Ferill 250. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 250 . mál.


412. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 117/1993, og lyfjalögum, nr. 93/1994, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar (VE, VS, EOK, GMS, PHB, ÁRÁ).



I. KAFLI


Um breytingu á lögum um almannatryggingar,


nr. 117/1993, með síðari breytingum.


1. gr.


    Við 41. gr. laganna bætist ný málsgrein er verður 1. mgr. og orðast svo:
    Tryggingastofnun ríkisins ber að leita bestu mögulegra kjara, að teknu tilliti til gæða, á þeim vörum og þjónustu sem hún greiðir eða tekur þátt í að greiða samkvæmt lögum þessum.

II. KAFLI


Um breytingu á lyfjalögum, nr. 93/1994, með síðari breytingum.


2. gr.


    Við 3. mgr. 40. gr. laganna bætist nýr málsliður er verður 5. málsl. og orðast svo: Þegar fjallað er um athugasemdir Tryggingastofnunar ríkisins um lyfjaverð tekur fulltrúi Tryggingastofnunarinnar sæti í nefndinni.

III. KAFLI


Gildistaka.


3. gr.


    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1997.

Greinargerð.


    Í 1. gr. er lagt til að inn í lög um almannatryggingar komi ákvæði þar sem skýrt komi fram að Tryggingastofnun beri alltaf að leita eftir bestu kjörum á vörum og þjónustu sem stofnunin greiðir eða tekur þátt í að greiða, að teknu tilliti til gæða. Nokkuð hefur verið um að dregnar hafa verið í efa aðgerðir Tryggingastofnunar í þá átt að lækka eða halda aftur af kostnaði, sérstaklega hvað varðar lyfjaverð. Með þeirri breytingu sem hér er lögð til eru tekin af öll tvímæli um þetta og stofnuninni beinlínis gert skylt að sýna aðhald í hvívetna.
    Breyting á lyfjalögum í 2. gr. tengist framangreindri breytingu á almannatryggingalögum. Þar er lagt til að fulltrúi Tryggingastofnunar taki sæti í lyfjaverðsnefnd þegar fjallað er um athugasemdir stofnunarinnar.