Fjárlög 1997

Föstudaginn 20. desember 1996, kl. 11:56:15 (2616)

1996-12-20 11:56:15# 121. lþ. 53.11 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur

[11:56]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. 5. þm. Vestf. fyrir mjög málefnalega ræðu og fyrir að vekja athygli á því sem kom fram í máli hans og þann stuðning sem hann veitir þeim sjónarmiðum sem meiri hluti fjárln. hefur haft uppi um það að okkur beri að reka ríkissjóð án halla. Það hefur vissulega orðið mikil breyting á afstöðu manna til þessa. Frá því ég kom fyrst í þingið finnst mér hafa orðið mjög mikil breyting hvað þetta varðar að mönnum fannst ekki eins alvarlegt mál þó ríkissjóður væri rekinn með halla og stjórnarandstaðan flutti urmul af brtt. sem yfirleitt voru allar til hækkunar á útgjöldum. Þess vegna vekur ræða hv. 5. þm. Vestf. athygli manna þegar hann undirstrikar og ítrekar þau sjónarmið sem við stjórnarsinnar höfum verið að tala fyrir, og þá sérstaklega meiri hluti fjárln., þegar við erum að reyna að ná árangri í að stemma ríkisútgjöldin og að treysta það markmið að ekki sé halli á ríkissjóði. Það er auðvitað mjög mikilsvert að fá stuðning í þessu verki.