þess að við höldum til haga þingræðishugmyndafræðinni um það að hvert þingmál fái sem besta og lýðræðislegasta umfjöllun.

Bandormur og fjárlög eru samofin mál og þetta sett birtir okkur stefnu ríkisstjórnar. Sú ríkisstjórn sem hér er að setja fram fjárlög hefur setið í 20 mánuði og það verður að segjast eins og er að á þessum 20 mánuðum höfum við ekki fengið að kynnast sterkri pólitískri sýn og þaðan af síður hefur okkur birst framtíðarsýn þessarar ríkisstjórnar. Hins vegar höfum við fengið að kynnast áherslum hennar og þær áherslur eru enn sem komið er þær einar að draga úr alls staðar. Draga saman seglin, skera niður, draga úr framlögum og spara. Nú er ég ekki andvíg því að farið sé vel með almannafé og reynt að halda þannig á málum að við höldum bæði verðbólgu í skefjum og vöxtum niðri. En það er sorglegt til þess að hugsa að ríkisstjórn sem hefur í orði haft svo góð áform uppi skuli í raun og veru vera rígbundin nú eftir nær sex ár, ef ég lít til þess að hæstv. forsrh. hefur verið oddviti ríkisstjórnar í tæp sex ár, að forustan skuli fyrst og fremst hafa snúist um það að reyna að aftengja, draga úr velferðarþjónustu, minnka þjónustu og skerða framlög. Það er það sem birtist okkur og það er það sem birtist þjóðinni í verkum þessarar ríkisstjórnar.

Ég hef einsett mér það, virðulegi forseti, að eyða ekki mjög löngum tíma í umfjöllun um ríkisfjármálin þó að mér liggi mjög mikið á hjarta um það sem birtist í frv. og nál. frá efh.- og viðskn. Ef við víkjum t.d. að menntamálunum, sem vikið var mjög sterklega að í ræðum þeirra sem þegar hafa talað í þessu máli, þá einkennir þau harka og skattheimta. Það er umhugsunarefni hvernig okkur birtast viðhorf til unga fólksins í landinu. Ég hef nefnt að það fer lítið fyrir framtíðarsýn ríkisstjórnarinnar og það verður að segja alveg eins og er að það birtast engin áform né aðgerðir af hálfu menntmrh. sem beinast að því að fjárfesta í unga fólkinu. Við heyrum það á hátíðarstundum að auður landsins sé æska landsins. Að fjárfesting í menntun og fjárfesting í unga fólkinu sé fjárfesting til framtíðar. En þegar kemur að aðgerðunum er svo afskaplega langt frá orðum til athafna og þá bólar lítið á aðgerðunum sem ættu að sjást til þess að þessi orð fái eitthvert gildi.

Virðulegi forseti. Ég tel að nýr menntmrh. þurfi sannarlega að fara að taka sig á. Það er vegna þess að þegar við horfum yfir þessa 20 mánuði þá hefur ekkert sérstakt verið að ske í menntmrn. Það sem við höfum verið að fjalla um, t.d. í fyrra, og snýr að menntamálunum, að Alþingi hefur sett ný grunnskólalög og ný framhaldsskólalög eru verk sem unnin voru undir forustu fyrrv. menntmrh. og lágu í raun og veru fyrir í lok síðasta kjörtímabils. Þau stóru lög sem ríkisstjórnin setti í upphafi síns ferils núna, í þessu samstarfi, er í raun og veru verk fyrrum menntmrh. Ég hlýt að spyrja hæstv. núv. menntmrh.: Hvert ætlar hann að stefna í menntamálum? Hvaða framtíðarsýn ætlar hann að boða okkur? Þannig að við getum haft einhverja þá mynd að stefna hans sé meira en orðin tóm þegar við lítum til þess að verkin eru fyrirrennara hans en það sem hann sjálfur kemur með hingað inn á þing er samdráttur, niðurskurður, hvort heldur er framhaldsskólar, lánasjóður eða önnur verk.

Ég ætla ekki að fjalla neitt um nefndarálitið sem slíkt, hvorki hvað varðar fallskattinn né annað sem minni hlutinn nefnir í sínu áliti. Þar er gerð vel grein fyrir þeim málum og þeir sem hér hafa þegar talað hafa farið hörðum orðum um þau áform en ég nefni það sem minni hlutinn tekur fram í nál. að eitt alvarlegasta vandamálið í íslensku þjóðfélagi er skortur á stefnu og auknum fjármunum til menntamála. Það er hægt að draga okkar skoðun í þessa einu setningu og það er hægt að draga saman gagnrýni á ríkisstjórnina í menntamálum í þessa einu setningu: skortur á stefnu og skortur á auknum fjármunum til menntamála. Og þar til eitthvað verður gert í þessum málum er tómt mál að tala um að fjárfesta í unga fólkinu og að fjárfesta í menntun. Ég kalla eftir viðbrögðum menntmrh. varðandi þessi mál.

Það sem mér liggur alvarlega á hjarta, virðulegi forseti, eru þau félagslegu mál sem eru til meðferðar í þeirri nefnd sem ég starfa í sem er félmn. og eru þau verkefni sem ég hef eytt mestum krafti í á mínum pólitíska ferli. Það eru félagsmálin og málefni fjölskyldunnar og það er ekki hægt annað en að hafa áhyggjur af því hvert stefnir í þessum málum í höndunum á núv. ríkisstjórn.

Þegar sett voru lög um málefni fatlaðra fyrir fjórum árum þá náðist um þau lög víðtæk samstaða. Í þeim lögum fólst mikill boðskapur um að hverfa frá stofnanaþjónustu, hverfa til þess að styðja fatlaða til sjálfsbjargar með aukinni liðveislu, með stuðningi út í atvinnulífið. Reyna að hverfa frá því að vera að byggja upp dýra, verndaða vinnustaði þar sem fatlaðir eru lokaðir af í afmörkuðum verkefnum þó að allir geri sér grein fyrir því að slíkir vinnustaðir verði að vera til staðar. Að styðja fatlaða til sjálfstæðrar búsetu ýmist í íbúðum, á sambýlum ýmiss konar, og hafa fjölbreytt búsetuúrræði þannig að hægt sé að koma til móts við þarfir hvers og eins og að hverfa frá þungum ómanneskjulegum stofnunum. Þetta eru mikilvæg mál í nútímaþjóðfélagi þó að það sé alveg ljóst hvað varðar fatlaða með þunga fötlun að þá verða að vera til staðar þjónustustofnanir sem veita bæði félagslega og heilbrigðislega þjónustu. Allt þetta er að finna í lögunum um málefni fatlaðra og þess vegna var svo brýnt að halda til streitu þeim áformum að erfðafjársjóður rynni óskiptur til Framkvæmdasjóðs fatlaðra, sem eins og allir vita stendur undir þeim framkvæmdum sem þarf til þess að hægt sé að breyta búsetuúrræðum fatlaðra.

[11:15]

Ég held því til haga í þeirri umræðu, virðulegi forseti, að það var gert samkomulag um útskriftir af Kópavogshæli, en Kópavogshælið er ein stærsta stofnun sinnar tegundar í þessum málaflokki og er skráð sem heilbrigðisstofnun þó að upp undir 90--100 einstaklingar hafi átt þar heimili sitt undanfarin ár og áratugi. Þessu var áformað að breyta með skipulögðum útskriftum af Kópavogshæli á nokkurra ára bili þannig að þeir sem eiga þarna heimili sitt og þurfa ekki að búa á heilbrigðisstofnun mundu flytjast til annarra staða. Þetta hefur jafnframt verið gert á Sólborg á Akureyri en eins og þingmenn vita er Sólborg núna menntastofnun og var keypt undir starfsemi Háskólans á Akureyri en þeir íbúar sem til margra ára áttu þar heimili sitt hafa horfið til annarra búsetuúrræða, ýmist í íbúðir eða á sambýli sem staðsett eru á ýmsum stöðum á Norðurlandi og í mörgum tilfellum hafa fatlaðir þar með flust nær heimahögum sínum. Fyrir utan slík áform, að flytja með skipulögðum hætt einstaklinga til nýrrar búsetu, þá bíður á biðlistum fjöldi einstaklinga í þéttbýlinu.

Meðan verið var að byggja upp sambýli og úrræði fyrir norðan til þess að losa Sólborg þá biðu þeir sem vinna með þessi mál hér á suðvesturhorninu þolinmóðir, ef hægt er að nota það orð, eftir að að þeim kæmi. Hér er þéttbýlið. Hér eru flestir einstaklingar sem eiga bæði um sárt að binda og í erfiðleikum. Hingað hverfur oft fólk þegar erfiðleikar steðja að af því fólk treystir því að á suðvesturhorninu sé þjónustan betri en á stöðum út um land. Við því var m.a. verið að bregðast með lögunum um málefni fatlaðra, að sporna gegn því að fólk þyrfti að rífa sig upp úr heimahögum og flytjast suður. Þess vegna fékk landsbyggðin forgang í uppbyggingu sambýla og þess vegna hefur suðvesturhornið beðið meðan verið var að taka á þessum úrræðum, meðan var verið að flytja út 37 einstaklinga af 100 á Kópavogshæli og meðan var verið að flytja út einstaklinga af Sólborg á Akureyri og finna þeim búsetu í takt við nýja tíma. Þegar kemur að suðvesturhorninu, þar sem má segja að neyðin sé mest, þá er skrúfað fyrir fjármagn í Framkvæmdasjóð fatlaðra og þá er sagt: Nú er búið að gera nóg.

Virðulegi forseti. Af því að mér finnst að þau mál sem ég mun ræða hér, málefni fatlaðra, starfsmenntamál o.fl., séu svo þýðingarmikil og brýnt að koma athugasemdum á framfæri við félmrh. þá bið ég um það að hann sé kvaddur í húsið ef hann er ekki hér eða kvaddur í salinn ef hann er í húsinu.

(Forseti (ÓE): Hann er í húsinu. Forseti gerir ráðstafanir.)

Ég þakka forseta fyrir. Og hver er þá staðan hér á suðvesturhorninu hjá þeim sem hafa beðið eftir að að þeim kæmi meðan var verið að framkvæma þá stefnumörkun að fyrst yrði tekið á málum þeirra sem byggju úti um land til að snúa við þeirri óheillaþróun að fjölskyldur rifu sig upp með rótum og flyttu í angist sinni á suðvesturhornið þar sem þjónustan hlyti að vera betri og þar sem a.m.k. fram til síðustu ára var að finna félagslega þjónustu hjá stóru sveitarfélögunum sem í mörgum tilfellum var ekki að finna úti um land? Jú, staðan er sú að það var upplýst á fundi félmn. í síðustu viku að á biðlista í Reykjavík eftir búsetuúrræðum eru 191 einstaklingur. Þessar upplýsingar eru ekki einhverjar þrýstiupplýsingar. Þetta eru ekki upplýsingar sem teknar eru saman af hagsmunasamtökum til þess að sýna fram á háa tölu ef menn skyldu halda það. Þessi tala kom fram hjá Vilhjálmi Vilhjálmssyni, formanni Sambands sveitarfélaga, í umfjöllun um ýmis mál sem hann kom til okkar í félmn. út af og lét í ljós áhyggjur sínar út af því að þörfin væri brýn á suðvesturhorninu og núna þegar ætti að taka á þar væri ekkert fjármagn.

Hvernig er þá staðan á Reykjanesi? Hún er þannig, virðulegi forseti, að um 120 einstaklingar bíða eftir búsetuúrræðum og sá listi er þannig samsettur að þar eru sjö einstaklingar á aldrinum 6--11 ára sem bíða, átta einstaklingar 12--15 ára, 28 einstaklingar 16--20 ára, 58 einstaklingar 21--40 ára og 21 einstaklingur eldri en 41 árs. Nú mundu e.t.v. einhverjir segja sem svo: Það er nú í lagi með þetta unga fólk. Það hlýtur að hafa aðbúnað heima hjá sínum fjölskyldum úr því að það er búið að byggja upp góða liðveislu og stoðþjónustu. Það er þá frekar að það verði litið til þeirra sem eldri eru. En ef við lítum eingöngu til þeirra sem eldri eru þá erum við að tala um 80 einstaklinga sem bíða á aldrinum 21 árs og eldri, 80 manns sem bíða eftir úrræðum. Og varðandi þá sem yngri eru verð ég að benda á það, af því að ég þekki málaflokkinn vel, virðulegi forseti, að margir þeir sem eru yngri eru einstaklingar með svo mikla fötlun að jafnvel þó foreldrana dreymi um að hafa þessi börn á heimilinu --- vegna þess að þessi fötluðu börn eru ekki minna elskuð af foreldrum sínum en þau sem heilbrigð eru og ég þori að fullyrða ef eitthvað þá er kærleikurinn enn þá sterkari vegna þess að umhyggjan er svo rík og ótti um afdrif og aðbúnað þessara barna þegar foreldra mun ekki njóta lengur við. --- Þess vegna er það að þegar foreldrar grípa til þess ráðs að sækja eftir því að þessi börn komist í önnur úrræði þá er það vegna þess að fötlunin er svo þung að foreldrar ráða ekki einir við þessi mál.

Þannig er staðan, virðulegi forseti, á suðvesturhorninu. Við þessar aðstæður á að veita framlag til eins sambýlis fyrir einhverfa. Það er sambýli sem er búið að bíða lengi eftir. Það eru mál sem við höfum tekið utandagskrárumræðu um þannig að þingmenn þekkja það. Og þingmenn þekkja það líka eftir umræður í þessum sal að einhverfir greinast nú fleiri en áður og greinast fjórir til átta einhverfir á hverju ári og þess vegna er þörfin mjög brýn. Þess vegna er það mjög mikilvægt að úr því að veitt er framlag til sambýlis að það sé fyrir einhverfa. Ég minni á það að skammtímavist sem hefur verið rekin að Hólabergi --- en skammtímavist er eins og þingmenn vita úrræði sem er til að hjálpa til í þeim tilfellum þar sem börnin hafa fasta búsetu heima hjá foreldrum. Þau fara í skammtímavistina ýmist ákveðna daga eða ákveðnar helgar í mánuði til að létta á örþreyttu heimili. En til langs tíma hafa þrír einhverfir einstaklingar frá 9--13 ára haft fasta búsetu á slíkri skammtímavistun af því að úrræði þeirra voru engin. Þess vegna er mjög mikilvægt að þetta sambýli skuli rísa fyrir einhverfa. En það er sorgleg staðreynd að á sama tíma og félmrh. hefur ákveðið að nú sé ekki þörf á því að erfðafjársjóður renni óskiptur til málaflokksins, til frekari uppbyggingar, þá skuli þessi mikla þörf vera á suðvesturhorninu, í Reykjavík og Reykjanesi, á meðan reynt hefur verið að gera eins og unnt hefur verið á Norðurlandi. Þetta finnst mér döpur staðreynd og ég hvet til þess, ef þess er nokkur kostur, að ráðherrann endurskoði hug sinn milli 2. og 3. umr. Hann hefur nú verið að ná sér í nokkur prik hjá þeirri sem hér stendur, sem annars hefur gjarnan verið uppi með harða gagnrýni á stefnu ráðherrans. Mikið skelfing mundi það mælast vel fyrir hjá öllum sem þekkja þennan málaflokk vel ef ráðherrann reyndi að liðka til í þessum málum á milli 2. og 3. umr.

Það er auðvitað engin staða að draga svona harkalega saman í Framkvæmdasjóði fatlaðra þegar þörfin er svona brýn og draga þannig saman í málaflokknum að ekki mun nást annað en að ljúka þeim heimilum á næsta ári sem eru í byggingu og voru komin í byggingu áður en þetta framlag er veitt. Vegna þess að þau sem gætu komið í rekstur gera það ekki þar sem ekki er veitt til rekstrar.

Þetta er mjög mikilvægt og ég minni á það að Framkvæmdasjóður fatlaðra er fremur ungur þannig að menn verða að gera sér grein fyrir því að þetta er ekki sjóður sem í marga áratugi sem slíkur hefur verið að veita fé til uppbyggingar. Hann var stofnaður 1978 að frumkvæði Alþýðuflokksins, að tillögu Jóhönnu Sigurðardóttur, og hann hefur bylt aðbúnaði fatlaðra um allt land. En þið sjáið að það eru innan við tveir áratugir síðan þessi sjóður var stofnaður og hann hefur haft gífurleg verkefni og hans bíða gífurleg verkefni enn þá.

Virðulegi forseti. Ég geri mér grein fyrir því að ég get ekki leyft mér að dvelja of lengi við þessi mál. Ég hef sjálf vakið þá umræðu að við reyndum að vera skipuleg í umræðunni og ná því að ljúka við öll þessi mál á næstu tveimur dögum. En ég hlýt að benda á að í lögunum um málefni fatlaðra sem voru lögfest fyrir fjórum árum þá var bent á mikla neyð geðfatlaðra. Í þeim lögum var í raun og veru í fyrsta skipti verið að viðurkenna geðsjúkt fólk sem varanlega fatlað sökum þessa sjúkdóms. Það höfðu þessir einstaklingar ekki verið áður. Það var ákveðið í þeirri lagasetningu, Alþingi ákvað það, að gert yrði fimm ára átak þar sem veitt yrði 20 millj. kr. á hverju ári sérstaklega til málefna geðfatlaðra. Þessar 20 milljónir yrðu eyrnamerktar í fjárlögum, sérstakt framlag ríkisins hvert ár, 20 milljónir, til geðfatlaðra. Í fjárlögunum í fyrra var þess sérstaklega getið í greinargerð af hæstv. félmrh. að þarna væri að finna 20 millj. kr. ríkisframlag sem væri fjórða framlag af fimm til þessa átaks í málum geðfatlaðra. Ég var afskaplega ánægð með þetta í fyrra og hafði orð um það.

Nú kemur fjárlagafrv. þar sem verið er að draga heiftarlega saman í málaflokknum og 255 milljónir látnar renna í ríkissjóð af lögbundnum tekjustofni erfðafjársjóðs. Þá gerist það jafnframt að 20 millj. kr. framlagið, hið fimmta og síðasta samkvæmt lögum sem Alþingi setti, hverfur, er hvergi getið og sést ei meir. Þetta eru óviðunandi vinnubrögð. Það eru óviðunandi vinnubrögð að Alþingi skuli setja lög við langa og ítarlega umræðu, taka ítarlega umræðu um stöðu þessa sérstaka hóps fatlaðra, geðfatlaðra, sem var smánarblettur á okkar velferðarþjóðfélagi, og gert sé um það samkomulag og sett í lög á Alþingi að 20 milljónir á fimm ára tímabili skuli vera veitt sérstaklega til málaflokksins, að þá skuli það gerast þegar fimmta árið gengur í garð að þá er bara sagt að nú þurfi ekki að gera þetta meira. Og hverjum dettur í hug að það þurfi ekki þegar ég hef rakið þörfina í málflokknum í fáum orðum?

Ég veit að félmrh. mun koma hér upp og tíunda hvað hafi verið gert á liðnum árum í málum geðfatlaðra. Hvað hafi verið veitt þangað og hingað sem samanlagt geri yfir 100 millj. kr. Ég veit það vegna þess að ég bað um upplýsingar um þetta í félmn. og mér voru sendar sérstaklega upplýsingar um hverja einustu krónu sem hefði runnið til geðfatlaðra. Ég segi bara: Og hvað með það þó Framkvæmdasjóður fatlaðra hafi látið renna af þeim sjóði sem hann hafði til umráða til þessa mikilvæga uppbyggingarstarfs umfram þær 20 milljónir á ári sem Alþingi ákvað að skyldu renna til þess á fimm ára tímabili? Það er ekki eins og Alþingi hafi verið að binda ríkisstjórnir til tíu eða tuttugu ára --- fátæk fimm ár voru það sem Alþingi ákvað að svona skyldi staðið að málum. En á fimmta ári ákvað ríkisstjórnin, þessi stefnulausa ríkisstjórn, þessi ríkisstjórn sem er svo laus við framtíðarsýn, þessi ríkisstjórn sem fjárfestir ekki í nokkrum sköpuðum hlut nema sjálfri sér vegna þess að hún dregur stöðugt saman seglin og segir fólki sífellt að nú verði þeir sem minnst hafa og bágast eiga að sætta sig við lakari kjör og minni úrbætur vegna þess að það sé verið að taka á í ríkisfjármálum, hún ákvað að fella þetta 5. framlag niður.

Engin forgangsröðun er hjá ríkisstjórn sem hefur ákveðið að vera með ramma og að öll ráðuneyti skuli skera niður, óháð því hvort þar séu félagsleg verkefni eða einhver önnur dægurverkefni. Má þar nefna forganginn þegar á sínum tíma var ákveðið að byggja stórt og dýrt hæstaréttarhús hér á meðan dregið var saman og skorið niður í öllum viðkvæmu félagsmálaþáttunum. Og af hverju var það? Af hverju gat það gerst í ríkisstjórn þar sem það er staðreyndin á liðnum árum að annar flokkurinn hefur verið félagslega- eða samvinnusinnaður? Jú, vegna þess að ríkisstjórnin er ekki eins og sveitarstjórnirnar þegar menn koma sér saman um það á lægra stjórnsýslustigi að nú skuli menn setja menntamálin algjörlega í forgang eða félagsmálin eða dagvistaruppbygginguna og önnur mál bíða. Nei, hjá svona ríkisstjórn verða allir að fá sitt og ekkert er sett í forgang, nema hvað? Hvað er það sem er sett í forgang? Það er það sem við drögum fram í þessari lokarispu fyrir jólahlé.

[11:30]

Virðulegi forseti. Mér er þungt í huga með það hvernig haldið er á þessum málum fatlaðra. Ég hefði óskað þess að ráðherrann hefði haldið öðruvísi á málum. Félmn. var að afgeiða frv. hæstv. ráðherra um breytingar á lögum um málefni fatlaðra. Það mál var afgreitt einróma út úr félmn. Að því máli ætla ég að standa. Í því máli felst sú stefnumörkun að málaflokkurinn verði færður til sveitarfélaganna. Um það náðist full samstaða enda komið með breytingar sem sú sem hér stendur taldi mikilvægar inn í þau lög. Ég tel að björgin í mörgum af þeim verkefnum sem við köllum nærverkefni fjölskyldnanna sé að þau fari yfir til hins stjórnsýslustigsins, yfir á sveitarstjórnarstigið, þar sem íbúarnir hafa betri aðgang að stjórnmálamönnunum, skýrari mynd af því hvernig þeir sem þeir hafa valið til áhrifa halda á fjármununum, útsvarinu, skattinum. Hvaða forgangur er gerður hjá viðkomandi sveitarstjórn. Þetta er eina vonin til þess að þetta þjóðfélag sem við búum í haldi áfram að vera velferðarþjóðfélag og verði byggt upp sem slíkt. Sú mynd sem maður hefur haft af stefnunni í ríkisstjórn þar sem allt er jafnað út og ekkert fær forgang, engin umhyggja eða birta yfir verkunum --- bara dregið saman og allt sett undir mælikvarða fjármagnsins. Það er vonlaust að vera með þessi þýðingarmiklu verkefni í höndunum á slíku fólki. Og þess vegna mun ég fagna því sérstaklega og, virðulegi forseti, halda afskaplega jákvæða ræðu þegar það frv. kemur hér til 2. umr., væntanlega síðar í dag eða á morgun.

Virðulegi forseti. Það er annað mál sem ég ætla hér að ræða við félmrh. og reyndar lét ég sérstaklega kalla í hann út af því, vegna þess að ég er ekkert of bjartsýn á að ég geti haft áhrif á hann varðandi málefni fatlaðra en ég er enn að vona að ég geti haft áhrif á ráðherrann varðandi starfsmenntun í atvinnulífinu og atvinnumál kvenna. Þau mál hefur ráðherrann fært undir Atvinnuleysistryggingasjóð þar sem þau eiga engan veginn heima. Og ég hef af því þungar áhyggjur, virðulegi forseti, að sú ákvörðun hafi verið tekin, að færa þennan þýðingarmikla sjóð, Starfsmenntasjóðinn, undir atvinnuleysistryggingar. Ég skal upplýsa af hverju ég er svo áhyggjufull um það. Það er vegna þess að formaður nefndarinnar sem vann atvinnuleysistryggingafrumvarpið hefur talað þannig, og það er mjög erfitt, virðulegi forseti, að hafa eftir einhver slík orð vegna þess að hv. þm. er náttúrlega ekki hér í salnum. Og við það verðum við að búa, stjórnarandstæðingar, að menn láta sig litlu varða, þegar stóru málin eru að koma á dagskrá, að vera hér. Ég hefði talið það mjög mikilvægt að sá þingmaður, félagi minn úr kjördæminu, hefði verið við þessa umræðu, þar sem verið er að taka á málum að undirlagi hans, en það verður svo að vera fyrst hann sér ekki ástæðu til þess. Hann hefur talað þannig að ríkissjóður eigi ekki að fjármagna námskeið nema fyrir atvinnulausa. Það séu námskeiðin sem ríkissjóður eigi að fjármagna. Að öðru leyti eigi mál að vera undir menntakerfinu, undir handarjaðri hæstv. menntmrh. Unga fólkið sem hefur flosnað upp úr skóla eigi bara að fara inn í skólana aftur. Í frv. um atvinnuleysistryggingar, sem ég ætla ekki að taka til umræðu hér, virðulegi forseti, birtist okkur sú sýn, eina framtíðarsýnin hjá þessari ríkisstjórn, að ungt fólk eigi bara að fara í forsjá mömmu og pabba. Og hafi það verið komið út á vinnumarkaðinn og misst vinnuna þá á það að fara aftur í forsjá mömmu og pabba, enda gengið út frá því að það séu mamma og pabbi til að halda utan um börnin til 18 ára aldurs, og fara í framhaldsskóla. Það eigi þau bara að gera. Þess vegna hlýt ég að hafa áhyggjur af því að við þær aðstæður sem verið er senda slíkan boðskap inn á Alþingi og út í þjóðfélagið skuli það gerast að Starfsmenntasjóðurinn, sem var svo mikilvægt úrræði, skuli vera færður undir Atvinnuleysistryggingasjóð. Og ég er enn að vona það, virðulegi forseti, að það sé einhver misskilningur í málinu sem hafi fengið hæstv. félmrh. til að fallast á að flytja sjóðinn þangað. Það er nefnilega þannig að þegar þessi lög um starfsmenntun í atvinnulífinu voru sett, þá voru þetta gífurlega mikilvæg lög. Og það var full samstaða um þau á Alþingi. Að vísu voru nokkrir einstaklingar hér sem ekki máttu til þess hugsa að fræðslustarf væri annars staðar en undir menntmrn., ég viðurkenni það, en í stórum dráttum var full samstaða um þau hér í þessu húsi og milli aðila vinnumarkaðarins, ekki síst launþegahreyfingarinnar. Það var tekið saman fyrir svona þremur, fjórum eða fimm árum hve margir hefðu fengið úthlutað úr Starfsmenntasjóði og þá voru það um sjö þúsund einstaklingar. Ég hef þess vegna gefið mér það að hann sé orðinn á annan tug þúsunda hópurinn sem hefur fengið stuðning til endurmenntunar úti í atvinnulífinu í gegnum þennan sjóð. Og við hvaða aðstæður er þetta? Það eru 50--60% sem fara út úr skólakerfinu án þess að hljóta formlega menntun og framhaldsmenntun. Þetta kom m.a. fram hjá hæstv. menntmrh. á ágætu þingi hér í haust, að það væri svo stór hópur, u.þ.b. 50% á vinnumarkaði, sem væri ekki með framhaldsmenntun.

Unga fólkið í dag í þessum hópi, sem er þannig statt, er dæmt til að flosna upp. Og ég deili þeirri von að við náum því að sem flest ungt fólk ljúki skólagöngu, fari í gegnum framhaldsskólann og að hann beri gæfu til að aðlaga sig þannig að hann haldi þessu unga fólki innan borðs, en missi það ekki út á götuna eða í vinnu, sem annaðhvort verður ekki til framtíðar eða eitthvað sem óljóst er hvort viðkomandi haldi eða geti framfært sig á. Þetta unga fólk er dæmt til að flosna upp og það þarf oft að byrja á grunnfræðslu þegar þetta fólk kemur í hendur fræðslusamtaka, sem er hvenær? Þegar þetta unga fólk er búið að flosna upp úr skóla, þegar það er búið að leita út á vinnumarkaðinn, vera á vinnumarkaði og vera þeir einstaklingar sem fyrst eru settir út þegar harðnar á dalnum. Þá koma þeir fyrst í gegnum atvinnuleysisbætur og í hendurnar á þeim sem eru með fræðslu- og starfsmenntun í atvinnulífinu og þá kemur í ljós að það þarf oft að byrja á grunnfræðslunni með þetta unga fólk. Og það hefur tekist. Í mörgum tilfellum hefur fólkinu sem heldur utan um fræðslustarfið í verkmenntuninni tekist að draga að þetta fólk og vekja áhuga þess með öðrum hætti en gert er í skólakerfinu. Það er þetta sem gerir starfsmenntun í atvinnulífinu afar mikilvæga. Auk þess er okkur bent á, í öllum löndum í kringum okkur, að til að afstýra atvinnuleysinu og til þess að reyna að halda uppi öflugu atvinnustigi, fyrir utan það auðvitað að geta boðið upp á störf, þá verði að gera fólki kleift að vera hæft til starfa, aðlaga sig til nýrra starfa þegar störf úreldast. Þess vegna er símenntun, endurmenntun, fullorðinsmenntun, hugtak sem er orðið almennt samofið þjóðfélagshugmyndafræðinni og félagshyggjunni í nágrannalöndum okkar. Og þetta er það sem gerir það að verkum að oft er talað um ,,det nordiske model`` á Norðurlöndunum, alveg óháð því hverjir eru við stjórnvölinn í þessum löndum og það er haldið um þessa hluti jafnt af konservatífum sem öðrum í ríkisstjórnum nágrannalandanna. En hér hjá okkur á Íslandi er eins og við séum svo fáfróð um það sem máli skiptir, við erum svo lítið upptekin af gildunum í okkar þjóðfélagi, að þegar peningakvarðinn kemur og mér liggur við að segja, virðulegi ráðherra, fjandans ramminn sem á að fylla, þá liggur allt undir. Þess vegna segi ég að starfsmenntun í atvinnulífinu voru einhver merkilegustu fræðslulög sem hafa verið sett, síðustu lög, og er ég þá ekki að gera lítið úr menntakerfi okkar. Ég tel að það að draga úr þessu eða stefna þessum málum í hættu sé gífurleg afturför. Og ég verð að segja það, virðulegi forseti, að þeir sem hafa unnið að málefnum atvinnulausra segja að það sé sérstök reynsla að kynnast því hvernig þetta fólk tileinkar sér fræðslu, endurmenntun og annað þegar það kemst í hendurnar á þeim sem hafa skilning á þessum málum og taka á í þeim, alveg óháð aldri, þó að ég beri mest fyrir brjósti unga fólkið sem flosnar upp. Það er alveg ljóst að þessi lög hafa mikið gildi enn þá.

Ég veit að það liggur hér frammi brtt. um að félmrh. og sjútvrh. eigi að gera tillögur um fjárþörf vegna starfsmenntunar í atvinnulífinu, að fengnum umsögnum starfsmenntaráðs og stjórnar starfsfræðslunefndar fiskvinnslunar, um að árlega skuli verja fé úr Atvinnuleysistryggingasjóði til að styrkja starfsmenntun í atvinnulífinu. Ég er búin að sjá þessa tillögu, virðulegi forseti, þó ekki sé búið að mæla fyrir henni. Ég verð að segja að mér finnst þetta vera að klóra í bakkann. Það hefur engan tilgang að láta Starfsmenntasjóðinn millilenda inni í Atvinnuleysistryggingasjóði. Félmrh. ætti bara að taka um það ákvörðun hér og nú að taka Starfsmenntasjóðinn út vegna þess að eftir það sem á undan er gengið þá treystir enginn svona ákvæði. Það treystir því enginn að þessi sjóður fái nokkra verulega stöðu eftir að búið er að rífa hann úr sínu umhverfi og setja hann í allt annað umhverfi þar sem verið er að fást við allt aðra hluti.

Virðulegi forseti. Ég talaði hér áðan um bandorminn. Ég talaði um lögin sem við erum að setja sem eru oft rifin úr samhengi í einu vetfangi í bandormi ríkisstjórna hverju sinni. 17. des. var samþykkt brtt. efh.- og viðskn. þar sem lagðir voru til sérstakir tekjustofnar sem áttu að renna annars vegar til Staðlaráðs og hins vegar til Icepro. Þetta var gagnrýnt hér, ekki af því að menn væru ekki stuðningsaðilar að þessu, heldur vegna þess að þeir töldu að það væri óþarfi lengur að eyrnamerkja slíka þætti. Og ég ætla að segja það hér úr þessum stól, að sú tillaga sem þar var samþykkt er fyrir mér algjört grín. Hún er fyrir mér algjört grín. Ég lít svo á að að þessu sinni muni Staðlaráð og Icepro fá sitt prómill af þessum gjaldstofni, en ég tek ekki mark á þessu plaggi fyrir fimm aura að það muni gerast næsta ár eða þarnæsta ár, vegna þess að í fyrra aftengdi þessi bandormur í ríkisfjárlögum bókstaflega alla tekjustofna, a.m.k. á velferðarsviðinu, í einu vetfangi. Í stuttri umræðu eins og hér verður þetta allt sett út og menn halda hér ræður um að það eigi ekkert að binda hendur ríkissjóðs og þess vegna lít ég á þetta sem grín.

Virðulegi forseti. Af því ég hef einbeitt mér að Framkvæmdasjóði fatlaðra, starfsmenntun í atvinnulífinu og velferðarmálunum, þá ætla ég í lok ræðu minnar jafnframt að nefna það, vegna þess að ég fór hér orðum um þetta eina sambýli sem nú verður byggt af rausnarskap þessarar ríkisstjórnar og er fyrir einhverfa, að hér átti ég orðastað við heilbrrh. fyrir ekki alllöngu um framlag hennar á síðustu fjárlögum til barna- og unglingageðdeildar. Þá hét það svo fallega að 12 millj. kr. yrði veitt til þess að stofna upplýsingamiðstöð fyrir foreldra og aðstandendur ungra fíkniefnaneytenda. Það kom fram í svari ráðherrans til mín að þessi upplýsingamiðstöð hefur ekki farið af stað að öðru leyti en því að foreldrar, það er kannski ljótt að orða það svo, sem álpast til að hringja þangað, munu fá einhver svör vegna þess að þar er sérstakur hjúkrunarfræðingur sem svarar. Það hafa verið ráðnir sérfræðingar til starfa, og ég geri mér grein fyrir því að það var full þörf á því, vegna erfiðleikanna sem eru þarna. En þarna byrjar forvarnastarfið, þarna byrjar vinnan með einhverfa. Barna- og unglingageðdeildin sendi frá sér þau skilaboð í upphafi þessa árs að hún treysti sér ekki til að taka á móti fleiri einhverfum börnum til meðhöndlunar og meðferðar. Það mál er í höndum félmrh. Mér er kunnugt um að hann hefur skrifað bréf til Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins til þess að biðja hana að koma með tillögur í þessari stöðu --- hvað sé hægt að gera. Barna- og unglingageðdeildin vísar frá sér og Greiningarstöðin fær boltann sem fyrir rest verður hjá félmrh. og heilbrrh. í öllum niðurskurðinum. Ég hlýt að spyrja: Hvernig líður þeim nú?