Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997

Fimmtudaginn 19. desember 1996, kl. 17:28:54 (2485)

1996-12-19 17:28:54# 121. lþ. 51.5 fundur 119. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997# (breyting ýmissa laga) frv. 140/1996, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur

[17:28]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vona líka að þessi hæstv. menntmrh. verði eilífur og viðvarandi miðað við þá tækni sem við höfum yfir að búa. En það er sjaldgæft að jafnskýr hæstv. ráðherra og sá sem hér talaði flæki sig í sinni eigin röksemdafærslu. Hæstv. ráðherra sagði að hann teldi að ekki veitti af Endurbótasjóði til að gera við menningarbyggingar á Íslandi. Hann er sjálfur aðili að frv. þar sem lagt er til að af þeim 435 millj. sem verða til við þessi lög frá 1989, verði teknar á næsta ári 150 millj. og látnar renna beint í ríkissjóð, væntanlega vegna þess að hann hefur komist að þeirri niðurstöðu eða a.m.k. fallist á röksemdafærslu forsrh. sem flytur frv., að það sé ekki þörf fyrir þessa peninga einmitt til þess að verja byggingarnar eins og hann sagði þó sjálfur.

Ég held, og hæstv. ráðherra tók undir það að sum þessara pappírshandrita væri erfitt og jafnvel illmögulegt að verja, að þá sé nauðsynlegt að huga að þessu máli. Í þessu tiltekna safni eru geymd pappírsskjöl frá síðari öldum sem eru á veikari pappír og skrifuð með veikara bleki heldur en eldri pappírshandrit og er þess vegna meiri hætta búin.

[17:30]

Ég held þess vegna að í ljósi þess sem ráðherrann sagði, hljótum við að geta orðið sammála um að það er nauðsynlegt að verja fjármagni til þess að verja þennan menningararf. Þessi hæstv. ráðherra getur ekki fundið neinn bautastein betri til þess að reisa sér heldur en einmitt þann að sýna það frumkvæði sem fælist í því að t.d. marka þessu sérstaka verkefni, sem er forvörn arfleifðarinnar, fastan tekjustofn með því að fallast á að þessum lögum yrði breytt. Ég veit að hann er mér sammála um að þetta mikilvæga verkefni er mjög þarft til framtíðar.

Sumir vilja láta minnast sín með því að reisa hús, en það eru til óbrotgjarnari minnisvarðar, hæstv. menntmrh.