Ferill 251. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 251 . mál.


433. Frumvarp til laga



um breytingar á sérákvæðum í nokkrum lögum er varða réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar (VE, VS, PHB, GMS EOK, ÁRÁ).


I. KAFLI

FORSÆTISRÁÐUNEYTI

Breyting á lögum nr. 59/1928, um friðun Þingvalla, með síðari breytingum.

1. gr.

    2. mgr. 6. gr. laganna orðast svo:
    Þingvallanefnd ræður framkvæmdastjóra. Hann ræður annað starfslið.

II. KAFLI

DÓMS- OG KIRKJUMÁLARÁÐUNEYTI

Breyting á lögum nr. 62/1990, um skipan prestakalla og prófastsdæma

og um starfsmenn þjóðkirkju Íslands, með síðari breytingum.

2. gr.

    7. gr. laganna orðast svo:
    Þingvallaprestakalli skv. 1. gr. gegnir prestur er ráðherra skipar til fimm ára í senn að fengnum tillögum biskups og Þingvallanefndar.

III. KAFLI

FJÁRMÁLARÁÐUNEYTI

Breyting á lögum nr. 94/1986, um kjarasamninga

opinberra starfsmanna, með síðari breytingu.

3. gr.

    Eftirtaldar breytingar verða á 2. mgr. 1. gr. laganna, eins og henni var breytt með 1. tölul. 56. gr. laga nr. 70/1996:
    1. tölul. orðast svo: Þeirra embættismanna og annarra starfsmanna ríkisins sem heyra undir lög um Kjaradóm og kjaranefnd.
    Í stað orðanna „3.–5. tölul.“ í 5. tölul. kemur: 6.–8. tölul.
    

4. gr.

    1. tölul. 1. mgr. 19. gr. laganna, eins og honum var breytt með 1. tölul. 56. gr. laga nr. 70/1996, orðast svo: Þeirra embættismanna og annarra starfsmanna ríkisins sem heyra undir lög um Kjaradóm og kjaranefnd.
    

5. gr.

    Eftirtaldar breytingar verða á 1. mgr. 26. gr. laganna:
    4. tölul. fellur brott og breytist röð annarra töluliða í samræmi við það.
    Í stað orðanna „3.–6. tölul.“ í 5. tölul., sem verður 4. tölul., kemur: 5.–8. tölul.

Breyting á lögum nr. 120/1992, um Kjaradóm


og kjaranefnd, með síðari breytingu.


6. gr.

    Við 2. mgr. 8. gr. laganna, eins og henni var breytt með 2. tölul. 2. tölul. 56. gr. laga nr. 70/1996, bætist nýr málsliður er orðast svo: Enn fremur ákveður nefndin laun og starfskjör heilsugæslulækna og prófessora enda verði talið að þeir gegni þeim störfum að aðalstarfi.

Breyting á lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.


7. gr.

    Eftirtaldar breytingar verða á 22. gr. laganna:
    Í stað orðanna „og héraðsdómarar“ í 3. tölul. 1. mgr. kemur: héraðsdómarar og fulltrúar þeirra.
    7. tölul. 1. mgr. orðast svo: Sýslumenn, ríkislögreglustjóri, vararíkislögreglustjóri, lögreglustjórinn og varalögreglustjórinn í Reykjavík, skólastjóri Lögregluskóla ríkisins og lögreglumenn.
    8. tölul. 1. mgr. orðast svo: Ríkistollstjóri, tollstjórinn í Reykjavík og tollverðir.
    9. tölul. 1. mgr. orðast svo: Forstjóri fangelsismálastofnunar, forstöðumenn fangelsa og fangaverðir.
    Á eftir 9. tölul. 1. mgr. koma fjórir nýir töluliðir, sem orðast svo:
        10.    Ríkisskattstjóri, skattrannsóknastjóri ríkisins, yfirskattanefndarmenn sem hafa það starf að aðalstarfi og skattstjórar.
        11.     Héraðslæknar og héraðshjúkrunarfræðingar.
        12.     Yfirdýralæknir, héraðsdýralæknar og dýralæknir fisksjúkdóma.
        13.     Forstöðumenn ríkisstofnana og ríkisfyrirtækja, áður ótaldir.
    Í stað orðsins „9. tölul. þessarar greinar“ í 2. mgr. kemur: 13. tölul. 1. mgr.

8. gr.

    Á eftir 1. málsl. 24. gr. laganna kemur nýr málsliður, er verður 2. málsl., og orðast svo: Jafnframt má setja mann til reynslu í embætti, áður en hann er skipaður í það, til eins árs í senn, þó aldrei lengur en tvö ár.

9. gr.

    Við 7. mgr. ákvæðis til bráðabrigða í lögunum bætist nýr töluliður, er verður 4. tölul., og orðast svo:
    4.        Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 22. gr. skulu rannsóknarlögreglustjóri og vararannsóknarlögreglustjóri teljast til embættismanna.
    

IV. KAFLI

MENNTAMÁLARÁÐUNEYTI

Breyting á lögum nr. 29/1988, um Kennaraháskóla Íslands, með síðari breytingum.

10. gr.

    4. mgr. 31. gr. laganna orðast svo:
    Heimilt er að tillögu skólaráðs að ráða dósent eða lektor tímabundið til allt að tveggja ára í senn. Um tilhögun slíkrar ráðningar skal setja ákvæði í reglugerð.

11. gr.


    Eftirtaldar breytingar verða á 32. gr. laganna:
    1. málsl. 1. mgr. orðast svo: Ráðherra ræður prófessora, en rektor ræður dósenta og lektora.
    Í stað orðsins „prófessorsembætti“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: prófessorsstarf.
    Í stað orðsins „skipa“ í 2. málsl. 2. mgr. kemur: ráða.
    

12. gr.

    Eftirtaldar breytingar verða á 33. gr. laganna:
    1. mgr. fellur brott.
    1. málsl. 3. mgr. orðast svo: Rektor ræður annað starfslið skólans en getið er um í 32. gr.

Breyting á lögum nr. 131/1990, um Háskóla Íslands, með síðari breytingum.


13. gr.

    Eftirtaldar breytingar verða á 10. gr. laganna:
    Í stað orðanna „veitingu slíkrar kennarastöðu“ í 2. málsl. 3. mgr. kemur: ráðningu í slíkt kennarastarf.
    3. málsl. 3. mgr. orðast svo: Ráðning í slíkt starf má vera tímabundin til allt að tveggja ára í senn.
    Í stað orðsins „stöðuveitingu“ í 4. málsl. 3. mgr. kemur: ráðningu.
    Í stað orðsins „stöðuveitinga“ í 6. málsl. 3. mgr. kemur: ráðninga.
    Í stað orðsins „prófessorsembætta“ í 7. málsl. 3. mgr. kemur: prófessorsstarfs.
    4. mgr. orðast svo:
                  Heimilt er, með samþykki háskólaráðs að tillögu háskóladeildar, að ráða dósent eða lektor tímabundinni ráðningu til allt að tveggja ára í senn. Um tilhögun slíkrar ráðningar skal setja ákvæði í reglugerð.
    Í stað orðanna „til tveggja ára hið skemmsta“ í 6. mgr. kemur: tímabundið til allt að tveggja ára í senn.

14. gr.

    Eftirtaldar breytingar verða á 11. gr. laganna:
    1. málsl. 1. mgr. orðast svo: Ráðherra ræður prófessora, en rektor ræður dósenta og lektora.
    Í stað orðsins „prófessorsembætti“ í 2. mgr. kemur: prófessorsstörf.
    Orðin „embættinu eða“ í 1. málsl. 3. mgr. falla brott.
    Orðin „embættinu eða“ í 1. málsl. 4. mgr. falla brott.
    Í stað orðsins „prófessorsembætti“ í 4. málsl. 4. mgr. kemur: prófessorsstarf.
    Orðin „embættið eða“ í 4. málsl. 4. mgr. falla brott.
    Orðin „embættið eða“ í 6. málsl. 4. mgr. falla brott.
    Í stað orðsins „prófessorsembætti“ í 6. mgr. kemur: prófessorsstarf.
    Í stað orðsins „prófessorsembætti“ í 7. mgr. kemur: prófessorsstarf.

15. gr.


    12. gr. laganna orðast svo:
    Þegar sérstaklega stendur á, getur rektor, samkvæmt tillögu háskóladeildar og með samþykki háskólaráðs, boðið vísindamanni að taka við kennarastarfi við háskólann, án þess að það sé auglýst laust til umsóknar.
    Rektor skal heimilt, samkvæmt tillögu háskóladeildar, að auglýsa kennarastarf laust til umsóknar, svo að starfið verði veitt ári áður en hinn nýráðni kennari hefur kennslu sína. Kveða skal á um það hverju sinni, frá hvaða tíma launagreiðslur hins nýráðna kennara hefjist.

Breyting á lögum nr. 51/1992, um Háskólann á Akureyri, með síðari breytingu.


16. gr.

    Í stað orðsins „menntamálaráðuneyti“ í 1. málsl. 2. mgr. 3. gr. laganna kemur: ráðherra.

17. gr.

    Eftirtaldar breytingar verða á 10. gr. laganna, eins og henni var breytt með 1. gr. laga nr. 70/1994:
    2. mgr. orðast svo:
                  Ráðherra ræður prófessora, en rektor ræður dósenta, lektora og stundakennara.
    Í stað orðsins „skipa“ í 3. mgr. kemur: ráða.
    Í stað orðsins „embættinu“ í 1. málsl. 5. mgr. kemur: starfinu.
    Í stað orðsins „embættið“ í 2. málsl. 5. mgr. kemur: starfið.
    Í stað orðsins „embætti“ í 2. málsl. 5. mgr. kemur: starf.
    Í stað orðsins „prófessorsembætti“ í 3. málsl. 5. mgr. kemur: prófessorsstarf.

V. KAFLI

GILDISTAKA

18. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Nefndin hefur haft frumvarp til laga um breytingar á sérákvæðum í lögum er varða réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, 189. mál á þskj. 210, til meðferðar. Þar sem ekki vinnst tími til að ljúka afgreiðslu málsins í heild fyrir áramót er nauðsynlegt að taka út þær greinar frumvarpsins sem brýnast er að öðlist gildi nú þegar og flytur nefndin því um þær sérstakt frumvarp. Um almennar athugasemdir vísast til þskj. 210.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Gildandi ákvæði heimilar Þingvallanefnd að ráða umsjónarmann á Þingvöllum til fimm ára í senn, en tímabundin ráðning til svo langs tíma er almennt óheimil skv. 2. mgr. 41. gr. stml. Þá hafa lög um skipan prestakalla og prófastsdæma og um starfsmenn þjóðkirkjunnar til skamms tíma falið sóknarpresti Þingvallaprestakalls, sem dóms- og kirkjumálaráðherra skipar, að gegna jafnframt þeim starfa sínum starfi þjóðgarðsvarðar. Í 2. gr. frumvarpsins er lagt til að hin lögbundna tenging þessara starfa verði rofin enda má færa að því gild rök að hún stríði gegn grundvallarreglum stjórnskipunarinnar um skipting starfa og valdmörk ráðherra. Þess í stað er í samræmi við 1. mgr. 41. gr. stml., nr. 70/1996, lagt til að Þingvallanefnd verði falið að ráða sér framkvæmdastjóra ótímabundið, svo sem raunin hefur orðið, og honum falið að ráða annað starfslið, sbr. 2. mgr. 5. gr. stml.

Um 2. gr.


    Breyting á gildandi ákvæði felst í að tímabinda skipun prestsins á Þingvöllum í samræmi við meginreglu 1. mgr. 23. gr. stml. Jafnframt er lagt til að fellt verði úr þessum lögum ákvæði um stöðu hans sem þjóðgarðsvarðar, enda þykir eðlilegra og í samræmi við þá stefnu stml. að völd og ábyrgð fari saman að það stjórnvald, sem fer með málefni þjóðgarðsins og er að mestu leyti í höndum þingkjörinnar stjórnar, Þingvallanefndar, ráði ferðinni um hvaða starfslið er nauðsynlegt að halda í þjóðgarðinum á hverjum tíma. Þingvallanefnd getur eftir sem áður falið sama manni að gegna ákveðnum störfum á staðnum eins og um semst hverju sinni.

Um 3. gr.


    Við 1. tölul. 2. mgr. 1. gr. laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna er í a-lið því einu við bætt að lögin taki ekki til þeirra starfsmanna ríkisins sem heyra undir lög um Kjaradóm og kjaranefnd eins og gildir um embættismenn. Er það nauðsynlegt í ljósi þeirrar breytingar sem lagt er til að þau lög taki í 6. gr. frumvarps þessa.
    Í b-lið er lagfærð augljós villa um tilvísun í þá töluliði er taka til starfsmanna sveitarfélaga.

Um 4. gr.


    Við 1. tölul. 1. mgr. 19. gr. laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna er því einu bætt að heimild til verkfalls nái, auk embættismanna, ekki til annarra starfsmanna ríkisins sem heyra undir lög um Kjaradóm og kjaranefnd, en það fer saman við þá breytingu sem lagt er til að þau lög taki í 6. gr. frumvarps þessa.

Um 5. gr.


    Breytingar sem lagt er til að gerðar verði á 1. mgr. 26. gr. laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna færa ákvæðið til samræmis við þær breytingar sem gerðar voru á þeim lögum í 1. tölul. 56. gr. stml. Í a-lið er lagt til að fellt verði brott það ákvæði er felur Félagsdómi að ákvarða hverjir falli undir 29. gr. eldri laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 38/1954, en þar var tilgreint hvaða störf væru undanþegin verkfallsheimild samkvæmt lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Í stml. er ekki að finna sambærilega tilgreiningu á störfum sem undanþegin eru verkfallsheimild laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Þess í stað eru þeir embættismenn ríkisins sem standa utan stéttarfélaga og ekki hafa verkfallsheimild skv. 40. gr. stml. taldir tæmandi talningu í 1. mgr. 22. gr. sömu laga. Rísi ágreiningur um hverjir talist geti embættismenn í skilningi þess ákvæðis þykir Félagsdómur geta dæmt um það á grundvelli 1. tölul. 26. gr. laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna, en samkvæmt því ákvæði dæmir Félagsdómur í málum sem rísa á milli samningsaðila um samningsaðild einstakra stéttarfélaga og til hvaða starfsmanna samningsaðild þeirra nær.

Um 6. gr.


    Í samræmi við yfirlýsingu fjármálaráðherra og heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra frá 10. september 1996, sem gefin var í tengslum við gerð kjarasamnings fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og Læknafélags Íslands f.h. fastráðinna lækna, er lagt til að kjör heilsugæslulækna verði ákveðin af kjaranefnd.
    Í frumvarpi til laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, sem lagt var fyrir 120. löggjafarþing, var upphaflega gert ráð fyrir að háskólaprófessorar teldust embættismenn í skilningi frumvarpsins. Við meðferð Alþingis var horfið frá því að svo stöddu og málinu vísað til frekari umfjöllunar innan Háskóla Íslands. Varð það niðurstaða funda menntamálaráðherra með fulltrúum Háskóla Íslands að vegna sérstöðu starfa háskólaprófessora þætti rétt að leggja til að laun þeirra sem gegna prófessorsstöðu að aðalstarfi í skilningi stml. verði framvegis ákveðin af kjaranefnd.

Um 7. gr.


    Nauðsynlegt er að bæta eftirtöldum störfum við 1. mgr. 22. gr. stml.:
    Samkvæmt a-lið: Dómarafulltrúum.
    Samkvæmt b-lið: Ríkislögreglustjóra, vararíkislögreglustjóra, varalögreglustjóranum í Reykjavík og skólastjóra Lögregluskóla ríkisins, sbr. 28. og 37. gr. lögreglulaga nr. 90/1996. Önnur embætti talin í þessum staflið eru fyrir í 7. tölul. 1. mgr. 22. gr. stml.
    Samkvæmt c-lið: Engin viðbót en embættismenn tollyfirvalda eru færðir úr 7. tölul. í sérstakan tölulið, 8. tölul.
    Samkvæmt d-lið: Forstöðumenn fangelsa. Önnur embætti í þessum staflið voru áður talin í 8. tölul.
    Samkvæmt e-lið: Við 10. tölul. bætast yfirskattanefndarmenn sem hafa það starf að aðalstarfi, sbr. 9. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, en önnur embætti sem þar eru talin samræmis vegna hefðu áður fallið undir 9. tölul. gildandi stml. Aðrir liðir þarfnast ekki skýringa.

Um 8. gr.


    Í 24. gr. stml. var í fyrsta skipti mælt fyrir um skilyrði fyrir setningu í embætti. Þau miðast hins vegar öll við atvik er varða þann sem skipaður er til að gegna embættinu, svo sem fráfall hans eða fjarveru um lengri tíma vegna veikinda eða af öðrum ástæðum. Rétt þykir að stjórnvöldum verði jafnframt gert kleift að setja í embætti til reynslu, t.d. áður en nýr maður er í það skipaður fyrsta sinni.

Um 9. gr.


    Við gildistöku nýrra lögreglulaga nr. 90/1996 hinn 1. júlí 1997 verður Rannsóknarlögregla ríkisins lögð niður og saksókn í opinberum málum að hluta lögð til lögreglustjóraembættanna. Af þessum sökum er lagt til að embætti rannsóknarlögreglustjóra og vararannsóknarlögreglustjóra verði færð úr 7. tölul. 1. mgr. 22. gr. stml. og í þá málsgrein ákvæðis til bráðabirgða við stml. sem fellur brott sama dag.

Um 10. gr.


    Gildandi ákvæði veitir heimild til að skipa dósent eða lektor tímabundinni skipun til allt að fimm ára í senn. Með breytingu í 11. gr. þessa frumvarps á 32. gr. laga um Kennaraháskóla Íslands er lagt til að dósentar og lektorar komi að stöðum sínum með ótímabundinni ráðningu í stað skipunar. Af þeim sökum er hér lagt til að heimild þessari verði breytt í tímabundna ráðningu og hún bundin við tveggja ára hámark í samræmi við 2. mgr. 41. gr. stml.

Um 11. gr.


    Samkvæmt gildandi ákvæði skipar forseti prófessora og menntamálaráðherra dósenta og lektora. Í samræmi við þá meginreglu stml. að skipun eigi fyrst og fremst við um forstöðumenn stofnana er í a-lið annars vegar lagt til að prófessorar komi að þeim stöðum sínum með ráðningu í stað skipunar. Hins vegar er í samræmi við markmið 2. mgr. 5. gr. stml. um aukið sjálfstæði og ábyrgð forstöðumanna á starfsmannahaldi lagt til að dósentar og lektorar verði ráðnir af rektor. Í samræmi við 1. mgr. 41. gr. stml. verður ráðning þeirra ótímabundin með gagnkvæmum uppsagnarrétti.
    Breytingar í b- og c-liðum leiðir af framangreindri breytingu.

Um 12. gr.


    1. mgr. 33. gr. laga um Kennaraháskóla Íslands, sem lagt er til að falli brott samkvæmt a-lið, mælir fyrir um tímabundna ráðningu kennslustjóra, fjármálastjóra og endurmenntunarstjóra og ótímabundna skipun aðalbókavarðar. Í samræmi við meginreglu 1. mgr. 41. gr. stml. er í b-lið lagt til að rektor ráði ótímabundið í önnur störf við skólann. Jafnframt felst í breytingu samkvæmt b-lið að ekki þarf að leita samþykkis menntamálaráðherra fyrir ráðningu í stöður enda þykja ákvæði stml., sér í lagi 38. gr. þeirra og heimildir fjárlaga fyrir hvert ár, veita fullnægjandi aðhald hvað það varðar.

Um 13. gr.


    10. gr. laga um Háskóla Íslands fjallar um kennara við skólann.
    Samkvæmt 3. mgr. 10. gr. má tengja kennarastöðu tiltekinni stöðu eða starfsaðstöðu við opinbera stofnun utan Háskóla Íslands þegar skólinn hefur ekki tök á koma upp rannsóknaaðstöðu í viðkomandi kennslugrein. Í 3. málsl. er heimilað að veita slíka stöðu tímabundið til allt að fimm ára í senn. Með því að telja verður að hér sé um tímabundna ráðningu að ræða er í samræmi við 2. mgr. 41. gr. stml. lagt til í b-lið að hámark hennar verði bundið við tvö ár. Í a-, c- og d-liðum er orðalag fært til samræmis við ráðningu í stað skipunar. Breytingu í e-lið leiðir af þeirri breytingu sem lögð er til í 14. gr.
    Samkvæmt 4. mgr. 10. gr. má skipa dósent eða lektor tímabundinni skipun til allt að fimm ára í senn. Með því að telja verður að hér sé um tímabundna ráðningu að ræða er í samræmi við 2. mgr. 41. gr. stml. lagt til í f-lið að hámark hennar verði bundið við tvö ár.
    Í g-lið er ákvæði um ráðningartíma aðjúnkta fært til samræmis við 2. mgr. 41. gr. stml. sem setur tímabundinni ráðningu tveggja ára hámark, en ekki lágmark eins og óbreytt ákvæði laganna gerir ráð fyrir.

Um 14. gr.


    Samkvæmt gildandi ákvæði skipar forseti prófessora og menntamálaráðherra dósenta og lektora. Í ljósi þess að einungis embættismenn geta komið að stöðum sínum með skipun og hún er samkvæmt stml. einkum ætluð forstöðumönnum stofnana er í a-lið annars vegar lagt til að prófessorar verði ráðnir af ráðherra. Í samræmi við markmið 2. mgr. 5. gr. stml. um aukið sjálfstæði og ábyrgð forstöðumanna á starfsmannahaldi er hins vegar lagt til að dósentar og lektorar verði ráðnir af rektor. Í samræmi við 1. mgr. 41. gr. stml. verður ráðning þeirra ótímabundin með gagnkvæmum uppsagnarrétti.
    Breytingar í stafliðum b-i leiðir af framangreindu.

Um 15. gr.


    Breyting á gildandi ákvæði miðar að því að fela rektor þær heimildir sem ráðherra hefur haft til að ráða vísindamenn til kennarastarfa við háskólann og leiðir af þeirri breytingu sem lagt er til að gerð verði á 11. gr. laga um Háskóla Íslands og þegar hefur verið gerð grein fyrir.

Um 16. gr.


    Gildandi ákvæði mælir fyrir um að menntamálaráðuneyti skipi rektor Háskólans á Akureyri til fimm ára í senn. Í raun réttri er embættið veitt af ráðherra og þykir rétt að færa hér orðalag ákvæðisins til betri vegar.

Um 17. gr.


    Samkvæmt gildandi ákvæði skipar forseti prófessora og menntamálaráðuneytið dósenta, en lektorar eru ráðnir af háskólanefnd og stundakennarar af rektor. Í samræmi við breytingu á prófessorsstöðum við Háskóla Íslands er í a-lið annars vegar lagt til að prófessorar verði ráðnir af ráðherra. Í samræmi við markmið 2. mgr. 5. gr. stml. um aukið sjálfstæði og ábyrgð forstöðumanna á starfsmannahaldi er hins vegar lagt til að dósentar, lektorar og stundakennarar verði ráðnir af rektor. Í samræmi við 1. mgr. 41. gr. stml. verður ráðning þeirra ótímabundin með gagnkvæmum uppsagnarrétti.
    Breytingarnar í stafliðum b-f leiðir allar af framangreindu.

Um 18. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.