Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997

Fimmtudaginn 19. desember 1996, kl. 11:56:54 (2433)

1996-12-19 11:56:54# 121. lþ. 50.7 fundur 119. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997# (breyting ýmissa laga) frv. 140/1996, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur

[11:56]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vék ekki að upphæðunum í Starfsmenntasjóð en ég bið þingmenn að minnast orða ráðherrans að það eigi ekki að vera verra að þessi Starfsmenntasjóður sé fluttur undir Atvinnuleysistryggingasjóð. Já, ég ber ugg í brjósti út af því. Ég hef á þessu illan bifur og ég ætla ekki að hafa fleiri orð um það.

Aðeins vegna umfjöllunar um fatlaða og að verið sé að setja meira fjármagn þarna inn. Ég vek athygli á því að það er verið að flytja á milli heilbrrn. og félmrn. ákveðinn rekstur sem var á Kópavogshælinu. Það var rekstur sem sneri að fötluðum. Hann var undir öðru ráðuneyti og það hækkar ekkert framlög til fatlaðra þó sá rekstur flytjist á milli ráðuneyta og komi yfir til félmrn. Þessi rekstur er talinn með í því þegar ráðherrann er að reyna að draga upp mynd af að hann sé að auka framlög í málaflokkinn. Að sjálfsögðu þegar opnuð eru sambýli sem hafa verið í byggingu undanfarin ár þá eykst eitthvað reksturinn. Við kunnum nú a.m.k. þann reikning.

En ég ætla að nefna það, virðulegi forseti, að Sólborg var seld í fyrra. Hún var seld fyrir 80 milljónir. Það var búið að leggja út fjármagn fyrir norðan fyrir sambýlum og þetta var endurgreiðsla fyrir það. Þá voru 80 milljónirnar taldar fram sem framlög og viðbætur í framkvæmdasjóðinn. Í samanburði á milli áranna í fyrra og ársins á undan þá voru 80 milljónirnar hafðar inni af því þá var það hagstætt. Í umræðunni í haust um framlögin í fyrra þegar verið er að gera samanburð er 80 milljónunum sleppt. Þetta er leikur að tölum.

Virðulegi forseti. Minni hlutinn var með tillögur varðandi framkvæmdasjóðinn. Hann tók tillit til þeirra 107 milljóna í liðveislu sem eru farnar í rekstur. Hann tók tillit til þeirra þannig að af þessum 255 milljónum stendur enn þá dágott eftir þó vísað sé til liðveislunnar sem veitt var til úr framkvæmdasjóðnum. Og framlögin til geðfatlaðra voru sérstök ríkisframlög þó hægt sé að tíunda að framkvæmdasjóðurinn hafi komið að öðrum verkefnum.