Ferill 57. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 57 . mál.


301. Nefndarálit



um frv. til l. um fiskveiðar utan lögsögu Íslands.

Frá meiri hluta sjávarútvegsnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Árna Kolbeinsson og Arnór Halldórsson frá sjávarútvegsráðuneyti, Tómas H. Heiðar frá utanríkisráðuneyti, Kristján Ragnarsson frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna og Snorra Snorrason frá Félagi úthafsútgerða. Þá fékk nefndin sendar umsagnir um málið frá Félagi úthafsútgerða, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Samtökum fiskvinnslustöðva, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Sjómannasambandi Íslands og Vélstjórafélagi Íslands.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem lagðar eru til á sérstöku þingskjali. Í 1. lið er lagt til að heimild ráðherra til að skilyrða veiðar utan lögsögu úr íslenskum deilistofnum nái bæði til 2. og 5. mgr. 5. gr., þ.e. að ekki verði gerður greinarmunur á hvort samfelld veiðireynsla er til staðar eða ekki. Lagt er til að sams konar breyting verði gerð á 6. gr. er nær til úthafsveiða á öðrum stofnun en tilgreindir eru í 5. gr.
    Í 10. gr. frumvarpsins er ákvæði um að ef veiðar skips brjóta í bága við alþjóðasamninga sem Ísland er aðili að sé því bannað að landa aflanum í íslenskum höfnum og hafnaraðilum jafnframt óheimilt að veita þeim hvers konar þjónustu. Í framangreindum breytingartillögum er í 3. lið lagt til að jafnframt verði alfarið óheimilt að veita þeim þjónustu innan íslenskrar landhelgi, hvort sem þjónustuaðilinn er íslenskur eða erlendur. Loks eru lagðar til nokkuð viðamiklar breytingar á viðurlagaákvæðum frumvarpsins. Gert ráð fyrir að við bætist sex ný ákvæði, mun skýrari og ítarlegri en 13. og 14. gr. frumvarpsins sem lagt er til að falli brott.
    Um afstöðu meiri hlutans til málsins að öðru leyti vill hann að eftirfarandi skilningur hans komi fram:
    Nánari reglur um útfærslu á ákvæðum 3. mgr. 5. gr. og 3. mgr. 6. gr. liggi fyrir áður en úthlutun fer fram. Útgerðir geti þannig metið hvort þær sjái sér hag í því að sækja um rétt til veiða á úthafinu. Í mati á verðmæti aflaheimilda á fjarlægum miðum utan lögsögu sé við umreikning til þorskígilda einnig tekið tillit til sóknarkostnaðar. Þannig reiknað verðmæti þeirra verði lagt til grundvallar við framkvæmd ákvæða um afsal aflaheimilda á móti hinum nýju heimildum. Jafnframt verði útgerðum heimilað að velja sjálfar hvaða aflaheimildir þær láta af hendi.






Prentað upp.

    Veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum verði á grundvelli leyfa til veiðanna á sambærilegum forsendum og verið hafa. Veiðireynsla úr þessum stofni myndi ekki grunn að fastri aflahlutdeild.

Alþingi, 10. des. 1996.



Árni R. Árnason,

Stefán Guðmundsson.

Vilhjálmur Egilsson.


varaform., frsm.



Einar Oddur Kristjánsson.

Hjálmar Árnason.

Guðmundur Hallvarðsson,