Ferill 48. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 48 . mál.


276. Nefndarálit



um frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1996.

Frá meiri hluta fjárlaganefndar.



    Nefndin hefur haft frumvarpið til athugunar og í því skyni leitað skýringa hjá fjármálaráðuneyti og fagráðuneytum varðandi beiðnir um auknar fjárheimildir. Einnig hafa komið fyrir nefndina forsvarsmenn nokkurra ríkisstofnana sem lagt hafa fram upplýsingar um tiltekin verkefni og önnur erindi. Nefndin leitaði jafnframt eftir áliti Ríkisendurskoðunar á frumvarpinu. Í ljósi þeirra skýringa hefur meiri hluti nefndarinnar fallist á þær tillögur um fjárheimildir sem fram koma í frumvarpinu.
    Á meðan nefndin hafði frumvarpið til athugunar var unnið að sérstakri athugun á nokkrum málum í ráðuneytunum sem nú hafa verið leidd til lykta, auk þess sem nokkur ný útgjaldatilefni hafa komið fram. Af þeim ástæðum gerir meiri hluti nefndarinnar 31 breytingartillögu við frumvarpið sem samtals nema 349,3 m.kr. Þar af eru átta tillögur að fjárhæð 164,6 m.kr. sem fluttar eru undir einstökum liðum en stafa allar af viðbótarútgjöldum vegna náttúruhamfaranna á Skeiðarársandi í kjölfar eldsumbrota í Vatnajökli í haust. Einstakar tillögur eru skýrðar í athugasemdum með álitinu auk þess sem fjallað verður nánar um þær í framsögu.


SKÝRINGAR VIÐ EINSTAKAR BREYTINGARTILLÖGUR



00 Æðsta stjórn ríkisins


101    Embætti forseta Íslands. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir 5 m.kr. framlagi. Lagt er til að framlagið verði hækkað um 3 m.kr. þar sem rekstrarkostnaður reyndist vera meiri en talið var.
201    Alþingi. Sótt er um auknar fjárveitingar af nokkrum tilefnum sem alls nema 30,7 m.kr. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir 50 m.kr. aukafjárveitingu til endurbyggingar á Kirkjustræti 8b og 10. Lagt er til að sú heimild verði hækkuð um 13 m.kr. Þar af eru 3,5 m.kr. aukin útgjöld við framkvæmdirnar við Kirkjustræti, einkum við tölvulagnir og öryggiskerfi. Afgangurinn, 9,5 m.kr., skýrist af útgjöldum við endurbætur á aðstöðu og búnaði í tengslum við tilflutninga á skrifstofum alþingismanna og breytinga á skipulagi skrifstofu Alþingis. Í annan stað er lagt til að veittar verði 8,7 m.kr. til útgjalda við ýmsar endurbætur á búnaði og aðstöðu í þingsalnum. Þá er óskað eftir 3 m.kr. viðbótarframlagi til að standa straum af auknum útgjöldum við alþjóðasamstarf þingsins. Sótt er um 2 m.kr. viðbótarheimild sökum þess að virðisaukaskattur hefur nú verið lagður á rekstur mötuneyta Alþingis, en ekki var gert ráð fyrir þeim kostnaði í fjárlögum. Einnig er gerð tillaga um 2 m.kr. viðbótarheimild til að mæta útgjöldum vegna mikils álags við þinghald á vorþingi 1996. Loks er farið fram á 2 m.kr. viðbótarfjárveitingu til að mæta greiðslu til Íslandsdeildar þings Vestur-Evrópusambandsins en Alþingi ákvað fyrr á árinu að hefja reglulega þátttöku í fundum og ráðstefnum sambandsins.
510    Bessastaðir. Farið er fram á 9 m.kr. hækkun á fjárheimild liðarins til að flýta verklokum við frágang lóðar á Bessastöðum. Af þeirri fjárhæð eru 7 m.kr. kostnaður við fornleifarannsóknir á vegum Þjóðminjasafns Íslands.

02 Menntamálaráðuneyti


203    Raunvísindastofnun Háskólans. Leitað er eftir 4,6 m.kr. viðbótarheimild til að bæta stofnuninni ófyrirséð útgjöld hjá jarðeðlisfræðistofu og jarðfræðistofu í kjölfar eldsumbrota í Vatnajökli í haust.
205    Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi. Leitað er eftir heimild fyrir 6 m.kr. aukafjárveitingu til stofnunarinnar vegna fjárhagsvanda sem safnast hefur upp frá árinu 1994. Stærstur hluti kostnaðarins skýrist af viðgerðum og endurbótum á aðstöðu og búnaði sem fram fóru á síðasta ári til þess að tryggja betra öryggi við varðveislu handrita, auk bakvakta sem teknar voru upp á sama tíma.

04 Landbúnaðarráðuneyti


233    Yfirdýralæknir. Í ljósi þess að horfur eru á að afgangur verði í ár á fjárveitingu liðarins 04-851 Greiðslur vegna riðuveiki er lagt til að 7 m.kr. heimild verði flutt af þeim lið til þess að standa straum af kostnaði við erfðarannsóknir á riðu, 5 m.kr., og rannsóknir á riðusmiti með heymaurum, 2 m.kr.
261    Bændaskólinn á Hvanneyri. Gerð er tillaga um 6,5 m.kr. aukafjárveitingu til skólans. Þar af eru 4,5 m.kr. vegna viðhalds og stofnkostnaðar frá árinu 1995 og 2 m.kr. til uppgjörs á skuld við undirbúningsfélag hitaveitu í Borgarfirði.
851    Greiðslur vegna riðuveiki. Í ljósi þess að horfur eru á að afgangur verði á fjárveitingu til greiðslu bóta vegna riðuveiki í ár er lagt að 7 m.kr. heimild verði flutt yfir á liðinn 04-233 Yfirdýralæknir til þess að standa straum af kostnaði við rannsóknir á riðu og riðusmiti.

05 Sjávarútvegsráðuneyti


201    Fiskifélag Íslands. Gerð er tillaga um 2,3 m.kr. framlag á þessum lið til að mæta eftirstöðvum málskostnaðar og biðlauna til starfsmanna sem hlutust af málarekstri í kjölfar þess að starfsemi Fiskifélags Íslands var endurskipulögð á árinu 1992.

06 Dóms- og kirkjumálaráðuneyti


111    Kosningar. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir 3,5 m.kr. viðbótarframlagi vegna meiri útgjalda við forsetakosningar en miðað var við í fjárlögum. Kosningarnar reyndust kostnaðarsamari en þá var talið þar sem ýmsir reikningar frá aðilum sem annast framkvæmdina bárust seint til dómsmálaráðuneytisins. Lagt er til að framlag liðarins hækki um 5 m.kr. vegna þessa.
321    Almannavarnir ríkisins. Sótt er um 2,2 m.kr. fjárheimild til stofnunarinnar vegna aukakostnaðar við flugeftirlit í tengslum við aðdraganda náttúruhamfaranna á Skeiðarársandi í kjölfar eldsumbrota í Vatnajökli í haust.
395    Landhelgisgæsla Íslands. Sótt er um 5 m.kr. fjárheimild til stofnunarinnar vegna aukakostnaðar við flugferðir á vegum stjórnvalda og vísindastofnana í tengslum við aðdraganda náttúruhamfaranna á Skeiðarársandi í kjölfar eldsumbrota í Vatnajökli í haust.
429    Sýslumaðurinn á Höfn í Hornafirði. Sótt er um 0,5 m.kr. fjárheimild til embættisins vegna kostnaðar við auknar vaktir lögreglumanna í tengslum við náttúruhamfarirnar á Skeiðarársandi í kjölfar eldsumbrota í Vatnajökli í haust.
430    Sýslumaðurinn í Vík í Mýrdal. Sótt er um 0,9 m.kr. fjárheimild til embættisins vegna kostnaðar við auknar vaktir lögreglumanna í tengslum við náttúruhamfarirnar á Skeiðarársandi í kjölfar eldsumbrota í Vatnajökli í haust.

07 Félagsmálaráðuneyti


999    Félagsmál, ýmis starfsemi. Lagt er til að 3 m.kr. framlag á viðfangsefninu 1.67 Sjálfsbjörg í Reykjavík undir liðnum 08-399 Heilbrigðismál, ýmis starfsemi verði flutt yfir á viðfangsefnið 1.31 Félagasamtök, styrkir undir þessum lið.

08 Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti


201    Tryggingastofnun ríkisins. Farið er fram á 32,5 m.kr. framlag til stofnunarinnar í frumvarpinu vegna umframgjalda í rekstri þessa árs. Sú fjárheimild var miðuð við að það sem á skorti til að leysa úr fyrirsjáanlegri fjárvöntun ársins, 30 m.kr., yrði jafnað með framlagi af rekstrarhagræðingarfé heilbrigðisráðuneytisins. Ráðuneytið hefur hins vegar ekki tök á að leysa úr málinu með því móti þar sem þeim fjármunum hefur verið ráðstafað til annarra verkefna. Lögð er til hækkun fjárheimildarinnar sem þessu nemur.
324    Heyrnar- og talmeinastöð Íslands. Farið er fram á 27 m.kr. aukafjárveitingu til að mæta uppsöfnuðum halla í rekstri stofnunarinnar. Hallinn skýrist einkum af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi er um að ræða viðvarandi umframgjöld í starfseminni undanfarin ár, alls 12 m.kr., einkum við stækkun húsnæðis sem ekki hefur verið tekið fullt tillit til í framlögum fjárlaga. Í annan stað réðst stofnunin í kaup á heyrnartækjum sem námu 15 m.kr. umfram þær heimildir sem gert hafði verið ráð fyrir í fjárlögum. Á yfirstandandi ári er stefnt að því að rekstrarumfangið rúmist innan ramma fjárlaga.
367    Sjúkrahúsið Suðurnesjum. Heilbrigðisráðuneytið og fjármálaráðuneytið annars vegar og samninganefnd um byggingu D-álmu fyrir hönd sveitarfélaganna á Suðurnesjum hins vegar hafa gert með sér samkomulag sem miðar að aukinni hagræðingu í rekstri heilbrigðisstofnana á Suðurnesjum. Í samræmi við það samkomulag er leitað eftir 25 m.kr. viðbótarframlagi til Sjúkrahúss Suðurnesja til þess að jafna rekstrarhalla áranna 1995 og 1996.
370    Sjúkrahús með fjölþætta starfsemi. Gerð er tillaga um 12,5 m.kr. aukafjárveitingu undir þessum lið. Eftir uppsagnir heilsugæslulækna 1. ágúst sl. fór heilbrigðisráðuneytið þess á leit við nokkur sjúkrahús að þau gerðu sérstakar ráðstafanir til þess að auka viðbúnað sinn á meðan læknarnir voru fjarverandi. Um er að ræða Ríkisspítala, Sjúkrahús Reykjavíkur, Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri, St. Jósefsspítala, Hafnarfirði, Fjórðungssjúkrahúsið Neskaupsstað, Sjúkrahús Suðurnesja og Sjúkrahús Suðurlands. Fyrirhugað er að framlaginu verði skipt á milli sjúkrahúsanna miðað við reikninga fyrir útlögðum kostnaði.
399    Heilbrigðismál, ýmis starfsemi. Lagt er til að 3 m.kr. framlag á viðfangsefninu 1.67 Sjálfsbjörg í Reykjavík undir þessum lið verði flutt yfir á viðfangsefnið 1.31 Félagasamtök, styrkir undir liðnum 07-999 Félagsmál, ýmis starfsemi.
490    Vistun ósakhæfra afbrotamanna. Heilbrigðisráðuneytið hefur gert samning við Sjúkrahús Suðurlands á Selfossi um að annast starfsemina að Sogni og gera ráðstafanir til þess að hún rúmist innan þeirra marka sem fjárlög setja. Hins vegar er áætlað að uppsafnaður halli á rekstri stofnunarinnar verði orðinn 10 m.kr. í lok ársins og er leitað eftir heimild til að leysa úr þeirri fjárvöntun.

09 Fjármálaráðuneyti


989    Launa- og verðlagsmál. Í nóvember 1993 ákvað Kjaradómur að dómarar skyldu frá fastar yfirvinnugreiðslur sem jafnað yrði niður á alla mánuði ársins. Fljótlega kom fram ágreiningur um greiðslu orlofslauna á þá yfirvinnu. Var málinu vísað til Félagsdóms sem felldi dóm þess efnis að greiða bæri orlof á yfirvinnu dómara. Greiðsla vegna áfallins orlofs til loka nóvember á þessu ári nemur 15,2 m.kr. og er óskað eftir hækkun heimildar á liðnum sem því nemur. Kjaradómur hefur síðan úrskurðað að frá og með 1. desember 1996 verði ekki greitt orlof á fasta yfirvinnu dómara.

10 Samgönguráðuneyti


211    Vegagerðin. Áætlað er að vegasjóður þurfi að bera um 500 m.kr. útgjöld á næstu þremur árum til þess að bæta skemmdir á vegamannvirkjum á Skeiðarársandi af völdum náttúruhamfara í kjölfar eldsumbrota í Vatnajökli í haust. Lagt er til að veitt verði 150 m.kr. aukaframlag til þess að standa straum af þeim kostnaði sem fellur til í ár.

14 Umhverfisráðuneyti


201    Náttúruverndarráð. Í kjölfar lagasetningar á 120. löggjafarþingi verður stjórnsýsla náttúruverndarmála endurskipulögð. Um næstu áramót tekur til starfa ný stofnun, Náttúruvernd ríkisins, sem tekur að mestu við fyrra hlutverki Náttúruverndarráðs. Með hliðsjón af þessum breytingum er lagt til að veitt verði 3 m.kr. viðbótarframlag til þess að uppsafnaður rekstrarhalli færist ekki yfir á nýju stofnunina.
310    Landmælingar Íslands. Sótt er um 0,5 m.kr. hækkun á fjárheimild stofnunarinnar vegna kostnaðar við landmælingar og loftmyndatöku í tengslum við aðdraganda náttúruhamfaranna á Skeiðarársandi í kjölfar eldsumbrota í Vatnajökli í haust.
410    Veðurstofa Íslands. Farið er fram á aukafjárveitingu að fjárhæð 2,4 m.kr. af tveimur tilefnum. Annars vegar er leitað eftir 1,5 m.kr. heimild til þess að standa straum af auknum kostnaði eftir að teknar voru upp sólarhringsvaktir vegna varaflugvallarins á Egilsstöðum á miðju þessu ári. Hins vegar er sótt um 0,9 m.kr. heimild til stofnunarinnar vegna kostnaðar við aukna jarðskjálftavöktun og aðrar aðgerðir í tengslum við aðdraganda náttúruhamfaranna á Skeiðarársandi í kjölfar eldsumbrota í Vatnajökli í haust.

Alþingi, 9. des. 1996.



Jón Kristjánsson,

Sturla Böðvarsson.

Arnbjörg Sveinsdóttir.


form., frsm.



Árni Johnsen.

Árni M. Mathiessen.

Hjálmar Jónsson.



Ísólfur Gylfi Pálmason.