Ferill 181. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 181 . mál.


361. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 92 24. maí 1994, um Þróunarsjóð sjávarútvegsins, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta sjávarútvegsnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Árna Kolbeinsson og Arndísi Steinþórsdóttur frá sjávarútvegsráðuneytinu, Hinrik Greipsson frá Þróunarsjóði sjávarútvegsins, Guðmund Malmquist frá Byggðastofnun, Arnar Sigurmundsson frá Samtökum fiskvinnslustöðva, Arthur Bogason og Örn Pálsson frá Landssambandi smábátaeigenda og Kristján Ragnarsson frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna.
    Meiri hluti nefndarinnar leggur til þrjár efnislegar breytingar á frumvarpinu. Í fyrsta lagi að árið 1996 verði síðasta árið sem fiskvinnslunni verði gert að greiða til Þróunarsjóðsins. Í öðru lagi að útgerðum verði gert að greiða í sjóðinn til ársins 2008, en ekki 2005 eins og frumvarpið gerir ráð fyrir. Er þetta lagt til þar sem lengri gildistími er nauðsynlegur til þess að sjóðurinn geti staðið við þær skuldbindingar sem á hann munu falla vegna úreldingar skipa og fiskvinnsluhúsa, smíði hafrannsóknaskips og yfirtöku skuldbindinga Atvinnutryggingasjóðs og Hlutafjársjóðs. Loks er lagt til að framlengja þann frest um sex mánuði sem eigendur krókabáta á sóknardögum hafa til að láta úrelda báta sína, eða fram til 1. júlí 1997. Þann 1. desember 1996 lágu fyrir 53 óafgreiddar umsóknir um úreldingu krókabáta, þar af 24 vegna sóknardagabáta. Ljóst er að sóknardögum margra krókabáta mun fækka verulega á næsta fiskveiðiári vegna mikillar veiði á árinu 1996. Því þykir rétt að gefa eigendum þeirra báta kost á fresti fram á mitt næsta ár til að óska eftir úreldingu.

Alþingi, 12. des. 1996.



Árni R. Árnason,

Stefán Guðmundsson.

Einar Oddur Kristjánsson.


varaform., frsm.



Hjálmar Árnason.

Guðmundur Hallvarðsson.

Vilhjálmur Egilsson.