Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997

Fimmtudaginn 19. desember 1996, kl. 12:29:01 (2444)

1996-12-19 12:29:01# 121. lþ. 50.7 fundur 119. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997# (breyting ýmissa laga) frv. 140/1996, LMR (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur

[12:29]

Lára Margrét Ragnarsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil gjarnan útskýra fyrir hæstv. heilbrrh. hvað það þýðir að fækka úr fjórum stjórnum í eina. Það eru eins og ég sagði áðan kvartanir yfir því. Og ástæðuna fyrir að verið er að fækka úr fjórum stjórnum í eina segir hæstv. ráðherra vera sparnað. Ég tel að ef sterkar stjórnir og fámennar stjórnir yfir heilsugæslustöðvunum væru fjórar, eins og er í dag, væru þær sjálfstæðari og hefðu meira olnbogarými til að stýra því sem þeim þóknaðist og ná í þá þjónustu sem þeim þóknaðist á hverjum tíma. Með einni yfirstjórn er heilsugæslustöðvunum gert að hlíta ákvörðun eins framkvæmdastjóra og einnar stjórnar án þess að geta rönd við reist. Ég tel það vera afar, afar hættulegt. Og eins og ég sagði mun það leiða til minnkandi gæða. Ég efast um að kostnaður verði minni vegna þess að það lendir í lengra ferli sjúklingsins innan heilbrigðiskerfisins ef gæðin eru ekki þau sömu og þau hafa verið í dag. Og eins og einn ágætur læknir í heilsugæslunni sagði við mig um daginn, sem hefur ekki alltaf verið sammála mér: Mér finnst eins og það verði andað ofan í hálsinn á mér.

Að sameina sjúkrastofnanir. Það má vel vera að í upphafi verði einhver smásparnaður af sameiningu. En ég skal fullvissa ráðherra um það að með sameiningu þessara tveggja sjúkrastofnana mun metnaður leggjast niður. Hann mun minnka, meina ég, og fólk mun ekki hafa möguleika á því að velja á hvaða sjúkrahús það leggst. Það er nefnilega þannig að það er nokkuð til sem heitir fyrirtækjamenning og hún ríkir líka á sjúkrahúsum og það er það sem neytendur vilja. Þeir vilja fara þangað sem þeir telja að menningin hæfi sér.