Ferill 287. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 287 . mál.


542. Skýrsla



Íslandsdeildar þingmannanefndar Fríverslunarsamtaka Evrópu, EFTA, fyrir árið 1996.

I. Almennt.
    Þingmannanefnd EFTA var stofnuð árið 1977 og hafði það hlutverk að vera ráðgefandi fyrir ráðherraráð EFTA. Umsvif og starfsemi nefndarinnar fóru vaxandi þegar samningar hófust um Evrópska efnahagssvæðið (EES) árið 1989 og mikilvægi nefndarinnar jókst enn þegar EES-samningurinn tók gildi 1. janúar 1994, en fulltrúar úr henni skipa EFTA-hluta hinnar sameiginlegu þingmannanefndar EES. EFTA samanstendur nú af Íslandi, Liechtenstein, Noregi og Sviss og sitja þjóðkjörnir fulltrúar þessara ríkja í þingmannanefnd EFTA.
    Þingmannanefnd EFTA heldur fundi nokkrum sinnum á ári. Á milli funda hittist framkvæmdastjórn (áður dagskrárnefnd) þingmannanefndarinnar en hún gerir tillögur að dagskrá og verkefnum þingmannanefndarinnar, auk þess sem hún fjallar um aðkallandi mál. Í framkvæmdastjórn sitja tveir fulltrúar frá hverju EFTA-landi, en í upphafi ársins breytti nefndin reglunum þannig að einungis einn fulltrúi frá hverju ríki hefur nú atkvæðisrétt á fundum. Í Íslandsdeildinni hefur auk formanns einn fulltrúi stjórnarandstöðu sótt fundi framkvæmdastjórnarinnar.
    Þingmannanefnd EFTA hefur einnig samstarf við ríki Mið- og Austur-Evrópu og hefur það aukist á undanförnum árum vegna aukinna viðskiptatengsla og samninga EFTA við þessi ríki.
    Þingmannanefnd EFTA, í samvinnu við Evrópuþingið, vann ötullega að því að í samningnum um EES væri gert ráð fyrir sameiginlegri þingmannanefnd (95. gr. samningsins). Þingmannanefnd EES samanstendur nú af 24 þingmönnum, tólf frá Evrópuþinginu og öðrum tólf frá eftirstandandi EES-aðildarríkjum EFTA. Af þessum tólf fulltrúum á Ísland fjóra, Noregur sex og Liechtenstein tvo, en Liechtenstein gerðist aðili að EES á árinu 1995. Hin sameiginlega þingmannanefnd EES á að fylgjast með framkvæmd og þróun EES-samningsins og gefa álit sitt á EES-málum. Nefndin fundar tvisvar á ári en framkvæmdastjórn hennar hittist á milli funda. Í framkvæmdastjórninni sitja sex fulltrúar, einn frá hverju EES-aðildarríki EFTA og þrír frá Evrópuþinginu. Formaður Íslandsdeildarinnar hefur sótt fundi framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EES.
    EFTA-hluti þingmannanefndar EES og Evrópuþingið skiptast á um formennsku í þingmannanefnd EES milli ára. Evrópuþingið fór með formennsku í nefndinni á árinu 1996.
    Þar sem Svisslendingar ákváðu að standa fyrir utan EES varð þingmannanefnd EFTA með gildistöku EES-samningsins að formi til tvískipt, þ.e. annars vegar upphaflega nefndin, nú með fjórum fyrrgreindum aðildarríkjum, og hins vegar nefnd þeirra EFTA-ríkja sem eru aðilar að EES-samningnum. Nefndirnar funda hins vegar ávallt saman og sitja því Svisslendingar sem áheyrnarfulltrúar þegar verið er að taka fyrir málefni sem eingöngu varða EES-hluta nefndarinnar. Sviss á einnig áheyrnaraðild að fundum þingmannanefndar EES. Til einföldunar verður í frásögnum hér á eftir talað um fundi þingmannanefndar EFTA, þótt í raun hafi þá báðar nefndirnar, þ.e. eldri EFTA-nefndin og EES-hluti þingmannanefndar EFTA, setið saman á fundi. Þess skal getið að Vilhjálmur Egilsson var á árinu kjörinn formaður EES-hluta þingmannanefndar EFTA fyrir árið 1997 og mun hann því gegna formennsku í þingmannanefnd EES það ár.

II. Fulltrúar Alþingis í þingmannanefnd EFTA.
    Í Íslandsdeildinni áttu sæti á árinu 1996 Vilhjálmur Egilsson, Sjálfstæðisflokki, formaður, Gunnlaugur M. Sigmundsson, Framsóknarflokki, varaformaður, Árni M. Mathiesen, Sjálfstæðisflokki, Sighvatur Björgvinsson, Alþýðuflokki, og Hjörleifur Guttormsson, Alþýðubandalagi. Þá áttu þau Ágúst Einarsson, Þjóðvaka, og Kristín Ástgeirsdóttir, Kvennalista, áheyrn að nefndinni, en eftir sameiningu þingflokka Þjóðvaka og Alþýðuflokks lagðist staða áheyrnarfulltrúa Þjóðvaka sjálfkrafa niður. Gústaf Aldolf Skúlason var ritari Íslandsdeildarinnar fram á mitt ár er Guðjón Rúnarsson tók við.
    Fulltrúar Íslandsdeildarinnar í framkvæmdastjórn þingmannanefndar EFTA voru Vilhjálmur Egilsson og Hjörleifur Guttormsson, en Sighvatur tók við stöðu Hjörleifs undir lok ársins þar sem hefð er fyrir því að fulltrúi stærsta stjórnarandstöðuflokksins skipi þetta sæti.

III. Starfsemi þingmannanefndar EFTA og þingmannanefndar EES á árinu 1996.
    Alveg frá því að EES-samningurinn kom til framkvæmda hefur þingmannanefnd EFTA lagt áherslu á að fylgjast sem best með framkvæmd hans. Þannig hefur nefndin bæði á eigin fundum og ekki síður á sameiginlegum vettvangi þingmannanefndar EES leitað eftir upplýsingum frá ráðherraráði EFTA og EES og embættismönnum stofnana EFTA og ESB. Þegar í upphafi hafði þingmannanefnd EES frumkvæði að því að semja skýrslur um málefni sem hún vill skoða sérstaklega og eru þær skýrslur svo ræddar á fundum nefndarinnar. Fyrir hverja skýrslugerð eru tilnefndir tveir framsögumenn, einn úr hópi EFTA-þingmanna og einn úr hópi Evrópuþingmanna. Fimm slíkar skýrslur voru kynntar á fundum nefndarinnar á árinu 1996 og fjölluðu þær um framkvæmd EES-samningsins árið 1995, fjarskiptaþjónustu, samkeppnisstefnu, samræmingu upprunareglna og fjórfrelsið. Ályktanir, sem samþykktar eru á grundvelli þessara skýrslna, eru síðan sendar til ráðherraráðs EES sem tekur þær fyrir á fundum sínum. Með því að taka skipulega fyrir skýrt afmörkuð málefni hefur þingmannanefnd EES þannig möguleika til áhrifa á þróun EES-samningsins.
    Nefndirnar fylgdust á árinu grannt með framvindu ríkjaráðstefnu ESB og framvindu mála í viðræðum um fríverslunarsamninga við þriðju ríki. Í því sambandi fór formaður Íslandsdeildarinnar m.a. til Kýpur og Möltu í upphafi árs. Ráðherraráð EFTA lagði ríka áherslu á það á fundum sínum með þingmannanefnd EFTA að nefndin væri virk í slíku samstarfi við þriðju ríki. Schengen-samkomulagið kom líka til umfjöllunar á nokkrum fundum.
    Íslandsdeildin hafði í mörg horn að líta þar sem Alþingi var gestgjafi bæði þingmannanefndar EFTA og þingmannanefndar EES vegna funda sem haldnir voru á Akureyri í júní. Heppnuðust þeir fundir í alla staði mjög vel. Fulltrúar Íslandsdeildarinnar voru einnig mjög virkir í starfi nefndanna, m.a. átti Íslandsdeildin tvo framsögumenn af fimm sem EFTA-hluti þingmannanefndar EES tilnefndi út af skýrslum ársins. Þá ber síðast en ekki síst að minnast á fundi sem Íslandsdeildin átti á árinu með fulltrúum þjóðþinga þeirra ríkja sem næst voru í röðinni að taka við forsæti innan ESB, en ESB-ríkin skiptast á um formennsku þar til hálfs árs í senn. Þannig fundaði nefndin með Evrópu- og utanríkismálanefnd írska þingsins í Dublin í febrúar og með Evrópunefnd hollenska þingsins í Haag í október.

a.    3. fundur framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA og 7. fundur framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EES.
    Fundirnir voru haldnir í Brussel 30. janúar. Af hálfu Íslandsdeildarinnar sóttu fundinn Vilhjálmur Egilsson og Sighvatur Björgvinsson. Rætt var um skipulag starfsins á árinu.

b.    Fundur Íslandsdeildarinnar með Evrópu- og utanríkismálanefnd írska þingsins.
    Íslandsdeildin byrjaði starfsárið með því að sækja heim írska þingið, en Írar áttu að taka við forsæti í ESB 1. júlí 1996. Allir fimm fulltrúar Íslandsdeildarinnar sátu fundinn. Á fundinum kynnti Íslandsdeildin nokkur helstu sjónarmið og hagsmunamál Íslendinga gagnvart ESB og þá einkum þau sem tengdust ríkjaráðstefnu sambandsins. Lögð var áhersla á að þeir fríverslunarsamningar sem EFTA-ríkin hafa gert við ríki Mið- og Austur-Evrópu tapi ekki gildi sínu við hugsanlega inngöngu þessara ríkja í ESB, sérstaklega væri þetta brýnt fyrir Íslendinga hvað varðar viðskipti með sjávarafurðir. Þá var gerð grein fyrir afstöðu Íslendinga til sameiginlegrar sjávarútvegsstefnu ESB og áherslu á að Schengen-samkomulagið gerði Norðurlöndunum kleift að viðhalda norræna vegabréfasvæðinu. Rætt var um afstöðu Íslendinga til aðildar að ESB og hugmynda um að fella Vestur-Evrópusambandið (VES) alfarið undir ESB.

c.    41. fundur þingmannanefndar EFTA og 4. fundur framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA.
    Fundur þingmannanefndar EFTA var haldinn í Brussel 20. febrúar. Allir fulltrúar Íslandsdeildarinnar sátu fundinn. Til að undirbúa sig undir fund með stofnananefnd Evrópuþingsins fékk nefndin Ingvar Melin, fulltrúa Finnlands í undirbúningsnefnd ríkjaráðstefnu ESB, til að ræða um markmið ríkjaráðstefnunnar. Hann sagði þau þríþætt: 1) að færa ESB nær almenningi, 2) að einfalda stofnanakerfi ESB til að búa í haginn fyrir stækkun sambandsins og 3) að gera ESB hæfara til aðgerða út á við. Í máli hans kom fram að ríkjaráðstefnan væri aðeins einn þáttur í þróun Evrópusamstarfsins en aðrir þættir í þeirri þróun væru t.d. myntkerfið, framtíð VES, stækkun ESB og framtíð sameiginlegrar landbúnaðarstefnu. Melin sagði gert ráð fyrir að ríkjaráðstefnan stæði í rúmt ár og taldi ólíklegt að niðurstöður hennar hefðu áhrif á EES-samninginn.
    Þá var á fundinum ákveðið að framvegis gætu áheyrnarfulltrúar tekið fullan þátt í fundum nefndarinnar en án atkvæðisréttar og að einungis einn fulltrúi hvers ríkis hefði atkvæðisrétt í framkvæmdastjórn þingmannanefndarinnar í stað tveggja áður.
    Sama dag var haldinn fundur framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA þar sem m.a. var rætt um fyrirhugaða heimsókn til Kýpur og Möltu vegna undirbúnings fríverslunarsamninga við þau ríki. Vilhjálmur Egilsson og Hjörleifur Guttormsson sátu fundinn fyrir hönd Íslandsdeildarinnar.

d.    Fundur þingmannanefndar EFTA með stofnananefnd Evrópuþingsins.
    Fundurinn var haldinn í Brussel 20. febrúar og sátu allir fulltrúar Íslandsdeildarinnar fundinn. Þar greindu formenn landsdeilda þingmannanefndarinnar frá áherslum sinna ríkja. Vilhjálmur Egilsson kynnti afstöðu Íslendinga á sama hátt og daginn áður í heimsókn til írska þingsins. Í almennum umræðum sem fylgdu í kjölfarið kom fram nokkur skoðanamunur á milli fulltrúa þessara nefnda. José María Gil-Robles frá Spáni, sem varð forseti Evrópuþingsins 14. janúar síðastliðinn, minnti þingmannanefnd EFTA á að ESB væri meira en sameiginlegur markaður, ESB væri samfélag, og að ríki sem hefðu eingöngu viðskiptahagsmuni í huga væru óhæf til aðildar að sambandinu.

e.    Heimsókn til Möltu og Kýpur.
    Í tengslum við undirbúning fríverslunarsamninga við Möltu og Kýpur ákvað Íslandsdeildin að senda formann sinn til fundar með þarlendum ráðamönnum. Heimsóknin stóð yfir dagana 28. mars til 2. apríl og voru aðallega rædd efnahagsmál og samskipti ríkjanna við EFTA. Þegar leið á árið lentu hins vegar samningaviðræður við þessi ríki í biðstöðu en stjórnarskipti á Möltu og ótryggt ástand á Kýpur áttu þar stærstan þátt.

f.    6. fundur þingmannanefndar EES og 7. fundur framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EES.
    Fyrri fundur þingmannanefndar EES á árinu var haldinn á Akureyri 3. júní. Allir fulltrúar Íslandsdeildarinnar sátu fundinn auk Ágústs Einarssonar og Kristínar Ástgeirsdóttur áheyrnarfulltrúa. Á fundinum voru starfsreglur nefndarinnar formlega aðlagaðar að þeim veruleika sem við tók eftir fækkun aðildarríkja EFTA í ársbyrjun 1995. Ræddar voru tvær skýrslur, annars vegar um framkvæmd EES-samningsins árið 1995 og hins vegar um fjarskipti og voru samþykktar ályktanir um hvort tveggja. Sighvatur Björgvinsson var framsögumaður EFTA-þingmanna um framkvæmd EES-samningsins. Í máli hans kom fram að samningurinn virkaði ágætlega þrátt fyrir fækkun EFTA-ríkjanna, en jafnframt lagði hann áherslu á að EFTA-ríkin kæmu í auknum mæli að stefnumótun í einstökum málaflokkum er vörðuðu hinn sameiginlega innri markað. Í almennum umræðum um þetta efni sátu fyrir svörum Mario Quagliotti, sendiherra Ítalíu á Íslandi, en Ítalir fóru með forsæti í ESB fyrri hluta árs 1996, Pablo Benavides, formaður sameiginlegu EES-nefndarinnar og fulltrúi framkvæmdastjórnar ESB, Knud Almestad, framkvæmdastjóri ESA, og Hannes Hafstein, fulltrúi EFTA-hluta sameiginlegu EES-nefndarinnar. Almennt voru þeir sammála um að tveggja stoða kerfi EES-samningsins virkaði vel. Þingmannanefndin gagnrýndi hversu seint svör ráðherraráðsins bærust við ályktunum nefndarinnar. Þá var einnig rætt um Schengen-samkomulagið á fundinum og samþykktar tillögur um skýrslur fyrir næsta fund.
    Á fundi framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EES, sem haldinn var samdægurs, kynnti Otto Buchel, formaður þingmannanefndar EFTA, námstefnu um EES sem halda ætti fyrir þingmenn EFTA-ríkjanna í Brussel í byrjun september. Formaður og ritari Íslandsdeildarinnar sátu fundinn.

g.    42. fundur þingmannanefndar EFTA og 5. fundur framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA.
    Fundur þingmannanefndar EFTA var haldinn á Akureyri 3. júní. Allir fulltrúar Íslandsdeildarinnar, ásamt áheyrnarfulltrúum og ritara, sátu fundinn. Á fundinum var fjallað um samskipti EFTA við þriðju ríki og m.a. kom fram að gerður hefði verið samstarfssamningur við Albaníu og Makedóníu og verið væri að vinna að gerð fríverslunarsamninga við Möltu og Kýpur. Upplýst var að hafnar væru könnunarviðræður við Marokkó, Túnis og Egyptaland um hugsanlega gerð fríverslunarsamninga. Þá var Vilhjálmur Egilsson kjörinn formaður EFTA-hluta þingmannanefndar EES árið 1997 og Svisslendingurinn Peter Vollmer formaður þingmannanefndar EFTA sama ár.
    Samdægurs var haldinn fundur framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA sem formaður og ritari Íslandsdeildarinnar sátu.

h.    14. fundur þingmannanefndar EFTA með ráðherraráði EFTA.
    Fundurinn var haldinn á Akureyri 4. júní. Á fundinum var almennt fjallað um framkvæmd EES-samningsins, m.a. í tengslum við ríkjaráðstefnu ESB, og um samskipti EFTA við þriðju ríki. Ráðherrarnir lögðu áherslu á mikilvægi þingmannanefndar EES í að viðhalda góðum samskiptum við ESB og jafnframt á mikilvægi þess að ráðherraráð EES svaraði ályktunum nefndarinnar fyrr og ítarlegar. Þá lagði Halldór Ásgrímsson, formaður ráðherraráðs EFTA, áherslu á mikilvægt starf þingmannanefndar EFTA í að koma á samskiptum við ríki er gera á fríverslunarsamninga við.

i.    Námstefna um EES-samninginn.
    Dagana 3. og 4. september var í Brussel haldin námstefna um EES-samninginn fyrir þingmenn EES-ríkjanna. Sérfræðingar EFTA fóru yfir þau svið sem samningurinn nær yfir og þær breytingar sem orðið hafa frá því að samningurinn tók gildi. Einnig var þar farið yfir starfsemi stofnana ESB, tengsl þeirra á milli og fjallað almennt um ríkjaráðstefnuna og framtíð ESB. Af hálfu Alþingis sótti Íslandsdeildin námstefnuna, auk Kristínar Ástgeirsdóttur áheyrnarfulltrúa og Guðjóns Rúnarssonar sem hafði þá tekið við starfi ritara nefndarinnar.

j.    6. fundur þingmannanefndar EES og 8. fundur framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EES.
    Síðari fundur þingmannanefndar EES árið 1996 var haldinn í Brussel 7. október. Allir fulltrúar Íslandsdeildarinnar auk ritara sóttu fundinn. Rætt var um ályktanir frá Akureyrarfundinum í júní um framkvæmd EES-samningsins og fjarskipti. Fundinn sátu, auk þingmannanefndar EES, Andrea Willi, utanríkisráðherra Liechtenstein, af hálfu ráðherraráðs EES, Nikolaus prins af Liechtenstein, af hálfu sameiginlegu EES-nefndarinnar, og fulltrúi ráðherraráðs og framkvæmdastjórnar ESB sem og Eftirlitsstofnunar EFTA. Í máli Andreu Willi kom fram að ráðherraráð EES væri ánægt með framkvæmd EES-samningsins og þær breytingar sem gerðar hefðu verið á honum á árinu og benti hún á að sérfræðingar EFTA kæmu í auknum mæli að málum á undirbúningsstigi. Í almennum umræðum var m.a. rætt um nauðsyn á auknu gagnsæi í samskiptum milli einstakra stofnana EES, hugsanleg áhrif ríkjaráðstefnunnar á EES-samninginn, efnahags- og myntbandalag Evrópu og stækkun ESB. Þá voru á fundinum ræddar skýrslur um fjórfrelsið, samkeppnisstefnu og samræmingu upprunareglna í Evrópu. Samþykktar voru ályktanir um efni tveggja síðastnefndu skýrslnanna en ekki náðist samkomulag um sameiginlega ályktun á grundvelli skýrslunnar um fjórfrelsið, aðallega vegna ágreinings um þátttöku Íslands og Noregs í Schengen. Vilhjálmur Egilsson var framsögumaður EFTA-hluta skýrslunnar um samkeppnisstefnu. Loks var samþykkt að á næsta fundi, sem verður í Noregi í apríl 1997, yrðu teknar fyrir þrjár skýrslur: 1) skýrsla um framkvæmd EES-samningsins á árinu 1996, 2) skýrsla um áhrif innri markaðar ESB í orkumálum á EES og 3) skýrsla um frjálst flæði fjármagns og um frjálsa fjármagnsþjónustu innan EES. Hjörleifur Guttormsson verður framsögumaður EFTA-hluta skýrslunnar um orkugeirann.
    Samdægurs var haldinn fundur framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EES þar sem rætt var um breytta skipan fulltrúa Evrópuþingsins í nefndinni, en kjósa átti aftur í hana í ársbyrjun 1997, næsta fund nefndarinnar í Noregi í apríl og fleiri mál. Formaður og ritari sóttu fundinn af Íslands hálfu.

k.    43. fundur þingmannanefndar EFTA og 6. fundur framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA.
    Fundurinn var haldinn í Brussel 8. október. Allir fulltrúar Íslandsdeildarinnar auk ritara sóttu fundinn. Á fundinn mætti Jean-Pierre Derisbourg, ráðgjafi þeirrar deildar ESB sem fer með utanríkismál, og fór yfir svokallað Miðjarðarhafsfrumkvæði ESB. Það grundvallast á yfirlýsingu sem undirrituð var í Barcelóna í nóvember 1995 og felur í sér samstarf milli ESB og ríkja við Miðjarðarhafið á sviði varnar- og öryggismála, efnahags- og fjármála og félags- og menningarmála. Eitt meginmarkmið þessa samstarfs er að auka stöðugleika á svæðinu og stuðla þannig um leið að friði við Miðjarðarhafið. Hann hvatti EFTA-ríkin til að huga einnig að auknum samskiptum við ríki á þessu svæði. Þá var rætt um námstefnuna sem EFTA stóð fyrir í september og lýstu nefndarmenn yfir almennri ánægju með hana. Einnig var rætt um fund þingmannanefndar EES daginn áður og lýsti Vilhjálmur Egilsson vonbrigðum sínum með að ályktun á grundvelli skýrslunnar um fjórfrelsið hefði ekki verið samþykkt.
    Samdægurs var haldinn fundur framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA og sóttu Vilhjálmur Egilsson og Hjörleifur Guttormsson ásamt Guðjóni Rúnarssyni ritara fundinn af Íslands hálfu.

l.    Fundur Íslandsdeildarinnar með Evrópunefnd hollenska þingsins.
    Í framhaldi af vel heppnuðum fundi í Dublin í febrúar ákvað Íslandsdeildin að leita eftir fundi með Hollendingum sem áttu að taka við forsæti í ESB í ársbyrjun 1997. Íslandsdeildin ásamt ritara fundaði með Evrópunefnd hollenska þingsins í Haag 9. október. Á fundinum kynnti formaður Íslandsdeildarinnar greinargerð sem lögð var fram í nafni meiri hluta deildarinnar. Þar kom fram afstaða íslenskra stjórnmálaflokka til EES-samningsins, ESB og NATO og jafnframt voru sérstaklega talin upp málefni ríkjaráðstefnunnar og tengsl þeirra við Evrópska efnahagssvæðið og íslenska hagsmuni almennt. Formaður lagði sérstaka áherslu á afstöðu Íslendinga til hinnar sameiginlegu sjávarútvegsstefnu ESB og að Norðurlöndunum verði gert kleift að viðhalda norræna vegabréfasvæðinu þrátt fyrir aðild að Schengen. Hollensku þingmennirnir sögðust telja að með EES-samningnum nyti Ísland nú þegar flestra þeirra kosta sem aðild að ESB mundi færa þeim. Þá var einnig rætt um hugsanleg áhrif Efnahags- og myntbandalagsins á íslensku krónuna, tengslin við ríki Norður-Ameríku (trans-Atlantic dialogue), NATO og Vestur-Evrópusambandið.

m.    44. fundur þingmannanefndar EFTA og 8. fundur framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA.
    Fundur þingmannanefndar EFTA var haldinn í Genf 16. desember. Allir fulltrúar Íslandsdeildarinnar ásamt ritara sóttu fundinn. Á fundinum var fjallað um Efnahags- og myntbandalagið (EMU) og hugsanleg áhrif þess á EFTA-ríkin, samskipti við þriðju ríki, orkumálefni út frá EES-samningnum og fleiri atriði. Fulltrúar efnahagsnefndar EFTA, Peter Saurer og Walter Brodmann, gerðu grein fyrir afstöðu Sviss til myntþróunarinnar. Ljóst er að Svisslendingar hafa fylgst vel með þessari þróun og lagt mat á hugsanlegar afleiðingar. Efnahagsnefnd EFTA mun ekki hafa sérstakt frumkvæði að sameiginlegri úttekt á áhrifum EMU, enda ljóst að hagsmunir EFTA-ríkjanna fara ekki endilega saman í þessu tilliti. Þannig hafa t.d. Svisslendingar mestar áhyggjur af því að svissneski frankinn styrkist um of meðan Íslendingar ættu að hafa meiri áhyggjur af gengislækkun krónunnar. Stjórnvöld hinna EFTA-ríkjanna hafa ekki enn ráðist í sambærilegar úttektir á áhrifum EMU og Svisslendingar. Umfjöllun um samskipti við þriðju ríki snerist að mestu um fríverslunarsamninga sem hafa verið gerðir eða eru í burðarliðnum. Fyrst og fremst er um að ræða samninga við Austur-Evrópuríki og ríki við Miðjarðarhafið, en í umræðunum kom fram að samningar við Asíuríki eru á dagskrá þegar horft er til framtíðar. Vegna þess afturkipps sem kom í samningaviðræður við Möltu og Kýpur voru engir fríverslunarsamningar undirritaðir á árinu. Hins vegar voru hafnar undirbúningsviðræður um slíka samninga við Marókkó, Túnis og Egyptaland og hafa viðræður við tvö fyrstnefndu ríkin gengið vel. Vilhjálmur kom á framfæri ábendingu um hvort ekki væri rétt að huga einnig að sérstökum samningum við Grænland og Færeyjar.
    Samdægurs var haldinn fundur framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA sem Vilhjálmur Egilsson, Sighvatur Björgvinsson og Guðjón Rúnarsson ritari sátu af Íslands hálfu. Á fundinum var farið yfir fjárlög Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA). Björn Friðfinnsson, sem sat fundinn af hálfu ESA, benti á nauðsyn þess að starfsmenn stofnunarinnar kæmu ekki eingöngu frá Íslandi, Liechtenstein og Noregi svo að hagsmunatengsl yrðu ekki of mikil í einstökum málum. Sérstaklega væri þetta orðið brýnt eftir að Austurríki, Finnland og Svíþjóð gengu út. Vilhjálmur taldi í þessu sambandi einnig rétt að við mannaráðningar yrði meira litið til fólks úr einkageiranum því að embættismenn einstakra aðildarríkja, sem ráðnir væru tímabundið til ESA, hlytu eðli málsins samkvæmt oft að vera mjög háðir stjórnvöldum í heimalandinu.

n.    15. fundur þingmannanefndar EFTA með ráðherraráði EFTA.
    Á fundinum var almennt fjallað um framkvæmd EES-samningsins. Allir fulltrúar Íslandsdeildarinnar ásamt ritara sátu fundinn. Fram kom að framkvæmd samningsins hefði gengið vel hingað til en EFTA-ríkin innan EES þyrftu enn að herða sig í að taka upp nýjar Evrópusambandsreglur svo að viðhalda mætti nauðsynlegri einsleitni innan Evrópska efnahagssvæðisins. Á fundinum var lögð áhersla á aukið mikilvægi samstarfs við þriðju ríki og skoraði ráðherraráðið á þingmannanefnd EFTA að vera virk í því samstarfi. Fulltrúar Íslandsdeildarinnar lögðu fram nokkrar spurningar, m.a. spurði Hjörleifur um ríkjaráðstefnuna og hugsanlega frestun Schengen-samkomulagsins og Vilhjálmur vildi vita hvort ekki væru í gangi viðræður við Bandaríkin um gagnkvæma viðurkenningu á vörumerkingarstöðlum. Þá gerðu fulltrúar ráðherraráðsins grein fyrir nýafstaðinni ráðherraráðstefnu Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar í Singapore, þeirri fyrstu eftir að stofnuninni var komið á fót. Loks var rætt um EMU og afstöðu ráðherraráðsins til þeirrar þróunar. Andrea Willi, utanríkisráðherra Liechtenstein, var eini ráðherrann sem sat fundinn þar sem Halldór Ásgrímsson, Björn Tore Godal og Jean-Pascal Delamuraz áttu ekki heimangengt.

Alþingi, 31. jan. 1997.



Vilhjálmur Egilsson,

Gunnlaugur M. Sigmundsson,

Árni M. Mathiesen.


form.

varaform.



Hjörleifur Guttormsson.

Sighvatur Björgvinsson.