Ferill 55. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 55 . mál.


79. Breytingartillögur



við frv. til l. um breyt. á umferðarlögum, nr. 50 30. mars 1987, með síðari breytingum.

Frá Vilhjálmi Egilssyni, Gunnlaugi M. Sigmundssyni, Siv Friðleifsdóttur,


Hjálmari Jónssyni, Árna Johnsen og Einari K. Guðfinnssyni.



    Á eftir 2. gr. komi ný grein er orðist svo:
                  Eftirfarandi breytingar verða á 37. gr. laganna:
         
    
    2. mgr. orðast svo:
                            Utan þéttbýlis má ökuhraði ekki vera meiri en 110 km á klst., þó ekki meiri en 90 km á klst. á malarvegum.
         
    
    3. mgr. fellur brott.
    3. gr. (er verði 4. gr.) orðist svo:
                  Eftirfarandi breytingar verða á 38. gr. laganna:
         
    
    Í stað orðanna „90 km“ í 1. mgr. kemur: 100 km.
         
    
    Í stað orðanna „80 km“ í 2. mgr. kemur: 90 km.
         
    
    3. og 4. mgr. orðast svo:
                            Ökuhraði bifreiðar með tengivagn eða skráð tengitæki má aldrei vera meiri en 80 km á klst.
                            Ökuhraði bifreiðar með eftirvagn, sem er án hemla og 300 kg eða meira að heildarþyngd, eða óskráð tengitæki má aldrei vera meiri en 60 km á klst.

Greinargerð.


    Vegakerfi landsins hefur tekið stakkaskiptum á síðustu 10–15 árum. Langmestur hluti hringvegarins hefur nú verið lagður bundnu slitlagi og hefur hlutur þess einnig aukist mjög á öðrum vegum utan þéttbýlis. Á sama tíma hefur aksturseiginleikum og öryggisbúnaði fólksbifreiða sífellt fleygt fram. Sú almenna hraðatakmörkun sem umferðarlögin setja við akstur á bundnu slitlagi, þ.e. 90 km á klst., er barn síns tíma og ekki lengur raunhæf viðmiðun.
    Lög eru sett til að farið sé eftir þeim. Það slævir réttarvitund almennings ef í gildi eru lög sem nær óframkvæmanlegt er fyrir löggæsluna að framfylgja. Hér er lagt til að ákvæðum umferðarlaganna um hraðatakmarkanir verði breytt með tilliti til betra vegakerfis og til samræmis við þau hraðatakmörk sem gilda í nágrannaríkjum okkar. Rétt er þó að benda á að meginregla 36. gr. umferðarlaganna um að akstri beri að haga í samræmi við aðstæður verður að sjálfsögðu í fullu gildi áfram.