Ferill 10. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 10 . mál.


10. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 118/1993, um félagslega aðstoð, með síðari breytingum.

Flm.: Margrét Frímannsdóttir.



1. gr.

    5. gr. laganna orðast svo:
    Maki eða hver sá sem heldur heimili með og annast elli- eða örorkulífeyrisþega og getur af þeim sökum ekki eða takmarkað stundað vinnu utan heimilis á rétt á greiðslum fyrir umönnunarstörf á heimili sínu. Upphæð þessara greiðslna skal ákveða með reglugerð sem ráðherra setur. Við ákvörðun um upphæð greiðslna skal tekið tillit til umfangs hjúkrunar og annarrar umönnunar og tekna vegna vinnu utan heimilis. Ráðherra skal setja reglugerð varðandi mat á umönnunarþörf lífeyrisþega.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Í gildandi lögum eru ákvæði þess efnis að aðeins maki á rétt á bótum fyrir umönnun elli- og örorkulífeyrisþega í heimahúsi. Hér er lögð til sú breyting að ekki einungis maki hafi þennan rétt heldur að hver sá sem heldur heimili með og annast lífeyrisþegann eigi rétt á greiðslum fyrir umönnun. Það er þó háð því skilyrði að viðkomandi geti ekki eða takmarkað vegna umönnunarstarfa sinna stundað vinnu utan heimilis. Ráðherra ákveður með reglugerð hver upphæð þessara greiðslna verður. Taka skal tillit til annarra tekna er launþeginn hefur af vinnu utan heimilis. Jafnframt skal tekið tillit til umfangs hjúkrunar og annarrar umönnunar lífeyrisþegans sem í hlut á. Þá er ráðherra falið að setja reglugerð um mat á umönnunarþörf, þ.e. hver metur og hvað skal metið, en nauðsynlegt er að koma á samræmdu mati á hjúkrunarþörf vistmanna á öldrunarstofnunum. Á árinu 1994 var unnið rannsóknarverkefnið Daglegt líf á hjúkrunarheimili. Rannsóknarverkefnið var unnið í samvinnu heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins, öldrunarlækningadeildar Sjúkrahúss Reykjavíkur, Félagsmálastofnunar Reykjavíkurborgar og nokkurra hjúkrunarheimila. Í framhaldi af verkefninu var sett reglugerð um mat á heilsufari og aðbúnaði íbúa á öldrunarstofnunum. Á sama hátt mætti koma á samræmdu mati á heilsufari og aðbúnaði lífeyrisþega í heimahúsi sem gæti gefið raunsanna mynd á þörf á hjúkrun og annarri aðhlynningu.
    Á undanförnum árum hefur því oft verið lýst yfir af hálfu stjórnvalda að stefnt skuli að því að aldraðir og öryrkjar geti sem lengst dvalist í heimahúsi. Það sé hagkvæmasta, besta og manneskjulegasta leiðin varðandi aðbúnað þessa hóps þjóðfélagsþegna. Fjöldi lífeyrisþega, sem þarfnast mikillar umönnunar, dvelst í heimahúsum. Þeir eru þó mun fleiri sem veldu þann kost að dveljast heima ef þess væri nokkur kostur. Munur á lífskjörum einstaklinga og fjölskyldna í þjóðfélaginu er mjög mikill. Sumir hafa rúmar ráðstöfunartekjur og mikinn tíma fyrir fjölskylduna á meðan stór hópur þarf að vinna langan vinnudag en býr engu að síður við þröngan fjárhag. Vegna bágra kjara er því margri fjölskyldunni ókleift að annast lífeyrisþega inni á heimili. Ef frumvarpið verður samþykkt þýðir það að aðstandendur lífeyrisþega eiga rétt á launum fyrir umönnunarstörf í heimahúsi en ekki einungis maki lífeyrisþegans eins og nú er heldur börn, tengdabörn og aðrir þeir sem halda heimili með honum og veita þá hjúkrun og aðra umönnun sem viðkomandi þarfnast. Það er löngu tímabært að þessi störf séu metin að verðleikum.