Lok þinghalds fyrir jólahlé

Föstudaginn 20. desember 1996, kl. 21:14:54 (2679)

1996-12-20 21:14:54# 121. lþ. 54.95 fundur 158#B lok þinghalds fyrir jólahlé# (aths. um störf þingsins), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur

[21:14]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ræða hv. þm. kemur mér aðeins á óvart. Hann talaði um ,,þrátt fyrir það sem á undan væri gengið af hálfu stjórnarliðsins``. Ég leit þannig til að það lá fyrir ákveðin málaskrá, það lágu fyrir ábendingar frá stjórnarandstöðunni um hvaða mál hún sæi annmarka á að yrðu afgreidd. Við fórum í gegnum þau mál og ég leit þannig til að nú fyrir fáeinum dögum gekkst stjórnarliðið á þinginu inn á það að falla frá að knýja á um að allmörg mál sem stjórnarliðar höfðu áhuga á að yrðu afgreidd, mál sem vörðuðu Landsvirkjun, mál sem vörðuðu starfsmannabandorminn, tvö mál hæstv. félmrh. og reyndar hygg ég eitt mál í viðbót. Þeim yrði frestað. Það var allt í góðu samkomulagi. Ég tel þess vegna að taki menn samninga upp, þá séu menn að ganga á bak þess sem þeir ræddu og það er ekki eðlilegt og ekki heppilegt því að samningar verða auðvitað að vera þannig af hálfu allra að þeir standi. Við eigum eftir að gera samninga hvort sem við erum í stjórn eða stjórnarandstöðu á hverjum tíma og þeir verða að geta haldið. Það er meginatriði með samninga að þeir verða að geta haldið og stjórnarliðið vill auðvitað standa að því og æskir þess eindregið að ekki verði horfið frá því sem menn töluðu um af mikilli einlægni og í góðri sátt um starfstilhögun þingsins hér fyrir fáeinum dögum.