Fjárlög 1997

Föstudaginn 20. desember 1996, kl. 18:08:04 (2660)

1996-12-20 18:08:04# 121. lþ. 53.11 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur

[18:08]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Tveir hv. þm. hafa hér í umræðunum á undan gert að umtalsefni málefni sem varða þau ráðuneyti sem ég fer með, landbrn. og umhvrn., m.a. í tilefni af breytingartillögu sem flutt er af meiri hluta fjárln. á þskj. 452 sem fjallar um átak í landgræðslu og skógrækt upp á 75 millj. kr. Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum og vitnað hefur verið til í umræðunum af hv. 4. þm. Austurlands er þetta hluti af samþykkt ríkisstjórnarinnar um að leggja til við hv. Alþingi og fjárveitingavaldið að á næstu fjórum árum verið veittar 450 millj. kr. samtals í átak til landgræðslu- og skógræktarverkefna. Þessi upphæð sem hér er tilgreind er fyrsta skrefið í þessu sambandi. Við gerum ráð fyrir því að það fari á árinu 1998 í 100 milljónir, síðan 125 og loks 150 og verði samtals 450 millj. kr. á þessum fjórum árum. Tillaga hefur verið kynnt um skiptingu á þessum fjárveitingum milli annars vegar Landgræðslu og hins vegar Skógræktar og að til landgræðsluverkefnanna fari 260 millj. kr. en átakið í skógræktinni fái af þessum fjárveitingum 190 millj. kr. Á næsta ári gæti þessi upphæð skipst samkvæmt þeirri tillögu sem ég hef lagt fram, þ.e. þær 75 millj. kr. sem hér eru lagðar til af hálfu meiri hluta fjárln., þannig að 50 milljónir fari í landgræðsluátakið og 25 millj. kr. til skógræktar.

Það er vissulega rétt sem kom fram í máli hv. 4. þm. Austurl. að það er skammur aðdragandi að þessu á Alþingi og reyndar í vinnu hv. fjárln., en málið hefur haft alllangan aðdraganda í heild sinni. Það hefur verið í undirbúningi af hálfu stofnana landbrn., Landgræðslu og Skógræktar og þeirra aðila sem fyrir þá hafa unnið, þar með talið fagráðsins í landgræðslu sem hefur á undanförnum árum lagt mikla vinnu í að undirbúa áætlun um það hvernig standa megi að því að stöðva hraðfara jarðvegsrof og gróðureyðingu á forgangssvæðum. Það er því búið að vinna mikla undirbúningsvinnu að þessu verkefni. Það að leggja málið fram eða gera tillöguna hefur hins vegar tafist nokkuð vegna þess að ríkisstjórnin hefur velt því fyrir sér hvaða upphæðir væri hægt að leggja til í þessu sambandi, hvaða fjárhæðir menn væru tilbúnir að gera tillögu um. Niðurstaðan er sem sagt fengin hér og nú en það þýðir ekki að ekki hafi legið fyrir og liggi ekki fyrir töluverður undirbúningur að því hvernig að þessum verkefnum verði staðið.

Síðan tengist þetta að sjálfsögðu --- og ég segi að sjálfsögðu --- þeim verkefnum sem ríkisstjórnin hefur sett sér í framkvæmdaáætlun vegna loftslagsbreytinga sem við höfum kallað svo og hv. þm. gerði að umtalsefni í ræðu sinni. Hann sagði nú reyndar eitthvað á þá leið að verið væri að, ég veit ekki hvort hann sagði að það væri nánast verið að sulla þessum verkefnum saman, en það er nú kannski ekki alveg orðrétt eftir honum, (HG: Ég dró aðeins úr því.) en málið er að við teljum að það sé a.m.k. full ástæða til þess að tvinna þessi verkefni saman vegna þess að í þessari framkvæmdaáætlun hafa fagráðuneytin fengið ákveðið hlutverk. Þar hefur t.d. landbrn. fengið ákveðið hlutverk. Þar hefur samgrn. fengið ákveðið hlutverk og þar hefur sjútvrn. fengið ákveðið hlutverk svo nefnd séu þau ráðuneyti sem hann benti á í sínu máli og tilgreindi sérstaklega. Þegar hv. þm. segir að lítið hafi komið fram í fjölmiðlum um það hvernig ráðherra hyggist standa að þessu máli þá veit ég að hann þekkir það auðvitað bæði sem þingmaður í mörg ár og reyndar sem ráðherra líka að það kemst nú ekki allt til skila í fjölmiðlum sem sagt er við þá. Á klukkutíma löngum blaðamannafundi kemur auðvitað ekki allt sem þar er sagt fram í fréttinni. Og þegar hv. þm. segir að ráðherra hafi ekki haft fyrir því að leiðrétta fyrirspurn fréttamanns sem hafi mátt álíta villandi eða a.m.k. ekki draga fram staðreyndirnar í málinu þá er það auðvitað að hluta til fyrir það að slíku kemur maður ekki fyrir í stuttum fréttatíma. En ég bendi þó á að í sumum fjölmiðlum, ég hygg m.a. í Morgunblaðinu og jafnvel í fleiri fjölmiðlum, hefur það komið fram mjög greinilega hvaða hugmyndir landbrn. hefur um það að standa að því markmiði sem því var sett í framkvæmdaáætluninni, þ.e. að ná því markmiði að binding koltvíoxíðs hafi aukist um 100 þús. tonn fyrir aldamót, þ.e. á árunum frá 1991 til ársins 2000. Ég vil bara, til þess að það sé alveg ljóst, staðfesta það sem kom m.a. fram í máli hv. þm., að við höfum reynt að reikna út árangurinn. Auðvitað geta svona útreikningar aldrei verið nákvæmir upp á kíló. Þeir eru áætlun sem færustu menn reyna að komast að niðurstöðu um. Við höfum átt samstarf við sérfræðinga frá RALA og frá Landgræðslunni, þ.e. landbrn., í þessu efni. Og við höfum komist að þeirri niðurstöðu að það megi segja að náðst hafi að binda tæp 50 þús. tonn, 47 þús. tonn, með þeim fjárveitingum og þeim verkefnum sem þessar stofnanir, Landgræðslan og Skógrækt ríkisins, hafa unnið að á árunum 1991 til 1996. Þannig að við höfum svona nálgast helminginn af þessu markmiði. Ef fjárveitingar til stofnananna verða óbreyttar eða hliðstæðar og verið hafa, eins og við gefum okkur í tengslum við þetta átak, og stofnanirnar Landgræðsla og Skógrækt vinni ásamt sínum samstarfsaðilum að þessu verkefni með sama krafti og verið hefur til aldamóta, til ársins 2000, þá næst að binda í viðbót 30 þús. tonn þannig að við verðum þá búin að ná 77--78 þús. tonnum um aldamótin.

[18:15]

Þetta átak sem við setjum hér fram með 450 millj. kr. framlagi, á að binda þau 22--24 þús. tonn sem þarna ber á milli sem er nákvæmlega sú tala sem hv. þm. nefndi, 20--25 þús. tonn, þannig að því sé alveg til skila haldið. Ég held að þetta hafi komið fram í sumum fjölmiðlum þótt það kunni að hafa verið ekki alveg skýrt alls staðar. Þetta er sem sagt verkefnið sem landbrn. fær af þessu framkvæmdaátaki ríkisstjórnarinnar. Ég benti líka á á það á þessum blaðamannafundi og undirstrikaði að auðvitað væru ekki öll mál leyst með þessu heldur bara þessi þáttur framkvæmdaáætlunarinnar. Það væri eins og ég sagði áðan verkefni annarra ráðuneyta að koma með tillögur um hvað þau gætu lagt til í þessu efni. Sú vinna er í fullum gangi. Það er starfandi sérstök framkvæmdanefnd sem vinnur að þessari áætlun af hálfu ríkisstjórnarinnar sem í eiga sæti aðstoðarmenn þeirra ráðherra sem sitja þau ráðuneyti sem að málinu koma helst. Því nefndarstarfi stjórnar aðstoðarmaður umhvrh., Guðjón Ólafur Jónsson. Ég vildi aðeins undirstrika að svona er fyrirhugað að standa að þessu og tengja síðan saman þá mikilvægu þætti. Það er auðvitað einkar áhugavert að við skulum geta gert það þ.e. að tengja saman það verkefni okkar að standa við markmið um að draga úr koltvíoxíðinu í andrúmsloftinu og að bæta og græða okkar land. Nota fjármunina til að efla skógræktar- og landgræðsluverkefni sem sannarlega er þörf á og mikið verk að vinna. Þá kem ég aðeins aftur að þeim áætlunum sem fyrir liggja.

Ég nefndi að fagráð í landgræðslu hefur unnið mikið starf á undanförnum árum og sett fram sínar tillögur og hugmyndir og afhent mér þær. Úr þeim verður unnið, vegna þess að hv. þm. spurði hvað yrði síðan um framhaldið. Það verkefni sem er fram undan er að vinna nánar að skiptingu úr þessum fjármunum, ekki bara 75 millj. á næsta ári heldur á öllum fjórum árunum. Setja upp hvað fer til hinna einstöku verkefna, hvernig við tengjum það þessu sjónarmiði, sem ég hef gert að umtalsefni. Og hvernig við skiptum þeim fjármunum sem áætlunin gerir ráð fyrir að verði varið til skógræktarátaksins. Þar hafa komið fram ýmsar hugmyndir. Þar hafa menn t.d. lagt mikla áherslu á skjólbeltarækt og sagt að við Íslendingar höfum setið eftir í því verkefni. Við höfum lítið sinnt því miðað við nágrannaþjóðir okkar. Það sé til þess fallið að bæta mjög alla aðstöðu bæði til útivistar, landbúnaðar og til að bæta alla aðstöðu til ræktunar og dýrahalds á bújörðum. Við höfum talað um nytjaskógrækt á bújörðum sem er í gangi víða um land og að hana verði hægt að styrkja og efla. Síðast en ekki síst höfum við verið með í undirbúningi átak sem hefur verið tengt nytjaskógrækt á bújörðum á Suðurlandi og hefur í vinnuheiti gengið undir orðunum Suðurlandsskógar. Þetta eru þau verkefni sem eru fram undan. Þetta eru þau verkefni sem verður unnið úr strax upp úr áramótum þegar við höfum fengið staðfest af fjárveitingavaldinu og hv. Alþingi hvaða fjármunir verða til ráðstöfunar og undirbúningur hefur sem sagt verið mikill og það eru öll gögn fyrirliggjandi til að vinna úr því.

Ég hef hugsað mér að verkefninu stjórni sérstök verkefnisstjórn þannig að þessir fjármunir fari ekki sérstaklega undir stofnanirnar óskilgreint heldur verði þeim haldið sér og með átakinu fylgist sérstök verkefnisstjórn sem fjalli um það hvernig fjármununum verði varið.

Ég held að þetta hafi verið þeir þættir sem hv. 4. þm. Austurl. spurði sérstaklega um í sambandi við þetta átak og tillöguna og sem hann beindi til mín. Ég vona að ég hafi gert þau skil á því sem ég get á þessari stundu án þess að eyða allt of miklum tíma í það.

Hv. 8. þm. Reykv., Svavar Gestsson, beindi líka til mín spurningum sem ég heyrði því miður ekki allar en hef haft afspurn af. Meðal annars að tryggt verði að fagnefndir þingsins eins og landbn. og umhvn. komi að þessu máli. Það er auðvitað alveg ljóst að þær munu gera það á sinn hátt þegar þingmál sem fylgja þessu átaki verða lögð hér fram. Ég nefni t.d. ef farið verður í Suðurlandsskógana svokölluðu þá verður það auðvitað gert með sérstöku þingmáli. Ég hef haft hugmyndir um að lagt verði fyrir frv. um það mál og samþykkt yrðu lög hliðstætt því sem er t.d. með Héraðsskógana. Um þá er sérstök löggjöf. Sama yrði með landgræðsluátakið að væntanlega yrði lögð fram till. til þál. um hvernig að því yrði staðið, þannig að nefndirnar koma auðvitað að því.

Síðan ræddu báðir þessir hv. þm. um þau átök sem þeim finnst og þeir telja að séu og kunni að vera uppi milli þessara tveggja ráðuneyta, landbrn. og umhvrn. Mér finnst að það mál, sem hér er til umræðu af hálfu þessara ágætu hv. þm. og þeir hafa beint til mín, sé þess eðlis að það sanni einmitt hvað þessi ráðuneyti eigi mikið sameiginlegt en ekki hvað mikið skarist milli þeirra eða að þar séu miklar andstæður. Ég hef ekki orðið mikið var við það. Ég hef hins vegar tekið undir það með hv. 4. þm. Austurl. sem oftsinnis hefur sagt að hann teldi að eðlilegt væri að umhvrh. hefði þann málaflokk. Ég væri ósköp feginn því í sjálfu sér að vera með eitt ráðuneyti en ekki tvö. Það fylgir því mikil vinna og mikið álag. Sérstaklega kannski það að hafa stundum á tilfinningunni að maður geti ekki fylgt eftir og sinnt þeim málaflokki sem manni er falið að vinna og stýra af þeim krafti, samviskusemi og þeirri yfirsýn sem ég tel að nauðsynlegt sé. Þannig að um það er ég sammála honum en hitt ekki að þar séu stöðugir hagsmunaárekstrar milli þessara málaflokka og erfitt sé að sitja beggja vegna borðs.

Allra seinast spurði hv. 8. þm. Reykv. um svokallað Hólasandsmál sem er til úrskurðar hjá umhvrh. og hvenær vænta mætti niðurstöðu í því máli. Það ætlaði ég að vera búinn að afgreiða í seinni hluta desembermánaðar en vegna anna sem ávallt fylgja þinghaldi á þessum tíma og störfum í ráðuneyti hefur ekki tekist að klára málið en frá því verður gengið skjótt eftir áramót. Ég á von á farsælli lausn í því máli sem ég vænti að bærileg sátt náist um án þess að ég geti gefið frekari skýrslu um það á Alþingi áður en úrskurður hefur verið kveðinn upp.