Ferill 336. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 336 . mál.


608. Tillaga til þingsályktunar



um breytingu á umferðarlögum.

Flm.: Gunnlaugur M. Sigmundsson, Vilhjálmur Egilsson,


Hjálmar Árnason, Árni Johnsen.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leggja fyrir Alþingi frumvarp til laga um breytingu á umferðarlögum þess efnis að heimila skuli hægri beygju á móti rauðu ljósi á gatnamótum.

Greinargerð.


    Í áraraðir hefur það fyrirkomulag gilt í Bandaríkjunum og Kanada að ökumönnum er heimilt að beygja til hægri á gatnamótum þótt ekið sé á móti rauðu ljósi, nema sérstaklega sé tekið fram að slíkt sé óheimilt. Stöðvunarskylda hvílir engu að síður á ökumanni sem hyggst beygja til hægri á rauðu ljósi eins og á gatnamótum þar sem stöðvunarskylda er en ekki umferðarljós. Sú regla hefur gefist vel þar vestra og margir Íslendingar sem flytjast heim eftir búsetu vestan hafs sakna þessa hagræðis.
    Mikil aukning á fjölda bifreiða kallar á stórfelldar og dýrar framkvæmdir við samgöngumannvirki til að umferð gangi öruggt og hindrunarlítið fyrir sig. Leyfi löggjöfin hægri beygju á móti rauðu ljósi mun slíkt verða til að auðvelda mjög umferð um gatnamót og spara sveitarfélögum stórfé sem þau ella þurfa að leggja í ný samgöngumannvirki og vegi til að ná sama árangri. Á stöðum, þar sem ekki er talið æskilegt að leyfa hægri beygju á rauðu ljósi, væri slíks getið á viðkomandi gatnamótum og ber þá ökumanni að bíða uns komið er grænt ljós. Í Bandaríkjunum og Kanada er bann gegn því að beygt sé til hægri á móti rauðu ljósi gefið til kynna með skilti. Ella gilda sömu reglur þegar beygt er til hægri og gilda þar sem stöðvunarskylda er á gatnamótum. Engin ástæða er til að ætla að regla sem þessi skili ekki árangri í umferðinni hér á landi eins og hún gerir í Bandaríkjunum og Kanada.