Ferill 291. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 291 . mál.


546. Skýrsla



Íslandsdeildar ÖSE-þingsins fyrir árið 1996.

Saga ÖSE-þingsins.
    Aðild að Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, ÖSE (áður Ráðstefnan um öryggi og samvinnu í Evrópu, RÖSE), eiga 55 ríki Evrópu og Norður-Ameríku. Stofnunin starfar á grundvelli Helsinki-sáttmálans frá árinu 1975. Henni er ætlað að stuðla að friði, öryggi og samvinnu ríkja í Evrópu og standa vörð um virðingu fyrir mannréttindum íbúa álfunnar.
    Í yfirlýsingu þjóðarleiðtoga RÖSE-ríkjanna í París 21. nóvember 1990 var hvatt til þess að komið yrði á fót reglulegum fundum þingmanna ríkjanna. Á fundi þjóðarleiðtoganna í Madrid í apríl 1991 var svo ákveðið að koma á fót RÖSE-þingi er kæmi saman einu sinni á ári (í júlí). Þar var samþykkt svokölluð Madrid-yfirlýsing sem er grundvallarskjal ÖSE-þingmannasamstarfsins. Að loknum tveimur undirbúningsfundum á árinu 1992 var fyrsti fundur RÖSE-þings haldinn í júlí 1992 í Búdapest. Í ársbyrjun 1995 breytti þingið síðan um nafn og kallast nú ÖSE-þingið.

Starf ÖSE-þingsins 1996.
    Kosningaeftirlit bar að venju hæst í starfi ÖSE-þingsins á árinu 1996, en af einstökum málefnum má nefna öryggismódel 21. aldar, stöðugleika í Mið- og Austur-Evrópu og hlutverk ÖSE í Bosníu-Hersegóvínu. Í svonefndu Dayton-friðarsamkomulagi er ÖSE einkum falið að hafa umsjón með þremur málaflokkum við uppbyggingu Bosníu-Hersegóvínu: kosningum, mannréttindamálum og aðstoð við gerð samninga um traustvekjandi aðgerðir og takmörkun vígbúnaðar.

Íslandsdeild ÖSE-þingsins.
    Íslandsdeildin var skipuð sem hér segir árið 1996:
    Pétur H. Blöndal, Sjálfstæðisflokki, formaður, Ragnar Arnalds, Alþýðubandalagi, varaformaður, Hjálmar Árnason, Framsóknarflokki, Guðjón Guðmundsson, Sjálfstæðisflokki, og Guðný Guðbjörnsdóttir, Kvennalista.
    Ritari deildarinnar er Gústaf Adolf Skúlason alþjóðaritari.

Starfsemi á árinu 1996.
a. Fundur stjórnarnefndar.
    Fundur stjórnarnefndar ÖSE-þingsins var haldinn dagana 11.–12. janúar í Vín. Fundinn sótti af hálfu Íslandsdeildarinnar formaður og ritari. Fundurinn einkenndist af umræðum um það mikilvæga hlutverk sem ÖSE er ætlað í að koma á friði og stöðugleika í Bosníu-Hersegóvínu en einnig um tillögur sem uppi eru innan öldungadeildar Bandaríkjaþings í þá veru að hætta þátttöku í starfi ÖSE-þingsins.
    Fundurinn var tvískiptur. Fyrri daginn fluttu ýmsir helstu embættismenn ÖSE erindi og sátu fyrir svörum þingmanna. Erindi fluttu Max van der Stoel, sérlegur erindreki um málefni minnihlutahópa, Audrey Glover, yfirmaður þeirrar stofnunar ÖSE sem fer með mannréttindi og lýðræði, dr. Wilhelm Höynck, framkvæmdastjóri ÖSE, Istvan Gyarmati, sérlegur fulltrúi formanns ráðherraráðsins, og Benedikt von Tscharner, formaður ÖSE-ráðsins, auk Flavios Cottis, utanríkisráðherra Sviss og formanns ráðherraráðs ÖSE.
    Seinni daginn fundaði stjórnarnefndin um innri málefni ÖSE-þingsins. Á fundinum var fyrrverandi Júgóslavíulýðveldinu Makedóníu formlega veitt aðild að ÖSE-þinginu, enda þegar aðildarríki ÖSE.
    Rætt var um kosningaeftirlit ÖSE á árinu 1995 í Armeníu, Lettlandi, Króatíu, Georgíu, Aserbaídsjan, Hvíta-Rússlandi, Kasakstan og Rússlandi, en samtals tóku þar um 200 þingmenn þátt í nafni ÖSE en á kostnað eigin þjóðþinga. Spencer Oliver, framkvæmdastjóri þingsins, lagði áherslu á mikilvægi þátttöku þingmanna í slíku eftirliti, enda hefðu kjörnir fulltrúar annan og meiri trúverðugleika en embættismenn við slíkar kringumstæður og ættu jafnframt mun auðveldara með að ná athygli fjölmiðla. Rúmenski þingmaðurinn Emil Roman greindi frá því að Rúmenía hefði á undanförnum árum sent þingmenn til þátttöku í kosningaeftirliti en mæltist jafnframt til þess að þeir fengju að fylgjast með framkvæmd kosninga í rótgrónari lýðræðisríkjum ÖSE þeim sjálfum til fróðleiks er koma mundi að gagni við framkvæmd kosninga heima fyrir. Tilmælum Romans var almennt vel tekið og sagðist Frank Swaelen, forseti ÖSE-þingsins, mundu koma þessari hugmynd áleiðis.
    Undir liðnum önnur mál var greint frá því að í lagafrumvarpi, sem nýlega hafði verið lagt fram í öldungadeild Bandaríkjaþings, væri lagt til að Bandaríkjaþing hætti þátttöku í starfi ÖSE-þingsins. Í umræðum kom m.a. fram að ÖSE-þingið var stofnað árið 1991 að tillögu Bandaríkjamanna. Steny Hoyer, fulltrúi Bandaríkjaþings sagði ekki vera mikinn stuðning við þessa tillögu og þóttist þess fullviss að ákvæðið yrði fellt úr frumvarpinu áður en það yrði samþykkt. Francis Leblanc, fulltrúi Kanadaþings, lagði fram ályktunartillögu þar sem lýst er mikilvægi áframhaldandi þátttöku Bandaríkjaþings í starfi ÖSE-þingsins, ekki síst eftir undirritun Dayton-friðarsamkomulagsins. Ályktunin var samþykkt samhljóða.
    Loks lögðu fulltrúar þjóðþinga ESB-ríkjanna fram ályktunartillögu um friðarsamkomulagið í Bosníu þar sem lýst var yfir ánægju með mikilvægt hlutverk ÖSE í að tryggja frið og stöðugleika í ríkinu. Fulltrúi Króatíuþings, Ivan Milas, mótmælti hins vegar áskorun ályktunarinnar til ríkisstjórnar Króatíu þess efnis að hún byði ÖSE að koma þar upp fastri sendinefnd er hefði eftirlit með friði og mannréttindum, og var ályktunin því samþykkt með öllum atkvæðum nema einu, atkvæði Króatíu.

b. 5. fundur ÖSE-þingsins.
    
Dagana 5.–9. júlí var haldin fimmti árlegi fundur ÖSE-þingsins, að þessu sinni í Stokkhólmi. Fundinn sóttu af hálfu Íslandsdeildarinnar Pétur H. Blöndal formaður og Guðjón Guðmundsson, auk ritara Íslandsdeildarinnar. Guðjón sat fundinn að þessu sinni í forföllum Hjálmars Árnasonar, en hvorki fulltrúi né varamaður stjórnarandstöðuflokkanna gátu sótt fundinn og var íslenska sendinefndin því ekki fullskipuð að þessu sinni. Samhliða þingfundi funduðu stjórnarnefnd og málefnanefndir ÖSE-þingsins.
    Á fundi stjórnarnefndar var Andorra formlega veitt aðild að ÖSE-þinginu og eru aðildarríkin þar með orðin 55 talsins. Þá var fjallað um kosningaeftirlit, en á síðustu tólf mánuðum höfðu tíu sendinefndir ÖSE-þingsins fylgst með framkvæmd kosninga í aðildarríkjum ÖSE, alls á þriðja hundrað þingmanna. Þar af fylgdust rúmlega eitt hundrað þingmenn á vegum ÖSE-þingsins með þingkosningunum í Rússlandi í desember 1995. Á þingfundinum voru í fyrsta sinn veitt blaðamannaverðlaun ÖSE-þingsins, en á fundi stjórnarnefndar var ákveðið að þau yrðu héðan af veitt árlega. Loks var samþykkt að sjöundi árlegi fundur ÖSE-þingsins, árið 1998, yrði haldinn í Kaupmannahöfn, en áður hafði verið ákveðið að sjötti fundur þingsins, árið 1997, yrði haldinn í Varsjá.
    Þrjár nefndir starfa á vegum ÖSE-þingsins. Íslandsdeildin tók þátt í nefndastarfi sem hér segir:
    Nefnd um stjórn- og öryggismál:     Pétur H. Blöndal.
    Nefnd um efnahags-, vísinda-, tækni- og umhverfismál:     Guðjón Guðmundsson.
    Nefnd um lýðræði og mannréttindamál:     enginn að þessu sinni.
    Lagðar voru fram skýrslur í hverri nefnd en á grundvelli þeirra höfðu verið samin drög að ályktunum. Þessi drög voru rædd í viðkomandi nefnd og afgreidd ásamt breytingartillögum. Öllu var síðan steypt saman í eina heildarályktun í þremur köflum, Stokkhólmsyfirlýsinguna, sem lögð var fyrir þingfundinn.
    Á fundi nefndar um stjórn- og öryggismál var fjallað um mótun „sameiginlegs heildaröryggismódels fyrir 21. öld“ sem er verkefni sem hafist var handa við í kjölfar leiðtogafundar ÖSE í Búdapest árið 1994 og var til umfjöllunar á leiðtogafundi ÖSE í Lissabon í desember sl. Samstarf og verkaskipting ýmissa fjölþjóðlegra stofnana í málefnum Bosníu-Hersegóvínu var að margra mati fyrirmynd þess sem koma skyldi við að tryggja frið og öryggi í álfunni. Skiptar skoðanir komu hins vegar fram um einstök atriði, og til að mynda var ályktun um að ÖSE gæti tekið bindandi meirihlutaákvarðanir með atkvæðum 90% aðildarríkja samþykkt gegn atkvæðum Úkraínu, Hvíta-Rússlands, Búlgaríu, Albaníu og Aserbaídsjan.
    Á fundi nefndar um efnahags-, vísinda-, tækni- og umhverfismál var fjallað um fall kommúnismans og efnahagsuppbyggingu í Mið- og Austur-Evrópu með áherslu á þau áhrif sem efnahags- og félagsleg upplausn getur haft á öryggismál álfunnar. Í nefndinni var samþykkt ályktun þar sem viðkomandi ríki eru hvött til að halda áfram á braut lýðræðis og markaðsvæðingar hagkerfa sinna, en Vesturlönd jafnframt hvött til að veita aukinn stuðning, einkum í formi frjálsari markaðsaðgangs fyrir varning frá þessum ríkjum. Þrír þingmenn frá Frakklandi og Kanada lögðu fram breytingartillögu við ályktun nefndarinnar þar sem þess var krafist að Norðmenn stöðvuðu hvalveiðar sínar þegar í stað. Tillagan var felld með sautján atkvæðum gegn fjórtán, en níu sátu hjá.
    Á fundi nefndar um lýðræði og mannréttindamál var fjallað um málefni innflytjenda og pólitískra flóttamanna og ályktað um aukin réttindi þeim til handa, aukna samvinnu ÖSE-ríkja um meðferð málefna þeirra og átak gegn kynþáttafordómum í þeirra garð.
    Konur á meðal þingmanna héldu sérstakan fund þar sem ákveðið var að leggja til við stjórnarnefnd þingsins að hún mælti með að a.m.k. ein kona yrði í hverri sendinefnd á þinginu, en þegar hafði verið ákveðið að stjórnarnefndin kæmi næst saman í Vín í janúar 1997.
    Við setningu þingfundarins fluttu ávörp Frank Swaelen, fráfarandi forseti ÖSE-þingsins, Birgitta Dahl, forseti sænska þingsins, Lena Hjelm-Wallén, utanríkisráðherra Svíþjóðar, og Flavio Cotti, utanríkisráðherra Sviss og formaður ráðherraráðs ÖSE. Síðar fluttu nokkrir helstu embættismenn ÖSE erindi og sátu fyrir svörum, og loks ávörpuðu þingið Ahmed Fathi Sorour, forseti Alþjóðaþingmannasambandsins, Sir Dudley Smith, forseti þings Vestur-Evópusambandsins, Leni Fischer, forseti Evrópuráðsþingsins, og Sir Geoffrey Johnson Smith, gjaldkeri Norður-Atlantshafsþingsins.
    Blaðamannaverðlaun ÖSE-þingsins voru veitt í fyrsta sinn, en sem fyrr segir samþykkti stjórnarnefnd þingsins að þau skyldu eftirleiðis veitt árlega. Verðlaunin eru veitt fyrir fréttamennsku í þágu lýðræðis og mannréttinda, og er þeim ætlað að efla grundvallarregluna um frjálsa fjölmiðlun. Verðlaunin námu að þessu sinni 20.000 Bandaríkjadölum (fjármögnuð af þýskum og sænskum útgáfufyrirtækjum), og þau hlaut að þessu sinni pólski blaðamaðurinn og rithöfundurinn Adam Michnik.
    Í almennri stjórnmálaumræðu þingsins gerði Pétur H. Blöndal verkaskiptingu fjölþjóðastofnana og kostnað við starfsemi þeirra að umtalsefni. Pétur vakti athygli á því að ýmsar stofnanir væru að vinna að skyldum og jafnvel sambærilegum verkefnum. Þetta hefði í för með sér tvíverknað og aukinn kostnað. Hann hvatti til aukinnar verkaskiptingar á milli t.d. ÖSE og Evrópuráðsins með það að markmiði að ná fram betri nýtingu þess fjármagns sem varið er í þágu friðar og mannréttinda. Slíkur sparnaður mundi að sjálfsögðu mæta mótspyrnu þeirra sem komið hefðu sér þægilega fyrir og ferðuðust um heiminn á háum skattfrjálsum launum. Þessu yrði að breyta. Það væri ekki trúverðugt að forréttindamaður hjalaði um mannréttindi eða að hátekjumaður þættist hjálpa sveltandi börnum. Pétur gerði einnig að umtalsefni að stofnun svonefndra „griðasvæða“ í Bosníu-Hersegóvínu hefði veitt þúsundum saklausra borgara falska öryggistilfinningu. Þeir hefðu því ekki flúið áfram eða gripið til varna. Þetta fólk hefði í reynd verið leitt í gildru og margir týnt lífi. Lagði hann áherslu á að slíkar öryggistryggingar yrðu ekki gefnar nema tryggt væri að við þær yrði staðið.
    Ályktun ÖSE-þingsins, Stokkhólmsyfirlýsingin, var sem fyrr segir unnin úr ályktunum nefndanna þriggja sem greint er frá hér að framan. Jafnframt var samþykkt ályktun um málefni fyrrum Júgóslavíu þar sem fjölþjóðaherliðið í Bosníu-Hersegóvínu er m.a. hvatt til að hafa hendur í hári þeirra sem eftirlýstir eru fyrir stríðsglæpi og framselja þá stríðsglæpadómstólnum í Haag. Ályktunin var samþykkt gegn einu atkvæði en nokkrir sátu hjá. Þá var samþykkt ályktun um málefni Tyrklands þar sem þingið fordæmir hryðjuverkastarfsemi Kúrda annars vegar og skort á virðingu fyrir mannréttindum, jafnt í tyrkneskri löggjöf sem við framkvæmd hennar, hins vegar. Ályktunin var samþykkt með einu mótatkvæði en nokkrir sátu hjá. Öll tyrkneska sendinefndin hafði hins vegar verið kölluð heim daginn áður vegna atkvæðagreiðslu um stuðningsyfirlýsingu við nýja ríkisstjórn í Tyrklandi. Loks voru samþykktar einhljóða siðareglur um lýðræðisleg vinnubrögð ríkja innan lands sem utan, en skjal þetta var lagt fram af sérstakri nefnd sem skipuð var á fjórða árlega fundi þingsins í Ottawa 1995.
    Á þinginu fór fram kjör forseta ÖSE-þingsins og fjögurra varaforseta af níu. Javier Ruperez frá Spáni var kjörinn forseti þingsins með 101 atkvæði gegn 95 atkvæðum sem Helle Degn frá Danmörku hlaut. Frambjóðendur til varaforseta voru átta en eftirfarandi náðu kosningu:
    John English    Kanada     til þriggja ára
    Kazys Bobelis    Litáen     til þriggja ára
    Wojtech Lamentowicz     Póllandi     til þriggja ára
    Jacques Genton    Frakklandi    til eins árs

c. Kosningaeftirlit.
    ÖSE-þingið ákvað frá upphafi að taka virkan þátt í kosningaeftirliti og leggja áherslu á það starf sem mikilvægan lið í að efla lýðræði og virðingu fyrir mannréttindum. Jafnframt hefur ÖSE hvatt þingið til þess að sinna þessu starfi af fullum krafti. Árið 1996 tók ÖSE-þingið þátt í eftirliti með kosningum í Albaníu, Rússlandi, Bosníu-Hersegóvínu, Rúmeníu og Júgóslavíu. Alls tóku hátt á annað hundrað þingmenn ÖSE-ríkjanna þátt í þessu starfi.

d. Annað.

    ÖSE-þingið hefur átt fulltrúa á ýmsum fundum embættismannanefnda ÖSE. Það hefur tekið þátt í fundum efnahagsmálanefndarinnar og námsstefnum lýðræðis- og mannréttindaskrifstofunnar. Þingið tók jafnframt þátt í ferðum formanns ráðherraráðs ÖSE til ýmissa svæða og forseti ÖSE-þingsins sótti leiðtogafund ÖSE í Lissabon í desember.

Alþingi, 30. jan. 1997.



Pétur H. Blöndal,

Ragnar Arnalds,

Hjálmar Árnason.


form.

varaform.



Guðjón Guðmundsson.

Guðný Guðbjörnsdóttir.





Fylgiskjal I.

I. Markmið og skipulag ÖSE-þingsins.


    Samkvæmt starfsreglum ÖSE-þingsins eru því ætluð eftirfarandi hlutverk:
    að meta árangurinn af ÖSE-samstarfinu,
    að ræða mál sem eru á dagskrá funda leiðtoga og utanríkisráðherra ÖSE-ríkjanna,
    að þróa leiðir til að koma í veg fyrir og leysa úr átökum,
    að stuðla að eflingu lýðræðislegra stofnana í ÖSE-ríkjunum,
    að leggja sitt af mörkum til þróunar, samskipta og samstarfs stofnana ÖSE.
    Samkvæmt starfsreglum ÖSE-þingsins er aðild að því miðuð við þing þeirra ríkja sem undirritað hafa Helsinki-sáttmálann frá 1975 og Parísaryfirlýsinguna frá 1990 og að ríkin taki þátt í ÖSE-samstarfinu. Í dag eiga 55 þing ÖSE-ríkjanna aðild að ÖSE-þinginu. Gert er ráð fyrir 317 fulltrúum á þinginu og þar af á Alþingi þrjá.
    Starfsreglurnar gera ráð fyrir að ÖSE-þingið komi saman í júlí ár hvert og standi fundur þess eigi lengur en fimm daga. Auk þingfunda er gert ráð fyrir að á þinginu starfi þrjár fastanefndir er fjalli um mál er falla undir svið þeirra. Formaður, varaformaður og framsögumaður hverrar nefndar eru kjörnir af nefndunum í lok allsherjarfundar ár hvert. Framsögumaður nefndar velur umræðuefnið sem tekið er fyrir í nefndinni það ár, í samráði við formann og varaformann nefndarinnar. Hann undirbýr skýrslu sem lögð er fyrir nefndina ásamt drögum að ályktun. Fastanefndirnar þrjár eru nefnd um stjórn- og öryggismál (fyrsta nefnd), nefnd um efnahags-, vísinda-, tækni- og umhverfismál (önnur nefnd) og nefnd um lýðræði og mannréttindamál (þriðja nefnd). Heimilt er forseta þingsins að boða til aukaþings ef stjórnarnefnd þingsins ákveður svo.
    Stjórnarnefnd þingsins (Standing Committee) er ætlað að undirbúa störf þingsins. Hún er skipuð forseta ÖSE-þingsins, varaforsetum, gjaldkera, formönnum nefnda þingsins og formönnum sendinefnda einstakra þjóðþinga, eða alls 69 fulltrúum. Framkvæmdastjórn þingsins (Bureau) er skipuð forseta þess, níu varaforsetum og gjaldkera. Henni er ætlað að fylgjast með að ákvörðunum þingsins sé framfylgt og ákvarða um málefni sem upp kunna að koma á milli funda stjórnarnefndar.
    Þingsköp ÖSE-þingsins gera ráð fyrir að þingið og framkvæmdastjórnin taki ákvarðanir sínar með meiri hluta atkvæða en ákvarðanir stjórnarnefndarinnar skuli teknar samkvæmt afbrigði af svokallaðri „samstöðureglu“ (consensus rule), en henni er fylgt á fundum fulltrúa ríkisstjórna ÖSE-ríkjanna. Stjórnarnefnd þingsins fylgir svokallaðri „consensus minus one“ reglu sem felur í sér að tvö eða fleiri ríki geta fellt einstök mál í nefndinni.
    Fulltrúi ráðherraráðs ÖSE ávarpar þingið á árlegum fundi þess og gefur skýrslu um málefni ÖSE og verkefni sem verið er að vinna að á þeim vettvangi. Þá geta þingfulltrúar beint fyrirspurnum til þess ráðherra er mætir sem fulltrúi ráðherraráðsins.
    Opinber tungumál þingsins eru sex: enska, franska, þýska, ítalska, rússneska og spænska, og er þýtt samtímis.



Fylgiskjal II.


Skipan ÖSE-þingsins.



    

Fjöldi þing-

Fjöldi


    

sæta hvers

þingsæta


    

aðildarríkis

alls



A.     Bandaríkin     
17
17
B.     Rússland     
15
15
C.     Þýskaland, Frakkland, Ítalía og Bretland     
13
52
D.     Kanada og Spánn     
10
20
E.     Úkraína, Belgía, Holland, Pólland,
    Svíþjóð og Tyrkland     
8
48
F.     Rúmenía     
7
7
G.     Austurríki, Danmörk, Finnland, Grikkland, Ungverjaland,
    Írland, Noregur, Portúgal, Tékkland, Sviss, Hvíta-Rússland,
    Úsbekistan og Kasakstan     
6
78
H.     Búlgaría og Lúxemborg     
5
10
I.     Júgóslavía og Slóvakía     
4
8
J.     Kýpur, Ísland, Malta, Eistland, Lettland, Litáen, Albanía,
    Slóvenía, Króatía, Moldavía, Tadsjikistan, Túrkmenistan,
    Georgía, Kirgisistan, Armenía, Aserbaídsjan, Bosnía-
    Hersegóvína og fyrrverandi Júgóslavíulýðveldið Makedónía     
3
54
K.     Andorra, Liechtenstein, Mónakó og San Marínó     
2
8
Samtals               
317
Fylgiskjal III.


Starfsreglur


fyrir Íslandsdeild ÖSE-þingsins.



1. gr.

    Íslandsdeild ÖSE-þingsins (The Icelandic delegation to the OSCE Parliamentary Assembly) er skipuð fimm alþingismönnum. Íslandsdeildin sendir þrjá fulltrúa á ÖSE-þingið hvert ár, sbr. ákvæði Madrid-yfirlýsingarinnar frá apríl 1991 og viðauka við starfsreglur þingsins frá janúar 1993 um fjölda fulltrúa frá einstökum aðildarþingum.

2. gr.

    Þingflokkar skulu tilnefna í Íslandsdeildina eftir hverjar alþingiskosningar og gildir tilnefningin út kjörtímabilið nema þingflokkar ákveði annað.

3. gr.

    Þingflokkur skal tilnefna í deildina eftir hlutfallsreglu jafnmarga þingmenn og hann á rétt til samkvæmt stærð flokksins nema samkomulag sé um aðra skiptingu fulltrúa. Þingflokki, sem ekki hefur styrkleika til að hljóta fulltrúa í Íslandsdeildina, skal heimilt að tilnefna áheyrnarfulltrúa til setu á fundum deildarinnar. Áheyrnarfulltrúi skal hafa rétt til þátttöku í starfi ÖSE-þingsins samkvæmt almennum reglum 7. gr.

    

4. gr.


    Fulltrúi stærsta þingflokksins skal kalla Íslandsdeildina saman til fyrsta fundar og skal þá kjósa formann og varaformann deildarinnar fyrir kjörtímabilið.
    Formaður situr í stjórnarnefnd (Standing Committee) ÖSE-þingsins, sbr. 32. gr. starfsreglna þess.

5. gr.

    Íslandsdeildin hefur ritara sem er nefndinni til aðstoðar, sbr. 3. mgr. 35. gr. þingskapa Alþingis.

6. gr.

    Íslandsdeildin skal árlega leggja fyrir forsætisnefnd Alþingis, innan þess frests sem nefndin ákveður, tillögur um fjárveitingar til starfsemi deildarinnar. Tillagan skal við það miðuð að fjárveiting nægi til að greiða árgjald til aðalskrifstofu þingsins, ferðakostnað fulltrúa og annan kostnað sem af starfsemi deildarinnar leiðir. Reikningar skulu endurskoðaðir með sama hætti og önnur útgjöld Alþingis.

7. gr.

    Í upphafi hvers kjörtímabils skipuleggur Íslandsdeildin þátttöku deildarinnar í starfi ÖSE-þingsins fyrir kjörtímabilið í heild, sbr. 2. mgr.
    Formaður deildarinnar skal að jafnaði sækja öll þau þing sem Íslandsdeildin tekur þátt í. Við val á öðrum þátttakendum á þingin skal fylgja hlutfallsreglu eftir stærð þingflokka ef ekki er samkomulag um annað.

8. gr.

    Starfsreglur þessar taka þegar gildi.


(Samþykktar á fundi forsætisnefndar 28. apríl 1993.)