Fjárlög 1997

Föstudaginn 20. desember 1996, kl. 18:59:26 (2667)

1996-12-20 18:59:26# 121. lþ. 53.11 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur

[18:59]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég verð nú að segja, hæstv. forseti, að mér finnst hv. form. fjárln. vera að segja okkur mikil tíðindi. Þingmaður Framsfl. útilokar ekki að það kunni að vera skynsamlegt að einkavæða fangelsi. Hann tekur það að vísu fram að hér sé um viðkvæman rekstur að ræða en hann útilokar ekki að það kunni að vera rétt að einkavæða fangelsin. Og hann útilokar ekki að það kunni að vera rétt að fara lengra inn á þessa braut með aðra þætti almannaþjónustunnar. Mér finnst að um þessi efni þurfum við að taka góða pólitíska umræðu vegna þess að hér er verið að takast á um grundvallarstefnu. Og ef menn ætla að fylgja hægri sinnuðum frjálshyggjumönnum svona áfram í blindni og segja sífellt þetta: Ég útiloka ekki neitt, við skulum bara sjá til o.s.frv., þá verður þessi stefna að sjálfsögðu ríkjandi. En ég hefði haldið að kjósendur Framsfl. almennt hefðu ætlast til annars af sínum flokki sem bauð fram undir allt öðrum merkjum en öfgafullri nýfrjálshyggju. Mér finnst þetta sannast sagna mjög alvarleg tíðindi sem eru boðuð af hv. formanni fjárln. Hann útilokar ekki að það kunni að vera skynsamlegt að einkavæða fangelsin. Mér finnst þetta mikil tíðindi og mér finnst þetta kalla á mikla umræðu áður en langt um líður.