1996-12-20 03:12:45# 121. lþ. 52.8 fundur 228. mál: #A málefni fatlaðra# (yfirtaka sveitarfélaga o.fl.) frv. 161/1996, félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur

[27:12]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég vil einungis þakka hv. félmn. fyrir góð vinnubrögð og skjót því að sannarlega er þetta mál seint fram komið og ég er mjög þakklátur fyrir að félmn. skyldi treysta sér til þess að afgreiða það. Ég held að hér sé um mikilvæga stefnumörkun að ræða en þetta er fyrst og fremst stefnumörkun.

Aðalatriðið er auðvitað að vel sé séð fyrir hinum fötluðu. Það eru hagsmunir hinna fötluðu sem eiga ráða og gera það. Ég tel að það væri vel hægt að hafa umsjá hinna fötluðu áfram á vegum ríkisins en ég stend í þeirri meiningu að hinum fötluðu verði betur þjónað á vegum sveitarfélaganna. Fámennari sveitarfélög verða auðvitað að hafa samvinnu sín á milli eða vinna með öðrum fjölmennari. Af því formi fæst reynsla næstu tvö ár í Þingeyjarsýslum þar sem sveitahrepparnir hafa sameinast með Húsavík í að taka við málefnum fatlaðra, ásamt því að reynsla fæst í reynslusveitarfélögunum. Og reyndar yfirtaka Vestmannaeyjar málefni fatlaðra en ekki á grundvelli reynslusveitarfélagaverkefnsisins. En lögin um málefni fatlaðra þarfnast endurskoðunar og þau þarf að fella að lögunum um félagsþjónustu sveitarfélaga áður en til þessarar yfirfærslu kemur. Ég tel það einboðið í því frv. að huga að réttindagæslu hinna fötluðu. Ef menn bera kvíðboga í brjósti eins og hv. síðasti ræðumaður að einhver sveitarfélögin kynnu að vanrækja skyldur sínar í þessu efni sem ég vil ekki trúa að óreyndu, þá er hægt að hafa öryggisákvæði í þessum lögum sem tryggi eftirlit.