Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997

Fimmtudaginn 19. desember 1996, kl. 18:04:33 (2495)

1996-12-19 18:04:33# 121. lþ. 51.5 fundur 119. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997# (breyting ýmissa laga) frv. 140/1996, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur

[18:04]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég setti ekki fram neina skoðun á þessu tjóni. Ég tel einmitt að það skorti nokkuð á að þar hafi rannsóknir farið fram sem skyldi. Og ég undraðist að svo ákveðið væri til orða tekið af hálfu talsmanna umhvrn. um þetta efni. Ég held að það sé erfitt að trúa því að aðeins eitt dæmi sé til um það að efnahagslegt tjón hafi orðið vegna refa. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að menn eigi að gæta hófs í sambandi við þetta og styðjast við sem bestar rannsóknir. Ég bendi líka á að refurinn hefur verið hluti af íslensku lífkerfi, íslensku vistkerfi um mjög langan aldur, vafalaust langtum lengur heldur en mennirnir hafa verið hluti af þessu með sínum búskap þannig að ég hef út af fyrir sig engar sérstakar áhyggjur af íslenskri náttúru vegna refsins hér á landi. Allt leitar jafnvægis og meðan það eru tegundir sem eru búnar að vera mjög lengi hluti af þessu vistkerfi þá er ekki ástæða til að hafa mjög miklar áhyggjur. Allt öðru máli gegnir með innfluttar tegundir sem koma, eins og minkurinn, hér inn í lífkerfið og valda þar mikilli röskun og á það raunar jafnt við um dýr sem plöntur. Menn eru að gera sér þetta ljóst í vaxandi mæli, þ.e. áhrif slíks innflutnings og hann hefur vissulega í mörgum tilvikum valdið tjóni á íslensku vistkerfi. En refurinn er hluti af þessu vistkerfi og hefur verið það og hér er því fyrst og fremst spurningin um efnahagslegt tjón gagnvart búskap okkar manna.