Ferill 173. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 173 . mál.


190. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 121. löggjafarþingi 1996.)



1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
    Á eftir orðunum „að undanteknum“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: sumarhúsum og.
    Á eftir orðunum „í dreifbýli“ í 5. mgr. kemur: og sumarhús.

2. gr.

    Í stað „IV. kafla“ í 1. mgr. 25. gr. laganna kemur: III. kafla.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið í félagsmálaráðuneytinu, en að hluta til grundvallað á áliti nefndar sem skipuð var til að yfirfara réttindi og skyldur sumarhúsaeigenda. Sú nefnd var skipuð af félagsmálaráðherra í samráði við umhverfisráðherra.
    Í frumvarpinu er fyrst og fremst fjallað um breytt fyrirkomulag varðandi álagningu fasteignaskatts á sumarhús. Stofn til álagningar skattsins á þessar eignir verði fasteignamat þeirra. Þannig verði hætt að umreikna matsverð sumarhúsa til markaðsverðs sambærilegra eigna í Reykjavík.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í greininni eru lagðar til breytingar er varða sumarhús. Ákvæði þessi eiga við um sumarhús eins og þau eru skilgreind í byggingarreglugerð, sbr. gr. 6.10.7.1 í byggingarreglugerð, nr. 177/1992, með síðari breytingum.
    Í a-lið er lögð til sú breyting á 2. mgr. 3. gr. laganna að sömu reglur gildi um stofn til álagningar á sumarhús og nú gilda um útihús í sveitum. Stofn til álagningar fasteignaskatts á sumarhús verður þá fasteignamat þeirra. Jafnframt verði hætt að umreikna matsverð sumarhúsa til markaðsverðs sambærilegra eigna í Reykjavík. Tillaga þessi er sett fram á þeim grundvelli að sérstaða sumarhúsa og eigenda þeirra er nokkur miðað við

Prentað upp.
aðra fasteignareigendur í sveitarfélögum. Er þar fyrst og fremst bent á að sumarhús eru ekki ætluð til íbúðar í þeim skilningi að fólk hafi þar lögheimili. Eigendur þeirra sækja því ekki þjónustu á borð við leikskóla, grunnskóla og félagsþjónustu til þess sveitarfélags þar sem sumarhús þeirra eru.
    Í beinu framhaldi af þessu og með sömu rökum er lagt til í b-lið greinarinnar að tekið verði skýrar fram í 5. mgr. 3. gr. laganna að sveitarstjórnir hafi sams konar heimildir til að undanþiggja sumarhús álagi á fasteignaskatt skv. 4. mgr. 3. gr. laganna og gilda um aðrar fasteignir í dreifbýli.

Um 2. gr.


    Um er að ræða tæknilega breytingu sem láðst hefur að gera fyrr, en kaflaskipan laga um almannatryggingar breyttist með lögum nr. 117/1993.

Um 3. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 4/1995,


um tekjustofna sveitarfélaga, með síðari breytingum.


    Frumvarpið felur í sér breytingar á 3. gr. laganna sem fjallar um fasteignaskatt. Breytingarnar varða álagningu fasteignaskatts á sumarhús til lækkunar á stofni.
    Ekki verður séð að frumvarpið hafi nokkur áhrif á útgjöld ríkissjóðs.