Fjárlög 1997

Föstudaginn 20. desember 1996, kl. 19:35:32 (2670)

1996-12-20 19:35:32# 121. lþ. 53.11 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., Frsm. meiri hluta JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur

[19:35]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. 15. þm. Reykv. hóf ræðu sína með því að taka undir og ræða um fangelsi. Ég vil taka fram í því sambandi að það er rangtúlkun á orðum mínum að ég hafi viljað skoða það að einkavæða fangelsi. Einkavæðing og þjónustusamningar eru alls ekki það sama. Ég vil að það komi fram hér.

Hins vegar held ég að hv. 15. þm. Reykv. hafi ekki hlustað á umræður hér um heilbrigðismál í dag. Þó hann sé skýr í kollinum þá eru þær aðgerðir sem ætlað er að fara í á sjúkrahúsunum á landsbyggðinni einmitt á þann veg að það á að ræða við stjórnir sjúkrahúsanna. Byrja á því, skipa verkefnisstjórn í málið og fara yfir það hvaða sparnaði er hægt að ná. Það er alveg rétt að meiri hluti fjárln. metur það þannig að ekki sé raunhæft að gera ráð fyrir því að meiri sparnaður en 60 millj. náist á næsta ári. Aðalatriðið er að þessi mál séu í fullu samráði við heimamenn. Ég veit ekki annað en þessi þáttur sem meiri hluti fjárln. leggur til hafi fengið góðar undirtektir í umræðunum hér í dag. Það er rétt að það komi fram. Ég mun ítreka það í síðara andsvari mínu ef hv. 15. þm. Reykv. kemur í stólinn aftur.