Ferill 146. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 146 . mál.


230. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á fund til sín Indriða H. Þorláksson, Bolla Þór Bollason, Braga Gunnarsson, Maríönnu Jónasdóttur og Ragnheiði Snorradóttur frá fjármálaráðuneyti og Steinþór Haraldsson frá embætti ríkisskattstjóra. Þá fékk nefndin einnig á sinn fund Guðna Níels Aðalsteinsson frá Vinnuveitendasambandi Íslands, Svein Jónsson frá Sambandi íslenskra viðskiptabanka, Stefán Halldórsson frá Verðbréfaþingi Íslands, Martein Másson frá Lögmannafélagi Íslands, Jónas Fr. Jónsson og Birgi Ármannsson frá Verslunarráði Íslands og Gunnar Helga Hálfdanarson og Vilborgu Loftsdóttur frá Samtökum íslenskra verðbréfafyrirtækja, en þessir aðilar sendu nefndinni einnig skriflegar umsagnir um málið. Auk þess bárust umsagnir frá Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi háskólamanna, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Félagi löggiltra endurskoðenda, Neytendasamtökunum og reikningsskilaráði. Loks fékk nefndin Þorgeir Örlygsson og Sigrúnu Jóhannesdóttur frá tölvunefnd til viðræðna um 11. gr. frumvarpsins.
    Meiri hluti nefndarinnar leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem lagðar eru til á sérstöku þingskjali. Þær eru eftirfarandi:
    Lagt er til að í stað þess að frádráttur vegna fjárfestingar manna í atvinnurekstri verði felldur niður í einu lagi um áramót verði hann lækkaður í áföngum á þremur árum. Eftir árið 1999 verði síðan enginn frádráttur heimilaður vegna fjárfestingar manna í atvinnurekstri. Er þessi breyting gerð til að milda þau áhrif sem niðurfelling þessa frádráttarliðar kann að hafa á hlutabréfamarkaðinn. Þá er lítillega breytt ákvæðum um stofnfjárbréf í sparisjóðum. Er það gert vegna þess að í lögum nr. 9/1984 er ekkert fjallað um fjárfestingu í slíkum bréfum og þykir því nauðsynlegt að taka fram að skilyrði þau sem sett eru í þeim lögum eigi ekki við um stofnfjárbréf í sparisjóðum.
    Lagt er til að sett verði í lögin ákvæði um skiptingu hlutafélaga. Í nýlegum lögum um hlutafélög, nr. 2/1995, er að finna ákvæði um skiptingu hlutafélaga í eitt eða fleiri hlutafélög eða einkahlutafélög. Sú lagasetning tengist aðild að EES-samningnum en sambærileg ákvæði hafa verið tekin inn í löggjöf nágranna okkar á síðustu árum. Í hlutafélagalöggjöfinni er ákvæðinu um skiptingu skipað í flokk með samruna og talið að í aðalatriðum eigi sambærileg sjónarmið við um þetta tvennt.
                  Í gildandi lögum um tekjuskatt og eignarskatt er ekki fjallað um skiptingu hlutafélaga. Aftur á móti eru allítarleg ákvæði um sameiningu félaga. Eftir gildistöku laga nr. 2/1995 hefur nokkrum sinnum verið leitað álits ríkisskattsstjóra á því hvaða skattalegar afleiðingar það hafi ef hlutafélögum er skipt í samræmi við ákvæði laga um hlutafélög. Því hefur verið svarað til að í skattalegu tilliti verði að líta á slíka skiptingu sem slit og að þau verðmæti sem deilist milli hluthafa komi til skattlagningar þannig að mismunur nafnverðs, auk heimildar til útgáfu jöfnunarhlutabréfa, og verðmætis hlutafjár myndi skattstofn hjá hverjum hluthafa í hlutfalli við hlutafjáreign hans í félaginu. Ekki hefur verið fallist á það að beita ákvæðum laganna um sameiningu með lögjöfnun. Sú afstaða byggist ekki hvað síst á því að í ákvæði hlutafélagalaga um skiptingu er ekki sett það skilyrði að endurgjald til hluthafa í hinu skipta félagi sé eingöngu í formi hlutabréfa í viðtökufélögunum. Það skilyrði er aftur á móti grundvallarþáttur í sameiningarákvæðum laga um tekjuskatt og eignarskatt.
                  Meginreglan varðandi skattlagningu söluhagnaðar er að stofnverð eigna teljist verð þeirra við kaup eða öflun og endurbætur þeirra þar til þær verða nothæfar í hendi eiganda. Verði eigendaskipti að eign myndast nýtt stofnverð í hendi hins nýja eiganda. Frá þessari reglu þykir hins vegar stundum rétt að víkja. Hafi eign t.d. verið fengin í arf er miðað við stofnverð í hendi þess sem lætur eignina af hendi. Sama á við þegar um sameiningu er að ræða skv. 56. og 57. gr. núgildandi laga um tekjuskatt og eignarskatt. Fallast má á að sömu rök eigi við þegar um fulla skiptingu hlutafélaga er að ræða, þ.e. félagi er algerlega skipt upp og því slitið en eignir og skuldir renna til tveggja eða fleiri félaga og hluthafar í hinu skipta félagi fá endurgjald fyrir eignarhlut sinn að fullu greitt með hlutabréfum í viðtökufélögunum. Þetta er í samræmi við viðtekin sjónarmið í skattarétti, og reyndar er það svo að í sumum löndum, t.d. Noregi, hefur þetta verið talið gilda þrátt fyrir að ekki hafi verið við sett lagaákvæði að styðjast. Hér er hins vegar lagt til að þetta verði lögfest, en því markaður tiltölulega þröngur rammi. Í raun er ekki verið að leggja til að fallið verði frá skattlagningu heldur er skattlagningu frestað þar til eignarhlutur í viðtökufélagi er seldur. Ekkert kemur í veg fyrir að staðið sé að skiptingu á annan máta en gert er ráð fyrir í ákvæðinu, en það mundi aftur á móti valda því að viðkomandi aðilar mundu ekki njóta hins skattalega hagræðis sem hér er verið að leggja til heldur yrðu slík tilvik meðhöndluð eftir þeim reglum sem gilda um úttektarskattlagningu.
                  Í 1. málsl. hinnar nýju 56. gr. A er sett fram sú afmörkun að ákvæðið eigi eingöngu við í þeim tilvikum þegar um algera skiptingu hlutafélags er að ræða, þ.e. þegar öllum eignum og skuldum hlutafélags er skipt og félagi slitið. Eins og orðalag ákvæðisins gefur til kynna er hér eingöngu átt við skiptingu á hlutafélögum en ekki einkahlutafélögum. Þá kemur fram það skilyrði að hluthafar í því félagi sem skipt er fái eingöngu í sinn hlut hlutabréf í viðtökufélögunum sem gagngjald fyrir hlutafé sitt í hinu skipta félagi. Þetta gagngjaldsskilyrði er í samræmi við sams konar gagngjaldsskilyrði og í gildi hefur verið skv. 56. gr., er varðar samruna hlutafélaga, en megintilgangurinn með slíku gagngjaldsskilyrði er að koma í veg fyrir að fjármunir streymi út úr félaginu sem slitið er, þannig að um algeran samruna fjármuna og eigin fjár verði að ræða. Það sama á í raun við um félag sem skipt er þannig að eignir þess renna saman við tvö eða fleiri félög.
                  Ákvæði 2. málsl. greinarinnar felur í sér það viðbótarskilyrði fyrir því skattalega hagræði er felst í greininni að innbyrðis eignarhlutfall milli eigenda þess félags sem slitið er haldist óbreytt þrátt fyrir að eignarhlutur þeirra í hinu skipta félagi skiptist í tvo eða fleiri eignarhluti eftir því hve viðtökufélögin eru mörg. Þannig er t.d. gert ráð fyrir að ef félagi er skipt þannig að fjögur félög taki við eignum og skuldum þess verði hlutur hvers hluthafa hins skipta félags í hverju hinna fjögurra viðtökufélaga hlutfallslega sá sami og var í hinu skipta félagi. Þannig er ekki nægjanlegt að eignarhlutfallið milli hluthafa hins skipta félags haldist ef litið er á hlutareign í viðtökufélögunum samanlagt heldur verður það einnig að eiga við um hlutareign í hverju og einu af viðtökufélögunum. Ákvæði 3. málsl. greinarinnar kveður á um að eignir skuli yfirfærast á bókfærðu verði. Þannig er ekki heimilt að endurreikna eða endurmeta verð eigna og mynda með því nýjan fyrningargrunn heldur verður fyrningargrunnur eigna sem skipt er sá sami í viðtökufélögunum og hann var í hinu skipta félagi.
                  Ákvæði 4. málsl. greinarinnar er í samræmi við 2. málsl. 1. mgr. 56. gr. og kveður á um að við skiptinguna skuli viðtökufélögin taka við öllum skattaréttarlegum skyldum og réttindum þess félags sem skipt er. Hinar skattaréttarlegu skyldur og réttindi flytjast samkvæmt ákvæðinu í samræmi við þær eignir og skuldir sem flytjast til þeirra. Með því er átt við að hlutfallið milli skattaréttarlegra skyldna og réttinda og þeirrar nettóeignar, þ.e. eignir að frádregnum skuldum, sem flyst til viðtökufélaganna sé hið sama.
                  Ákvæði 1. málsl. 57. gr. A breytist þannig að tekið er fram að greinin eigi einnig við 56. gr. A. Aðrar breytingar, sem gerðar eru á greininni, eru þær að gert er ráð fyrir flutningi á rekstrartapi til fleiri en eins félags til samræmis við það að skipting hlutafélags felur í sér að eignir renna inn í fleiri en eitt félag andstætt því sem gerist við samruna. Þá er orðinu skipting bætt inn í þar sem áður var eingöngu átt við sameiningu eða samruna.
                  Eins og gert er ráð fyrir að 57. gr. A hljóði eftir breytinguna er að því stefnt að hún girði fyrir að tap flytjist á milli félaga í tengslum við skiptingu hlutafélags nema í þeim tilfellum að viðtökufélögin uppfylli öll skilyrði greinarinnar. Ef eitt viðtökufélaga fullnægir ekki öllum skilyrðum 57. gr. A fellur niður það tap sem hefði ella flust til þess samkvæmt skiptingarreglunni.
    Lagt er til að í 91. gr. laganna verði á afdráttarlausan hátt kveðið á um að ríkisskattstjóri geti heimilað skil skýrslu í tölvutæki formi, þannig að í slíkri tölvutækri afhendingu skýrslu felist jafnframt undirritun framtals eða ígildi hennar.
    Lagt er til að ákvæði 10. gr. frumvarpsins, þar sem lagðar eru til breytingar á 97. gr. laganna, verði felld brott. Ákvæði 97. gr. kveður á um fresti sem skattstjóra eru settir varðandi endurákvörðun mála. Með hliðsjón af því að í greinargerð frumvarpsins er boðað að síðar á þinginu verði flutt frumvarp þar sem kveðið verði á um forúrskurði skattamála og þar sem fyrir liggur að taka á upp staðlað framtal lögaðila þykir rétt að frestað verði að svo stöddu að gera breytingar á 97. gr. Það mál verði tekið til skoðunar að nýju í tengslum við framangreindar breytingar.
                  Í 10. gr., sem verður 14. gr., eru hins vegar lagðar til breytingar á 101. gr. að því er varðar kærur á ákvörðunum ríkisskattstjóra. Er lagt til að í stað þess að þær ákvarðanir verði fyrst kæranlegar aftur til ríkisskattstjóra og síðan til yfirskattanefndar verði þær kæranlegar beint til yfirskattanefndar og kæruleiðin þannig stytt að þessu leyti. Er þessi breyting í samræmi við þær breytingar sem gerðar voru á 96. gr. laganna á 120. löggjafarþingi.
    Í 12. gr., er verður 16. gr., er lagt til að í 114. gr. laganna verði bætt ákvæði um ábyrgð á skattgreiðslum við skiptingu félaga.

Alþingi, 3. des. 1996.



Vilhjálmur Egilsson,

Valgerður Sverrisdóttir.

Sólveig Pétursdóttir.


form., frsm.



Gunnlaugur M. Sigmundsson.

Pétur H. Blöndal.

Einar Oddur Kristjánsson.