Ferill 23. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 23 . mál.


126. Skýrsla



dómsmálaráðherra um málefni Neyðarlínunnar hf., samkvæmt beiðni.

(Lögð fyrir Alþingi á 121. löggjafarþingi 1996.)



    Með beiðni (þskj. 23) fimmtán þingmanna er þess óskað að dómsmálaráðherra leggi fyrir Alþingi skýrslu um ákvarðanir sínar og málsmeðferð er varðar málefni Neyðarlínunnar hf.

I. Inngangur.
    Áður en vikið verður að einstökum atriðum um málefni Neyðarlínunnar hf. sem óskað er upplýsinga um er rétt að rifja í stuttu máli upp aðdraganda að stofnun Neyðarlínunnar hf. og hvaða reynsla hefur fengist af rekstri neyðarsímanúmersins 1-1-2.
    Í apríl 1993 skipaði dómsmálaráðherra nefnd til að gera tillögur um framkvæmd samræmds neyðarsímanúmers sem uppfyllti skilyrði EES-samningsins. Í nefndinni áttu sæti Stefán P. Eggertsson verkfræðingur, sem jafnframt var skipaður formaður, Bergþór Halldórsson, verkfræðingur hjá Póst- og símamálastofnun, Esther Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Slysavarnafélags Íslands, Guðjón Magnússon, skrifstofustjóri í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, Guðjón Petersen, framkvæmdastjóri Almannavarna ríkisins, Hallgrímur Guðmundsson, bæjarstjóri í Hveragerði, og Hrólfur Jónsson, slökkviliðsstjóri í Reykjavík. Nefndin skilaði ráðherra skýrslu í desember 1993 og í kjölfar hennar var samið lagafrumvarp. Þáverandi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks samþykkti að leggja frumvarpið fram á vorþingi 1994. Frumvarpið var síðan samþykkt samhljóða sem lög frá Alþingi í febrúar 1995.
    Dómsmálaráðuneytið fól Ríkiskaupum að gera samstarfsútboð um rekstur samræmdrar neyðarsímsvörunar. Að tillögu Ríkiskaupa var samið við Póst og síma, Reykjavíkurborg fyrir hönd Slökkviliðs Reykjavíkur, Securitas hf., Sívaka hf., Slysavarnafélag Íslands og Vara hf. um stofnun sérstaks fyrirtækis um reksturinn, Neyðarlínunnar hf. Öryggisþjónustan hf. varð síðar aðili að Neyðarlínunni hf.
    Í byrjun árs 1996 tók Neyðarlínan hf. við svörun á símanúmerinu 1-1-2 aðeins nokkrum vikum eftir að dómsmálaráðherra hafði gert samning við Neyðarlínuna um að sinna neyðarsímsvörun. Bráðabirgðafyrirkomulag var á símsvöruninni fyrstu mánuðina en reiknað er með að reksturinn verði að mestu kominn í endanlegt horf um næstu áramót. Gott samstarf hefur verið milli viðbragðsaðila og Neyðarlínunnar hf. Nýjungar í hugbúnaði og tæknibúnaði gera íslensku neyðarlínuna eina þá fullkomnustu í Evrópu. Allir landsmenn fá nú sambærilega neyðarsímsvörun sem eykur sérstaklega öryggi íbúa á landsbyggðinni og rennir traustari stoðum undir starf smærri viðbragðsaðila.
    Samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga um samræmda neyðarsímsvörun, nr. 25/1995, hefur dómsmálaráðherra skipað samstarfsnefnd sem skal vera til eftirlits og ráðuneytis um framkvæmd laganna. Nefndin hefur m.a. undirbúið reglugerð um framkvæmd samræmdrar neyðarsímsvörunar sem undirrituð hefur verið af dómsmálaráðherra (sjá fylgiskjal VI).     Nefnd þessari er ætlað að hafa eftirlit með starfsemi Neyðarlínunnar hf. og taka á ágreiningsmálum sem upp kunna að koma milli viðbragðsaðila og Neyðarlínunnar hf. Í nefndinni eiga sæti Rúnar Guðjónsson, sýslumaður í Reykjavík, formaður, og Guðmundur Guðjónsson, yfirlögregluþjónn í Reykjavík, skipaðir án tilnefningar, Ármann Kr. Ólafsson, aðstoðarmaður samgönguráðherra, tilnefndur af samgönguráðherra, Björn Hafþór Guðmundsson, framkvæmdastjóri SSA, og Guðjón Ingvi Stefánsson, framkvæmdastjóri SSV, tilnefndir af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, dr. Ólafur Proppé, formaður Landsbjargar, landssambands björgunarsveita, tilnefndur af Landsbjörgu, og Vilborg Ingólfsdóttir, yfirhjúkrunarfræðingur hjá embætti landlæknis, tilnefnd af heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra. Enn fremur eiga sæti í nefndinni Björn Gíslason, formaður Landssambands sjúkraflutningamanna, tilnefndur af þeim samtökum, og Guðmundur Jónsson, varðstjóri í Slökkviliði Reykjavíkur, tilnefndur af Landssambandi slökkviliðsmanna.
    Samkvæmt upplýsingum frá nefndinni hafa henni hvorki borist kvartanir né önnur ágreiningsmál frá Neyðarlínunni hf. eða viðbragðsaðilum.
    Í tilefni af gerð skýrslu þessarar óskaði dómsmálaráðuneytið eftir upplýsingum frá lögreglunni í Reykjavík, Slökkviliði Reykjavíkur og Neyðarlínunni hf. um nokkur efnisatriði. Einnig óskaði ráðuneytið eftir því við Ríkisendurskoðun að stofnunin gerði sjálfstæða úttekt á hagkvæmni samningsins við Neyðarlínuna hf. fyrir ríki og sveitarfélög. Svör þessara aðila eru birt sem fylgiskjöl I–IV.

II. Einstök efnisatriði.
    Til að einfalda lestur skýrslunnar hefur henni verið skipt efnislega til samræmis við beiðnina. Til frekari skýringar á einstökum atriðum eru upplýsingar sem bárust birtar sem fylgiskjöl.

Val á fyrirtækjum og stofnunum sem aðild eiga að Neyðarlínunni hf.


Skilyrði fyrir aðild. Forsendur samninga.


    Val á rekstraraðilum fór fram með útboði á grundvelli samstarfsútboðs sem Ríkiskaup sáu um fyrir ráðuneytið samkvæmt lögum um samræmda neyðarsímsvörun. Í útboðslýsingu var gert ráð fyrir að verktaki hefði faglega reynslu af neyðarsímsvörun eða væri viðbragðsaðili sem tengdist neyðar-, björgunar- eða öryggisþjónustu með einum eða öðrum hætti. Verktaki þurfti að uppfylla skilyrði sem sett voru fram í verklýsingu með útboði og í verksamningi (sjá fylgiskjal VI).
    Forsendur ráðuneytisins fyrir vali á verktaka voru að hann uppfyllti skilyrði útboðslýsingar. Einnig var vilji ráðuneytisins að sem flestir aðilar sem sinntu neyðar-, björgunar- eða öryggisþjónustu yrðu aðilar að rekstrinum í von um að ná fram sem mestri hagræðingu í rekstri neyðarvaktstöðvarinnar og tryggja faglega þekkingu í fyrirtækinu. Var það í samræmi við nefndarálit allsherjarnefndar Alþingis frá 23. febrúar 1995 (þskj. 802) en þar segir: „Nefndin leggur áherslu á að heppilegast er að þeir aðilar, sem þegar starfa á þessu sviði og hafa reynslu og þekkingu, taki höndum saman og geri samstarfssamning sín á milli um það að taka sameiginlega að sér að veita þessa þjónustu samkvæmt samningi við ríkið til ákveðins tíma í senn.“ Undir þetta rita Sólveig Pétursdóttir, formaður nefndarinnar, og nefndarmennirnir Anna Ólafsdóttir Björnsson, Björn Bjarnason, Eyjólfur Konráð Jónsson, Guðmundur Árni Stefánsson, Ingi Björn Albertsson, Jóhann Einvarðsson og Kristinn H. Gunnarsson.
    Álit nefndarinnar er í samræmi við 3. gr. laga um samræmda neyðarsímsvörun en þar segir: „Til að sinna viðtöku og úrvinnslu tilkynninga sem berast um samræmt neyðar- símanúmer skal koma upp vaktstöð eða vaktstöðvum. Dómsmálaráðherra er heimilt að semja við opinberar stofnanir, sveitarfélög og einkaaðila um fyrirkomulag, fjármögnun og þátttöku í slíkum rekstri.“
    Í úttekt Ríkisendurskoðunar, sem gerð var að beiðni dómsmálaráðuneytisins, á fyrirkomulagi neyðarsímsvörunar og samningnum við Neyðarlínuna hf. er farið gaumgæfilega yfir forsendur og útreikninga ráðuneytisins. Segir í niðurstöðum skýrslunnar: „Að mati Ríkisendurskoðunar er hagræði ríkissjóðs af því fyrirkomulagi sem að ofan er lýst við rekstur sameiginlegrar neyðarvaktstöðvar ótvírætt.“ (Sjá fylgiskjal IV.) Ráðuneytið taldi réttast að fá hlutlausan aðila, Ríkisendurskoðun, til að meta hagkvæmni fyrirkomulagsins og meta hvort áætlanir hafi staðist. Staðfest er í skýrslunni að svo hafi verið.
    Í svari Ríkisendurskoðunar segir einnig að hagræði ríkis og sveitarfélaga vegna þessa fyrirkomulags sé um 180–243 millj. kr. á samningstímabilinu, eftir því hvaða forsendur eru lagðar til grundvallar, og er það töluvert meiri sparnaður en búist var við. Einnig er vísað til þess í skýrslunni að ná megi fram enn frekari hagræðingu með því að flytja sólarhringsvaktir og bakvaktir sem opinberir aðilar sinna til Neyðarlínunnar hf.

Heildarkostnaður ríkis, sveitarfélaga og stofnana þeirra af rekstrinum næstu ár.


Árlegt framlag Reykjavíkurborgar, Slysavarnafélags Íslands og Pósts og síma.


    Ríki og sveitarfélög greiða samtals um 296,5 millj. kr. eða um 37,1 millj. kr. á ári. Upphaflegir stofnaðilar Neyðarlínunnar leggja 251 millj. kr. til rekstrarins á átta árum eða um 31,4 millj. kr. á ári. Árlegt framlag Reykjavíkurborgar, Slysavarnafélags Íslands og Pósts og síma, hvers um sig, til rekstrarins er 5 millj. kr. á ári. Þó greiðir Slökkvilið Reykjavíkur um 2 millj. kr. meira vegna viðbótarþjónustu sem það óskaði eftir. Samkvæmt samningi er gert ráð fyrir að ríkið greiði 5 millj. kr. vegna kynningar og markaðssetningar á árinu 1996.
    Á næsta ári, 1997, er gert ráð fyrir að rekstrartekjur verði (í millj. kr., launavísitala 139,6):

Ríkið
 19,96

    (Auk þess er kostnaður vegna kynningarstarfs áætlaður 2 millj. kr.)
Sveitarfélög
 19,96


Aðrir:
Securitas
  8,2

Vari
  5,5

Sívaki
  3,2

Öryggisþjónustan
  3,2

Slysavarnafélag Íslands
  5,0

Póstur og sími
  5,0

Slökkvilið Reykjavíkur
  7,0

Samtals
 37,1

    (Slysavarnafélagið greiðir ekki til Neyðarlínunnar hf. á árinu 1996.)

Áætlaður byggingarkostnaður húsnæðis sem verið er að reisa fyrir starfsemina.


    Samkvæmt upplýsingum Reykjavíkurborgar er byggingarkostnaður áætlaður um 35 millj. kr. Neyðarlínan hf. greiðir Reykjavíkurborg 2,9 millj. kr. í leigu á ári sem er svipaður leigukostnaður og almennt er fyrir sambærilegt skrifstofuhúsnæði á leigumarkaði. Nánari grein er gerð fyrir byggingu hússins í svari Neyðarlínunnar hf. (sjá fylgiskjal III). Rétt er að taka fram að Reykjavíkurborg er eigandi húseignarinnar.

Hagkvæmni þeirrar leiðar sem ráðherra ákvað að fara.


Aðrar leiðir sem kannaðar voru.


    Um tvo valkosti var að ræða til að koma á einu samræmdu neyðarsímanúmeri. Fyrri kosturinn var að ríkið setti á fót opinbert fyrirtæki sem sæi um neyðarsímsvörunina eða að einum opinberum aðila yrði falið að sjá um reksturinn og þá annaðhvort lögreglunni í Reykjavík eða Slökkviliði Reykjavíkur. Hinn kosturinn var að efna til samstarfsútboðs og fá sem flesta sem tengjast neyðar-, björgunar- og öryggisþjónustu til að vera þátttakendur í rekstri neyðarsímsvörunar. Útreikningar sýndu að hagkvæmasti kosturinn væri að efna til samstarfsútboðs meðal aðila sem sinntu neyðar-, öryggis- og vaktþjónustu. Staðfest er í skýrslu Ríkisendurskoðunar að sú leið sem allsherjarnefnd Alþingis lagði til og ráðherra féllst á var hagkvæmasti kosturinn (sjá fylgiskjal IV). Ekki er víst að sátt hefði orðið um ákvörðun sem fæli í sér að lögreglan, slökkviliðið eða einhver annar opinber aðili tæki að sér rekstur neyðarvaktstöðvar og sú leið hefði orðið nokkru dýrari fyrir ríki og sveitarfélög auk annarra annmarka, enda óskaði lögreglan í Reykjavík ekki eftir því að annast samræmda neyðarsímsvörun. Með þessu fyrirkomulagi verður einnig auðveldara að hafa eftirlit með starfsemi fyrirtækja í öryggisþjónustu til að tryggja hag neytenda.
    Í áliti Ríkisendurskoðunar segir: „Að mati Ríkisendurskoðunar er hagræði ríkissjóðs af því fyrirkomulagi sem að ofan er lýst við rekstur sameiginlegrar neyðarvaktstöðvar ótvírætt.“
    Einnig segir: „Miðað við ofangreindar forsendur má ætla að kostnaður ríkissjóðs og sveitarfélaganna vegna þess fyrirkomulags sem viðhaft var vegna reksturs sameiginlegrar neyðarvaktstöðvar á grundvelli laga nr. 25/1995 sé alls um 227–243 millj. kr. lægri en frumáætlanir gerðu ráð fyrir á því átta ára tímabili sem samningur dómsmálaráðuneytisins við Neyðarlínuna nær til. Á ársgrundvelli er um að ræða 28–30 millj kr. Fari svo að tilkoma Öryggisþjónustunnar hf. muni ekki breyta umtalsvert árlegum framlögum má áætla kostnaðinn um 180–200 millj. kr. lægri en ella eða sem svarar til 23–25 millj. kr. á ári.“
    Auk þess segir: „Þeirri þjónustu sem snýr að ríkissjóði og sveitarfélögunum og felst í símsvörun og símtalsflutningum vegna neyðarnúmersins 112 ásamt boðun viðbragðsaðila er nú að öllu leyti sinnt með mjög viðunandi hætti.“
    Ekki verður séð að aðrar leiðir sem til greina komu um rekstur neyðarvaktstöðvar fyrir samræmt neyðarnúmer 1-1-2 hefðu sparað ríkissjóði og sveitarfélögum jafnmikið og sú aðferð sem var valin. Það er staðfest í áliti Ríkisendurskoðunar. Auk þess er tekið fram að Neyðarlínan hf. vinni samkvæmt þeim faglegu kröfum sem til er ætlast í verklýsingu og að viðbragðsaðilar séu ánægðir með þjónustuna. Þá er ekki tekið tillit til þess að Neyðarlínan hf. hefur lagt meira til verkefnisins en ráð var fyrir gert í upphaflegum samningi og í útboðsforsendum sem kemur viðbragðsaðilum og almenningi til góða.

Nýting tækjabúnaðar lögreglu, slökkviliðs o.fl. fyrir þjónustu Neyðarlínunnar hf.


    Að mati yfirmanna lögreglunnar í Reykjavík og Slökkviliðs Reykjavíkur hefði ekki verið unnt að nota þann tækjabúnað sem til staðar er hjá þessum stofnunum til að sinna neyðarsímsvörun (sjá fylgiskjöl I og II).

Nauðsyn þess að skilja að símsvörun annars vegar og


starfsemi viðbragðsaðila hins vegar.


Fyrirkomulag slíkrar starfsemi annars staðar á Norðurlöndum.


    Þegar ákveðið var að taka upp eitt samræmt neyðarnúmer var augljóst að aðskilja yrði neyðarsímsvörun frá viðbragðsaðilum. Á landinu eru tugir viðbragðsaðila og er ljóst að þeir gátu ekki allir svarað sama símanúmerinu og að mikið óhagræði hefði orðið af því að hafa margar vaktstöðvar, enda hefði slík tilhögun kostað töluvert meira en ein vaktstöð. Auk þess er af faglegum ástæðum betra að aðskilja neyðarsímsvörun frá viðbragðsaðilum, m.a. vegna þess aðhalds sem báðir aðilar fá, og minnkar það líkur á að mistök verði ekki upplýst. Þetta hafa allir sérfræðingar, bæði innlendir og erlendir, sem haft hefur verið samband við lagt áherslu á. Rétt er að benda á að í svari lögreglunnar í Reykjavík er gagnrýnt að ekki sé nægilegur aðskilnaður milli vaktstöðvar Neyðarlínunnar og stjórnstöðvar Slökkviliðs Reykjavíkur.
    Í öðrum löndum er neyðarsímsvörun almennt aðskilin frá viðbragðsaðilum sem hafa eitt samræmt neyðarsímanúmer og má þar til dæmis nefna 911 í Bandaríkjunum og Kanada. Lýsing á því fyrirkomulagi sem er annars staðar á Norðurlöndum kemur fram í svörum frá lögreglu og Slökkviliði Reykjavíkur en það eru þeir fagaðilar sem undirbúningsnefndin og ráðuneytið hafa leitað til eftir faglegri þekkingu (sjá fylgiskjöl I og II).

Kröfur ráðuneytisins um faglega kunnáttu starfsfólks Neyðarlínunnar hf.


    Kröfur um faglega kunnáttu starfsfólks koma fram í verkskilmálum sem eru fylgiskjal samnings dómsmálaráðherra við Neyðarlínuna hf. Þar segir í kafla 0.2.8:
    „Kröfur til starfsmanna verktaka og skyldur þeirra.
    Starfsmenn neyðarvaktstöðvar skulu hafa hreint sakavottorð og vera við góða heilsu m.a. hafa góða sjón og heyrn. Nokkurt álag fylgir starfi „símvarða“ og því er ekki gert ráð fyrir að allir séu jafnvel til þess fallnir að annast það. „Símverðir“ skulu vera skýrmæltir svo vel skiljist við fjarskipti og geta gert sig vel skiljanlega með skriflegum boðum.
    Allir „símverðir“ verða að hafa góð tök á enskri tungu og lágmarkskunnáttu í Norðurlandamálum. Einnig þurfa „símverðir“ að geta greint á milli helstu tungumála í Evrópu, m.a. þýsku, frönsku, ítölsku og spænsku.
    Starfsmenn verktaka skulu bundnir þagnarskyldu um öll málefni sem varða starfsemi neyðarvaktstöðvar og munu starfsmenn verktaka skrifa undir yfirlýsingu þess efnis. Gildir það einnig eftir að starfsmenn eru hættir störfum.“
    Og í kafla 0.2.9 segir:
     „Þjálfun „símvarða“.
    Ákjósanlegur bakgrunnur „símvarða“ er að þeir hafi reynslu við störf hjá þeim viðbragðsaðilum sem neyðarvaktstöðin kemur til með að þjóna. Símverðir skulu gangast undir minnst 2 mánaða þjálfun í starfi, undir leiðsögn þjálfaðra „símvarða“, áður en hann starfar sjálfstætt við símvörslu. Auk þess er krafist 1 mánaðar starfsreynslu eða starfskynningu hjá viðbragðsaðila sem fær þjónustu frá neyðarvaktstöð. Starfsreynslan getur verið í formi heimsókna til fleiri en eins viðbragðsaðila.
    „Símverðir“ verða að vera þjálfaðir í að hafa samskipti við fólk í uppnámi og geta unnið undir miklu álagi. Einnig skulu starfsmenn þjálfaðir í ýmsum sérgreinum, svo sem skyndihjálp, í lögum og reglum sem máli skipta, í skipulagi viðbragðsaðila, í staðháttum á neyðarsvæðum, götuheitum og gatnakerfum, vélritun og notkun tækjabúnaðar neyðarvaktstöðvarinnar.
    „Símverðir“ skulu ganga í gegnum endurmenntun eftir þörfum og að auki heimsækja einn viðbragðsaðila minnst eina viku á ári til að viðhalda þekkingu sinni á störfum hans og þörfum.“
    Eins og að framan greinir voru gerðar miklar kröfur til starfsmanna í útboðsskilmálum og hefur kröfunum verið fylgt fast eftir.
    Í 9. gr. reglugerðar um framkvæmd samræmdrar neyðarsímsvörunar er kveðið á um faglegar kröfur til starfsfólks Neyðarlínunnar. Í 10. gr. er gerð krafa um að vaktstöð beri að setja verklagsreglur um starfsemi vaktstöðvarinnar.
    Í auglýsingu Neyðarlínunnar hf. eftir starfsfólki kemur fram að krafist er stúdentsprófs eða sambærilegrar menntunar, sbr. fylgiskjal V. Vonast var til að slökkviliðsmenn og lögreglumenn sæktu um störf en vegna andstöðu stéttarfélaga þeirra sótti aðeins einn úr hvorum hópi um starf og eru þeir nú við störf hjá Neyðarlínunni hf.
    Neyðarlínan hf. hefur þegar sett verklagsreglur fyrir starfsfólk sem kynntar hafa verið samstarfsnefndinni. Verklagsreglurnar verða í stöðugri endurskoðun fyrstu rekstrarár Neyðarlínunnar hf. Einnig hefur Neyðarlínan hf. gert þjálfunaráætlun fyrir starfsfólk hjá viðbragðsaðilum og hjá sjúkrastofnunum og starfskynning hefur farið fram hjá lögreglunni í Reykjavík og Slökkviliði Reykjavíkur. Í samvinnu við Sjúkraflutningaskólann, sem rekinn er af Rauða krossi Íslands, Sjúkrahúsi Reykjavíkur og Slökkviliði Reykjavíkur, þar sem Landssamband sjúkraflutningamanna á fulltrúa í stjórn, er unnið að námskrá fyrir starfsfólk Neyðarlínunnar. Stefnt er að því að Sjúkraflutningaskólinn haldi námskeið fyrir starfsfólk Neyðarlínunnar og að hann geti útskrifað neyðarsímverði í framtíðinni.
    Miklar kröfur eru þannig gerðar til starfsfólks hvað varðar reynslu, þjálfun og þekkingu. Neyðarlínan hf. hefur lagt metnað sinn í að haga þjálfun og kennslu eins og best verður á kosið og hefur fyllilega uppfyllt þær væntingar sem ráðuneytið hafði um kröfur til starfsmanna.

Samstarf ráðherra og heilbrigðisstétta, sjúkrahúsa, lögreglu


og slökkviliðs á undirbúningsstigi málsins.


    Dómsmálaráðherra skipaði nefnd í aprílmánuði 1993 til þess að hafa frumkvæði að tillögugerð um samræmda neyðarsímsvörun sem uppfyllti skilyrði EES-samningsins um samræmt evrópskt neyðarsímanúmer 1-1-2. Í nefndinni voru m.a. fulltrúar dómsmálaráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis. Auk þess voru þar fulltrúar frá Pósti og síma, Reykjavíkurborg, Slysavarnafélagi Íslands, Almannavörnum ríkisins og frá sveitarfélagi á landsbyggðinni. Með því að tilnefna fulltrúa frá öllum helstu fagaðilum var tryggt svo sem unnt var að alhliða fagleg þekking væri til staðar við allan undirbúning málsins.
    Á undirbúningstímanum hafði nefndin samráð við Sjúkrahús Reykjavíkur um einstaka þætti er vörðuðu samstarf við Neyðarlínuna, þar á meðal við neyðarlækni. Starfsmaður heilbrigðisráðuneytisins sat í nefndinni og var tengiliður við það ráðuneyti, landlækni og heilbrigðisstéttir. Samráð var haft við lögreglustjórann í Reykjavík og haft var samband við aðalvarðstjóra lögreglunnar þar, auk þess sem fulltrúar Landssambands lögreglumanna mættu á fund allsherjarnefndar þegar málið kom til meðferðar á Alþingi. Í undirbúningsnefndinni átti einnig sæti slökkviliðsstjórinn í Reykjavík sem hafði samband við aðra slökkviliðsstjóra. Þá mætti formaður Landssambands slökkviliðsmanna á fund með allsherjarnefnd þegar málið var þar til meðferðar.
    Eins og fram kemur var fullt samráð haft við þau yfirvöld og opinbera aðila sem málið varðaði og fagaðila á undirbúningstímanum og tekið tillit til athugasemda er bárust til allsherjarnefndar og dómsmálaráðuneytis.

Bygging nýs húsnæðis fyrir Neyðarlínuna hf.


Starfsemi einkafyrirtækja í sama húsnæði.


    Hvað varðar nauðsyn þess að byggja hús undir starfsemina er vísað í bréf frá Neyðarlínunni hf., sbr. fylgiskjal III. Reykjavíkurborg getur eflaust svarað því hvers vegna sú leið var valin að byggja umrætt hús og leigja Neyðarlínunni hf. Af hálfu dómsmálaráðuneytisins uppfyllir byggingin allar kröfur sem settar voru í verksamning og gott betur og gerir það engar athugasemdir við það fyrirkomulag sem Neyðarlínan hf. hefur valið í húsnæðismálum.
    Starfsmenn öryggisfyrirtækja (öryggisverðir) hafa aðsetur í kjallara sama húss og Neyðarlínan en þeir hafa ekki aðgang að vaktstöð Neyðarlínunnar. Önnur starfsemi öryggisfyrirtækja er aðskilin og fer fram annars staðar. Starfsmenn Neyðarlínunnar í vaktstöð þurfa hins vegar að svara boðum frá öryggiskerfum og kalla út öryggisverði fyrirtækjanna. Starfsmenn öryggisfyrirtækja hafa engan aðgang að trúnaðarupplýsingum Neyðarlínunnar.
    Hvað varðar starfsmenn Neyðarlínunnar eru skýr ákvæði í lögum um samræmda neyðarsímsvörum um meðferð trúnaðarupplýsinga. Í 7. gr. laganna segir: „Starfsmenn vaktstöðvar skulu gæta þagmælsku um atriði er þeir fá vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt lögum, reglugerðum eða eðli máls. Þagnarskyldan helst þó að látið sé af starfi. Starfsmenn vaktstöðvar skulu hafa hlotið menntun, þjálfun og starfsreynslu á vegum þeirra aðila er neyðarþjónustu sinna.“ Í 14. gr. reglugerðar um samræmda neyðarsímsvörun segir: „Rof á þagnarheiti getur varðað brottvísun úr starfi, auk viðurlaga sem lög kunna að mæla fyrir um.“

Kostnaður við kaup nauðsynlegra tækja og fjármögnun þeirra.


Eignarhald og ráðstöfunar- og notkunarréttur á húsnæði og tækjum.


    Stofnkostnaður vegna tækjakaupa er nú áætlaður um 65–70 millj. kr. eða 11–16 millj. kr. hærri en upphaflega var áætlað, enda hafði ekki verið gerð fullnaðarúttekt á stofnkostnaði. Neyðarlínan hf. fjármagnar tækjakaupin að öllu leyti. Allur tækjabúnaður er mjög fullkominn og er langt umfram þær kröfur sem upphaflega voru gerðar og tryggir viðbragðsaðilum alla þjónustu sem mögulega er hægt að veita. Að samningstíma loknum mun eignarhald á eignum fyrirtækisins skiptast milli ríkis og sveitarfélaga annars vegar og Neyðarlínunnar hf. hins vegar í hlutfalli við framlög á samningstímanum. Búast má við verulegum afskriftum á samningstímanum, sérstaklega á síma- og tölvubúnaði. Reykjavíkurborg er eigandi byggingarinnar sem Neyðarlínan hefur á leigu.

Samvinna starfsmanna Neyðarlínunnar hf. og starfsmanna


einkafyrirtækja sem aðild eiga að henni.


    Sem áður greinir hefur dómsmálaráðherra skipað samstarfsnefnd til að hafa eftirlit með starfsemi neyðarsímsvörunar og var nefndinni m.a. falið að semja reglugerð um framkvæmd samræmdrar neyðarsímsvörunar. Í reglugerðinni eru settar reglur um starfsemi öryggisfyrirtækja annars vegar og neyðarsímsvörunar hins vegar. Starfsmenn öryggisfyrirtækja hafa ekki beinan aðgang að stjórnstöð heldur hafa þeir aðstöðu í kjallara hússins. Engin samskipti eru milli þessara aðila nema í gegnum fjarskipti og þegar lyklar eru afgreiddir en það er gert í gegnum lúgu á húsinu. Engin truflun er af starfsfólki öryggisfyrirtækjanna þar sem neyðarsímsvörunin fer fram.

Gjaldskrá Neyðarlínunnar hf. og væntanlegar sértekjur hennar.


    Gjaldskrá Neyðarlínunnar hf. er byggð á tillögum Samkeppnisstofnunar. Þau öryggisþjónustufyrirtæki sem eru eignaraðilar að Neyðarlínunni hf. og óskað hafa eftir vaktþjónustu greiða árlega fast gjald, 2 millj. kr. Að auki greiða fyrirtækin fyrir hverja tengingu sem tengd verður vaktstöðinni. Gjaldskráin er byggð upp á eftirfarandi hátt:

Fjöldi
tenginga
Einingaverð
(hverjar 100 tengingar)
Gjald
á mánuði
Gjald
á ári
1–100 100.000 100.000 1.200.000
101–200 70.000 170.000 2.040.000
201–300 49.000 219.000 2.628.000
301–400 34.300 253.300 3.039.600
401–500 24.010 277.310 3.327.720
501–600 16.807 294.117 3.529.404
601–700 16.000 310.117 3.721.404
701–800 16.000 326.117 3.913.404

    Kostnaður við fyrstu 100 tengingarnar er 1.000 kr. fyrir hverja tengingu en lækkar um 30% fyrir næstu 100 tengingar þar til mánaðarlegt gjald fyrir 100 aukakerfi er komið niður í 16.000 kr. Þess má geta að gjaldskráin var lögð fyrir öryggisfyrirtækin og Samkeppnisstofnun og voru ekki gerðar athugasemdir við hana eftir að henni hafði verið breytt til samræmis við tillögur Samkeppnisstofnunar.

III. Lokaorð.
    Óhætt er að segja að reynslan af rekstri Neyðarlínunnar hafi verið góð. Þrátt fyrir skamman undirbúningstíma tókst í samvinnu við Slökkvilið Reykjavíkur og Slysavarnafélag Íslands að veita viðunandi neyðarsímþjónustu á meðan verið var að koma starfseminni af stað. Þegar starfsemin verður að fullu komin í það horf sem gert var ráð fyrir er óhætt að fullyrða að Ísland verður í hópi þeirra ríkja sem hafa fullkomnasta samræmda neyðarsímþjónustu.
    Mikil og víðtæk samvinna er milli Sjúkrahúss Reykjavíkur og Neyðarlínunnar um þá þætti sem snúa að heilbrigðisstéttum og tengjast neyðarsímsvörun, m.a. er stefnt að því að ávallt sé aðgangur að neyðarlækni til að þjónusta viðbragðsaðila hvar sem er á landinu og aðra aðila sem Neyðarlínan hf. veitir þjónustu.
    Á Íslandi hafa ekki verið sett lög eða aðrar reglur um starfsemi fyrirtækja í öryggis- þjónustu. Brýnt er að sett verði lög um öryggisþjónustufyrirtæki þar sem áskilið verði að fyrirtækin þurfi starfsleyfi frá dómsmálaráðuneytinu og að reglur verði settar um starfsemi öryggisþjónustufyrirtækjanna. Mikilvægt er að sömu reglur gildi um öll öryggisþjónustufyrirtæki, hvort sem þau eru aðilar að Neyðarlínunni eða utan hennar. Flest nágrannalönd okkar hafa þegar sett slíkar reglur sem hafa það að markmiði að auka öryggi borgaranna og tryggja rétt almennings í viðskiptum við öryggisþjónustufyrirtæki.



Fylgiskjal I.

Bréf lögreglunnar í Reykjavík.


(26. ágúst 1996.)



    Vitnað er til bréfs yðar dagsett 15. þ.m. þar sem óskað er eftir svörum við tilteknum spurningum er varða samræmdu neyðarsímsvörunina á Íslandi.

    Teljið þér að mögulegt hefði verið að nýta þann tækjabúnað sem fyrir hendi var hjá embætti Lögreglustjórans í Reykjavík eða á öðrum lögreglustöðvum til að sinna þjónustunni sem Neyðarlínunni hf. er ætlað að sinna?

Sérhannaður og ólíkur tækjabúnaður.
    Tækjabúnaður til að sinna samræmdri neyðarsímsvörun fyrir landið allt er sérhannaður til slíks verkefnis. Hann er annars vegar ætlaður til viðtöku upplýsinga, en hins vegar til greiðrar þjónustu við marga viðtökuaðila. Ekki er ætlast til neinnar stjórnunar á verkefnum af hálfu slíkrar símsvörunarþjónustu.
    Búnaður stjórnstöðvar lögreglu er ætlaður til verkstjórnar á útköllum og öðrum vettvangsverkefnum lögreglu, bæði til að taka við innhringingum, meta málsatvik og senda menn á vettvang, og síðan að fylgja málum eftir með frekari upplýsingum, ráðstöfunum og aðgerðum, og að lokum að skrá málalyktir. Eins er stjórnstöðin ætluð til að henda reiður á ástandinu, ekki síst á álagstímum, og veita lögreglumönnum nauðsynlegar upplýsingar af ýmsu tagi.
    Búnaður lögreglunnar er því sniðinn að allt öðrum verkefnum en neyðarsímstöð er ætlað að sinna. Hann er því ekki fullnægjandi til slíkra verkefna, frekar en að búnaður slíkrar símstöðvar sé fullnægjandi til að gagnast sem stjórnstöð lögreglu. Á það má benda að vaktstöð Neyðarlínunnar var verkefnalega sameinuð stjórnstöð langstærsta slökkviliði landsins. Samt þurfti að kaupa verulegan sérbúnað.
    Engu að síður er það nauðsynlegt að komið sé upp þeim búnaði hjá lögreglunni í Reykjavík, að hún geti betur annast þau verkefni sem henni ber ef neyðarástand skapast. Í slíkum tilvikum er lögreglu ætlað að hafa yfirstjórn aðgerða og reka miðstöð fyrir alla þá aðila sem kallaðir eru til verka. Við almannavarnaástand er um leið nauðsynlegt að upplýsingar berist viðstöðulítið og milliliðalaust og að neyðarsímsvörun og stjórnun séu rekin í samfellu. Verður síðar í greinargerð þessari vikið að því hvernig slíku fyrirkomulagi kynni að vera fyrir komið.

Niðurstaða.
    Ekki hefði gengið að nýta tækjabúnað lögreglu til að sinna þjónustunni sem sameiginlegri neyðarsímsvörun er ætlað að sinna.

    Óskað er eftir rökstuðningi fyrir nauðsyn þess að aðskilja símsvörun annars vegar og starfsemi viðbragðsaðila hins vegar og jafnframt er óskað eftir upplýsingum hvernig slíkri starfsemi sé háttað annars staðar á Norðurlöndum.

Aðskilnaður og aðskilnaður ekki.
    Reyndar er núverandi fyrirkomulaga þeim alvarlega annmarka háð, að ekki er nægilegur aðskilnaður milli vaktstöðvar Neyðarlínunnar og stjórnstöðvar Slökkviliðsins.

Fyrirkomulag neyðarsímsvörunar og starfsemi viðbragðsaðila.
a. Í Noregi.
    112 er aðeins neyðarnúmer lögreglu og er hluti af fjarskiptakerfi hennar. Neyðarnúmer slökkviliðs og sjúkraþjónustu eru önnur. Svörun neyðarnúmersins er í því lögregluumdæmi sem hringt er innan.
    Nokkur vandkvæði hafa skapast af því þegar hringt er úr farsímum. Þessi vandi hefur sífellt aukist vegna mikils fjölda farsíma og reynist þá erfitt að beina hringingunni inn á viðeigandi umdæmi.
    Náin samvinna er á milli hinna þriggja neyðarviðbragðsaðila og samræmt skipulag vegna skörunar verkefna.

b. Í Danmörku.
    Danmörku er deilt upp í tvö svæði; Stór-Kaupmannahafnarsvæðið og landsbyggðina. Á fyrrnefnda svæðinu ræður Slökkvilið Kaupmannahafnar yfir neyðarmiðstöðinni en utan Kaupmannahafnar rekur lögreglan 40 neyðarmiðstöðvar sem hver tekur við hringingum innan síns svæðis. Rekstur neyðarmiðstöðvanna er á hendi viðbragðsaðilanna en á ábyrgð Tele Danmark Group. TDG er hlutafélag, að 49% í eigu einkaaðila í fjarskipta- og símaþjónustu og að 51% í eigu danska ríkisins.
    Þegar hringt er úr farsíma tekur Tele Danmark Group við öllum símtölum og flytur þau áleiðis til viðbragðsaðilans sem næstur er áfallastað.

c. Í Finnlandi.
    Gögn þau sem við höfum frá Finnlandi eru nærri ársgömul en þar hefur neyðarnúmerið 112 verið tekið í notkun. Á þeim tíma er jafnhliða í notkun sérstakt neyðarnúmer lögreglu. Svo virðist af gögnum að neyðarsímsvörun í 112 vegna björgunar og sjúkraflutninga sé á hendi ríkisins. Áform eru um það í framtíðinni að neyðarsímsvörun fyrir lögregluna fari einnig undir 112 og neyðarþjónustusvæði/umdæmi verði 15 yfir landið allt.

d. Í Svíþjóð.
    112 og eldra neyðarnúmer, sem notað er enn jafnhliða, er í höndum SOS Alarmering, sem er hlutafélag í eigu ríkisins og sveitarfélaga. Þetta er þjónusta sem rekin er jafnhliða viðbragðsþjónustu, svo sem björgunar og sjúkraflutninga. Neyðarsvörun er svæðaskipt.

Niðurstaða.
    Samræmd neyðarsímsvörun fyrir landið allt þjónar mörgum og ólíkum viðbragðsaðilum sem krefjast mismunandi þjónustu af hálfu Neyðarlínunnar. Því getur slík símsvörun aldrei orðið með öðrum hætti en með tilteknu millistigi sem aðskilið er frá verkefnum viðbragðsaðila. Gildir þá einu hvort hún væri í umsjá opinbers aðila, svo sem lögreglu eða slökkviliðs, eða samkvæmt því fyrirkomulagi sem lög nr. 25/1995 gera ráð fyrir. Þetta er einnig í samræmi við það sem gerist varðandi samræmda neyðarsímsvörun á Norðurlöndum.
    Til frekari rökstuðnings fyrir því hvort skynsamlegt sé að halda þessum þjónustuþáttum aðskildum er gagnlegt að skoða hvaða vandamál séu annars vegar í samskiptum slökkviliðsins og Neyðarlínunnar, þar sem ekki er fullur aðskilnaður, og hins vegar í samskiptum lögreglunnar og Neyðarlínunna þar sem fullur aðskilnaður er.

    Óskað er eftir að þér greinið frá reynslu yðar af starfsemi Neyðarlínunnar fyrstu sex mánuði þessa árs og athugasemdum yðar varðandi þá starfsemi.

Þegar leggja á mat á starfsemi Neyðarlínunnar þarf að hafa eftirfarandi í huga:
  a.    Um er að ræða nýja starfsemi á mjög umfangsmiklu sviði og vandasama þjónustu, sem óhjákvæmilega þarf vissa aðlögun, og langur tími getur liðið áður en reynt er á alla þætti.
  b.    Útfærslan er í sumum efnum ómótuð og ekki hafa enn átt sér stað ítarlegar samæfingar símsvörunar og viðbragðsaðila á þeim sviðum þar sem búast má við vandkvæðum. Slíkt þarf þó auðvitað að gera fyrr en síðar.
  c.    Búast má við gagnrýni og viðbrögðum tiltekinna viðbragðsaðila sem byggjast á stéttarfélagslegum forsendum.
  d.    Fagleg gagnrýni getur komið en á alröngum forsendum. Búast má við óréttmætri gagnrýni byggðri á misskilningi, ef viðbragðsaðilar eru ekki nægilega meðvitaðir um muninn á starfi vaktstöðvar Neyðarlínunnar og störfum viðbragðsaðila. Þannig getur t.d. verið sett fram gagnrýni um að starfsmenn vaktstöðvarinnar hafi ekki þjálfun eða getu til að veita tiltekna þjónustu sem aðeins sé á færi viðbragðsaðila að veita. Misskilningurinn liggur síðan í því að starfsmönnum vaktstöðvarinnar er alls ekki ætlað þetta hlutverk, heldur viðbragðsaðilanum sjálfum og því er verið að gefa sér rangar forsendur.
  e.    Til að vaktstöð Neyðarlínunnar geti sinnt starfsskyldum sínum á fullnægjandi hátt þarf hún tilteknar upplýsingar og samvinnu af hálfu viðbragðsaðila. Þjónusta vaktstöðvar Neyðarlínunnar getur þannig verið ófullnægjandi, þó svo að vaktstöðin standi í alla staði vel að sínum þætti mála, ef samstarfsvilji er ekki fyrir hendi.
  f.    Það er auðvitað skylda allra sem að þessum málum standa að gera skipulagið sem best og virkast miðað við hinar raunverulegu forsendur mála. Yfirstjórn lögreglunnar í Reykjavík hefur lagt sig fram um að það fyrirkomulag sem stjórnvöld hafa ákveðið með lögum nr. 25/1995, verði sem árangursríkast. Það hefur meðal annars skilað sér í betri þjónustu frá hendi Neyðarlínunnar til stjórnstöðvar Lögreglunnar í Reykjavík.
  g.    Sú ráðstöfun var gerð að sameina vaktstöð Neyðarlínunnar og stjórnstöð Slökkviliðsins í Reykjavík. Hætta er á að það valdi:
         —    Togstreitu í stjórnun og starfsmannamálum, sem komið getur niður á þjónustu vaktstöðvarinnar.
         —    Líkum á því að þegar kalla þarf út fleiri en einn viðbragðsaðila, svo sem bæði slökkvilið og lögreglu, að slíkt seinki tilkynningu t.d. til lögreglu og manntjón geti hlotist af. Það er gamall og velþekktur vandi að þegar tilkynningar berast til slökkviliðs um tilvik á þeirra sviði, hefur viðbragðsþjónustu þeirra verið gefinn allur forgangur og dregst stundum úr hömlu að láta lögregluna vita, sem þó er oft sá aðili sem næst er staddur. — Þessi vandi eykst um leið og ekki er ætlast til að lögregla fái lengur sjálfstæðar tilkynningar um neyðartilvik.
              —    Tilburðum símvarða til að fara að reyna að stjórna viðbragðsaðilum.

Hvaða forsendur þurfa að vera svo hámarksárangur náist?
    Hér verður í stuttu máli gerð grein fyrir skyldum vaktstöðvar Neyðarlínunnar annars vegar og skyldum viðbragðsaðila hins vegar, því hvor um sig þarf að sinna sínu til að árangur náist. Jafnframt er reynt að gera grein fyrir hlutverki hvors fyrir sig og lýst hvernig samvinnan þurfi að vera, svo að starfsemi vaktstöðvar Neyðarlínunnar nái hámarksárangri.

A.    Skyldur vaktstöðvar neyðarsímsvörunar gagnvart viðbragðsaðilum og viðbragðsaðila gagnvart vaktstöð neyðarsímsvörunar.
1.
    Starfsmenn vaktstöðvar þurfa að kynna sér vel skyldur og þarfir viðbragðsaðila, bæði varðandi samskiptin og möguleika vaktþjónustunnar til að inna af hendi góða og skjóta þjónustu. Einnig ber símvörðunum að upplýsa, verði eftir því leitað af hálfu viðbragðsaðila, hvaða starfsmaður hafi haft með með höndum tiltekinn símtalsflutning eða hjálparbeiðni af hálfu vaktstöðvar.
    Óski viðbragðsaðili neyðarstigs eftir upplýsingum um samtal neyðarsímvarðar við hjálparbeiðanda, eða eftir atvikum endurriti hljóðritunar þess, sé við því orðið.

2.
    Viðbragðsaðilar neyðarþjónustuverkefna þurfa að kynna sér vel starfsemi vaktstöðvar og leggja sig fram um að símtalsflutningur, eða önnur umsamin þjónusta sem veitt er, geti gengið fljótt og vel fyrir sig. Þá ber viðbragðsaðilum að upplýsa vaktstöð neyðarsímsvörunar um það hverjir veiti hverju sinni viðtökum beiðnum um aðstoð og tryggja sem besta möguleika á að koma símtalsflutningi áfram með skjótum og öruggum hætti.
     Kjósi viðbragðsaðili þann kost að fá víðtækari þjónustu en beinan símtalsflutning (almennt þjónustustig) ber hann ábyrgð á því að vaktstöð hafi ávallt á hverjum tíma ítarlegar upplýsingar um á hvern hátt símtali skuli komið áleiðis með beinum og milliliðalausum hætti, svo að trygg staðfesting viðbragðsaðila liggi ávallt fyrir um móttöku.
    Viðbragðsaðilum ber að að veita starfsmönnum vaktstöðvar menntun, þjálfun og starfsreynslu um þau efni sem að þeim snúa, sbr. 8. gr. laganna. Menntun og þjálfun af hálfu viðbragðsaðila skal vera í höndum yfirmanna eða sérhæfðra aðila innan neyðarþjónustunnar og hagað þannig að hún valdi sem minnstri röskun á starfsemi hennar.

B.    Skilgreining á hvað séu neyðarþjónustuverkefni og þjónustan á bak við neyðarsímsvörun.
1.
    Starfsemi vaktstöðvar felst fyrst og fremst í beinum símtalsflutningi til réttra aðila.
    Allur meginhluti hjálparbeiðna sem inn koma varðar starfsvið lögreglu. Aðrar hjálparbeiðnir varða oftast slökkvilið og sjúkraflutningsaðila.
    Ekki er heimilt að fela vaktstöð afgreiðslu eða stjórnun lögregluverkefna. Hlutverk lögreglu, sem er að halda uppi lögum og reglu og aðstoða borgarana, kallar á mjög sérhæfða skipulagningu og verklagsreglur. Skapast þetta fyrst og fremst af því að lögregla hefur margvíslegum öðrum og víðtækari skyldum að gegna en aðrir útkallsaðilar, svo sem eftirlitshlutverki, og lögreglumenn þurfa oft og tíðum á að halda ýmiss konar aðstoð frá stjórnstöð lögreglu.
    Viðbragðsaðilar geta gert samning við vaktstöð um tiltekna þjónustu, svo sem boðun eða þjónustu í útkalli, en þar um verða að liggja fyrir skriflegir samningar um verklag milli aðila, samþykktir af dómsmálaráðuneytinu.
    Ekki gengur að starfsemin sé þannig að neyðarsímsvörunin sinni þjónustusamskiptum þeirra einkaaðila sem eiga hlut að henni. Slík samskipti verða alfarið að vera afgreidd af þjónustustjórnstöðvum á þeirra vegum.

C.    Þjónustan við neyðarsímsvörun.
1.
    Sú þjónusta sem veitt er í tengslum við neyðarsímsvörun getur verið af þrennum toga:
—    Svörun og símtalsflutningur.
—    Svörun og boðun viðbragðsaðila.
—    Svörun, boðun viðbragðsaðila og þjónusta við hann í útkallinu.
    Eftirfarandi reglna þarf að gæta:
    Nauðsynlegt er að starfsmenn vaktstöðvar beini áríðandi málum rakleiðis áfram, þó þannig að þeir tryggi að þeim sé beint á réttan stað. Viss upplýsingaskráning er auðvitað nauðsynleg varðandi staði og svið þar sem ekki er opin starfsemi allan sólarhringinn. Þegar starfsmenn á slíkum stöðum hafa verið kallaðir út breytast aðstæður oftast þannig að unnt er að vísa frekari upphringingum beina leið.
    Oft er nauðsynlegt að útkall berist fleiri en einum viðbragðsaðila. Þannig er áríðandi að tilkynning t.d. um bruna og slys berist greiðlega bæði til slökkvi- og sjúkraliðs og lögreglu. Bæði getur lögreglan oft verið fyrst á vettvang og gert ráðstafanir til hjálpar og bjargar, auk þess sem rannsóknarþáttur málsins er í verkahring lögreglu og mikið ríður á að lögreglu takist að vernda vettvang og rannsaka áður en ummerki breytast eða spillast.
    Vaktstjórar neyðarsímsvörunar eiga ekki að stjórna því hvað berst áleiðist til viðbragðsaðila. Sé vafi á hvert erindi skuli vísað, er eðlilegast að vísa upphringingu áfram til þess aðila sem virðist eiga málið og láta hann um að dæma um málavöxtu. Engu að síður skal símvörður vinsa frá öll ruglmál og þarflausar upphringingar.
    Símtalsflutningi eða boðun telst ekki lokið fyrr en tekist hefur að ná sambandi við viðbragðsaðila. Skilaboð um símsvara eða með öðrum vélrænum hætti telst ekki símtalsflutningur.

2.
Almennt stig:
Svörun og símtalsflutningur.
    Þetta er lægsta þjónustustigið, þar sem þeim sem hringir er gefið beint samband við þann viðbragðsaðila sem bregðast á við. Í þessu felst að tryggja verður svar af hálfu viðbragðsaðila. Ekki nægir t.d. að setja þann sem hringir í samband við símsvara. Hér væri um að ræða:
  a.    Þegar sá sem hringir óskar eftir sambandi við einhvern tiltekinn viðbragðsaðila, svo sem lögreglu, slökkvilið eða sjúkraflutningsþjónustu. Skal viðkomandi þá ekki tafinn með upplýsingatöku heldur tafarlaust tengdur viðbragðsaðila til þess að koma í veg fyrir að borgarinn þurfi að bera upp erindi sitt tvisvar og viðbrögð vaktstöðvarinnar verði skjót og markviss. Þetta leggur þá skyldu á herðar viðbragðsaðila, að tilkynna þegar í stað til vaktstöðvar, þegar ljóst er í slíkum tilvikum að aðrir viðbragðsaðilar komi að málinu.
  b.    Þegar sá sem hringir gefur upp erindi sem fellur undir einn tiltekinn viðbragðsaðila. Þegar símverði er ljóst hvaða viðbragðsaðili eigi að taka við erindinu skal símtalsflutningur framkvæmdur.
  c.    Að sá sem hringir gefur upp erindi sem fellur undir fleiri en einn viðbragðsaðila (t.d. bæði lögreglu og slökkvilið) verður símvörður að tryggja fyrirvaralausan símtalsflutning til beggja (allra) aðila. Í slíkum tilvikum ber símverði að láta viðbragðsaðila vita um að öðrum hlutaðeigandi viðbragðsaðilum muni einnig tilkynnt um málið.

3.
Lægra þjónustustig:
Svörun og boðun viðbragðsaðila.
    Hægt er að semja um að vaktstöð neyðarsímsvörunar annist boðun viðbragðsaðila, t.d. aðila sem ekki hefur stjórnstöð eða ekki er hægt að senda símtal viðstöðulaust til, eða þar sem að öðru leyti óskað er þessarar þjónustu.
    Óski viðbragðsaðili að láta boða sig í gegnum símboða, eða með öðum óbeinum hætti, skal hann svo fljótt sem við verður komið staðfesta móttöku boðunar við stjórnstöð neyðarsímsvörunar.

4.
Hærra þjónustustig:
Svörun, boðun og þjónusta í útkalli.
    Viðbragðsaðilar geta samið við neyðarsímsvörun um tiltekna þjónustu í útkalli. Hér gæti verið um eftirtalin tilvik að ræða:
  a.    Boðun viðbragðsaðila, svo sem í gegnum símboða eða tilgreint símanúmer.
        (Þetta á fyrst og fremst við um aðila sem ekki hafa sólarhringssímaþjónustu.)
  b.    Boðun eða upplýsingatengsl við tiltekna aðila, fyrirtæki eða stofnun — allt eftir fyrirfram gerðri áætlun, eða samkvæmt ósk hverju sinni.
  c    Þjónusta í útkalli, í því skyni að auka öryggi og ná fram rekstrarhagkvæmni, og að útkallið gangi fljótt og vel fyrir sig. Viðbragðsaðilar geta þó ekki framselt til þjónustu lögbundnar starfsskyldur, sem þeim einum er almennt ætlað að sinna.
  d.    Boðun eða útkall hjálparliðs eða þjónustuaðila, skv. sérstakri beiðni viðbragðsaðila eða beiðanda þjónustu, skv. sérstökum verklagsreglum þar um.

5.
Neyðarstig:
Viðbrögð við fjöldainnhringingum vegna neyðartilvika.
    Þegar alvarlegt ástand skapast, t.d. vegna óveðurs, ófærðar eða stærri slysa getur verið ástæða til þess að beina öllum upphringingum af vissum svæðum viðstöðulaust inn til ákveðinnar stjórnstöðvar á svæðinu og láta henni eftir að vinna úr málunum. Á sama veg getur komið upp sú staða, t.d. við almannavarnaástand, að öllum upphringingum af vissum svæðum sé beint viðstöðulaust til ákveðinnar stjórnstöðvar sem gæti eftir atvikum verið utan eða innan svæðis, en hefur verið falið að sjá um fjarskipti og/eða heildarstjórnun aðgerða. Í báðum tilvikum er hraði skilaboðanna mun mikilvægari en einhver flokkun þeirra á millistigum.
    Sé fyrirkomulagi skv. 1. mgr. beitt er gengið út frá því að viðlagastjórnstöð lögreglu eða almannavarnanefnda sé virkjuð. Með „viðlagastjórnstöð“ er átt við stjórnstöð, þar sem fyrir hendi er möguleiki á að þeir viðbragðsaðilar (lögregla, slökkvi- og sjúkraflutningslið, björgunarlið, o.s.frv.) hafi sameiginlega stjórnstöðvaraðstöðu til þess að samnýta krafta sína með milliliðalausum og skilvirkum hætti.
    Fyrir þarf að liggja faglegt mat á því hvort að viðkomandi viðbragðsaðili geti tekið við þeirri þjónustu sem ákvæði þessarar greinar gera ráð fyrir. Dómsmálaráðuneytið þarf að staðfesta slíkt mat.
    Ef meiri háttar neyðarástand eða almannavarnaástand er um að ræða er lögreglu og/eða Almannavörnum heimilt að yfirtaka stjórn vaktstöðvarinnar og eftir atvikum að manna hana að meira eða minna leyti með eigin mannafla.

6.
    Vaktstöð neyðarþjónustu ber að semja við nokkra viðbragðsaðila neyðarþjónustuverkefna, þar á meðal einn aðila a.m.k. utan höfuðborgarsvæðisins, sem svo er búinn tækjum og mannafla að hann geti yfirtekið neyðarþjónustuverkefni vaktstöðvarinnar í neyðartilvikum, svo sem vegna:
  a.    Náttúruhamfara eða almannahættu að öðru leyti.
  b.    Verkfalla eða annarra tilvika, þar sem starfsemi vaktstöðvarinnar kann að lamast. — Það er eðlislægt óskoraður réttur þeirra sem neyðarþjónustu sinna, að taka við hjálparbeiðnum, óháð vinnudeilum eða almennum verkaskiptareglum. Öðru máli gegnir um almenna beiðni um þjónustu.
    Í þeim tilvikum að yfirvofandi sé verkfall, ber vaktstöð að reyna að semja við viðkomandi stéttarfélag um undanþágu til þess að halda úti neyðarsímsvörun, áður en gripið er til úrræða skv. grein þessari. Um leið og í það stefnir að varaaðili samkvæmt grein þessari geti þurft að koma inn í málið skal hann aðvaraður þannig að honum skapist svigrúm til undirbúnings.
    Ákvæði þessarar greinar takmarkast eingöngu við neyðarþjónustuverkefni. Falli starfsemi vaktstöðvar niður vegna verkfalls falli jafnframt niður greiðsluskylda viðbragðs- og þjónustuaðila.
    Samningur aðila varðandi ákvæði þetta þarf staðfestingar dómsmálaráðuneytisins.

7.
Forgangsröðun verkefna.

    Almenna reglan er sú að öll verkefni til viðbragðsaðila neyðarþjónustunnar teljast forgangsverkefni. Innan forgagnsverkefna hafa eftirfarandi flokkar sérstakan forgang:
—    Björgun manna og dýra.
—    Slys og stöðvun slysaástands.
—    Eldsvoði og stöðvun útbreiðslu elds.
—    Afstýring sérstakrar hættu eða hefting atburðarásar sem stefnt getur að slysi eða óhæfuverki, þar með talin útköll vegna bráðra veikinda.
—    Yfirstandandi afbrot eða óhæfuverk.
—    Afbrot, þar sem bregðast þarf skjótt við með hliðsjón af aðstæðum máls, leit að brotamanni, verndun vettvangs o.s.frv.
    Slíkum verkefnum verður vaktstöð Neyðarlínunnar umsvifalaust að koma áfram til viðkomandi viðbragðsaðila.

Niðurstaða.
    Í ljósi reynslu Lögreglunnar í Reykjavík af vaktstöð Neyðarlínunnar á fyrstu sex mánuðum þessa árs má segja að vaktstöðin hafi að mörgu leyti unnið gott starf við erfið skilyrði — skilyrði sem hafa verið henni andsnúin. Ekki hefur reynt á verulega stór verkefni og því fyrirvari settur þar um. Þá ber að geta þess að yfirstjórn Neyðarlínunnar hefur ávallt brugðist skjótt og vel við fyrirspurnum og athugasemdum og er greinilega öll af vilja gerð til að hlutirnir takist sem best.
    Eins og rakið hefur verið í greinargerð þessari getur starfsemi vakstöðvar Neyðarlínunnar samkvæmt því fyrirkomulagi sem henni er markað í lögum nr. 25/1995 vel gengið og aukið til muna öryggi neyðarþjónustunnar, sérstaklega á svæðum þar sem ekki er sólarhringsvakt.
    Eftirfarandi athugasemdum er komið á framfæri:
    Efasemdum er lýst á ágæti þess fyrirkomulags að sameina vaktstöð Neyðarlínunnar og stjórnstöð Slökkviliðsins í Reykjavík. Þetta ætti þegar að aðskilja til samræmis við það sem gerist milli vakstöðvarinnar og annarra viðbragðsaðila. Þá hefði hvor aðili fyrir sig (Slökkviliðið í Reykjavík annars vegar og Neyðarlínan hins vegar) betri möguleika á því að láta hæfileika sína njóta sín, hvor á sínu sérsviði, til hagsbóta fyrir alla aðila.
    Vonbrigðum er lýst með að ekki skuli enn hafa verið gefin út reglugerð um samræmdu neyðarsímsvörunina.
    Áhyggjum er lýst með hvernig til muni takast við t.d. stórslys eða almannavarnaástand þegar margar innhringingar koma til vaktstöðvarinnar. Það hefur komið fyrir, þegar samhliða er verið að þjónusta slökkviliðið í hinni sameiginlegu stjórnstöð þess og vaktstöðvarinnar, að innhringingar safnast upp t.d. vegna sama máls og síðan er tíma eytt í að móttaka tilkynningahrinu (fjölda innhringinga) vegna sama málsins áður en lögreglu er gert viðvart.
    Í ákveðnum tegundum tilvika eru eðlislægir ókostir við að hafa millistig, t.d. þegar um er að ræða eftirför hættulegs ökumanns eða brotamanns, og nýjar upplýsingar eru að berast í sífellu frá almenningi. Yfirstjórn Lögreglunnar í Reykjavík er þó ekki kunnugt um vandamál sem af þessu hafi hlotist. Rétt er að árétta að einnig fylgja því ýmsir ótvíræðir kostir að hafa millistig og getað þannig flokkað verkefnin til réttra aðila, flokkað frá falshringingar o.fl.

Guðmundur Guðjónsson,


yfirlögregluþjónn í Reykjavík.





Fylgiskjal II.


Bréf Slökkviliðs Reykjavíkur.


(2. september 1996.)



    1. Vegna fyrirspurnar um tækjabúnað hjá Slökkviliði Reykjavíkur til símsvörunar þá var þegar árið 1986 farið að tala um nauðsyn endurnýjunar hans. Því var hins vegar stöðugt slegið á frest vegna umræðu um sameiginlegt neyðarnúmer. Símstöð var gömul og úrelt og allar símalínur fóru gegnum hana nema tvær. Ef hún hefði bilað var því eingöngu hægt að svara um tvær símalínur. Eins fóru allar símalínur um miðbæjarstöð Pósts og síma. Svo illa vildi til að tæknibúnaður í henni bilaði oft á árunum 93–94. Á meðan slík bilun varði var lögregla og slökkvilið símasambandslaust. Það ríkti því mikið ófremdarástand. Upptökubúnaður var úreltur. Á sínum tíma lágu fyrir tillögur um að taka upp sameiginlegt neyðarnúmer fyrir svæðisnúmer 91 með aðsetur í húsnæði slökkviliðsins. Þar var gert ráð fyrir nýjum tækjabúnaði og lá fyrir samþykkt útboðslýsing vegna væntanlegra kaupa hjá Innkaupastofnun Reykjavíkurborgar. Af þessum hugmyndum varð þó aldrei. Fyrst og fremst vegna þess að ekki var ljóst hver færi með forræði í þessu máli.
    Þegar ákveðið var að byrja svörun um áramót í húsakynnum slökkviliðsins fyrir hluta af landinu var símstöð endurnýjuð og tölvubúnaður. Jafnframt því var upptökubúnaður bættur. Fyrir hendi var vararafstöð auk alls fjarskipta- og samskiptabúnaðar við Slökkvilið Reykjavíkur. Það þurfti hins vegar að vinna mikla vinnu varðandi upplýsingar um útkallsaðila. Nú er að verða tilbúinn gagnagrunnur með upplýsingum um útkallsaðila og hvernig eigi að boða neyðarsveitir út. Það á eftir að auðvelda allt starf neyðarvarða. Þá var húsnæði varðstofu slökkviliðsins of lítið til að geta sinnt öllu landinu gagnvart 112. Þá hefði þjónusta við einkaaðila ekki komið til greina. Í ljósi framansagðs er svarið nei.

    2. Með aðskilnaði svörunar og boðunar frá starfsemi útkallsaðila verður til mynstur þar sem neyðarsveitir veita þeim sem svara og boða ákveðið eftirlit og öfugt. Séu neyðarsveitir óánægðar með greiningu eða boðun og upplýsingar um viðkomandi atburð, kvarta þær. Eins fylgjast svarendur með viðbragði neyðarsveita og einkaaðila og gera ráðstafanir ef með þarf. Kerfið verður því mun gagnsærra en ef það er allt á hendi eins aðila. Þetta á bæði við um opinbera aðila og einkaaðila. Hvað varðar einkaaðila þurfa þeir að skilgreina viðbragð sitt gagnvart Neyðarlínunni h/f sem gerir þá athugasemd ef ekki er við það staðið gagnvart viðskiptavini viðkomandi fyrirtækis. Þessi krafa hefur ekki verið gerð til opinberra aðila. Þannig liggur ekki fyrir hver útkallstími slökkvi- og sjúkrabíla á að vera á hverjum stað. Þjónustustig hefur ekki verið skilgreint.
    Skipulag neyðarsímsvörunar er mjög mismunandi í nágrannalöndunum. Í Noregi eru þrjú númer. 111 fyrir slökkvilið, 112 fyrir lögreglu og 113 vegna sjúkrabíls og læknis. Kerfið er viðurkennt því ef þú hringir í 112 geta þeir gefið samband á hin númerin. Númerið 112 er hins vegar ekkert auglýst innan lands heldur öll þrjú númerin. Þetta kerfi er mjög óskilvirkt og dýrt. Það eru því uppi hugmyndir um að breyta því. Deilurnar sem það hefur vakið upp eru ekki ósvipaðar og skapast hafa hér þ.e hverjir eiga störfin, hvar á loka, togstreita um staðsetningu vaktstöðva o.sv.fr. Þar er svörunin á hendi opinberra aðila. Fyrir tveimur árum kom út reglugerð sem segir til um menntun þeirra sem vinna á 111 sem svara fyrir slökkvilið. 19.–23. september verður hér á landi slökkviliðsstjórinn í Ósló en hann hefur gagnrýnt nokkuð núverandi kerfi. Getur hann gefið nánari upplýsingar. Ekki er óalgengt að hvert slökkvilið sé með eigin vaktstöð. Til að ná niður kostnaði eru þessar vaktstöðvar í samkeppni við einkaaðila. Þannig vaktar slökkviliðið í Ósló alla öryggishnappa. Í Berum eru vöktuð hvers kyns viðvörunarkerfi. Jafnframt því býður slökkviliðið vaktþjónustu í samkeppni við einkafyrirtæki.
    Í Danmörku sér Slökkvilið Kaupmannahafnar um að svara fyrir 112 fyrir Stór-Kaupmannahöfn. Þar má segja að um símtalsflutning sé að ræða í öllum tilvikum. Öll símtöl til lögreglu eru gefin áfram. Á Kaupmannahafnarsvæðinu eru slökkvilið ýmist í eigu sveitarfélaganna og rekin af þeim eða einkavædd slökkvilið með samning við sveitarfélögin. Sjúkraflutningar eru einnig ýmist á hendi Slökkviliðsins í Kaupmannahöfn eða einkareknu liðanna. Einkareknu slökkviliðin reka sína eigin vaktstöð og fá símtalsflutning frá Slökkviliði Kaupmannahafnar. Þar er jafnframt öflug vöktun annnara kerfa og ýmiskonar önnur þjónusta en svörun í 112 sem þessi fyrirtæki eru með á sínum snærum auk verktökunnar í slökkvistörfum. Þannig ná þeir niður rekstrarkostnaði. Annars staðar í landinu svarar lögreglan fyrir 112 og greiðir ríkið kostnaðinn af því. Það eru því einungis Kaupmannahöfn og sveitarfélögin þar í kring sem hafa kostnað af neyðarsímsvörun. Hefur það verið gagnrýnt af ráðamönnum þessara sveitarfélaga og ég spái því að þetta fyrirkomulag eigi eftir að taka miklum breytingum innan tíðar.
    Í Danmörku og Noregi er skipulag björgunarmála líkt og hér heima þ.e. allt forræði í höndum lögreglu. Tekur neyðarsímsvörunin því eðlilega mið af þeim lögum.
    Í Svíþjóð og Finnlandi eru lög um björgunarþjónustu frábrugðin. Þar fer lögregla ekki með forræði björgunarmála heldur „räddningstjänsten“. Hefur hlutverki slökkviliða verið breytt í þessum löndum og er mun víðfeðmara en hér á landi og í Danmörku og Noregi. Tekur neyðarsímsvörunin mið af þessu. Auk þess er tekið tillit til stríðsástands og hvernig almannavarnir eru upp byggðar.
    Í Helsinki er 112 undir almannavörnum en þær heyra aftur undir slökkviliðsstjórann. Símsvörunin fer fram í stjórnstöð almannavarna 20 metra niður í jörðinni. Hafa Finnar valið þessa leið m.a til að ná niður kostnaði. Þeir eru samkvæmt lögum skyldugir til að byggja kjarnorkuheldar stjórnstöðvar til notkunar í stríði. Þessi stjórnstöð er síðan notuð á friðartímum. Þar er eingöngu svarað í 112. Þeir sjá um að boða út og þjónusta slökkvibíla og sjúkrabíla í útkalli. Símtalsflutningur er hins vegar á lögreglu sé eingöngu um lögreglumál að ræða. Engin vöktun sjálvirkra viðvörunarkerfa fer þarna fram utan brunaviðvörunkerfa. Sveitarfélögin standa straum af rekstrarkostnaði með styrkjum frá ríkinu.
    Í Svíþjóð sér fyrirtækið SOS Alarm A/S um alla neyðarsímsvörun. Þeir eiga og reka um 20 vaktstöðvar víðs vegar um Svíþjóð. Mjög lítið er um símtalsflutninng nema til lögreglu. Öll boðun og þjónusta í útkalli fer því fram á þessum vaktstofum. Þó eru dæmi um símtalsflutning t.d. í Helsingborg. Þar rekur slökkviliðið sína eigin vaktstöð og fær símtalið til sín. Það er þó gagnrýnt vegna kostnaðar. Fyrirtækið lýtur lögmálum markaðarins en öll hlutabréf eru í eigu ríkisins og lensins. Ástæða þess að sögn forráðamanna fyrirtækisins er sú að það hefur hlutverki að gegna í stríði og því óheppilegt ef óvinurinn hefur keypt upp hlutabréfin. Fyrirtækið er í samkeppni við einkaaðila um vöktun viðvörunarkerfa og skapar sér þannig verulegar tekjur til að draga úr rekstrarkostnaði. Það gerir hins vegar samning við hvert sveitarfélag fyrir sig um þjónustustig og boðun og þjónustu í útkalli. Velji sveitarfélag símtalsflutning þarf það samt að greiða verulega peninga til SOS alarm. Það verður því mun dýrari kostur og er því sjaldgæfur.
    Af þessari lýsingu má ráða að fyrirkomulag neyðarsímsvörunar í nágrannalöndunum er ákaflega mismunandi. Aðstæður og lagarammi ráða. Það er hins vegar ekki rétt að hún sé alltaf á hendi opinberra aðila eins og fram hefur komið.

    3. Reynsla Slökkviliðs Reykjavíkur af samræmdu neyðarnúmeri hefur verið góð frá áramótum.

Virðingarfyllst,



Hrólfur Jónsson,


slökkviliðsstjóri.





Fylgiskjal III.


Bréf frá Neyðarlínunni hf.


(28. ágúst 1996.)



    Eftirfarandi upplýsingar eru svör við bréf yðar dags. 15. ágúst 1996 þar sem óskað var eftir upplýsingum af hálfu Alþingis um samræmda neyðarsímsvörun.
    Í fyrirspurn Alþingis kemur glöggt fram efasemd um samrekstur neyðarsímsvörunnar og þjónustu við öryggisfyrirtæki. Þetta er ein af megin forsendum þess að ná megi fram hagræðingu sem kemur ríki og sveitarfélögum til góða með lægri framlögum til reksturs neyðarvaktstöðvar. Það má til sannsvegar færa að með þátttöku öryggisfyrirtækjanna í rekstri neyðarvaktstöðvar sparar ríkið og sveitarfélögin samtals um 240 milljónir króna á átta ára samningstímanum.

1. Húsnæðismál.
    Frá upphafi var gert ráð fyrir sérstöku húsnæði undir starfsemi Neyðarlínunnar hf. Tveir möguleikar voru til athugunar. Í fyrsta lagi að leita að notuðu húsnæði og gera nauðsynlegar breytingar í samræmi við kröfur verkkaupa (ráðuneytisins). Í öðru lagi að byggja sérhannað húsnæði þar sem kröfurnar væru teknar með á hönnunarstigi húsnæðisins. Ekki tókst að finna hentugt notað húsnæði sem annað hvort var of stórt eða kostnaður við breytingar of mikill. Áætlun um húsnæðisþörfina kemur fram í skýrslu ráðgjafa frá Verkfræðistofunni Vista:
I.     Samkvæmt könnun Vista frá 1/6/95:
    Ca. 400 m² húsnæði:
    200 m² fyrir skrifstofur, framkvæmdastjóra, eldhús o.fl.
    5x15 m² = 75 m² vaktherbergi.
    25 m² æfingaherbergi.
    35 m² tækjaklefi — símainntak, rafmagnstöflur o.fl.
    10 m² varaafl, rafhlöður.
    15 m² varaafl, rafstöð — hljóðeinangrað.
    20 m² loftræstikerfi.
    20 m² tölvuherbergi m. viðhaldsaðstöðu.
    15 m² umsýsla, viðhald á gagnagrunni og prófanir.
    Reykjavíkurborg lagði fram tillögu í stjórn um viðbyggingu við slökkvistöðina í Öskjuhlíð og var fallist á það af hálfu stjórnar eftir samningaviðræður við Reykjavíkurborg. Samningurinn gerir ráð fyrir samnýtingu að hluta á húsnæði slökkviliðsins, eins og mötuneyti, fundaraðstöðu o.þ.h., ásamt 330 m² nýbyggingu. Húsnæðið er í eigu Reykjavíkurborgar og greiðir Neyðarlínan um 2,9 milljónir króna í leigu á ári. Byggingarkostnaður er áætlaður um 35 milljónir króna.
    Í þjónustusamningnum við dómsmálaráðuneytið voru settar fram ákveðnar öryggiskröfur til húsnæðisins sem gerir það dýrara en sambærilegt skrifstofuhúsnæði:

II.          Grein 0.2.15 í þjónustusamningi — öryggisráðstafanir.
    „Verktaka er skylt að gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja öryggi neyðarvaktstöðvarinnar gagnvart utanaðkomandi ógn. Hindra skal aðgang óviðkomandi að neyðarvaktstöð og skal aðgangur takmarkast við starfsmenn verktaka. Undir sérstökum kringumstæðum getur verktaki leyft aðgang að neyðarvaktstöð, t.d. við móttöku gesta, svo fremi sem tryggt verði að slíkt hafi ekki ákrif á starfsemi neyðarvaktstöðvarinnar.“

III.    Grein 1.0.1 í þjónustusamningi — yfirlit.
    „ . . .  Þær kröfur eru gerðar til húsnæðis neyðarvaktstöðvar að jarðtenging húsnæðis sé góð og skermun raflagna tryggi að viðkvæmur tölvubúnaður geti ekki orðið fyrir truflunum frá þeim. Húsnæðið skal uppfylla gildandi kröfur varðandi t.d. brunaþol, brunaviðvörun, slökkvibúnað, burðarþolsleg atriði og aðrar þær öryggiskröfur sem í gildi eru.“

2. Samrekstur neyðarsímsvörunar og öryggisþjónusta.
    Starfsemi Neyðarlínunnar hf er tvíþætt. Í fyrsta lagi neyðarsímsvörun fyrir samræmda neyðarnúmerið 112 og í öðru lagi vaktþjónusta við öryggisfyrirtæki. Neyðarsímsvörunin hefur forgang í starfseminni en samningurinn við dómsmálaráðuneytið gerir ráð fyrir því að Neyðarlínan hf geti tekið að sér vaktþjónustu fyrir öryggisfyrirtæki og aðra enda komi sú þjónusta ekki niður á neyðarsímsvöruninni. Samrekstur á neyðarsímsvörun og þjónustu við öryggisfyrirtæki er augljóslega hagkvæmur fyrir báða aðila. Starfsmenn Neyðarlínunnar verða þjálfaðir í að taka við neyðarsímtölum svo og boðum frá öryggiskerfum. Vaktstöðin starfar allan sólahringinn, alla daga ársins. Öryggisfyrirtækin geta lagt niður sína vaktstöð og keypt vaktþjónust af Neyðarlínunni hf. Þau verða áfram með vaktmenn sem annað hvort eru við staðbundna öryggisgæslu eða eru til taks í vaktbílum fyrirtækjanna og eru þeir alfarið á vegum öryggisfyrirtækjanna. Með þessu fyrirkomulagi er búið að skipta öryggisþjónustu upp í vaktþjónustu og viðbragðsþjónustu. Neyðarlínan sér eingöngu um vöktun öryggiskerfanna á meðan öryggisfyrirtækin sjá um kerfis- og viðbragðsþjónustu. Þetta þýðir meira öryggi fyrir neytendur þar sem tímaskráning atburða og viðbragðstími þjónustuaðila (öryggisfyrirtækjanna) er skráður hjá Neyðarlínunni en ekki hjá öryggisfyrirtækjunum sjálfum.
    Um meðferð trúnaðarupplýsinga er það að segja að allt sem fram fer á vaktstofu Neyðarlínunnar hf er hljóðritað og geymt í a.m.k. 3 mánuði. Upplýsingar sem skráðar eru á vaktstofu eru trúnaðarupplýsingar sem ekki eru látnar af hendi nema til þeirra sem málið varðar. Upplýsingar um viðskiptavini öryggisfyrirtækja eru milli þessara aðila þannig að annað öryggisfyrirtæki hefur ekki aðgang að þeim upplýsingum. Starfsmenn á vaktstofu skrifa undir heitstaf sem m.a. segir að þagmælska gildir um öll atriði sem leynt skulu fara samkvæmt lögum um neyðarsímsvörun nr. 25/1995. Enginn greinarmunur er gerður á meðferð upplýsinga vegna samræmdrar neyðarsímsvörunar og þjónustu við einkafyrirtæki gangvart trúnaði og meðferð trúnaðarupplýsinga.

3. Fjármögnun.
    Kostnaðaráætlun gerir ráð fyrir að stofnkostnaður við að koma vaktstöðinni á laggirnar verði um 65 milljónir króna. Til stofnkostnaðar telst m.a. kaup á tölvubúnaði og símstöð, hugbúnaðargerð, skrifstofubúnaður og þjálfunarkostnaður starfsmanna. Upphafleg áætlun gerði ráð fyrir um 54 milljónum króna stofnkostnaði. Greiðslum vegna stofnkostnaðar er dreift á átta ára samningstímann. Leitað var tilboða í fjármögnunina hjá bönkum og sparisjóðum og gengið til samninga við Landsbanka Íslands. Árlegur rekstrarkostnaður er áætlaður um 70 milljónir króna sem greiðist u.þ.b. til helminga af eigendum annarsvegar og ríki og sveitarfélagi hinsvegar. Samkvæmt samningnum við dómsmálaráðuneytið leggja eigendur um 35 milljónir króna til rekstur neyðarvaktstöðvarinnar. Að hluta til er um að ræða greiðslur fyrir vaktþjónustu á öryggiskerfum.
    Samkvæmt samningnum við dómsmálaráðuneytið verður eignarhald tækjabúnaðar eign verkkaupa og verktaka í hlutfalli við árlegar greiðslu. Húseignin er í eigu Reykjavíkurborgar en leigð til Neyðarlínunnar sem hefur fullan umráðarétt yfir húsnæðinu. Hvað varðar samnýtingu af hluta núverandi húsnæðis Slökkviliðs Reykjavíkur er umráðaréttur í samráði við slökkviliðið.

4. Samstarf starfsmanna.
    Neyðarlínan hf hefur ráðið eigin starfsmenn sem verða þjálfaðir sem neyðarsímaverðir. Samstarf starfsmanna Neyðarlínunnar hf og öryggisfyrirtækjanna verður á sömu nótum og við aðra samstarfsaðila, eins og lögregluna og slökkviliðið. Starfsmenn Neyðarlínunnar hf verða í fjarskiptasambandi við bifreiðar öryggisfyrirtækjanna vegna neyðarboða frá öryggiskerfum. Gerður var samningur við Reykjavíkurborg um störf slökkviliðsmanna á vaktstofu Neyðarlínunnar hf. Samningurinn felur í sér að tveir slökkviliðsmenn verða á hverri vakt og sjá um útköll á svæði Slökkviliðs Reykjavíkur. Þessir starfsmenn fá sömu þjálfun og aðrir starfsmenn enda verða þeir að geta og munu þurfa að sinna öllum störfum sem fram fara á vaktstöðinni.

5. Gjaldskrá Neyðarlínunnar.
    Gjaldskrá Neyðarlínunnar hf er fyrst og fremst byggð á vöktun öryggiskerfa. Þau fjögur öryggisfyrirtæki sem eru eignaraðila að Neyðarlínunni hf og óskað hafa eftir vaktþjónustu, greiða árlega kr. 2,0 milljónir í fastagreiðslu. Að auki greiða þau fyrir hverja tengingu sem tengd verður vaktstöðinni. Gjaldskráin er byggð upp á eftirfarandi hátt:

Max-kerfi X% niður Gjald á mánuði Gjald á ári
100 100.000 100.000 1.200.000
200 70.000 170.000 2.040.000
300 49.000 219.000 2.628.000
400 34.300 253.300 3.039.600
500 24.010 277.310 3.327.720
600 16.807 294.117 3.529.404
700 16.000 310.117 3.721.404

    Kostnaður við fyrstu 100 tengingarnar er kr. 1.000 en lækkar um 30% fyrir næstu 100 tengingar þar til mánaðarlegt gjald fyrir 100 aukakerfi er komið niður í kr. 16.000.
Þess má geta að gjaldskráin hefur verið lögð fyrir öryggisfyrirtækin og samkeppnisstofnun og voru ekki gerðar athugasemdir við hana.

Virðingarfyllst,



Eiríkur Þorbjörnsson,


framkvæmdastjóri.





Fylgiskjal IV.


Greinargerð Ríkisendurskoðunar.


(14. október 1996.)



(7 síður myndaðar.)





Fylgiskjal V.


Hagvangur hf.:

Auglýsing frá Neyðarlínunni hf. eftir starfsfólki.


(15. mars 1996.)



NEYÐARLÍNAN 112



    Nú er komið að því að ráða aftur í störf hjá Neyðarlínunni hf.
    Markmið með Neyðarlínunni er að samræma neyðarsímsvörun fyrir lögreglu, slökkvilið, sjúkraflutning og björgunarsveitir.
    Aðilar sem standa að Neyðarlínunni hf. eru Slysavarnafélag Íslands, Póstur og sími, Reykjavíkurborg fyrir Slökkvilið Reykjavíkur, Securitas, Vari og Sívaki.
    Neyðarlínan hf. óskar eftir neyðarvörðum til starfa í stjórnstöð fyrirtækisins. Neyðarverðir þurfa að uppfylla eftirfarandi skilyrði:
* hreint sakavottorð,
* vélritunarkunnáttu,
* góða heilsu,
* viðbragðsflýti,
* tungumálakunnáttu,
* tölvukunnáttu,
* stúdentspróf eða aðra haldgóða menntun,
* þekkingu á íslenskum staðháttum,
* aldur 25–45 ára,
* geta unnið vaktavinnu,
* áreiðanleika,
* samviskusemi,
* jákvætt og gott viðmót.
    Æskilegur bakgrunnur er reynsla og þekking af störfum m.a. frá lögreglu, slökkviliði, hjúkrunarstörfum, björgunarstörfum og öryggisvarðastarf.
    Gerð er krafa um að viðkomandi gangist undir stöðumat eða hæfnispróf, leggi fram læknisvottorð og hafi áhuga og metnað til að starfa að öryggismálum.
    Að lokinni ráðningu verður starfsfólk þjálfað af viðbragðsaðilum, kynnt starfsumhverfið og starfið sjálft. Einnig fer fram starfsþjálfun á þeim tækjum og búnaði sem notaður verður í neyðarvaktstöðinni
    Allar umsóknir merktar „Neyðarlínan 112“, ásamt mynd, skulu sendar Ráðningarþjónustu Hagvangs hf. Skeifunni 19, 108 Reykjavík, á sérstökum umsóknareyðublöðum sem þar liggja frammi. Með allar umsóknir verður farið sem trúnaðarmál og þeim öllum svarað.
    Athugið! Þeir sem eiga eldri umsóknir vinsamlega hafi samband við Ráðningarþjónustu Hagvangs hf.
    Starfsfólk ráðningarþjónustu Hagvangs hf. mun fúslega veita allar nánari upplýsingar og ber að beina öllum fyrirspurnum til þeirra.
    Umsóknarfrestur er til 29. mars nk.



Fylgiskjal VI.

Reglugerð um framkvæmd samræmdrar neyðarsímsvörunar.



I. KAFLI

Gildissvið og skilgreiningar.

1. gr.

    Skilgreiningar hugtaka:
    Vaktstöð: varðstöð þar sem komið er fyrir nauðsynlegum tæknibúnaði og aðstöðu fyrir starfsfólk til að svara þegar hringt er í samræmda neyðarnúmerið 112.
     Þjónusta vaktstöðvar: þjónusta, tengd neyðarsímsvörun, og önnur þjónusta sem veitt er samkvæmt sérstöku samkomulagi við vaktstöð.
     Neyðarþjónusta: aðstoð sem lögregla, slökkvilið, sjúkraflutningalið, læknar og björgunarsveitir veita.
     Neyðarsveit (neyðarþjónustuaðili í lögunum): sveit manna sem veitir neyðarþjónustu.
     Öryggisþjónusta: sú starfsemi að gæta eigna einstaklinga, fyrirtækja eða opinberra aðila gegn greiðslu.
     Öryggisfyrirtæki: fyrirtæki, sem sinnir fyrst og fremst öryggisþjónustu.

II. KAFLI

Framkvæmd laganna.

2. gr.

    Þeim sem bera ábyrgð á síma- og fjarskiptamálum á Íslandi, er skylt að gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að símnotendur geti jafnan náð sambandi við símanúmerið 112. Óheimilt er að nota þá tölu sem símanúmer eða annað auðkenni í fjarskiptakerfi á Íslandi. Einnig er óheimilt að nota orðið neyðarnúmer eða neyðarsímanúmer eitt sér eða í orðasamböndum um aðra starfsemi hér á landi en reglugerð þessi og lög um samræmda neyðarsímsvörun kveða á um.
    Þeim sem um getur í 1. mgr. er jafnframt skylt að viðhalda því ástandi sem þeim er ætlað að koma á til að tryggt verði, eins og kostur er, að jafnan megi ná sambandi við símanúmerið 112. Ber þeim í því skyni að viðhalda tæknibúnaði, endurnýja hann eftir þörfum og sjá til þess að hann sé ávallt í góðu ástandi.

3. gr.

    Dómsmálaráðherra ákveður hverjir reka samræmda neyðarsímsvörun og semur við þá um rekstrarfyrirkomulag og rekstrarkostnað. Honum er heimilt að semja við opinberar stofnanir, sveitarfélög og aðra aðila um fyrirkomulag, fjármögnun og þátttöku í slíkum rekstri.
    Sá sem tekur að sér neyðarsímsvörun skal koma á fót og starfrækja vaktstöð eða vaktstöðvar til að taka við tilkynningum sem berast um samræmt neyðarsímanúmer og vinna úr þeim.

4. gr.

    Í vaktstöð skal m.a.:
    svarað samræmda neyðarsímanúmerinu 112, enda einskorðist notkun þess við beiðnir um neyðaraðstoð frá lögreglu, slökkviliði, sjúkraflutningaliði, læknum og björgunarsveitum,
    sinnt boðun, upplýsinga- og fjarskiptaþjónustu í þágu neyðarsveita og gætt viðvörunarkerfa fyrir öryggisfyrirtæki, enda komi sú starfsemi ekki niður á símavörslu skv. 1. tölul.

5. gr.

    Rekstraraðila vaktstöðvar er heimilt að semja við neyðarsveitir um að stöðin annist boðun, upplýsinga- og fjarskiptaþjónustu í þeirra þágu.
    Einnig er rekstraraðila vaktstöðvar heimilt að semja við öryggisfyrirtæki um að stöðin annist vöktun viðvörunarkerfa (neyðarkerfa) að fullnægðum tilteknum skilyrðum skv. V. kafla þessarar reglugerðar.
    Samningar um starfsemi skv. 1. og 2. mgr. eru háðir samþykki dómsmálaráðherra.
    Aukaþjónusta vaktstöðvar skv. 1. og 2. mgr. má aldrei standa í vegi fyrir því að stöðin sinni lögbundinni neyðarsímavörslu.

6. gr.

    Til þess að vaktstöð geti ávallt sinnt hlutverki sínu skal rekstraraðili hennar ábyrgjast svo góða afkomu og rekstur að starfsemin stöðvist ekki né lamist og að tækjabúnaður sé fullnægjandi og í góðu ástandi.
    Bókhald og reikningshald er háð eftirliti og endurskoðun löggiltra endurskoðenda. Auk þess getur Ríkisendurskoðun skoðað reikninga í tengslum við rekstur vaktstöðvar og skal þá fá aðgang að öllum bókhaldsgögnum stöðvarinnar.

7. gr.

    Þjónusta sem veitt er í tengslum við neyðarsímavörslu getur verið af þrennum toga:
    1. Símsvörun og flutningur símtals.
    2. Símsvörun og boðun neyðarsveitar.
    3. Símsvörun, boðun neyðarsveitar og þjónusta við hana í útkalli.
    Neyðarsveit velur einn eða fleiri af þessum kostum.
    Öllum neyðarsveitum er skylt að tengjast vaktstöð og njóta þá annaðhvort símsvörunar og flutnings símtals eða símsvörunar og boðunar til hjálparstarfa. Þessi þjónusta er veitt án þess að sérstök greiðsla komi fyrir. Ef neyðarsveit óskar eftir þjónustu skv. 3. tölul. 1. mgr., þarf hún að fullnægja skilyrðum vaktstöðvar um tæknibúnað. Fyrir slíka aukaþjónustu skal greitt samkvæmt gjaldskrá sem dómsmálaráðherra samþykkir.
    Skilyrði þess að neyðarsveit fái að tengjast vaktstöð og njóta einungis símsvörunar og símtalsflutnings er að hún haldi sjálf uppi vakt allan sólarhringinn.
    Þjónustustig skulu nánar skilgreind í starfsreglum skv. 10. gr. svo og gagnkvæmar skyldur vaktstöðvar og neyðarsveita.

8. gr.

    Rekstraraðila vaktstöðvar ber að semja við neyðarsveit, vel búna tækjum og mannafla, um að taka við þjónustu stöðvarinnar ef mikið liggur við, svo sem vegna náttúruhamfara, hernaðaraðgerða eða annarra tilvika, sem gætu lamað starfsemi vaktstöðvarinnar.

9. gr.

    Starfsmenn vaktstöðvar skulu hafa stúdentspróf eða sambærilega menntun þar sem sérstök áhersla er lögð á tungumálakunnáttu.
    Sérhver nýr starfsmaður vaktstöðvar skal hljóta bóklega og verklega menntun sem hæfi væntanlegu starfi hans. Er rekstraraðila vaktstöðvar skylt að halda a.m.k. átta vikna námskeið fyrir nýliða, þar sem kenndar eru bóklegar og verklegar námsgreinar, og skulu þeir m.a. fá hagnýta þjálfun hjá völdum neyðarsveitum, sem skylt er að veita þessa þjónustu. Á námskeiðum skulu m.a. kennd undirstöðuatriði í mannlegum samskiptum og fyrstu viðbrögð við áföllum.
    Árlega skulu haldin námskeið fyrir símaverði vaktstöðvar, sem standi eigi skemur en eina viku.

10. gr.

    Rekstraraðila vaktstöðvar ber að setja verklagsreglur um starfsemi vaktstöðvarinnar. Tilgangur þeirra er að staðla vinnureglur fyrir símaverði og gefa dómsmálaráðherra yfirsýn yfir þjónustu vaktstöðvar. Þar skulu vera ítarleg ákvæði um eftirfarandi atriði:
    1. Starfsmenn: vaktaskipti og meðferð trúnaðarmála,
    2. Símsvörun: framkomu símavarða, upplýsingasöfnun, afgreiðslu erinda, flokkun og forgangsröðun, forgangsröðun neyðarerinda og upptökur eða hljóðritanir,
    3. Neyðarsveitir: flokkun neyðarsveita, símtalsflutning, boðun og útkallsþjónustu,
    4. Samskipti eða fjarskipti: fjarskipti við neyðarsveitir, erindi til lögreglu, erindi til sjúkraflutningaliðs og erindi til slökkviliðs.
    Starfsreglur skulu liggja fyrir eigi síðar en 6 mánuðum eftir að vaktstöð hefur starfsemi sína. Skulu þær lagðar fyrir samstarfsnefnd skv. VI. kafla til samþykktar og er skylt að fara eftir tilmælum nefndarinnar um breytingar á reglunum.
    Starfsreglur eru háðar samþykki dómsmálaráðherra.

III. KAFLI

Upplýsingaskylda við vaktstöðvar.

11. gr.

    Eftirtaldir aðilar skulu gefa vaktstöð upplýsingar um öll þau atriði sem stuðlað geta að bestum árangri í hjálparstarfi hverju sinni:
    1. Lögregla.
    2. Slökkvilið.
    3. Sjúkraflutningalið.
    4. Héraðslæknar.
    5. Landsbjörg og Slysavarnarfélag Íslands.
    Upplýsingar skv. 1. mgr. skulu taka til eftirtalinna atriða að minnsta kosti:
    1. Hverjir taka við beiðnum um aðstoð neyðarsveitar.
    2. Hvaða þjónusta er í boði.
    3. Hvert er menntunar- og þjálfunarstig sveitarinnar.
    4. Hvaða tækjabúnaður er tiltækur.
    Upplýsingar skv. 1. og 2. tölul. 2. mgr. skulu veittar skriflega án þess að um þær sé beðið, en upplýsingar skv. 3. og 4. tölul. 2. mgr. skulu aðeins veittar ef þess er óskað. Móttaka upplýsinganna skal staðfest af vaktstöð. Breytingum á áður gefnum upplýsingum skal einnig komið til vaktstöðvar og er það á ábyrgð neyðarsveitar að upplýsingarnar berist stöðinni.
    Allar neyðarsveitir skulu veita vaktstöð sem fyllstar upplýsingar um allar nauðsynlegar samskiptaleiðir vegna neyðarútkalla.
    Þær neyðarsveitir sem vaktstöð kallar út eða kveður á annan hátt til starfa skulu sjá um að ætíð liggi fyrir nýjar og réttar upplýsingar um það hverjir sinni útköllum, hvernig eigi að ná sambandi við þá og hvaða leiðir séu síðan til að veita þeim frekari upplýsingar og aðstoð.
    Þegar um sérhæft aðstoðarlið eða björgunarhópa er að ræða, skulu enn fremur liggja fyrir listar um sérbúnað, sérþjálfun einstakra manna og hópa og sérþekkingu á einstökum sviðum. Í vaktstöð skal annast samhæfða skráningu á upplýsingum á þessu sviði.
    Vaktstöð getur ekki krafið neyðarsveit, eða aðra sem hún veitir þjónustu, um upplýsingar um nein þau atriði, sem þessir viðskiptavinir hafa ákveðið að leynt eigi að fara, t.d. til að tryggja samkeppnisstöðu sína.

IV. KAFLI

Varðveisla og aðgangur að tilkynningum til vaktstöðvar o.fl.

12. gr.

    Í vaktstöð skulu skráðar og hljóðritaðar allar tilkynningar sem henni berast. Skráningin skal ná til eftirtalinna atriða:
    1. Hvaðan er hringt.
    2. Hvenær er hringt.
    3. Hver hringir.
    4. Hvers vegna er hringt.
    Tilgreina skal nákvæmlega staðinn sem hringt er frá og úr hvaða síma, klukkan hvað hringt er, fullt nafn þess sem hringir og hvert tilefnið er.
    Hljóðrita skal samtal tilkynnanda (neyðarboða) og vaktstöðvar allt þar til símtalsflutningur til neyðarsveitar á sér stað. Símtal við neyðarsveit skal hljóðrita nema hún annist sjálf hljóðritun.

13. gr.

    Hljóðritanir skulu varðveittar í a.m.k. tvo mánuði eftir upptöku. Séu þær meira en sólarhrings gamlar, skulu þær geymdar í öruggri, eldtraustri, læstri hirslu, og mega ekki aðrir en yfirmenn hafa aðgang að þeim.
    Með efni þess sem skráð er og hljóðritað skal farið sem trúnaðarmál.
    Þeir sem geta fengið aðgang að hljóðritunum eru neyðarsveitir, neyðarboðar og neyðarþolar eða löglegir talsmenn þeirra, enda geri þeir hverju sinni rökstudda grein fyrir þörf sinni fyrir slíkan aðgang. Skal við það miðað að sýnt sé fram á að brýnir almannahagsmunir eða hagsmunir einstaklinga, þar með taldir hagsmunir hins skráða, krefjist þess að slíkur aðgangur verði veittur og ótvírætt sé að þörfin á að fá upplýsingarnar vegi þyngra en tillitið til þess að þeim sé haldið leyndum.
    Telji framkvæmdastjóri vaktstöðvar vafamál hvort beiðandi hafi sýnt fram á slíka hagsmuni er greint er í 3. mgr. skal hann vísa málinu til Tölvunefndar til úrlausnar.

14. gr.

    Starfsmenn vaktstöðvar skulu gæta þagmælsku um atriði er þeir fá vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt lögum, reglugerðum eða eðli máls. Þagnarskylda helst þótt látið sé af starfi. Skulu starfsmenn undirrita þagnarheit áður en þeir hefja störf.
    Þagnarskyldan felur í sér að starfsmenn vaktstöðvar mega ekkert láta uppi um það, sem þeir verða áskynja í starfi sínu, hvorki um atburði né menn, nema í samskiptum við þær neyðarsveitir sem málið varðar.
    Þagnarskyldan tekur einnig til þess að staðfesta hvorki né neita að tiltekið mál sé til meðferðar hjá neyðarsveit, og á það jafnt við gagnvart fjölmiðlum sem öðrum. Neyðarsveit getur þó aflétt þagnarskyldu samkvæmt þessari málsgrein.
    Yfirstjórn vaktstöðvar er þó heimilt að bera af sér sakir ef starfsmenn hennar sæta alvarlegu ámæli, en gæta skal þess að gera það með þeim hætti að ekki valdi réttarspjöllum né spilli að öðru leyti fyrir afgreiðslu máls.
    Rof á þagnarheiti getur varðað brottvísun úr starfi, auk viðurlaga sem lög kunna að mæla fyrir um.

V. KAFLI

Öryggisfyrirtæki.

15. gr.

    Öryggisfyrirtæki sem vaktstöð getur samið við skv. 5. gr. þarf að fullnægja eftirtöldum skilyrðum:
    vera skráð í firma- eða hlutafélagaskrá og hafa þau rekstrarleyfi sem lög og reglugerðir gera ráð fyrir,
    hafa góða og örugga rekstrarafkomu samkvæmt ársreikningum,
    hafa öryggisþjónustu að höfuðviðfangsefni, og skulu 90% af tekjum fyrirtækisins vera af þeirri þjónustu eða velta af henni nema a.m.k. 20 milljónum króna á ári miðað við byggingarvísitölu í janúar 1996,
    hafa nægar og alhliða tryggingar til að standa undir þeim skaðabótakröfum sem upp kunna að koma vegna reksturs og hugsanlegrar vanrækslu eða mistaka í starfi,
    að starfsmenn hafi tilskilin leyfi eða vottorð, sé farið fram á slíkt í lögum, og að aðbúnaður starfsmanna og fyrirkomulag starfsmannamála fullnægi ákvæðum Vinnueftirlits ríkisins,
    leggja vaktstöð til þann viðtökubúnað sem þjóna á viðskiptavinum hennar sem stenst kröfur Evrópustaðla (EN) eða sambærilegra staðla á Norðurlöndum um brunaviðvörunarkerfi, innbrotaviðvörunarkerfi eða neyðarkerfi, allt eftir því hvers konar kerfum hann þjónar,
    gera skriflega samninga við viðskiptavini sína, þ.e. eigendur kerfanna, þar sem skýrt kemur fram skipting verka og ábyrgðar á kerfinu,
    skilgreina og skjalfesta viðbrögð við boðum frá viðvörunarkerfum,
    kynna fyrir neyðarsveitum fyrirkomulag vöktunar og farandgæslu, og hvernig hugsanleg boðun þeirra fer fram í tengslum við viðvörunarkerfin,
    hafa til umráða a.m.k. tvær vaktbifreiðir, til að bregðast við boðun frá vaktstöð og fara á vettvang ef nauðsyn krefur,
    semja starfsreglur yfir þá þjónustu sem fyrirtækið veitir og snýr að samskiptum við vaktstöð.
    Í samningum fyrirtækja og viðskiptavina þeirra skv. 7. tölul. 1. mgr. skal koma fram hvernig bregðast skuli við boðum um innbrot og eld, villuboðum og öðrum boðum, hverja skuli hafa samband við og í hvaða röð. Í samningnum skal kveðið á um skýrslur eða aðrar upplýsingar, sem viðskiptavinum eru sendar, lyklafyrirkomulag o.s.frv.
    Auk þess sem segir í 10. tölul. 1. mgr. skulu bifreiðar vera til ráðstöfunar ef vaktmaður þarfnast liðsauka, boð koma frá fleiri en einu kerfi samtímis eða fyrri boðun bregst. Hafi fyrirtæki aðeins yfir einni vaktbifreið að ráða skal það semja við annað öryggisfyrirtæki um notkun vaktbifreiðar í forföllum, t.d. vegna bilana, viðhalds eða annarra truflana á notkun eigin bifreiðar fyrirtækisins.
    Starfsreglur skv. 11. tölul. 1. mgr. skulu m.a. ná til eftirfarandi atriða: Þjónustu, samninga við viðskiptavini, rekstrarfyrirkomulags, skráningar og meðferðar upplýsinga, innra eftirlits og neyðaráætlunar.

VI. KAFLI

Skipun og starfssvið samstarfsnefndar.

16. gr.

    Dómsmálaráðherra skipar samstarfsnefnd sem skal vera til eftirlits og ráðuneytis við framkvæmd laga um samræmda neyðarsímsvörun. Nefndin hefur ekki ákvörðunarvald um málefni neyðarsímsvörunar.
    Í nefndinni eiga sæti 9 menn, skipaðir af dómsmálaráðherra til tveggja ára í senn. Fimm aðilar tilnefna sinn manninn hver sem hér segir: Heilbrigðisráðuneyti, samgönguráðuneyti, landssamtök björgunarsveita, Landssamband slökkviliðsmanna og Landssamband sjúkraflutningamanna. Samband íslenskra sveitarfélaga tilnefnir tvo menn. Dómsmálaráðherra skipar tvo menn án tilnefningar, og skal annar þeirra vera formaður nefndarinnar.

17. gr.

    Hlutverk nefndarinnar er að hafa eftirlit með því að neyðarsímsvörun sé á hverjum tíma rekin samkvæmt lögum og reglum sem um hana gilda. Nefndinni ber einkum að huga að eftirtöldum atriðum:
    rekstrarfyrirkomulagi og rekstrarformi vaktstöðvar, einkum að því er varðar skyldur þess sem stöðina rekur til að hafa hana ávallt þannig búna að unnt sé að sinna lögbundnum starfsskyldum,
    að neyðarverkefnum sé sinnt á fullnægjandi hátt,
    að þjónustustarfsemi vaktstöðvar spilli ekki öryggi eða tefji fyrir úrlausn neyðarverkefna og að vaktstöðin taki ekki að sér verkefni sem ekki eru fullkomlega samrýmanleg starfsemi hennar samkvæmt lögum um samræmda neyðarsímsvörun, reglugerð þessari eða eðli máls,
    að neyðarsveitir uppfylli skyldur sínar samkvæmt lögum um samræmda neyðarsímsvörun og reglugerð þessari.
    Enn fremur skal samstarfsnefndin veita umsögn um kærur eða kvartanir sem berast dómsmálaráðuneytinu vegna starfsmanna vaktstöðvar, þjónustu hennar, rekstrar eða rekstrarforms og koma á framfæri við ráðuneytið ábendingum um það sem hún telur að betur megi fara varðandi fyrirkomulag og framkvæmd samræmdrar neyðarsímsvörunar.
    Þá skal samstarfsnefndin vera dómsmálaráðherra til ráðuneytis um öll þau atriði er varða starfsfyrirkomulag og starfsemi þess sem rekur neyðarsímsvörun og samskipti hans við neyðarsveitir og almenning eða öll þau atriði sem dómsmálaráðherra kveður nefndina til ráðuneytis um.

18. gr.

    Formaður samstarfsnefndar boðar til funda, stýrir störfum nefndarinnar og er tengiliður hennar við dómsmálaráðuneyti.
    Formanni er heimilt að kveðja tvo nefndarmenn með sér í sérstaka framkvæmdanefnd til að vinna að einstökum verkefnum.
    Samstarfsnefndin skal fyrir 1. mars ár hvert skila ársskýrslu til dómsmálaráðherra. Þar skal tilgreina störf nefndarinnar næstliðið almanaksár, fjalla um helstu viðfangsefni hennar og gera faglega úttekt á stöðu samræmdu neyðarsímsvörunarinnar og samskiptum forsvarsmanna hennar og dómsmálaráðuneytis.

19. gr.

    Reglugerð þessi, sem sett er skv. 5., 6. og 8. gr. laga um samræmda neyðarsímsvörun, nr. 25 3. mars 1995, öðlast þegar gildi.


Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, 23. október 1996.