Ferill 343. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 343 . mál.


615. Tillaga til þingsályktunar



um könnun á veiðiþoli beitukóngs.

Flm.: Össur Skarphéðinsson, Jóhanna Sigurðardóttir, Rannveig Guðmundsdóttir,


Gísli S. Einarsson, Guðmundur Árni Stefánsson, Sighvatur Björgvinsson.



    Alþingi ályktar að fela sjávarútvegsráðherra að láta gera úttekt á möguleikum til að nýta beitukóng við Ísland. Úttektin skal meðal annars fela í sér mat á útbreiðslu tegundarinnar, veiðiþoli og æskilegum veiðiaðferðum en jafnframt taka til markaðsstöðu og leiða til að markaðssetja afurðir úr beitukóngi.

Greinargerð.


1. Lýsing og lífshættir.
    Beitukóngurinn, Buccatum undatum L., er botnlægt lindýr sem einkennist af kuðungi úr harðri kalkskel er dýrið myndar um líkama sinn. Sveinn Pálsson (1762–1840) nefndi hann ætiskúfung í Ferðabók sinni en hinn merki galdra- og náttúrufræðingur, Jón lærði Guðmundsson (1574–1658), lét sér nægja að kalla hann bara kuðung.
    Í bókinni Skeldýrafána Íslands gefur Ingimar Óskarsson eftirfarandi lýsingu á beitukóngi: „Hann er traustur, gulhvítur eða örlítið krómgulur að lit með stuttri eða langri hyrnu sem er nokkuð odddregin. Vindingarnir á sjálfum kuðungnum eru 7–8 og í minna lagi kúptir. Grunnvindingurinn er stór, oft 3 / 5 af allri kuðungslengdinni. Saumurinn víður, þó styttri en hyrnan og útrönd bogadregin. Skelin er með 12–16 breiðum, skálægum langfellingum. Grunnvindingurinn er oft fellingalaus eða því sem næst. Allt yfirborðið er með upphleyptum, allþéttstæðum snigilrákum sem iðulega eru svo grófar á hyrnunni að fellingahryggirnir verða meira eða minna hnúóttir. Lokan er frekar stór eða tvöfalt styttri en munnurinn. Lokukjarninn örmiðja. Beitukóngurinn getur orðið 10–11 cm langur.“ Miðað við nýlegar rannsóknir (sjá kafla 4) er beitukóngur af þeirri stærð um 13–15 ára, en eldri verður hann tæpast hér við land.
    Tegundina er að finna bæði í Kyrrahafi og Atlantshafi. Kjörlendi hennar er harður botn eða sendinn leirbotn og þótt beitukóngur haldi sig aðallega við fjöruborðið finnst hann víða erlendis niður á 200 metra dýpi. Hér er hann að finna í öllum landshlutum og til skamms tíma var talið að hann héldi sig ekki neðar en á 110 metra dýpi við Ísland. Nýjar, óbirtar rannsóknir á vegum hins alþjóðlega BIOICE-verkefnis, sem umhverfisráðuneytið hefur yfirumsjón með, hafa hins vegar leitt í ljós að umhverfis Ísland má finna beitukóng allt niður á 200 metra dýpi.
     Beitukóngurinn er dæmigert rándýr. Hann hefur öfluga sag- eða skráptungu sem hann borar með gegnum skeljar annarra dýra. Sérstakur kirtill tengist tungunni og frá honum losar beitukóngurinn vökva sem lamar eða drepur bráðina. Kirtillinn er yfirleitt fjarlægður í vinnslu en sé beitukóngurinn etinn ferskur í miklu magni getur kirtilvökvinn leitt til eitrunareinkenna, svokallaðrar kuðungariðu (sjá síðar). Beitukóngurinn leggst á ýmis botndýr sem hann lamar og étur en hafi hann tækifæri til gerir hann sér líka veislu úr fiskum og dýrum sem hann rekst á í netum. Með því móti veldur hann stundum talsverðu tjóni á netafiski og til fróðleiks má nefna að í upphafi aldarinnar veltu Danir fyrir sér ráðum til að útrýma beitukóngi vegna þess hversu hart hann lék netaafla danskra sjómanna. Beitukóngurinn leggst líka á hræ og er mikilvirkur í endurvinnslu náttúrunnar. Fram á þessa öld var þetta nýtt hér og í Færeyjum til að veiða hann til beitu og voru þá bornir niður hausar og dauðir fiskar sem beitukóngurinn settist á.
    Tilraunir með merkta beitukónga sýna að hann ferðast lítt milli svæða og er því mjög staðbundinn. Af þeim sökum er nauðsynlegt að kanna vel magn á einstökum veiðisvæðum áður en veiðar eru hafnar í stórum stíl, til að draga úr líkum á ofveiði.
    Við Ísland finnast sex afbrigði beitukóngs en eitt af einkennum tegundarinnar er hversu auðug hún er að afbrigðum. Erlendis eru þekkt a.m.k. 20 afbrigði. Íslendingar rugla stundum saman við beitukónginn náskyldum ættingja sem heitir hafkóngur, Neptunea despecta L. Í framtíðinni kynni hafkóngur einnig að verða mögulegur kostur til veiða og vinnslu, enda fæst hann oft í humartroll á Meðallandsbugt og á Eldeyjarsvæðinu.
    
2. Markaðsmál.
    Á síðustu árum hafa veiðar á beitukóngi brostið í Evrópu, ekki síst hjá Frökkum, sem löngum voru umsvifamestir í veiðunum. Aflabresturinn hefur leitt til verðhækkunar á beitukóngi svo forsendur fyrir veiðum og vinnslu eru nú Íslendingum hallkvæmari en nokkru sinni. Samhliða hafa sprottið nýir og vaxandi markaðir í Austur-Asíu, einkum Japan en Kóreumenn hafa jafnframt lýst áhuga á að kaupa héðan beitukóng. Sjálfir stunda Japanir ekki veiðar á beitukóngi nema í litlum mæli og hafa því neyðst til að kaupa hann af öðrum. Einkum beindu þeir viðskiptum sínum til Rússa, enda þótti rússneski beitukóngurinn jafnan stærri og hvítari á holdið en ættingjar hans úr öðrum stöðum en hvort tveggja er eftirsóknarvert í augum Japana. Innanlandsþróun í Rússlandi í kjölfar hruns Sovétríkjanna hefur hins vegar leitt til þess að dregið hefur úr sókn Rússa í beitukóng. Þetta hefur leitt til aukinna veiða annars staðar í Evópu, t.d. hefur afli við Írland og Wales aukist mjög og byggja þarlendir aðallega á markaðnum í Japan. Hin jákvæða þróun í Japan, og verðhækkun í kjölfar aflabrests Frakka, styrkir væntanlega möguleika Íslands til að hasla sér varanlegan völl á heimsmarkaði fyrir afurðir beitukóngsins.
    Árið 1990 var heildarveiði um tólf þúsund tonn. Frakkar voru sem fyrr segir umsvifamestir í veiðum og neyslu á beitukóngi og 1990 veiddu þeir 92% heildaraflans. Ári síðar var hlutur þeirra kominn niður í 80% og hefur lækkað verulega síðan enda í senn dregið úr afla þeirra meðan aðrar þjóðir hafa aukið sóknina. Til marks um þróunina í veiðum Frakka má nefna að samkvæmt skýrslum FAO öfluðu þeir árin 1990–1993 í tonnum: 6.000, 6.380, 1.726 og 996. Af þessum tölum má glöggt sjá að veiðar helstu afla- og neysluþjóðarinnar hafa bókstaflega hrunið hin síðustu ár.
    Meðal þjóða eins og Frakka þar sem löng hefð er fyrir neyslu beitukóngs þykir hann mest lostæti meðan hann er ferskur. En talsvert er líka selt niðursoðið, bæði í Frakklandi og Hollandi, og notað í pastasósur, svo sem á Ítalíu, eða súpur, eins og í Kanada og Bandaríkjunum. Einnig er beitukóngur seldur marineraður og jafnvel reyktur í Bretlandi. Til Japans og annarra landa í Asíu hefur beitukóngurinn einkum verið seldur djúpfrosinn frá Evrópu og verið notaður í sushi-rétti. Sé horft til vaxandi áherslu Asíumanna á ferskar afurðir væri væntanlega einnig hægt að ná upp markaði fyrir ferskan beitukóng í Japan.

3. Beitukóngsveiðar við Ísland.
    Fyrr á öldum nýttu Íslendingar beitukóng svolítið til átu eins og rakið er síðar í greinargerðinni (sjá kafla 5). Íslendingar hófu þó ekki tilraunir með vinnslu og veiðar á beitukóngi af alvöru fyrr en síðla á áttunda áratugnum. Skriður komst á könnunarveiðar og -vinnslu þegar Sjávarréttagerðinni á Akranesi var komið á fót og á svipuðum tíma var Íslenskur skelfiskur hf. stofnaður um veiðar og vinnslu á beitukóngi á Suðurnesjum. Þessi fyrirtæki unnu merkilegt brautryðjendastarf bæði á vinnslu og markaðssetningu á beitukóngi heima og erlendis. Skortur á fjármunum, og raunar hráefni einnig, leiddi til þess að starfsemin hlaut bráðari endi en til var stofnað. Hafrannsóknastofnun fylgdist hins vegar með starfseminni og á hennar vegum voru á þessum árum farnir nokkrir leiðangrar til að kanna beitukóng, þar af einn umhverfis landið. Skipulegar rannsóknir á tegundinni hafa hins vegar verið smáar í sniðum.
    Á árunum 1993 og 1994 var hleypt af stokkunum samstarfsverkefni á milli Hafrannsóknastofnunar og Reykhólahrepps um rannsóknir á beitukóngi í norðanverðum Breiðafirði. Sjávarútvegsráðuneytið veitti nokkuð fjármagn til kaupa á sérhönnuðum krabba- og kuðungagildrum sem Hafrannsóknastofnun hafði síðan yfirumsjón með. Gildrurnar voru keilulaga með þéttriðnu neti umhverfis og op í efri endann. Þær reyndust prýðilega við veiðarnar. Upphaflega var fyrirhugað að örva sjómenn til að freista veiða á beitukóngi með því að lána gildrurnar án endurgjalds en skylda þá á móti til að skila skýrslum um veiðarnar. Misbrestur varð hins vegar á því að skýrslum væri skilað og söfnun upplýsinga um beitukónginn í tengslum við veiðarnar varð snöggtum minni en til var stofnað.
    Gildrurnar nýttust hins vegar ágætlega til rannsókna á vegum Hafrannsóknastofnunar á bæði beitukóngi og trjónukrabba, en þessar tegundir veiðast oft saman. Upplýsingarnar sem til féllu sýna ótvírætt að beitukóng er að finna mjög víða á grunnsævi við Ísland. Sums staðar virðist hann til staðar í verulegu magni, og má þar nefna bæði Faxaflóa og Breiðafirði. Enn hafa þó of litlar rannsóknir verið gerðar á beitukóngi hér við land til að hægt sé að gera grein fyrir útbreiðslu hans og veiðimöguleikum. Í slíkar rannsóknir þarf þó að ráðast hið fyrsta því að eins og greinir frá að framan eru að skapast forsendur fyrir því að Íslendingar nái fótfestu á heimsmarkaði fyrir beitukóng. Þetta hefur leitt til þess að nú eru í bígerð frekari veiðar víðs vegar um land.

4. Nýlegar rannsóknir.
    Fram til þessa hefur arðsvon Íslendinga af veiðum á beitukóngi verið lítil og væntanlega skýrir það litlar athuganir á tegundinni hér við land. Sólmundur T. Einarsson, fiskifræðingur á Hafrannsóknastofnun, hefur þó unnið merkilegt starf að rannsóknum á beitukóngi með öðrum verkefnum á umliðnum árum og sömuleiðis Karl Gunnarsson, líffræðingur við sömu stofnun. Árið 1993 stóðu þeir saman að skipulegum veiðitilraunum á beitukóngi í Breiðafirði og á síðasta ári lögðu þeir fram niðurstöður sínar á vettvangi Alþjóðahafrannsóknaráðsins í skýrslunni „Observations on whelk populations ( Buccinum Undatum L., Mollusca; Gastropoda) in Breiðifjörður, Western Iceland, C.M. 1995/K:20, Shellfish Committee, ICES.“
    Helstu niðurstöður þeirra má draga saman í eftirfarandi: Tilraunirnar fóru fram í maí og september árið 1993. Gildrur voru lagðar á tólf stöðum í Breiðafirði á 8–40 metra dýpi. Fjórar mismunandi gildrutegundir voru reyndar, allar um 30 lítrar að rúmmáli. Veiðunum var þannig háttað að sex til tíu gildrur voru bundnar saman á streng, með um tíu metra millibili, og látnar liggja sólarhring. Fersk síld var notuð sem agn í gildrurnar. Meðalafli á gildru á sólarhring reyndist vel undir einu kílói en aflinn fór þó yfir fjögur kíló á gildru þar sem mest var. Eins og lögð er áhersla á í skýrslu þeirra félaga voru gildrurnar hins vegar lagðar af handahófi en ekki á grunni vitneskju um veiðisæld innan svæðisins.
    Greining á stærð eftir aldri leiddi í ljós að vöxtur beitukóngs var tiltölulega hraður fyrstu fimm árin, en þá var meðallengd á kuðungi dýranna sem veiddust um 55 millimetrar. Eftir fimm ára aldur hægði á vextinum og tíu ára gamlir höfðu beitukóngarnir að meðaltali 65 millimetra langan kuðung. Elsta dýrið reyndist vera 13 ára og var með 104 millimetra kuðung. Vöxtur tegundarinnar við Ísland virðist vera svipaður og víða erlendis, t.d. við Frakkland. Þar er fimm ára gamall beitukóngur með 57 millimetra langan kuðung en þeir frönsku virðast þó vaxa talsvert betur en íslenskir frændur þeirra eftir að fimm árunum sleppir.
    Eins og fyrr segir var meðalaflinn vel undir einu kílói á gildru yfir sólarhring. Þeir Karl og Sólmundur gátu þess í skýrslu sinni að veiðistöðvarnar hefðu verið valdar án nokkurrar fyrir fram þekkingar á svæðinu og gildrurnar því alls ekki lagðar á þær stöðvar sem aflasælastar væru af náttúrunnar hendi. Enn fremur kom fram hjá þeim að tilraunaveiðar, sem síðar var ráðist í, hafi gefið talsvert hærri aflatölur og rétt er að ítreka að fengsælasta slóðin í tilraun þeirra gaf meira en fjögur kíló. Niðurstöður Karls og Sólmundar benda því til að með veiðitilraunum á tilteknum svæðum sé hægt að finna hvar aflasælustu veiðistöðvarnar eru og þannig að ná upp góðum afla.

5. Nytsemd til forna.

    Í íslenskum ritum er fyrst getið um kuðungaát í einu rita Jóns lærða Guðmundssonar sem var sannkallaður fjöllistamaður og fjölfræðingur á fyrri hluta sautjándu aldar. Hann skar t.d. dýrgripi af furðulegum hagleik úr tönnum hvala og rostunga, málaði einnig fallegar altaristöflur og var því stundum líka nefndur Jón tannsmiður eða Jón málari. Frægur varð hann einnig fyrir að taka svari Gaskóna sem komu til hvalveiða í norðurhöfum en brutu skip sitt vestra og Ari sýslumaður í Ögri lét hundelta og drepa. Jón skrifaði varnarrit fyrir þeirra hönd og hraktist fyrir vikið af Vestfjörðum. Þekkingu Jóns lærða á varnargaldri var viðbrugðið, enda frægur fyrir að setja niður drauga, en sjálfur taldi hann sig allt til æviloka eiga í höggi við sendingar og má víða af ritum hans sjá merki þess að hann hefur á köflum verið meira en smáskrítinn, svo sem títt er um góða vísindamenn. En Jón lærði skrifaði einnig mjög merka texta um náttúrufræði, sem allt til þessa dags hafa verið vanmetnir, og svo víða fór hróður hans að erlendir náttúrufræðingar leituðu til hans um vitneskju um náttúru Íslands. Hann dvaldist um hríð í Stóra-Fjarðarhorni í Kollafirði vestra en þar um slóðir nýttu menn helst beitukóng til átu fyrr á tímum og líklegt er að Jón lærði hafi þar kynnst kuðungaáti. Því lýsir hann með svofelldum hætti: „Meistarar nýta það og fleira af vorum ætum kuðungum, að þeir brenna þá með fiskinum svo glóandi verði og slökkvi í uxaþvagi, og láti neyta í mat og drykkjum svo að hún eða hann ekki viti. Það varnar píku karlmannafari og svo lauslætismönnum óhóflegri kvensemi. Svo og einnig líka ganga sjósóttarmenn í fjöru leynilega og svelgja hráan fiskinn úr honum 3 sinnum, með vaxandi og svo þverrandi tungli með litlum sjósopa. Hann skríður mest úr djúpi í miðju fiskamerki og þaðan af.“ Kuðungur var talinn koma að liði við fleiri kvilla en sjóveiki. Þegar konur höfðu ekki börn á brjósti var þeim hætt við að fá viðsjálar bólgur og graftarmein í brjóstin. Þjóðráð þótti að bera á þau smyrsl sem gert var úr kuðungaösku eða muldum krabba blönduðum hunangi. Áburður úr kuðungaösku og smjöri var einnig talinn græða brunasár.
    Hjá Jóni lærða er líka að finna fyrstu íslensku lýsinguna á ákveðinni tegund skelfiskeitrunar sem lýsir sér þannig að eti menn of mikið af beitukóngnum geta þeir dofnað upp og mega vart mæla. Um þetta farast Jóni svofelld orð: „Ef menn þá éta mikið af þeim, verða þeir sem fordrukknir menn svo þeir standa ekki. Það köllum vér kuðungariðu, og má af sér sofa.“ Þetta hlýst af eitrinu sem er í kirtlinum sem er áfastur skráptungu beitukóngsins og getur orðið varasamt að éta í miklu magni í einu. Við nútíma vinnslu er kirtillinn fjarlægður og þar með eituráhrifin.
    Eins og nafnið gefur til kynna var beitukóngurinn einkum notaður sem agn við krókaveiðar. En önnur nöfn hans, svo sem ætiskóngur og ætiskúfungur, vísa einnig til þess að sums staðar var beitukóngur hirtur til matar. Vafalítið hefðu menn nýtt hann í enn ríkari mæli en gert var hefðu þeir haft vit og þekkingu til að skera frá kirtilinn sem framkallaði kuðungariðuna, en margir töldu beitukónginn baneitraðan vegna hennar og þorðu ekki að neyta hans. Sveinn Pálsson segir í Ferðabók sinni athyglisverða sögu af neyslu Þorskfirðinga á beitukóngi, sem hann nefndi raunar ætiskúfung: „Fyrir miðjum firði þessum og langt inn eftir honum liggur mjó vök eða áll, og veit enginn dýpt hans. Báðum megin og framan við vökina verður alveg þurrt um stórstraumsfjöru, svo að ganga má fram á barma þessa hyldýpis, sem eru því nær lóðréttir . . .  Um jafndægursstórstreymi á vorin eru barmarnir á vök þessari, — svo langt niður sem séð verður alsettir hinum svonefnda ætikúfung eða bobba . . .  Menn í næsta nágrenni gá tímans og safnast þangað í stórhópum til að tína kúfung, sem þeir sjóða þegar með skel og öllu saman í fjörunni og flytja svo heim til átu. En veiði þessi verður aðeins stunduð þrjár fjörur í röð . . . 
    Það var einkum við Breiðafjörð sem beitukóngur var nýttur til manneldis enda líklega óvíða til staðar í jafnmiklu magni. Um þetta segir Lúðvík Kristjánsson í riti sínu um Íslenska sjávarhætti: „Kuðungur, trúlega beitukóngur, mun hvergi hérlendis hafa verið veiddur eða hirtur til matar, svo orð sé á gerandi, nema í Breiðafirði og sennilega mest í Reykhólasveit og Gufudalshreppi . . .  Eru þeir ýmist steiktir eða soðnir niður í vökva þeim, sem þeir gefa frá sér, þegar þeir hitna. Hvor aðferðin sem notuð er, þá eru þeir bragðgóðir, og verður mönnum gott af þeim. Sniglarnir eru öðrum skelfiski sætari og þykja holl og góð fæða.“ Beitukóngurinn, eins og aðrir sniglar og skelfiskur, var geymdur í brotnum súr og hélst þannig nokkuð lengi og var matbúinn með þeim hætti að gerð var úr sniglunum súpa með lítils háttar méli út á.
    Auk þess sem beitukóngur var tíndur fyrr á tímum notfærðu menn sér fíkn hans í hræ fiska til að veiða hann. Þá var tekið fiskroð, einkum af steinbít, þorski eða ýsu, og steinuðu menn roðið niður á fjörunni. Þegar fjaraði aftur höfðu safnast beitukóngar á roðið og voru þeir þá tíndir af. Oft fékkst þannig nokkurt magn af beitukóngi. Frændur okkar Færeyingar veiða beitukóng enn þá þannig að þeir festa fiskhausa á snæri og sökkva niður á botn. Eftir nóttina eða sólarhringinn draga þeir upp færið og eru þá fiskhausarnir þéttsetnir beitukóngi. Færeyingar nota beitukóng eingöngu til beitu og bregst hún aldrei.

6. Möguleikar fyrir krókabáta.
    Margt hnígur að því að auðvelt væri að halda úti veiðum á beitukóngi af smábátum sem færu með gildrur og legðu á álitlegum veiðistöðvum. Hér gæti verið um mikilvægt hagsmunamál að ræða fyrir smábáta því að ónógar veiðiheimildir gera að verkum að þeir hafa tíma aflögu sem mætti nota til að leggja gildrur fyrir beitukóng. Ef vel tækist til um slíkar veiðar gætu þær orðið mikilvæg aukageta fyrir smábáta og rennt stoðum undir afkomu þeirra. Ekki síst með hliðsjón af þessu er brýnt að hraðað verði rannsóknum á möguleikum til að veiða og afsetja beitukóng.