Lok þinghalds fyrir jólahlé

Föstudaginn 20. desember 1996, kl. 21:20:41 (2683)

1996-12-20 21:20:41# 121. lþ. 54.95 fundur 158#B lok þinghalds fyrir jólahlé# (aths. um störf þingsins), RG
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur

[21:20]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég er afskaplega fegin því núna vegna þeirra orðaskipta sem hér eiga sér stað að á fundi hjá forseta á þessum eftirmiðdegi fórum við yfir það saman hvað hefði falist í því samkomulagi sem hér var gert. Og það var fullkomin eining og sameiginlegur skilningur á því sem átti sér stað þegar við fórum yfir það hvaða mál yrðu sett út af dagskrá þingsins til að flýta fyrir og liðka fyrir þingstörfum. Það var fullkomlega sameiginlegur skilningur á því í dag. Þess vegna ætla ég ekki að segja orð frekar um það hér úr þessum ræðustól.

En, virðulegi forseti, ég hef fullan skilning á því að forseti voni að við getum lokið hér störfum fyrir miðnætti. Satt best að segja hélt ég slíkt hið sama þar til ég gekk hér í salinn nú. En ég kem í ræðustól til að upplýsa að ég lít svo á að ég sé á fundi í myndaherberginu vegna þess að þar var ég á fundi með forseta þingsins og þingflokksformönnum. Við vorum beðin að sitja þar ögn lengur meðan þeir sem voru með mál að véla gengu afsíðis. Og þar höfum við setið þar til klukkan fór að klingja á okkur og við erum náttúrlega svo prúð að við göngum í sal. Fundinum í myndaherberginu er ekki lokið og ég óska eftir því að forseti þingsins og þingflokksformenn gangi til myndaherbergis á ný og ljúki þeim fundi sem þar var hafinn.