Fjárlög 1997

Föstudaginn 20. desember 1996, kl. 15:51:15 (2641)

1996-12-20 15:51:15# 121. lþ. 53.11 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur

[15:51]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég veit ekki til þess að borgarstjórinn hafi komið nokkurs staðar nærri þessu máli. Alla vega hef ég ekki orðið var við það. Hins vegar vil ég segja það vegna orða hv. þm. að hann misskildi það sem ég sagði. Ég var ekki að leggja nokkurn dóm á hvort eðlilegt hefði verið að leggja tillögur fyrir heilbr.- og trn. Ég sagði að ég undraðist það ef heilbr.- og trn. hefði ekki rætt þessi mál eða hugleitt með hvaða hætti og hvaða tillögur hún vildi gera um úrbætur í heilbrigðiskerfinu úti á landi.

Ég hef hins vegar ekki tillögur á þessari stundu, hæstv. forseti, um hvernig beri að hagræða í mörgum sjúkrahúsum úti um allt land. (Gripið fram í: Það veit heilbrrh. ekki heldur.) Ég hef hins vegar í mínum huga tilteknar meiningar um hvernig eigi að endurskipuleggja og ég tel mig hafa nokkra þekkingu á rekstri slíkra stofnana þannig að ég held að við gætum ef til vill sameiginlega, ég og hv. formaður heilbr.- og trn., lagt nokkuð í púkk um það hvernig með skuli fara, en til þess þarf auðvitað heilbrn. að taka þetta mál til skoðunar og líta yfir það. En ég tel að mikilvægustu breytingarnar til að ná fram sparnaði séu þær að sameina það sem hægt er, sjúkrahús og heilsugæslustöðvar og styrkja samstarfið milli stóru sjúkrahúsanna og þeirra litlu. Ég er sannfærður um að með því að stóru sjúkrahúsin taki þessar litlu, mikilvægu einingar --- og hlustaðu nú, hv. formaður heilbr.- og trn., --- taki þessar litlu, mikilvægu einingar, sem sjúkrahúsin úti um allt land eru í fóstur og styrki þau frekar en leitist við að veikja þau. Með því má ná árangri.