Ferill 310. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 310 . mál.


571. Tillaga til þingsályktunar



um skipun nefndar um kaup eða leigu skólabáts og viðvaningshlutaskráningu.

Flm.: Kristján Pálsson, Árni M. Mathiesen, Guðmundur Hallvarðsson,


Guðjón Guðmundsson, Einar K. Guðfinnsson, Hjálmar Jónsson, Árni Johnsen,


Lúðvík Bergvinsson, Gísli S. Einarsson, Magnús Stefánsson.



    Alþingi ályktar að fela sjávarútvegsráðherra að skipa nefnd til að kanna forsendur fyrir kaupum eða leigu á skólabát sem nýttur verði til kennslu í sjómennsku. Nefndinni verði einnig falið að finna leiðir til fjármögnunar á hugsanlegum kaupum og rekstri bátsins. Jafnframt kanni nefndin möguleika á viðvaningshlutaskráningu sjóvinnunemenda um borð í fiskiskipum.
    Nefndina skipi fulltrúar sjávarútvegsráðuneytisins, Fiskifélags Íslands, sjómannasamtaka, samtaka útgerðarmanna, Stýrimannaskólans í Reykjavík, Sambands ísl. sveitarfélaga, menntamála-, fjármála- og samgönguráðuneytis.
    Nefndin skili áliti sem fyrst.

Greinargerð.


Skólabáturinn Mímir RE 3.
    Rekstur skólabáts er engin nýlunda hér við land. Er skemmst að minnast þess merka starfs sem unnið var af áhöfn Mímis RE 3 og Fiskifélaginu allt þar til Mímir fórst með voveiflegum hætti árið 1991.
    Mími var hleypt af stokkunum á Skagaströnd árið 1985 og var hann 15 brl. að stærð. Báturinn var í eigu ríkissjóðs og á rekstrarábyrgð sjávarútvegsráðuneytisins. Fiskifélag Íslands sá um reksturinn samkvæmt sérstökum samningi við ráðuneytið.
    Koma bátsins varð mikil lyftistöng fyrir sjóvinnunám í grunnskólum landsins sem og í stýrimannadeildum og víðar. Má sjá í skýrslum Fiskifélagsins um rekstur bátsins að mikill áhugi var fyrir sjóvinnunni og ferðum skólafólks með bátnum. Meðan hans naut við fóru um 5.000 ungmenni í sjóferð með bátnum, flest í sína fyrstu sjóferð.
    Frá því að Mímir fórst hefur kennsla í sjómennsku verið mjög stopul í skólum landsins og áhugi á sjóvinnukennslu minnkað verulega. Þetta sést best á því að skólum sem kenna sjóvinnu sem valfag hefur fækkað úr 27 árið 1992 í 18 á sl. ári.

Mat skólastjórnenda á gildi skólabáts.
    Eftir að Mímir fórst lagðist hluti skólastarfsins, sjóferðirnar, niður að mestu sem að dómi allra sem að þessum málum hafa komið var mikil afturför og aðalástæða þess að sjóvinnukennslan er á slíku undanhaldi sem raun ber vitni. Á síðasta ári leigði Fiskifélagið 60 tonna bát, Haftind HF 123, svo að bjóða mætti sjóvinnunemendum um landið upp á sjóferð. Í umsögnum skólastjóra, sem fengu Haftind til sín, má glöggt sjá þann mikla áhuga sem er fyrir slíku skipi og þeim möguleikum sem það gefur, bæði við nám og til kynningar á sjómennsku fyrir nemendur. Halldór Valdimarsson, skólastjóri á Húsavík, segir í umsögn sinni: „Ég lýsi yfir ánægju minni með ferðir Haftinds HF 123 með sjóvinnunemendur Borgarholtsskóla Húsavík. Kennslan og aðbúnaður allur var með ágætum. Vonandi verður framhald á þessari frábæru þjónustu.“ Hugo Rasmus, kennari í Kópavogi, skrifaði: „Hvers vegna er ekki til skólaskip á Íslandi 1996? Allir sem undirritaður hefur rætt við um þessi mál eru sammála um að skólaskip sé sjálfsagt að starfrækja. Ég vona að ráðamenn rumski og kippi þessu í liðinn.“
    Í svipaðan streng taka skólamenn í umsögnum sínum um ferð Haftinds í sl. vor, menn eins og Sveinbjörn M. Njálsson og Júlíus Kristjánsson frá Dalvík, Pétur Björnsson Suðureyri, Rúnar Vífilsson Bolungarvík, Björn E. Hafberg Flateyri, Ólafur Gunnarsson Patreksfirði, Jón Björnsson Ísafirði, Hjálmfríður Sveinsdóttir Vestmannaeyjum, Gunnlaugur Dan Grindavík, Jónatan Ingimarsson Garði, Sigurður E. Þorkelsson Keflavík og Rögnvaldur Einarsson Akranesi.
    Þetta eru mikilsverðar ábendingar þegar haft er í huga að þetta fólk tengist æsku landsins á mótunarskeiði hennar og skilur betur en flestir aðrir hvar úrbóta er þörf.

Rekstur skólabáts.
    Nauðsyn þessa máls er augljós þegar haft er í huga að hér býr þjóð sem byggir allt sitt á afkomu sjávarútvegs. Þjóð, sem býr við slíkar aðstæður, verður að vekja áhuga á störfum til sjós og gera öllu námi sem getur stuðlað að því hátt undir höfði. Til að það sé hægt verða að vera til góð og örugg tæki eins og fram kemur í þeim umsögnum sem vísað er til hér að framan. Sú virðingarverða viðleitni sem einkaaðilar hafa sýnt til að sinna útgerð skólaskips sl. sumar, eins og með Haftindi, hefur gengið illa, enda ekki á færi einstaklinga að standa undir kostnaðarsömu kennslustarfi án þess að fyrir það komi full greiðsla. Einstaklingar á borð við Karel Karelsson, skipstjóra og eiganda Haftinds HF 123, hafa kynnst því og hugsjónin verið dýru verði keypt. Kemur þar margt til og má nefna kvótaleysi, kostnaðarsama útgerð og flókna sambúð við ríki og sveitarfélög þar sem mikill tími fer í að finna fjármagn og sannfæra yfirvöld ár eftir ár um nauðsyn starfseminnar.
    Því hefur verið haldið fram að rekstur skólabáts ætti að vera algerlega í höndum skólanna sjálfra þar sem hér væri um skólamál að ræða. Þetta hljómar vel en gengur þó ekki upp af mörgum ástæðum. Mikil ábyrgð fylgir því að gera út bát og ekki hvað síst þar sem um borð eru grunnskólanemar og ungmenni alls óvön sjómennsku. Um borð í slíkum skipum þarf aðbúnaður og öryggi að hafa sérstakan forgang og þar þarf að vera sérþjálfaður mannskapur. Slíkt er dýrt og ekki á færi útgerða sem einungis ætla að sinna þessu fáein skipti á ári. Einnig hefur sýnt sig að þrátt fyrir að mikið sé til af bátum sem henta og hægt væri að fá til kennslu verður kennslan tilviljanakennd og ómarkviss. Tryggingar verða einnig dýrari og annar kostnaður eykst vegna þeirrar sérhæfingar sem slíkri útgerð fylgir.
    Af þessum og fleiri ástæðum eiga kennsla og fiskveiðar í atvinnuskyni ekki saman. Einnig er óraunhæft að gera ráð fyrir að mörg sérútbúin skip sinni kennslu og í ljósi reynslunnar ekki gerlegt þegar varla gengur að halda úti einu skipi fyrir það fé sem fæst. Það er því eðlilegt hlutverk Alþingis og ríkisstjórnar Íslands að hafa frumkvæði að kaupum eða leigu á skólabát og fá til liðs við sig sveitarfélög og hagsmunasamtök. Reynslan sýnir að það er eina færa leiðin til árangurs.
    Tilgangurinn með þessari þingsályktunartillögu er að tryggja þetta og um leið að kennsla í sjómennsku verði í boði í grunnskólum sem þá ali af sér áhugasöm sjómannsefni. Reynslan sýnir að það gerist ekki betur en með skólaskipi og er þá ekki aðalatriði hvort ríkið á skipið eða leigir það. Aðalatriðið er að slíkur möguleiki sé fyrir hendi og öryggi og útbúnaður séu eins og best verður á kosið. Sú trygging fæst ekki nema ríkissjóður beri ábyrgð og tryggi nauðsynlegar rekstrarforsendur, eins og rekstrarfé og heimildir til veiða utan kvóta. Mímir var of lítill sem skólaskip og háði það starfinu um borð. Skip sem er 50–60 tonn að stærð eins og Haftindur er mun betri kostur sem opnar möguleika á að reyna flest veiðarfæri sem notuð eru á fiskiskipum.

Skráning viðvaninga á fiskiskip.
    
Norðmenn eiga þrjú stór skólaskip með seglum sem ungu skólafólki úr framhaldsskólum er boðið að munstrast á og er megintilgangur útgerðarinnar að kenna ungmennum aga og vinnusemi. Ekki hefur verið á döfinni að hefja svo kostnaðarsama útgerð hér á landi.
    Sá siður að skrá viðvaninga um borð í fiskiskip var algengur áður fyrr en hefur að mestu lagst af. Í viðvaningshlutaskráningu fólst að unglingar voru munstraðir upp á hálfan hlut á móti öðrum yfir síldarvertíð eða túr á togara. Ástæða þess að sá siður lagðist af var ótti sjómannafélaganna við misnotkun útgerðarmanna á slíkri heimild til að ná í ódýrt vinnuafl.
    Sá stutti reynslutími sem fengist hefur á skólabát hefur gagnast mörgum ungum manninum til að komast í fyrsta skiprúmið. Enn vantar frekari möguleika fyrir þá sem vilja kynnast sjómennsku og er vonandi hægt að koma í veg fyrir misnotkun á viðvaningshlutaskráningu með því að leyfa aðeins mjög tímabundna ráðningu og að aðeins megi vera tveir viðvaningar á hverju skipi. Slíka skráningu fengju aðeins þeir sem stundað hefðu nám í sjóvinnu sem valgrein í grunnskóla og farið ferð á skólabát. Ungmenni á vegum félagsmálastofnana sem stunda nám í sjómennsku ættu einnig að geta komið til greina í viðvaningshlutaskráningu. Til að þetta megi takast þarf velvilja þeirra sem málið varðar mest, þ.e. samtaka sjómanna og útvegsmanna. Ef þetta tekst er enginn vafi á því að áhugi mun aukast á sjómennsku og námi henni tengdu, en það er einmitt markmiðið með þessari þingsályktunartillögu.