Ferill 213. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 213 . mál.


260. Tillaga til þingsályktunar



um umboðsmenn sjúklinga.

Flm.: Ásta B. Þorsteinsdóttir, Rannveig Guðmundsdóttir, Össur Skarphéðinsson,


Sighvatur Björgvinsson, Guðmundur Árni Stefánsson.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa ráðningu umboðsmanna sjúklinga að öllum stærri sjúkrahúsum og í hverju heilsugæsluumdæmi sem gæti hagsmuna og réttinda sjúklinga.

Greinargerð.


    Tillaga þessi var flutt á síðasta þingi en varð þá ekki útrædd. Hún er nú endurflutt óbreytt ásamt greinargerð er henni fylgdi.
    Hugmyndin um sérstakan talsmann sjúklinga var til umræðu á sjöunda áratugnum og var henni haldið á lofti af mannréttinda- og neytendasamtökum. Á þeim tíma var það trú manna að þeir sem minna mega sín þyrftu sérstaka aðstoð í samskiptum sínum við heilbrigðisstofnanir. Nú er almennt viðurkennt að flókið heilbrigðiskerfi getur reynst hverjum sem er erfitt og margir sjúklingar og aðstandendur þeirra þurfa slíka aðstoð, óháð þjóðfélagsstöðu.
    Á undanförnum áratugum hafa sjúkrastofnanir erlendis í vaxandi mæli skipað sérstaka talsmenn eða umboðsmenn til stuðnings sjúklingum sem telja sig hafa fengið ófullnægjandi þjónustu eða orðið fyrir vanrækslu starfsfólks sjúkrahúsa. Umboðsmenn sjúklinga starfa nú í yfir helmingi allra heilbrigðisstofnana í Bandaríkjunum og á Norðurlöndum er verið að gera tilraunir með svipað fyrirkomulag.
    Á tímum hagræðingar og niðurskurðar í heilbrigðisþjónustu er enn mikilvægara en áður að hagsmuna sjúklinga sé gætt í hvívetna. Nauðsynlegt er að tryggja sjúklingum upplýsingar um réttindi sín og auðvelda þeim að leita réttar síns eða koma kvörtunum á framfæri, telji þeir á sér brotið. Kvartanir vegna þjónustu sjúkrahúsa má oft rekja til lélegra boðskipta og skorts á upplýsingum. Þar er þeim sem minna mega sín, svo sem börnum, öldruðum og fötluðum, sérstök hætta búin. Úr slíkum vanda gætu umboðsmenn sjúklinga m.a. leyst. Tölur landlæknisembættisins sýna að vandinn er sannarlega fyrir hendi. Embættinu bárust 252 kvartanir vegna samskipta við sjúkrastofnanir á árinu 1993, 275 árið 1994 og 15. september 1995 voru þær orðnar 196. Tilefni kvartananna var m.a. meint röng meðferð, ófullnægjandi meðferð og eftirlit, samskiptaörðugleikar, ófullnægjandi upplýsingar og trúnaðarbrot.
    Í ljósi þessa getur hlutverk umboðsmanna sjúklinga m.a. orðið að gæta þess að fullt tillit sé tekið til réttinda, hagsmuna og þarfa sjúklinga, að fylgjast með því að sjúklingum sé ekki mismunað og jafnræðis sé gætt, að taka við kvörtunum, meta þær og aðstoða sjúklinga við að koma þeim á framfæri, að stuðla að vinsamlegu umhverfi á sjúkrastofnunum og betri þjónustu þeirra og að leysa samskiptavanda og deilumál. Umboðsmenn sjúklinga gætu haft afskipti af eða milligöngu um mál er varða samskipti sjúklinga við alla starfshópa sjúkrastofnana. Þeir gætu einnig, að höfðu samráði við sjúkling eða forráðamann sjúklings, ef um barn er að ræða, vísað málum til annarra aðila, svo sem siðanefnda sjúkrahúsa, læknaráða, yfirmanna lækninga- og hjúkrunarsviða eða annarra sem hafa með málefni sjúklinga að gera. Umboðsmenn gætu verið tengiliðir milli sjúklings og fjölskyldu hans og starfsfólks og stjórnenda sjúkrastofnana hvað varðar kvartanir um þjónustu og hugsanlega lögsókn.
    Eðlilegt væri að umboðsmenn sjúklinga störfuðu við öll stærri sjúkrahús og í hverju heilsugæsluumdæmi. Flutningsmenn telja þó að í upphafi sé rétt, þar sem um nýbreytni í þjónustu við sjúklinga á Íslandi yrði að ræða, að slíku starfi verði komið á fót við Ríkisspítalana til reynslu.