Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997

Fimmtudaginn 19. desember 1996, kl. 14:36:17 (2464)

1996-12-19 14:36:17# 121. lþ. 51.5 fundur 119. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997# (breyting ýmissa laga) frv. 140/1996, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur

[14:36]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég veit ekki hvort svarar kostnaði að reyna aftur. Persónuafslátturinn breytist ekkert. Ef launin eru óbreytt á milli mánaða, sem allar líkur eru til, þá verða skattarnir nákvæmlega þeir sömu. Þær 800 milljónir sem hv. þm. er að ræða um og er munurinn á verðlagsbreytingunni mynda ekki tekjuauka í fjárlögunum vegna þess að hugmyndin er að ráðstafa þessum fjármunum til skattalækkunar, væntanlega til skattalækkunar til að eyða jaðaráhrifum skattkerfisins. Það hefur enginn talað um samninga í því skyni. Menn hafa verið að tala um að horfa á niðurstöður nefndar sem hefur verið að störfum um alllanga hríð og á grundvelli þeirrar niðurstöðu að meta málið. Ég minni hv. þm., sem er fulltrúi Alþb. og óháðra, á að þingmenn hans flokks hafa flutt tillögu á þinginu um að breyta tekjuskattinum þannig að jaðaráhrifin verði minni en nú eru. Ég segi fyrir mig að ég fagna þessari tillögu vegna þess að ég held að stefnan í henni sé rétt og mér finnst þess vegna koma fyllilega til greina að fyrirhuguð skattalækkun komi fram m.a. til að lækka eða draga úr jaðaráhrifum tekjuskattkerfisins. Ég vona, virðulegi forseti, þó ég efist reyndar dálítið, en ég vona samt að ég hafi sagt þetta nægilega skýrt þannig að hv. þm. og aðrir skilji nákvæmlega út á hvað þetta gengur.