Ferill 485. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–1997. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 485 . mál.


816. Frumvarp til laga



um breyting á lögum um vátryggingastarfsemi, nr. 60/1994, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 121. löggjafarþingi 1996–97.)



1. gr.


    Við 2. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Ákvæði VII. kafla um starfsemi erlendra vátryggingafélaga gilda ekki um endurtryggingar sem þau vátryggingafélög, sem fengið hafa starfsleyfi hér á landi skv. 26. gr., kaupa erlendis.

2. gr.


    Við 7. gr. laganna bætast eftirfarandi skilgreiningar:
—     náin tengsl, tengsl vátryggingafélags við
         
    
    önnur félög í félagasamstæðu sem vátryggingafélagið tilheyrir,
         
    
    þá sem eiga virkan eignarhlut í vátryggingafélaginu, þó þannig að hlutdeildin nemi minnst 20%,
         
    
    þá sem eiga virkan eignarhlut í móðurfélagi vátryggingafélags, þó þannig að hlutdeildin nemi minnst 20%,
         
    
    félög sem vátryggingafélagið á virkan eignarhlut í, þó þannig að hlutdeildin nemi minnst 20%,
         
    
    félög sem vátryggingafélagið á hlut í og félagasamstæða, sem vátryggingafélagið tilheyrir, á virkan eignarhlut í, þó þannig að hlutdeildin nemi minnst 20%,
—     vátryggingamiðlun,
         
    
    faglega starfsemi lögaðila eða einstaklings sem starfar sjálfstætt og veitir upplýsingar, faglega ráðgjöf og aðstoð við að koma á vátryggingasamningi í frumtryggingum eða við framkvæmd ákvæða slíks samnings gagnvart vátryggingafélagi og starfar óháður einstökum vátryggingafélögum;
         
    
    lögaðila sem stundar vátryggingamiðlun,
—     vátryggingamiðlari, einstakling eða lögaðila sem stundar vátryggingamiðlun og hefur að öllu leyti frjálst val um það til hvaða félags miðlað er,
—     vátryggingaumboðsmaður, þann sem starfar í nafni og fyrir hönd ákveðinna vátryggingafélaga, eins eða fleiri, við að kynna, gera tillögu um og undirbúa vátryggingasamninga eða aðstoða við framkvæmd slíkra samninga, svo sem þegar tjón hefur orðið,
—     vátryggingasölumaður, starfsmann sem starfar á vegum vátryggingamiðlara eða vátryggingaumboðsmanns eða vátryggingafélags og annast m.a. undirbúningsvinnu, kynningu vátrygginga, allt án heimildar til að skuldbinda um vátryggingu á nokkurn hátt þá sem unnið er fyrir, og innheimtu iðgjalda hafi samningur verið gerður.

3. gr.


    Í stað lokamálsliðar lokamálsgreinar 8. gr. laganna koma þrír nýir málsliðir, svohljóðandi: Stórfyrirtæki teljast þau fyrirtæki sem uppfylla a.m.k. tvö eftirfarandi skilyrða: að niðurstöðutala efnahagsreiknings nái 6,2 milljónum ecu, að ársvelta nái 12,8 milljónum ecu og að ársverk á reikningsárinu séu a.m.k. 250. Sé fyrirtæki hluti félagasamstæðu skal miða við samstæðuna í heild á grundvelli samstæðureiknings. Vátryggingaeftirlitið getur heimilað að litið sé á starfsgreinasamtök, sameiginleg verkefni eða fyrirtæki sem tímabundið mynda hóp sem eitt fyrirtæki í skilningi þessarar málsgreinar.

4. gr.


    Við 13. gr. bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Aðrir en þeir sem skráðir eru í vátryggingamiðlaraskrá mega ekki bera heiti sem kunna að benda til eða gefa í skyn að þeir stundi miðlun vátrygginga eða láta nokkuð frá sér fara opinberlega, í prentuðu máli eða á annan hátt, sem skilja mætti á þann veg að vátryggingamiðlun sé rekin.

5. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 14. gr. laganna:
    Í stað 4. málsl. 2. mgr. koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Stofnendur skulu vera lögráða, hafa óflekkað mannorð og mega ekki á síðustu fimm árum hafa í tengslum við atvinnurekstur hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum eða lögum um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrot eða opinber gjöld, svo og löggjöf um vátryggingastarfsemi. Stofnandi má hvorki hafa farið fram á eða vera í greiðslustöðvun né bú hans vera undir gjaldþrotaskiptum.
    4. mgr. orðast svo:
                  Ríkisborgarar og lögaðilar þeirra ríkja sem eru aðilar að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið eru undanþegnir búsetuskilyrðum 2. mgr. enda séu viðkomandi ríkisborgarar búsettir í aðildarríki eða lögaðilarnir með aðsetur þar. Ráðherra er heimilt að veita undanþágu frá búsetuskilyrðum.

6. gr.


    Við 3. tölul. 2. mgr. 21. gr. laganna bætist: og greinargerð um önnur náin tengsl sem félagið er í.

7. gr.


    Við 22. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Setja skal reglugerð um réttaraðstoðarvátryggingar, greinaflokk skv. 17. tölul. 1. mgr., til þess að tryggja hagsmuni vátryggingataka í ágreiningsmáli við vátryggingafélagið sjálft.

8. gr.


    Á eftir 2. málsl. 3. mgr. 25. gr. laganna koma þrír nýir málsliðir, svohljóðandi: Ef félag er í nánum tengslum við aðra skal einungis veita starfsleyfi ef þau tengsl hindra ekki eftirlit með starfsemi félagsins. Ef löggjöf þriðja ríkis gildir um þá sem vátryggingafélagið er í nánum tengslum við og hindrar eftirlit með starfsemi félagsins skal synja um starfsleyfi, svo og ef líklegt er að vandkvæði við framkvæmd þeirrar löggjafar geri eftirlit torvelt. Ef raunverulegar aðalstöðvar félagsins eru ekki hér á landi skal synja um starfsleyfi.

9. gr.


    1. mgr. 33. gr. laganna orðast svo:
    Lágmarksgjaldþol mælt í ecu skal þrátt fyrir ákvæði 30. og 31. gr. aldrei vera lægra en hér segir:
    Í líftryggingafélagi, sbr. 23. gr.   800.000
    Í félagi sem rekur ábyrgðartryggingar, sbr. 10.–13. tölul. 1. mgr.
        22. gr., eða greiðslu- og efndavátryggingar, sbr. 14. og 15. tölul.
        1. mgr. 22. gr., sjá þó 6. tölul. þessarar greinar
  400.000

    Í félagi sem rekur skaðatryggingar, sbr. 3.–8., 16. eða 18. tölul.
        1. mgr. 22. gr.
  300.000

    Í félagi sem rekur slysa- og sjúkratryggingar, sbr. 1. og 2. tölul.
        1. mgr. 22. gr.
  300.000

    Í félagi sem rekur réttaraðstoðarvátryggingar, sbr. 17. tölul. 1. mgr.
        22. gr. eða aðrar eignatryggingar, sbr. 9. tölul. 1. mgr. 22. gr.
  200.000

    Í félagi sem rekur greiðsluvátryggingar, sbr. 14. tölul. 22. gr., og
        ársiðgjöld nema að lágmarki 2.500.000 ecu eða 4% heildariðgjalda
1.400.000


10. gr.


    Við 39. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Ákvæði þessarar greinar gilda um náin tengsl eftir því sem við getur átt. Ekki má mynda náin tengsl nema sýnt sé að þau hindri ekki eftirlit með starfsemi félagsins.

11. gr.


    Við 40. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Telji Vátryggingaeftirlitið að náin tengsl hindri eftirlit með starfsemi vátryggingafélags skal það fara fram á að tengslin verði strax rofin, nema það telji aðrar ráðstafanir fullnægjandi.

12. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 43. gr. laganna:
    2. mgr. orðast svo:
                  Stjórnarmenn og framkvæmdastjórar skulu vera búsettir hér á landi, vera lögráða, fjár síns ráðandi, hafa óflekkað mannorð og mega ekki á síðustu fimm árum hafa í tengslum við atvinnurekstur hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum eða lögum um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrot eða opinber gjöld, svo og löggjöf um vátryggingastarfsemi. Ríkisborgarar þeirra ríkja sem eru aðilar að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið eru undanþegnir búsetuskilyrðum enda séu viðkomandi ríkisborgarar búsettir í aðildarríki. Ráðherra er heimilt að veita undanþágu frá búsetuskilyrðum. Menntun, starfsreynsla og starfsferill framkvæmdastjóra skal vera með þeim hætti að tryggt sé talið að hann geti gegnt stöðu sinni á viðhlítandi hátt.
    Við 5. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Einnig skal tilkynna verulegar breytingar á skipulagi samstæðu þegar þær ganga í gildi.

13. gr.


    Í stað 2. mgr. 46. gr. laganna koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Endurskoðendum vátryggingafélags er skylt að veita Vátryggingaeftirlitinu þær upplýsingar um framkvæmd og niðurstöður endurskoðunar er það óskar. Þeim er einnig skylt að að gera Vátryggingaeftirlitinu tafarlaust viðvart fái þeir í starfi sínu fyrir félagið eða þá sem vátryggingafélagið er í nánum tengslum við vitneskju um:
    hugsanleg brot á þeirri löggjöf sem gildir um starfsemi félagsins,
    málefni sem kunna að hafa úrslitaþýðingu fyrir áframhaldandi starfsemi félagsins,
    athugasemdir eða fyrirvara í áritun á ársreikning.
    Upplýsingar, sem endurskoðandi veitir Vátryggingaeftirlitinu samkvæmt ákvæðum þessarar greinar, teljast ekki brot á lögbundinni eða samningsbundinni þagnarskyldu.

14. gr.


    Á eftir 1. málsl. 6. mgr. 51. gr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Sama gildir um skipti á upplýsingum við tryggingastærðfræðinga, þá sem hafa eftirlit með starfi stjórnvalda eða sérfræðinga sem grein þessi nær til og þá sem starfa á vegum stjórnvalda að því að rannsaka brot á félagarétti.

15. gr.


    4. mgr. 52. gr. orðast svo:
    Vátryggingaeftirlitið leggur gjald á starfsemi vátryggingamiðlara til þess að standa undir kostnaði þess við eftirlit með starfsemi þeirra. Gjaldið skal nema 0,033% af heildarupphæð iðgjalda sem miðlað er til vátryggingafélaga á því ári, þó eigi lægri fjárhæð en 25.000 kr.

16. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 71. gr. laganna:
    2. málsl. 3. mgr. orðast svo: Hann skal vera búsettur hér á landi, vera lögráða, fjár síns ráðandi, hafa óflekkað mannorð og má ekki á síðustu fimm árum hafa í tengslum við atvinnurekstur hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum eða lögum um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrot eða opinber gjöld, svo og löggjöf um vátryggingastarfsemi.
    Við greinina bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                  Bókhaldsgögn og önnur gögn viðvíkjandi starfsemi útibúsins skulu varðveitt í útibúinu sjálfu.
                  Ákveða má með samningum við eitt eða fleiri þriðju ríki að beita öðrum ákvæðum um eftirlit með starfsemi útibúsins en segir í lögum þessum að því tilskildu að hinum vátryggðu sé tryggð nægileg og sambærileg vernd. Ekki má í slíkum samningum veita útibúum félaga með aðalstöðvar utan Evrópska efnahagssvæðisins rýmri skilyrði en útibúum vátryggingafélaga með aðalstöðvar þar. Samráð skal haft við önnur aðildarríki um samninga af þessu tagi og þau upplýst um þá áður en þeir eru gerðir.

17. gr.


    Í stað 2. mgr. 72. gr. laganna koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Félagið skal uppfylla skilyrði III. kafla um gjaldþol er miðast við starfsemi þess hér eftir því sem við á. Það skal aldrei hafa minna gjaldþol en helming viðeigandi fjárhæðar skv. 33. gr. Skal félagið hafa hér á landi fjármuni að því marki sem lýst er í 2. mgr. 32. gr., en fjármunir þar umfram upp að lágmarksgjaldþoli skulu varðveittir í aðildarríki. Sameiginlegt eftirlit eins aðildarríkis með gjaldþoli fyrir öll útibú félagsins á Evrópska efnahagssvæðinu getur komið í stað þeirrar aðferðar sem lýst er í þessari málsgrein og skal setja um það nánari ákvæði í reglugerð. Gilda þá ákvæði 66. gr. um eftirlit með gjaldþoli útibúanna eftir því sem við á.
    Fjárhæð samsvarandi fjórðungi þess lágmarks sem krafist er í 1. mgr. 33. gr. skal lögð fram sem geymslufé í upphafi og varðveitt á stað sem Vátryggingaeftirlitið samþykkir. Geymsluféð skal einungis notað til að tryggja að félagið geti staðið við skuldbindingar sínar vegna gerðra vátryggingasamninga hér á landi. Einstakir vátryggðir geta ekki gert kröfu um fullnustu greiðslu nema að því marki sem það að mati Vátryggingaeftirlitsins skerðir ekki rétt annarra vátryggðra til fullnustu á vátryggingaskuldbindingum félagsins.

18. gr.


    Við 1. mgr. 73. gr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ákvæði IV. kafla gilda eftir því sem við getur átt um útibúið.

19. gr.


    Við 74. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Ákvæði X. og XI. kafla gilda eftir því sem við getur átt um útibúið.

20. gr.


    80. gr. laganna orðast svo:
    Sá sem hyggst stunda miðlun vátrygginga hér á landi skal senda ráðuneytinu skriflega umsókn um starfsleyfi.
    Starfsleyfi vátryggingamiðlara gefið út í aðildarríki telst jafngilda starfsleyfi hér á landi enda séu uppfyllt skilyrði laga þessara. Sé starfsemin ekki háð starfsleyfi skal vátryggingamiðlari sækja um starfsleyfi og gilda þá sömu reglur og um innlenda vátryggingamiðlara.

21. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 81. gr. laganna:
    1. mgr. fellur brott.
    2. mgr. orðast svo:
                  Skilyrði starfsleyfis er búseta hér á landi, að menn séu lögráða, fjár síns ráðandi, hafi óflekkað mannorð og hafi ekki á síðustu fimm árum í tengslum við atvinnurekstur hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum eða lögum um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrot eða opinber gjöld, svo og löggjöf um vátryggingastarfsemi. Þá er það skilyrði að menn búi yfir þeirri þekkingu sem nauðsynleg er til starfans, hafi engin fjárhagsleg tengsl af neinu tagi við vátryggingafélög vegna eignaraðildar eða hagsmuna, annarra en tengjast þeim vátryggingasamningum sem komið er á og teljist að öðru leyti hæfir til þess að reka þessa starfsemi á viðhlítandi hátt. Þeir skulu einnig leggja fram vottorð um gilda starfsábyrgðartryggingu til að bæta tjón sem kann að hljótast af starfa þeirra og þeir eru bótaskyldir fyrir. Ríkisborgarar þeirra ríkja, sem eru aðilar að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, eru undanþegnir búsetuskilyrðum enda séu viðkomandi ríkisborgarar búsettir í aðildarríki. Ráðherra er heimilt að veita undanþágu frá búsetuskilyrðum.
    1. málsl. 4. mgr. orðast svo: Óheimilt er vátryggingamiðlara að hefja miðlun vátrygginga fyrr en ráðherra hefur veitt starfsleyfi eða skráning í vátryggingamiðlaraskrá hefur átt sér stað.
    6. mgr. orðast svo:
                  Ráðherra setur nánari ákvæði með reglugerðum um skilyrði starfsleyfis, um starfsemi vátryggingamiðlara, þar með talin skil á gögnum, svo sem rekstrar- og efnahagsreikningi, um starfsábyrgðartryggingu, þar á meðal um fjárhæð vátryggingar og lágmarksskilyrði hennar, um prófnefnd og námskeið og próf til að mega stunda miðlun vátrygginga.

22. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 82. gr. laganna:
    1. mgr. orðast svo:
                  Vátryggingamiðlari má ekki taka við þóknun af neinu tagi frá vátryggingafélagi nema vegna vátryggingasamninga sem komið hefur verið á milli vátryggingafélagsins og vátryggingataka.
    1. málsl. 2. mgr. orðast svo: Vátryggingamiðlari má ekki taka við iðgjöldum fyrir hönd vátryggingafélags nema samkvæmt skriflegri heimild.
    3. málsl. 3. mgr. orðast svo: Vátryggingamiðlara er skylt að upplýsa þá sem hann starfar fyrir um þóknun sem hann þiggur vegna viðskiptanna fari þeir fram á það.

23. gr.


    2. málsl. 83. gr. laganna orðast svo: Hann skal gera fullnægjandi grein fyrir tegund og umfangi vátryggingaáhættunnar til að unnt sé að gera vátryggingataka tilboð.

24. gr.


    84. gr. laganna fellur brott.

25. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 85. gr. laganna:
    Í stað 2. og 3. málsl. 1. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Í reglugerð skal kveða á um þau atriði sem skrá skal.
    Í stað 3. mgr. koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                  Vanræki vátryggingamiðlari gróflega skyldur sínar, greiði ekki eftirlitsgjald, samrýmist starfsemin ekki hlutverki hans sem vátryggingamiðlara eða séu skilyrði starfsleyfis ekki lengur uppfyllt skal Vátryggingaeftirlitið afturkalla starfsleyfi. Þó er heimilt, telji Vátryggingaeftirlitið það fullnægjandi, að veita viðvörun eða frest til úrbóta því sem úrskeiðis hefur farið. Ráðherra skal staðfesta afturköllun starfsleyfis innan sjö daga.
                  Sé skráningarskyld starfsemi rekin án heimildar skal Vátryggingaeftirlitið þegar í stað gera ráðstafanir til að slíkri starfsemi verði hætt.

26. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


Almennt.


    Árið 1994 voru samþykkt ný lög um vátryggingastarfsemi, nr. 60/1994. Þau áttu sér nokkurn aðdraganda sem rakinn er í greinargerð með frumvarpinu sem þá varð að lögum. Meginmarkmið þeirra laga var að lögfesta ákvæði sem Íslendingar höfðu skuldbundið sig með EES-samningnum til þess að taka í íslenska löggjöf. Auk laga um vátryggingastarfsemi þurfti á árunum 1993 og 1994 að breyta mörgum sérlögum þegar EES-samningurinn öðlaðist gildi, m.a. að fella niður einkaleyfi á sviði vátrygginga. Í því frumvarpi, sem hér er lagt fram, eru eingöngu lagðar til breytingar á lögum um vátryggingastarfsemi, ekki er fjallað um breytingar á sérlögum um einstakar vátryggingagreinar.
    Lögin um vátryggingastarfsemi, nr. 60/1994, hafa nú verið í gildi vel á þriðja ár. Reynsla er komin á marga þætti laganna, auk þess sem Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, hefur metið hvort ákvæði EES-samningsins á sviði skaðatrygginga hafi verið lögfest með réttum og fullnægjandi hætti.
    ESA sendi íslenskum stjórnvöldum athugasemdir í bréfi, dags. 23. ágúst 1996, eftir að stofnunin hafði farið yfir samanburðartöflur frá Vátryggingaeftirlitinu sem sýna hvar hvert einstakt ákvæði tilskipana um vátryggingar í EES-samningnum er að finna í íslenskum réttarheimildum.
    Þann 28. ágúst 1996 skipaði iðnaðar- og viðskiptaráðherra starfshóp til þess að ljúka aðlögun íslenskrar löggjafar á vátryggingasviði að EES-samningnum. Í starfshópinn voru skipaðir Kjartan Gunnarsson, deildarstjóri í viðskiptaráðuneytinu, formaður, Rúnar Guðmundsson, skrifstofustjóri í Vátryggingaeftirlitinu, og Helgi Þórsson, deildarstjóri í Vátryggingaeftirlitinu.
    Starfshópurinn hefur fjallað um breytingar á lögum um vátryggingastarfsemi sem nauðsynlegar töldust vegna EES-samningsins. Einnig hefur hann fjallað um reynslu af öðrum ákvæðum laganna og eru ýmsar breytingar lagðar til í ljósi þess.
    Tekin eru upp ákvæði frumvarps sem flutt var á síðasta þingi um hæfisskilyrði en hlaut ekki afgreiðslu. IX. kafli, um miðlun vátrygginga, hefur verið endurskoðaður samhliða endurskoðun á reglugerð um miðlun vátrygginga (nr. 473/1994) sem sérstök nefnd hefur unnið að. Þá eru í frumvarpinu lagðar til fáeinar breytingar til þess að fyrirbyggja misskilning á orðalagi laganna eða leiðrétta villur sem komið hafa í ljós án þess að ESA hafi gert við það athugasemdir.
    Íslensk stjórnvöld geta brugðist á mismunandi hátt við athugasemdum ESA. Algengast er annars vegar að um sé að ræða ótvírætt misræmi sem Íslendingar verða að leiðrétta, hins vegar að betri skýringar frá íslenskum stjórnvöldum nægi til þess að sýna fram á að íslensk löggjöf sé í samræmi við ákvæði EES-samningsins. Einnig kemur fyrir að ESA telur samsvörunina óljósa þótt íslensk stjórnvöld telji hana nægilega góða. Nokkrar af þeim breytingum sem hér eru lagðar til eru til þess að eyða slíkum vafa enda verður íslensk löggjöf skýrari við breytingarnar og afskiptaheimildir íslenskra stjórnvalda traustari.
    Starfshópurinn telur að þær breytingar, sem hér eru lagðar til ásamt viðbótarskýringum sem íslensk stjórnvöld hafa gefið varðandi aðrar ábendingar frá ESA, séu fullnægjandi til þess að ljúka lögfestingu vátryggingahluta EES-samningsins. Þess er þó að geta að tilskipanir EES-samningsins um líftryggingar hafa ekki verið yfirfarnar með sama hætti og tilskipanir þær sem urðu tilefni til þeirra athugasemda ESA sem brugðist er við með þessu frumvarpi. Leitast hefur verið við að lögfesta ákvæði þeirra samhliða ákvæðum tilskipana um skaðatryggingar en þessir tveir flokkar tilskipana eru í flestum atriðum hliðstæðir.
    Unnt er að bregðast við nokkrum af athugasemdum ESA með útgáfu reglugerða sem þegar er heimild fyrir í lögum um vátryggingastarfsemi. Var það gert með útgáfu tveggja reglugerða síðla síðasta árs, rg. nr. 612/1996 um ársreikninga og samstæðureikninga líftryggingafélaga og rg. nr. 613/1996 um ársreikninga og samstæðureikninga vátryggingafélaga annarra en líftryggingafélaga. Þá er verið að leggja lokahönd á reglugerð um eignir sem telja má til gjaldþols vátryggingafélaga og útreikning lágmarksgjaldþols.

Meginefni frumvarpsins.


    Meginþættir frumvarpsins, sem hver um sig hefur áhrif á nokkrar greinar laga um vátryggingastarfsemi, eru:
—    starfsemi vátryggingafélaga með aðalstöðvar utan EES,
—    eftirlitshættir (BCCI-tilskipunin),
—    hæfisskilyrði,
—    vátryggingamiðlun,
—    aðrar breytingar.
    Hér á eftir verður fjallað um hvern hinna fjögurra fyrsttöldu þátta fyrir sig í þeim mæli sem slíkar athugasemdir eiga ekki við einstakar greinar frumvarpsins.

Starfsemi vátryggingafélaga með aðalstöðvar utan EES.


    Lög um vátryggingastarfsemi hafa að geyma ákvæði um eftirlit með útibúum frá félögum með aðalstöðvar utan EES. Lögfesta þarf tvær fráviksheimildir, annars vegar um eitt gjaldþolseftirlit fyrir öll útibú sama félags á EES og hins vegar um samninga sem gerðir kunna að verða við ríki utan EES um gagnkvæma viðurkenningu eftirlits með vátryggingastarfsemi. Fjallað er um fráviksheimildirnar í 16.–19. gr. frumvarpsins.
    Í EES-samningnum og tilskipunum ESB sem hann vísar til eru ítarleg ákvæði um starfsleyfi vátryggingafélaga sem hafa aðalstöðvar utan svæðisins. Ekki hefur reynt á þessi ákvæði á Íslandi og voru sum þeirra því látin mæta afgangi þegar lögin um vátryggingastarfsemi voru samin. Gerði ESA athugasemdir við það. Enda þótt ekki sé nú, frekar en 1994, fyrirsjáanlegt að á ákvæðin muni reyna er æskilegt að þau séu til staðar komi til þess að vátryggingafélög með aðalstöðvar utan EES leiti eftir að setja hér upp útibú.
    Þessi ákvæði gilda t.d. um vátryggingafélög frá iðnríkjum utan Evrópu og frá Sviss og um vátryggingafélög frá ríkjum sem laða til sín alþjóðlega fjármálastarfsemi, svo sem frá Bahamaeyjum, Kýpur og Singapúr. Einnig gilda þau um vátryggingafélög á Ermarsundseyjum og á Mön. Þær eyjar hafa sérstaka löggjöf um vátryggingar og eru ekki aðilar að EES. Útibú vátryggingafélaga frá EES-ríkjum á þessum stöðum mega ekki stunda vátryggingastarfsemi á Íslandi, með öðrum orðum geta evrópsk vátryggingafélög ekki „hoppað“ út fyrir EES til þess að skjóta sér undan kvöðum sem lagðar eru á starfsemi þeirra á EES-svæðinu en njóta samt kosta frjálsra viðskipta með vátryggingar á því.
    Samkvæmt lögum um vátryggingastarfsemi verða vátryggingafélög með aðalstöðvar utan EES að setja upp útibú á Íslandi undir íslensku eftirliti hyggist þau stunda vátryggingastarfsemi hér. Þau njóta ekki frelsis til þjónustu án starfsstöðvar með sama hætti og félög með aðalstöðvar í öðru EES-ríki, en það frelsi byggist á samræmdum eftirlitsháttum og gagnkvæmu trausti til eftirlitsstjórnvalda. Í lögunum eru einnig ákvæði um skilyrði sem þessi útibú verða að uppfylla. Lagt er til að í samræmi við ákvæði EES-samningsins verði frávíkjanleg sú meginregla að stofna þurfi útibú sem uppfylli tiltekin skilyrði og að heimilt verði að kveða á um aðrar reglur í reglugerð til samræmis við samninga sem gerðir kunna að vera við ríki utan EES. Slíkir samningar hafa á engan hátt verið undirbúnir en reglugerðarheimildin einfaldar að taka upp samstarf við t.d. Sviss með svipuðum hætti og samstarfið er innan EES varðandi starfsleyfi vátryggingafélaga og eftirlit með þeim. Slíkur samningur, ef gerður yrði, fengi þá meðferð sem gert er ráð fyrir um milliríkjasamninga en með breytingunni, sem hér er lögð til, þyrfti ekki að breyta lögum um vátryggingastarfsemi til þess að uppfylla hann.
    Fjallað er um gjaldþol íslenskra vátryggingafélaga í 29.–33. gr. laga um vátryggingastarfsemi. Ekki eru ákvæði um gjaldþol félaga frá öðrum aðildarríkjum enda er eftirlit með því alfarið á hendi heimaríkis. Gjaldþolsreglur þar eiga að vera hliðstæðar þeim sem gilda um íslensk félög. Starfsemi vátryggingafélaga með aðalstöðvar utan EES hér á landi er viðfangsefni 71.–76. gr. laganna. Þar hafa íslensk stjórnvöld viðameira hlutverki að gegna en þegar félög frá aðildarríkjum EES eiga í hlut vegna þess að eftirlitshættir eru ekki samræmdir við þriðju ríki og eru m.a. gerðar sérstakar fjárhagskröfur um útibú þaðan.

Eftirlitshættir (BCCI-tilskipunin).


    Í 2., 6., 8. og 10.–14. gr. frumvarpsins er fjallað um atriði sem taka þarf á vegna hinnar svokölluðu BCCI-tilskipunar.
    Eftir að EES-samningurinn gekk í gildi hefur Evrópusambandið samþykkt tilskipun nr. 95/26/ESB um breytingar á fjórum tilskipunum um vátryggingar og nokkrum öðrum tilskipunum á sviði fjármálaþjónustu. Miða breytingarnar að því að treysta eftirlit með þessari starfsemi. Þær eru gerðar í tilefni vandræða sem orðið hafa í samstæðum fjármálafyrirtækja, einkum var gjaldþrot BCCI-bankans hvati að þessum breytingum. Tilskipun þessi hefur í umræðu manna á meðal verið nefnd BCCI-tilskipunin.
    Með tilskipuninni verða sams konar breytingar á eftirliti með öllum þeim sviðum sem EES-samningurinn flokkar undir fjármálaþjónustu, þ.e. vátryggingum, bankastarfsemi og verðbréfaþjónustu. Lögum um bankastarfsemi og verðbréfaviðskipti var breytt á síðasta þingi. Lagt er til að tilskipunin verði öll tekin efnislega inn í lögin um vátryggingastarfsemi eftir því sem við á. Helstu breytingar sem lagðar eru til eru:
    Skilgreind eru náin tengsl vátryggingafélags við aðra. Það eru veikari tengsl en í t.d. félagasamstæðu og verður skylt að tilkynna þau án þess að því fylgi aðrar kvaðir (2. gr. frumvarpsins).
    Skipulag félagasamstæðu skal vera gagnsætt, meðal annars skulu raunverulegar aðalstöðvar hvers félags vera í sama landi og skráð skrifstofa þess (6., 8., 10., 11. og 12. gr. frumvarpsins).
    Heimilað er að láta tilteknum aðila í té trúnaðarupplýsingar sé þess þörf vegna eftirlitsins (14. gr. frumvarpsins).
    Lögð er sú skylda á endurskoðendur að þeir láti Vátryggingaeftirlitið vita að eigin frumkvæði um tiltekin atriði sem miður kunna að fara í starfsemi vátryggingafélags eða nátengdra fyrirtækja (13. gr. frumvarpsins).
    Opinbert eftirlit með vátryggingastarfsemi í þessu samhengi hefur það markmið að koma í veg fyrir gjaldþrot vátryggingafélaga sem skaðað gætu vátryggingataka eða þá sem rétt eiga á bótum. BCCI-málið beindi sjónum manna einkum að sviksamlegu athæfi stjórnenda og eigenda og er með þeim breytingum, sem hér eru lagðar til, verið að auka heimildir stjórnvalda til eftirlits með þeim.
    Tilkynningarskylda er þegar í lögum um vátryggingastarfsemi um samstæður og virkan eignarhlut. Viðbótin varðar einungis önnur náin tengsl. Ekki er gert ráð fyrir að þessi ákvæði hafi teljandi áhrif á starf íslenskra stjórnvalda eða íslenskra vátryggingafélaga. Þau auka þó möguleika á eftirliti. Hið sama má segja um heimild einstakra stjórnvalda til þess að láta af hendi trúnaðarupplýsingar. Lagt er til að núverandi heimildir verði rýmkaðar en breytingin er léttvæg miðað við íslenskt umhverfi.
    Þess má geta að í stofnunum ESB er til meðferðar frumvarp til tilskipunar um eftirlit með vátryggingasamstæðum sem er víðtækara en þær breytingar sem hér eru lagðar til. Óvíst er hvenær sú tilskipun verður samþykkt. Í henni er fjallað um eftirlit með fjárhag samstæðna sem felst auk eftirlits með einstökum fyrirtækjum í sérstöku eftirliti með viðskiptum milli fyrirtækja í samstæðunni.
    Á alþjóðavettvangi er mikið rætt um eftirlit með fjölþættari félagasamstæðum á sviði fjármálaþjónustu. Breytingar á íslenskri löggjöf um vátryggingastarfsemi á grundvelli þess starfs eru ekki tímabærar.

Áhrif á vátryggingastarfsemi á Íslandi.
    Ekki er ástæða til þess að ætla að ákvæði BCCI-tilskipunarinnar hefðu skipt neinu máli við eftirlit með vátryggingastarfsemi á Íslandi til þessa þar eð þær félagasamstæður sem starfa á vátryggingamarkaði á Íslandi eru ekki mjög flóknar og aðild útlendinga einföld. Hugsanlegt er að í framtíðinni verði stofnuð hér vátryggingafélög með veruleg tengsl við erlend fjármálafyrirtæki eða með mikil umsvif erlendis. Komi til þess verður samstarf Vátryggingaeftirlitsins við önnur stjórnvöld einfaldara vegna ákvæða tilskipunarinnar og þeirra ákvæða sem hér eru lögð til.

Yfirlit yfir náin tengsl íslenskra vátryggingafélaga innbyrðis og við aðra.
    Eingöngu er hér miðað við eignatengsl en upplýsingar um samstæður og hlutdeildarfélög liggja fyrir í ársskýrslum félaganna auk þess sem virkir eignarhlutir eru tilkynntir til vátryggingafélagaskrár. Engir samningar eru í gildi sem valda því að atkvæðavægi fari yfir umrædd mörk án þess að eignarhlutur sé samsvarandi.
    Félagasamstæður á íslenskum vátryggingamarkaði hafa verið einfaldar, eitt móðurfélag og bein dótturfélög þess. Stóru vátryggingafélögin eiga sum hver dótturfélög sem yfirleitt eru lítil og með sérhæfða starfsemi. Meðan Skandia rak hér starfsemi átti eitt félag í Svíþjóð þrjú dótturfélög á Íslandi. Eftir að Skandia seldi félögin í október 1996 eiga engir útlendingar aðild að félagasamstæðum sem innihalda íslensk vátryggingafélög. Móðurfélög eru eingöngu vátryggingafélög. Vátryggingaeftirlitið hefur ekki til þessa nýtt heimild í 4. gr. laga um vátryggingastarfsemi til þess að skilgreina félagasamstæðu á grunni annars en eignatengsla.
    Veikari tengsl íslenskra vátryggingafélaga eru margvísleg, bæði innbyrðis og við aðra. Þar getur verið eignarhlutdeild á bilinu 20–50%, minni háttar eignarhlutir, umsjón með rekstri að öllu leyti eða hluta, sameiginlegir stjórnendur eða veruleg endurtryggingaviðskipti. Dæmi:
—    Ábyrgð hf. er í nánum tengslum við eigendur sína, Ansvar í Svíþjóð og Sjóvá-Almennar tryggingar hf.
—    Sjóvá-Almennar tryggingar hf. er í nánum tengslum við Húsatryggingar Reykjavíkur hf. og Könnun hf. sem eru dótturfélög og við hlutdeildarfélögin Sameinaða líftryggingarfélagið hf. og Íslenska endurtryggingu hf. Enginn einn á yfir 20% í Sjóvá-Almennum tryggingum hf.
—    Tryggingamiðstöðin hf. er í nánum tengslum við Sameinaða líftryggingarfélagið hf. og Íslenska endurtryggingu hf. sem hlutdeildarfélög. Félagið er einnig í nánum tengslum við Fram hf. sem á rúmlega fjórðungshlut í Tryggingamiðstöðinni hf. og við Heklu hf. en þar á Tryggingamiðstöðin hf. þriðjung.
—    Vátryggingafélag Íslands hf. (VÍS) er í nánum tengslum við Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands og Eignarhaldsfélagið Samvinnutryggingar gf. sem eiga bæði yfir 20% hlut beint. VÍS er einnig í nánum tengslum við Fjárvang hf. og Flutninga hf. sem eru dótturfélög og við Íslenska endurtryggingu hf. og Samvinnuferðir-Landsýn hf. sem eru hlutdeildarfélög. Tengsl félagsins við eignarhaldsfélögin og við Líftryggingafélag Íslands hf. hafa ekki verið talin mynda samstæðu enda fer eignarhald eins félags í öðru þar aldrei yfir 50%.
—    Líftryggingafélag Íslands hf. er í nánum tengslum við Eignarhaldsfélagið Andvöku gf. og Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands sem hvort um sig eiga 44,444% hlut í félaginu.
—    Alþjóðalíftryggingarfélagið hf. er í nánum tengslum við Kaupþing hf. og Sparisjóðabankann hf. sem eiga 35% hlut hvort.

Önnur tengsl sem koma til álita við skilgreiningu á nánum tengslum.
    Eftirgreind tengsl teljast ekki náin tengsl samkvæmt þeim skilningi sem hér er lagður til:
—    Eigendur 20–50% hluta í öðrum félögum samstæðu en vátryggingafélaginu sjálfu eða móðurfélagi. Engin dæmi eru um þessa aðstöðu hjá íslenskum vátryggingafélögum.
—    Önnur félög í eigu minnihlutaeigenda. Dæmi: Fram hf. í Vestmannaeyjum á rúman fjórðung í Tryggingamiðstöðinni hf., en getur einnig átt hlutdeild í öðrum félögum án þess að þau teljist í nánum tengslum við Tryggingamiðstöðina hf. í þeim skilningi sem hér er lagður til.
—    Hlutdeildarfélög móðurfélags eða annars félags í samstæðu ef vátryggingafélagið á ekki hlut í þeim líka. Engin dæmi eru um þessa aðstöðu hjá íslenskum vátryggingafélögum þar sem ekkert vátryggingafélag er dótturfélag félags sem ekki er vátryggingafélag.
—    Dótturfélög og hlutdeildarfélög hlutdeildarfélaga. Dæmi: Vátryggingafélag Íslands hf. (VÍS) á rúman fimmtung í Samvinnuferðum-Landsýn hf. sem aftur getur átt verulegan hlut í öðrum félögum án þess að þau teljist í nánum tengslum við VÍS.
—    Meðeigendur. Dæmi: Sjóvá-Almennar tryggingar hf. á tæpan helming í Sameinaða líftryggingarfélaginu hf. og Tryggingamiðstöðin hf. rúman þriðjung án þess að það teljist mynda náin tengsl milli Sjóvár-Almennra trygginga hf. og Tryggingamiðstöðvarinnar hf.
—    Eitt félag annist daglegan rekstur annars gegn greiðslu. Vátryggingafélag Íslands hf. rekur Líftryggingafélag Íslands hf, Sjóvá-Almennar tryggingar hf. rekur Sameinaða líftryggingarfélagið hf. og þætti úr starfsemi Ábyrgðar hf. Margvísleg tengsl eru milli félaganna í hverju dæmi um sig, m.a. eru framkvæmdastjórar sameiginlegir í tveimur tilvikum.
—    Veruleg viðskipti við endurtryggjendur, svo sem milli Samábyrgðar Íslands á fiskiskipum og bátaábyrgðarfélaganna sem endurtryggja hjá Samábyrgðinni yfir 90% af áhættu sem þau taka að sér. Ekki er talin ástæða til þess að skilgreina tengslin sem náin tengsl í því samhengi sem hér er til skoðunar enda liggja upplýsingar um þetta fyrir eftir öðrum leiðum.

Hæfisskilyrði.


    Um hæfisskilyrði er fjallað í 5., 12., 16. og 21. gr. frumvarpsins. Lagðar eru til breytingar á hæfisskilyrðum þeim sem eru í lögunum þannig að þau verði hliðstæð hæfisskilyrðum í lögum um verðbréfaviðskipti, nr. 13/1996, og í lögum um verðbréfasjóði, nr. 10/1993, eins og þeim var breytt með lögum nr. 21/1996. Þessar tillögur eru, með einni breytingu, eins og frumvarp sem lagt var fyrir Alþingi á 120. löggjafarþingi 1995. Breyting frá fyrra frumvarpi felst í því að vanhæfi vegna dóms miðast við fimm ár en ekki þrjú. Þar var farið eftir breytingum á hliðstæðum ákvæðum í lögum um verðbréfaviðskipti sem gerðar voru í meðförum Alþingis.
    Núgildandi ákvæði um fjárforræði þykja of ströng. Er því lagt til að reglum um fjárforræði stofnenda, stjórnarmanna, framkvæmdastjóra, aðalumboðsmanna og vátryggingamiðlara sé breytt með hliðsjón af hlutafélagalöggjöf þeirri sem afgreidd var frá Alþingi í árslok 1994. Jafnframt eru gerðar nokkrar breytingar á öðrum hæfisskilyrðum og búsetuskilyrðum til samræmis við hlutafélagalöggjöfina en búsetuskilyrðin snerta m.a. EES-samninginn. Refsidómaákvæði hlutafélagalöggjafarinnar er tekið upp í tengslum við hæfisskilyrði en tilvísun í löggjöf um vátryggingastarfsemi alls staðar bætt við.

Miðlun vátrygginga.


    Í 2., 4., 15. og 20.–25. gr. frumvarpsins er fjallað um atriði sem snerta miðlun vátrygginga og endurskoðuð hafa verið að fenginni reynslu. Gert er ráð fyrir nokkrum breytingum á reglum um miðlun. Tekið var m.a. mið af tilskipun ESB nr. 77/92 um umboðsmenn og vátryggingamiðlara og tilmælum framkvæmdastjórnar ESB frá 18. desember 1991 um vátryggingamiðlara. Nýmæli er að hugtakið vátryggingamiðlari er skilgreint í 2. gr. frumvarpsins og er hugtakið þrengra en í núverandi gerð laganna. Gert er ráð fyrir að ákvæði um vátryggingamiðlara skv. 2. tölul. 1. mgr. 80. gr. gildandi laga falli brott.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


Um 1. gr.


Endurtryggingavernd íslenskra vátryggingafélaga erlendis.


    Ákvæðið fjallar um endurtryggingavernd íslenskra vátryggingafélaga erlendis og er viðbót við 2. gr. Undanskilja þarf endurtryggingar sem íslensk vátryggingafélög taka erlendis frá þeim hluta laganna sem fjallar um starfsemi erlendra vátryggingafélaga. Þannig hafa íslensk vátryggingafélög frjálsar hendur um val á endurtryggjanda eins og tíðkast hefur og tíðkast í öðrum löndum.
    Hérlendis er sams konar eftirlit með endurtryggingafélögum og frumtryggingafélögum, í sumum öðrum löndum er eins farið að. Annars staðar er eftirlit með endurtryggingafélögum minna og sums staðar er ekkert sérstakt eftirlit haft með þeim. Ákvæði VII. kafla um starfsemi erlendra vátryggingafélaga hér á landi eru því vart framkvæmanleg þegar endurtryggingafélög eiga í hlut.
    Tilskipun 64/225/EBE fjallar um frelsi til endurtryggingaviðskipta milli aðildarríkja. Þar eru ekki ákvæði um eftirlit með endurtryggingafélögum, öfugt við það sem er í tilskipunum um frumtryggingastarfsemi. Eðlilegt þykir því að undanþiggja erlend félög sem taka að sér endurtryggingar á áhættu íslenskra vátryggingafélaga ákvæðum VII. kafla laga um vátryggingastarfsemi hvað þau viðskipti varðar. Hagsmunir íslenskra vátryggingataka eru taldir nægilega tryggðir með eftirliti með íslensku félögunum sem kaupa sér endurtryggingaverndina enda gilda öll ákvæði laganna um íslensku félögin. Eina breytingin verður að ekki þarf að tilkynna til íslenskra stjórnvalda endurtryggingaþjónustu sem veitt er.
    Annist evrópskt félag bæði endurtryggingar á áhættu íslenskra vátryggingafélaga og frumtryggingar gildir VII. kafli um frumtryggingaþátt starfseminnar. Í sumum öðrum aðildarríkjum EES er sú túlkun uppi að vátryggingafélög sem taka að sér hluta áhættu í svokölluðum samtryggingum ættu einnig að vera undanþegin ákvæðum VII. kafla um tilkynningarskyldu á sama hátt og endurtryggjendur. Slíkt er ekki lagt til hér.

Um 2. gr.


Skilgreiningar.


    Greinin bætir skilgreiningum á nánum tengslum og á hugtökum sem tengjast miðlun vátrygginga við 7. gr. laga um vátryggingastarfsemi.
    Hugtakið náin tengsl er notað í ákvæðum sem ætlað er að efla eftirlit og er komið úr BCCI-tilskipuninni sem fjallað er um í sérstökum kafla þessara athugasemda. Í grófum dráttum er hugmyndin að skilgreina hugtak sem nái til veikari tengsla en félagasamstæðuhugtakið og taki einnig til þeirra sem haft geta veruleg áhrif, án þess að hafa þau yfirráð sem felast í meirihlutaeign. Náin tengsl ber að tilkynna til stjórnvalda eins og kveðið er á um í síðari greinum en aðrar beinar kvaðir eru ekki lagðar á vátryggingafélagið.
    Náin tengsl eru skilgreind í 2. gr. BCCI-tilskipunarinnar. Þar er lágmarksskilgreining en aðildarlöndunum er heimilt að nota víðtækari skilgreiningu. Vegna þess að íslensk vátryggingafélög eru í talsverðum stjórnunar- og eignatengslum við mörg fyrirtæki og einstaklinga þykir rétt að hafa skilgreininguna hér nákvæma. Meðan frumvarpið var undirbúið ræddi starfshópurinn ítarlega hvort víkka skyldi skilgreininguna á nánum tengslum til þess að ná yfir hvers konar varanlegar „blokkir“ fyrirtækja. Niðurstaðan varð hins vegar að halda í meginatriðum lágmarksskilgreiningunni.
    Höfð er hliðsjón af 1. mgr. 39. gr. laganna þar sem tilgreind eru nokkur þrep virkrar eignaraðildar. Í BCCI-tilskipuninni er miðað við að eignarhlutur þurfi að ná 20% en virk eignaraðild sem nemur 10–20% hlutafjár er talin skipta minna máli en aðild sem nær 20%. Sama afstaða kemur m.a. fram í skilgreiningu á hlutdeildarfélögum í lögum um ársreikninga nr. 144/1994.
    Skilgreining á nánum tengslum er í fimm liðum. Undir hinn fyrsta falla önnur félög í félagasamstæðu, móðurfélög, systurfélög og dótturfélög vátryggingafélagsins. Næstu tveir liðir taka til eigenda. Undir annan lið falla þeir sem eiga vátryggingafélagið að hlutdeildarfélagi. Undir þriðja liðinn falla þeir sem eiga a.m.k. 20% hlut í móðurfélagi þótt reiknaður eignarhluti þeirra í vátryggingafélaginu geti verið minni ef það er ekki að öllu leyti í eigu móðurfélagsins. Einstaklingar eða lögaðilar, sem hafa ráðandi stöðu í vátryggingafélagi án þess að vera félag, falla undir annan eða þriðja lið. Tveir síðustu liðir skilgreiningarinnar taka til félaga sem vátryggingafélagið á hlut í. Undir fjórða liðinn falla þau félög sem í lögum um ársreikninga kallast hlutdeildarfélög vátryggingafélagsins. Undir síðasta lið falla þau hlutdeildarfélög samstæðu sem vátryggingafélag í samstæðunni á einhvern hlut í, sé hlutur vátryggingafélagsins eins innan við 20%.
    Þrátt fyrir heitið „virkur eignarhlutur“ nær hugtakið yfir hliðstæð áhrif í krafti samninga eða aukins atkvæðisréttar þótt eignarhlutur nái ekki tilgreindum mörkum, sbr. skilgreiningu á virkum eignarhlut í 7. gr. laganna. Það er í samræmi við svokallaða 7. tilskipun ESB um félagarétt (83/349/ESB) en hún fjallar um samstæðureikninga og segir m.a. hvenær beri að gera samstæðureikninga fyrir hlutafélög. Í tilskipunum um vátryggingar sem vísa til hennar eru hliðstæðar skilgreiningar ekki takmarkaðar við ákveðin rekstrarform heldur ná skilgreiningarnar til lögaðila hvert sem félagsform þeirra er og til einstaklinga.
    Skilgreind eru hugtökin vátryggingamiðlun, vátryggingamiðlari, vátryggingaumboðsmaður og vátryggingasölumaður. Stuðst er við tilskipun ESB nr. 77/92 og tilmæli framkvæmdastjórnar ESB um vátryggingamiðlun við skilgreiningu á nefndum aðilum.
    Lögð er áhersla á sjálfstæði þeirra sem stunda miðlun vátrygginga gagnvart vátryggingafélögum. Sá sem vinnur við vátryggingamiðlun starfar óháður einstökum vátryggingafélögum. Hér er um faglega starfsemi að ræða sem felst í undirbúningi, töku vátrygginga og framkvæmd vátryggingasamninga á sviði frumtrygginga. Einstaklingar jafnt sem lögaðilar geta að fengnu starfsleyfi og/eða skráningu lagt stund á vátryggingamiðlun.
    Gera þarf skýran greinarmun á vátryggingamiðlara og vátryggingaumboðsmanni. Vátryggingamiðlari kemur ekki fram í nafni vátryggingafélags, hann er algerlega óháður, hann á að gæta hagsmuna beggja aðila. Vátryggingaumboðsmaður kemur fram fyrir hönd og í nafni tiltekins vátryggingafélags eins eða fleiri. Hann hefur heimild til að skuldbinda félagið, auglýsa það o.s.frv. Hann getur verið skipaður fulltrúi erlends vátryggingafélags í útibúi þess hér á landi skv. 64. gr. laganna.
    Tekið er fram líkt og í tilskipun ESB nr. 77/92 að með vátryggingasölumanni er átt við starfmann vátryggingamiðlara eða vátryggingaumboðsmanns. Hann annast undirbúningsvinnu, kynnir vátryggingar o.s.frv. án heimildar til að skuldbinda um vátryggingu á nokkurn hátt. Skilgreiningin tekur og til sölumanna vátryggingafélaga.

Um 3. gr.


Skilgreining: Stóráhætta.


    Í 8. gr. laganna er stóráhætta skilgreind að hluta en gert er ráð fyrir að hluti skilgreiningarinnar verði í reglugerð. Einfaldara þykir að hafa alla skilgreininguna í lögunum.
    Í athugasemdum ESA við lögin um vátryggingastarfsemi er bent á að ákvæði tilskipana um svokallaða stóráhættu séu ekki komin inn í íslenska löggjöf að fullu og er brugðist við því með þeirri breytingu sem hér er lögð til.
    Til stóráhættu teljast allar húftryggingar og ábyrgðartryggingar skipa, flugvéla og járnbrauta, auk greiðslu- og efndavátrygginga. Ef stórfyrirtæki eiga í hlut falla flestar vátryggingar þeirra aðrar en slysa- og sjúkratryggingar einnig í flokk stóráhættu. Heitið stóráhætta vísar til þess að fjárhæðirnar, sem í húfi eru, geta verið mjög háar, fremur en að hættan á tjóni sé veruleg.
    Hugtakið stóráhætta er notað við tilslökun á neytendaverndarákvæðum. Gert er ráð fyrir að stór fyrirtæki hafi meiri yfirsýn yfir vátryggingamarkaðinn og réttarstöðu sína en fjölskyldur og smáfyrirtæki sem einkum þurfa á neytendaverndinni að halda. Tilslakanirnar í lögum um vátryggingastarfsemi eru þessar:
—    Í 57. gr. er frávik frá skyldu til að upplýsa heiti og aðsetur vátryggjenda. Stóráhætta er oft vátryggð í samtryggingu fyrir atbeina milliliða, t.d. miðlara, en vátryggjendurnir geta verið mjög margir og borið lítinn hluta áhættunnar hver um sig. Þá eru þeir taldir upp í vátryggingasamningnum en ekki er talið tilefni til að endurtaka þá upptalningu í öðrum samskiptum vátryggingatakans og þeirra sem annast framkvæmd samningsins. Í annarri tilskipun um skaðatryggingar (88/357/ESB), 26. gr., er gert ráð fyrir að einungis stóráhætta sé tryggð samtryggingu þar sem vátryggjendur eru frá mismunandi aðildarríkjum.
—    Í 59. gr. er frávik frá reglu um tungumál vátryggingasamnings þegar vátryggt er gegn stóráhættu.
—    Í 63. gr. er samningsaðilum heimilað að velja hvaða löggjöf gildi um vátryggingasamning um stóráhættu. Þó gilda ófrávíkjanleg ákvæði íslenskrar löggjafar og reglur um lögboðnar vátryggingar.

Um 4. gr.


Lögverndun starfsheitis.


    Lögð er til viðbót við 2. mgr. 13. gr. laganna. Hér er hliðstætt ákvæði og í gildi er varðandi starfsemi vátryggingafélaga. Aðrir en þeir sem heimild hafa eiga ekki að gefa í skyn að þeir starfi við miðlun vátrygginga. Hér er um lögverndun starfsheitis að ræða.

Um 5. gr.


Hæfi stofnenda.


    Greinin, sem gert er ráð fyrir að breyti 14. gr. laganna, er úr frumvarpi sem lagt var fram á Alþingi á 120. löggjafarþingi en hlaut ekki afgreiðslu. Þar voru lagðar til breytingar á hæfisskilyrðum í lögum um vátryggingastarfsemi og er breytingunum lýst almennt í sérstökum kafla í þessum athugasemdum.
    Í athugasemdum við fyrra frumvarp sagði:
    „A-liður. Hér er gerð krafa um lögræði stofnanda en ekki tuttugu ára aldur og að hann sé fjár síns ráðandi en ekki er lengur gerð sú krafa að hann hafi aldrei verið sviptur forræði á búi sínu. Þetta er gert til samræmis við breytingu á hlutafélagalöggjöfinni, sbr. einkum 4. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 66. gr. laga nr. 2/1995, um hlutafélög. Refsidómaákvæðið er úr hlutafélagalöggjöfinni.
    B-liður. Hér er búsetuskilyrðum breytt til samræmis við 2. mgr. 3. gr. hlutafélagalaganna og það gert að skilyrði að um búsetu eða aðsetur í aðildarríki sé að ræða.“

Um 6. gr.


Umsókn um starfsleyfi.


    Lögð er til viðbót við 3. tölul. 2. mgr. 21. gr. laganna varðandi atriði sem skulu koma fram í umsókn um starfsleyfi. Breytingin lögfestir ákvæði úr BCCI-tilskipuninni.
    Þegar vátryggingafélag sækir um starfsleyfi þarf, samkvæmt núverandi ákvæðum laganna að gera grein fyrir stofnendum og þeim sem óbeint eiga virkan eignarhlut í félaginu, þ.e. yfir 10%. Einnig þarf skv. 43. gr. að gera grein fyrir samstæðu sem félagið tilheyrir. Með viðbótinni er tilkynningarskyldan víkkuð út þannig að einnig þurfi að leggja fram lista yfir nátengda aðila og lýsingu á því hvernig tengslunum er háttað en það er nauðsynlegt til þess að unnt sé að meta hvort náin tengsl geti hindrað eftirlit. Í grein 2.2 í BCCI-tilskipuninni er gert ráð fyrir að þessar upplýsingar liggi ávallt fyrir. Hér er fjallað um ný vátryggingafélög en hliðstæð ákvæði um starfandi vátryggingafélög koma í aðrar greinar laganna.

Um 7. gr.


Réttaraðstoðarvátryggingar.


    Greinin fjallar um réttaraðstoðarvátryggingar. Lagt er til að bæta reglugerðarheimild við 22. gr. og gefa síðan út reglugerð til þess að ljúka lögfestingu tilskipunar um réttaraðstoðarvátryggingar. Í athugasemdum ESA við lögin um vátryggingastarfsemi er bent á að ákvæði tilskipunar um réttaraðstoðarvátryggingar séu ekki komin inn í íslenska löggjöf og er brugðist við því með þessari breytingu.
    Sérstök tilskipun er í gildi um réttaraðstoðarvátryggingar (87/344/ESB). Eru þar m.a. ákvæði um með hvaða hætti réttaraðstoð skuli látin í té til þess að tryggja hagsmuni vátryggingataka í ágreiningsmáli við vátryggingafélagið sjálft. Ákvæði þessi geta verið íþyngjandi fyrir vátryggingafélög og þarf því trausta og skýra lagaheimild til þess að innleiða þau. Ekki þykir ástæða til þess að gera það í lögunum sjálfum heldur verði sett reglugerð sem byggist á ákvæðum tilskipunarinnar. Þessi vátryggingagrein er lítt stunduð hér á landi.

Um 8. gr.


Afgreiðsla umsókna um starfsleyfi.


    Lögð er til viðbót við 3. mgr. 25. gr. sem fjallar um hvenær hafna skuli umsókn um starfsleyfi. Hér er hugtakið náin tengsl notað til þess að takmarka það hvenær veita má vátryggingafélagi starfsleyfi. Náin tengsl mega ekki hindra eftirlit með starfsemi félagsins. Breytingin lögfestir ákvæði úr grein 2.2 og grein 3 úr BCCI-tilskipuninni.

Um 9. gr.


Lágmarksfjárhæðir varðandi gjaldþol.


    Lagt er til að ákvæði um lágmarksfjárhæðir gjaldþols í 33. gr. laga um vátryggingastarfsemi verði orðað skýrar en nú er án þess að efni þess verði breytt en núverandi orðalag hefur valdið misskilningi.
    Mismunandi fjárhæðir eiga við eftir því í hvaða greinaflokkum vátryggingafélag hefur starfsleyfi. Breytingin sem lögð er til felst í því að bæta inn tilvísunum í 22.–23. gr. laganna, en þar eru tilgreindir þeir greinaflokkar sem leyfi eru veitt fyrir. Einnig er leiðrétt orðalag í 5. tölul. til samræmis við 22. gr. þannig að notað verði orðið „aðrar“ í staðinn fyrir „ýmsar“, en fyrra orðalag hefur valdið vandkvæðum við að ákvarða hvort 3. eða 5. tölul. skuli skuli eiga við um vátryggingafélag. Þá eru felld niður orðin „aðrar en ábyrgðartryggingar“ úr 3. tölul. en þau verða óþörf þegar vísað er beint í 22. gr.
    2.–6. tölul. byggjast á 17. gr. tilskipunar 73/329/ESB, fyrstu tilskipunar um skaðatryggingar, með síðari breytingum. Breytingin, sem hér er lögð til, færir orðalag laga um vátryggingastarfsemi nær orðalagi tilskipunarinnar sem er skýrara um þessa þætti. Rétt þykir að halda 3. og 4. tölul. aðgreindum þótt svo sé ekki í tilskipuninni sem vísað er til og að fjárhæðin sé hin sama í báðum liðum. Er það til samræmis við eldri gerð þessarar greinar enda er um ólíkar en algengar vátryggingagreinar að ræða.

Um 10. gr.


Breytingar á stöðu starfandi félags.


    Lögð er til viðbót við 39. gr. Sá sem myndar náin tengsl við starfandi vátryggingafélag skal tilkynna það Vátryggingaeftirlitinu. Sama á við ef þau tengsl eru rofin. Félagið sjálft skal tilkynna um náin tengsl strax og þau verða ljós og síðan árlega.
    Breytingin lögfestir ákvæði úr grein 2.2 í BCCI-tilskipuninni um það tilvik er breyting á eignaraðild starfandi vátryggingafélags eða nátengds félags kann að verða til þess að hindra eftirlit.

Um 11. gr.


Afskiptaheimildir stjórnvalda.


    Lögð er til viðbót við 40. gr. sem fjallar um afskiptaheimildir stjórnvalda gagnvart eigendum félags þannig að gerð verði krafa um að náin tengsl hindri ekki eftirlit með starfandi félagi. Það gæti gerst þegar tengslin komast á eða við breytingar síðar, t.d. ef löggjöf annars lands gildir um nátengda og sú löggjöf breytist.
    Breytingin er að efni til hliðstæð þeirri breytingu sem gerð er á 25. gr. fyrir ný félög, sbr. 11. gr. frumvarpsins. Breytingin lögfestir að hluta ákvæði 3. mgr. greinar 2.2 í BCCI-tilskipuninni.
    Meta verður í hverju tilviki fyrir sig hvort náin tengsl geti hindrað eftirlit og verða stjórnvöld að rökstyðja það álit. Við slíkt mat þarf m.a. að hafa hliðsjón af:
—    eignatengslum,
—    stjórnskipulagi og raunverulegum völdum í félaginu og félagasamstæðu,
—    hvort tengslin séu varanleg,
—    hvort tengslin gefi færi á að hafa veruleg áhrif á stjórn og rekstur félagsins,
—    áhættu sem fylgir nátengdum rekstri,
—    staðsetningu nátengdra,
—    eftirlitsmöguleikum annarra stjórnvalda.
Sérstaklega þarf að kanna gagnkvæma eignaraðild og samninga sem kunna að veita meiri völd en eignarhlutur einn segir til um. Einnig væri tilefni til að kanna verulega erlenda eignaraðild og félög sem ætlunin er að hafi veruleg umsvif erlendis.

Um 12. gr.


Hæfi stjórnenda.


    A-liður greinarinnar er úr frumvarpi sem lagt var fram á Alþingi á 120. löggjafarþingi en hlaut ekki afgreiðslu. Þar voru lagðar til breytingar á hæfisskilyrðum í lögum um vátryggingastarfsemi og er breytingunum lýst almennt í sérstökum kafla í þessum athugasemdum. Efnislega hliðstæð ákvæði eru í 3.–4. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga um verðbréfaviðskipti, nr. 13/1996, og í 2. mgr. 2. gr. laga um verðbréfasjóði, nr. 10/1993, eins og þeim var breytt með lögum nr. 21/1996, ásamt 13. gr. sömu laga.
    Í athugasemdum við fyrra frumvarp sagði m.a.: „Hér er gerð krafa um lögræði en ekki 20 ára aldur. Einnig er slakað á kröfum um fjárforræði og ekki gerðar svo strangar kröfur að stjórnarmenn eða framkvæmdastjórar megi aldrei hafa verið sviptir forræði á búi sínu. Er þetta til samræmis við 2. mgr. 66. gr. hlutafélagalaganna en auk þess er bætt við ákvæði úr þeirri grein sem herðir hæfisskilyrði, með öðrum orðum refsidómsákvæði hlutafélagalaganna. Búsetuskilyrðum er hér breytt eins og í 1. gr. frumvarpsins.“

Tilkynningarskylda félagasamstæðu.


    Í b-lið er lögð til breyting á ákvæðum 43. gr. um tilkynningarskyldu félagasamstæðu. Breytingin er hliðstæð ákvæði um tilkynningarskyldu sem lagt er til að bætt verði við 39. gr., sbr. 10. gr. frumvarpsins. Hér er einnig lögð tilkynningarskylda á stjórn móðurfélags í samstæðu þegar verulegar breytingar verða á skipulagi félagasamstæðunnar. Breytingin lögfestir ákvæði úr BCCI-tilskipuninni.

Um 13. gr.


Tilkynningarskylda endurskoðenda.


    Lagt er til að bætt verði við 46. gr. ákvæði um tilkynningarskyldu endurskoðenda til Vátryggingaeftirlitsins. Lögð verði frumkvæðisskylda á endurskoðendur vátryggingafélaga til þess að láta stjórnvöld vita um hugsanleg lögbrot og teikn um að starfsemin gangi illa. Til þessa hefur þeim einungis verið skylt að veita upplýsingar sé þess óskað.
    Fjallað er um þagnarskyldu í 7. gr. laga um löggilta endurskoðendur, nr. 67/1976. Sú þagnarskylda á ekki við um þau samskipti sem lýst er í þessari grein.
    Breytingin lögfestir ákvæði úr 5. gr. BCCI-tilskipunarinnar.

Um 14. gr.


Meðferð trúnaðarupplýsinga.


    Lagt er til að breyta reglum um meðferð trúnaðarupplýsinga í 51. gr. Heimiluð verði skipti á trúnaðarupplýsingum í ákveðnum tilvikum við fleiri samstarfsaðila en áður hvort sem þeir eru íslenskir eða erlendir.
    Breytingin lögfestir ákvæði greina 4.1, 4.3 og 4.5 í BCCI-tilskipuninni.

Um 15. gr.


Eftirlitsgjald.


    Lagt er til að lögin taki á því hvert skuli vera lágmarkseftirlitsgjald vegna miðlunar vátrygginga í stað þess að reglugerð kveði einungis á um þetta líkt og verið hefur.

Um 16. gr.


Hæfi aðalumboðsmanns.


    A-liður greinarinnar er úr frumvarpi sem lagt var fram á Alþingi á 120. löggjafarþingi en hlaut ekki afgreiðslu. Þar voru lagðar til breytingar á hæfisskilyrðum í lögum um vátryggingastarfsemi og er breytingunum lýst almennt í sérstökum kafla í þessum athugasemdum. Í greinargerð með fyrra frumvarpi sagði m.a.: „Hér er breytt ákvæði um aðalumboðsmann. Gerð er krafa um lögræði en ekki 20 ára aldur og að hann sé fjár síns ráðandi. Ekki er lengur gerð sú krafa að hann hafi aldrei verið sviptur forræði á búi sínu. Þá er refsidómsákvæði hlutafélagalaganna tekið upp.“

Varðveisla gagna, aðlögun að sérstökum milliríkjasamningum.


    Í b-lið er lagt til að bætt verði við 71. gr. ákvæði um varðveislu gagna. Þetta ákvæði skýrir sjálfstæði útibús gagnvart aðalstöðvum vátryggingafélags og treystir eftirlitsmöguleika íslenskra stjórnvalda. ESA hefur gert athugasemdir við að slíkt ákvæði úr grein 23.2.c í tilskipun 73/239/ESB (fyrstu tilskipun um skaðatryggingar) hafi ekki verið lögfest á Íslandi.
    Þá er einnig lagt til að bætt verði við heimildarákvæði til að einfalda aðlögun að sérstökum milliríkjasamningum sem gerðir kunna að verða. Byggt er á heimildarákvæði í EES-samningnum sem kemur í stað 29. gr. tilskipunar 73/239/ESB.
    Í EES samningnum er gert ráð fyrir að aðildarríki geti samið við ríki utan EES um gagnkvæmar heimildir til þess að stunda vátryggingastarfsemi og að eftirlit verði með öðrum hætti en lýst er í meginreglum laganna. Slíkir samningar, ef gerðir yrðu, gætu kveðið á um að beitt yrði reglum svipuðum þeim sem gilda um starfsemi í öðru EES-ríki núna og að eftirlit með starfsemi á Íslandi frá vátryggingafélögum með aðalstöðvar í þessum löndum yrði í höndum heimaríkisins í ríkari mæli en gert er ráð fyrir í meginreglunum. Á sama hátt mundu íslensk stjórnvöld líta eftir starfi íslenskra vátryggingafélaga þar. ESA hefur ekki gert athugasemd við þetta atriði þar sem um heimildarákvæði er að ræða sem ekki er skylt að lögfesta. Rétt þykir hins vegar að ljúka endurskoðun þessa hluta laganna nú fremur en að bíða eftir að gerðir verði samningar af því tagi sem fjallað er um.
    Um frekari athugasemdir við þessa grein og samhengi hennar við aðrar breytingar vísast til sérstaks kafla í athugasemdum þessum um starfsemi vátryggingafélaga með aðalstöðvar utan EES.

Um 17. gr.


Gjaldþol útibúa.


    Hér eru lagðar til tvenns konar breytingar frá gildandi ákvæðum. Annars vegar eru tekin inn í lagagreinina ákvæði um samstarf við önnur EES-ríki um gjaldþolseftirlit með útibúum utansvæðisfélaga sem sleppt var úr lögunum árið 1994 og hins vegar þarf að leiðrétta eldri ákvæði í þeim mæli sem þau voru frábrugðin ákvæðum EES-samningsins.
    Eldri 2. mgr. er breytt og henni skipt í tvær málsgreinar. Margar af athugasemdum ESA vörðuðu reglur um gjaldþol. Brugðist er beint við athugasemdum varðandi grein 25.3 í fyrstu tilskipun um skaðatryggingar (73/239/ESB) og varðandi grein 23.2.e í sömu tilskipun. Lagt er til að sett verði reglugerðarheimild til þess að mæta athugasemdum ESA sem varða greinar 26, 27.2 og 28. gr. í sömu tilskipun. Ákvæði um geymslufé var strangara en EES-samningurinn gerir ráð fyrir og er lagt til að því verði breytt til samræmis við það sem er í öðrum EES-löndum.
    Reglur um lágmarksgjaldþol útibúa utansvæðisfélaga eru flóknar. Í meginatriðum gilda sömu ákvæði um útibú utansvæðisfélaga og um íslensk vátryggingafélög en bætt er við ákvæðum um geymslufé og um samstarf EES-ríkjanna. Jafnframt eru vissar lágmarksfjárhæðir aðrar og lægri fyrir þessi útibú en fyrir félög með aðalstöðvar á EES. Kröfur 33. gr. til útibús eru því færðar til samræmis við það sem er í öðrum aðildarlöndum EES en það er nauðsynlegt til þess að unnt sé að reikna gjaldþol fyrir öll EES-útibú sameiginlega eins og utansvæðisfélög geta óskað eftir.
    Gert er ráð fyrir að ákvæði um hvernig standa skuli að sameiginlegu gjaldþolseftirliti verði sett í reglugerð. Ákvæði EES-samningsins um sameiginlegt gjaldþolseftirlit kveður á um að vátryggingafélag með aðalstöðvar utan EES, t.d. í Bandaríkjunum eða Japan, geti óskað eftir því að öll útibú þess á EES verði skoðuð sem eitt útibú gagnvart gjaldþolsreglum. Eftirlitsstjórnvöld eins aðildarríkisins tækju þá að sér eftirlit með gjaldþolinu. Íslensk stjórnvöld mega en þurfa ekki að taka að sér slíkt eftirlit verði þess óskað. Séu öll útibúin skoðuð sameiginlega gilda sérstakar reglur um staðsetningu geymslufjár og eigna sem mæta eiga gjaldþolinu. Þetta sameiginlega eftirlit tekur eingöngu til gjaldþolsins, eignir á móti vátryggingaskuld eiga alltaf að fylgja reglum þess aðildarríkis þar sem vátryggingaskuldin er.
    Leiðréttingarnar eru þær að geymslufé verður föst fjárhæð, óháð umsvifum, og slakað er á kröfu um að fjármunir sem mæta gjaldþoli séu á Íslandi. Krafa um fjármuni sem félagið hefur til frjálsrar ráðstöfunar á EES lækkar hins vegar ekki.
    Um frekari athugasemdir við þessar grein og samhengi hennar við aðrar breytingar vísast til sérstaks kafla í athugasemdum þessum um starfsemi vátryggingafélaga með aðalstöðvar utan EES.

Um 18. og 19. gr.


Kröfur til útibúa.


    Við 73. og 74. gr. laga um vátryggingastarfsemi er bætt kröfum til útibúa. 73. gr. fjallar um skil á gögnum til Vátryggingaeftirlitsins en 74. gr. um það þegar stjórnvöld þurfa að hafa sérstök afskipti af útibúinu. Breytingin svarar athugasemdum ESA um lögfestingu 27. gr. í fyrstu tilskipun um skaðatryggingar, 73/239/ESB. Þessi ákvæði skerða ekki aðrar heimildir íslenskra stjórnvalda til afskipta af útibúum þeim sem hér um ræðir.
    Í þeim hluta tilskipana ESB sem fjallar um starfsemi útibúa vátryggingafélaga með aðalstöðvar utan EES er almenn tilvísun í þau ákvæði sem gilda um félög með aðalstöðvar í viðkomandi landi um ársreikninga, skýrslugerð og viðurlög við brotum. Lagt er til að treysta heimildir íslenskra stjórnvalda með því að setja í kaflann um útibú utansvæðisfélaga almennar tilvísanir í kafla um ársreikninga og skýrslugerð íslenskra vátryggingafélaga og kaflana um samruna, brottfall starfsleyfis og skyld atriði.
    Talið er eðlilegt að hafa almenn ákvæði um þessi atriði fremur en tæmandi upptalningu. Ef mörg útibú vátryggingafélaga frá löndum utan EES hefja hér starfsemi mætti útfæra þessi ákvæði í reglugerð á grunni almennrar reglugerðarheimildar í 98. gr. laga um vátryggingastarfsemi en ekki er tilefni til þess að óbreyttu.
    Um frekari athugasemdir við þessa grein og samhengi hennar við aðrar breytingar vísast til sérstaks kafla í athugasemdum þessum um starfsemi vátryggingafélaga með aðalstöðvar utan EES.

Um 20. gr.


Umsókn um starfsleyfi. Tilkynning um skráningu.


    Lögð er til ný 80. gr. Sá sem hyggst starfa hér á landi við miðlun vátrygginga á að senda ráðuneyti vátryggingamála skriflega umsókn um starfsleyfi.
    Með hliðsjón af grundvallarreglum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið er gengið út frá því að starfsleyfi vátryggingamiðlara á svæðinu jafngildi starfsleyfi hér á landi enda séu uppfyllt skilyrði laga þessara. Í því felst að vátryggingamiðlari, t.d. með útgefið starfsleyfi í Svíþjóð eða Bretlandi, þarf ekki að sækja um starfsleyfi hér á landi ef hann hyggst starfa við miðlun vátrygginga hérlendis. Honum nægir skráning í vátryggingamiðlaraskrá sem er í vörslu Vátryggingaeftirlitsins. Opinberar reglur kveða á um skilyrði skráningar. Þær taka mið af tilskipun ESB nr. 77/92 og tilmælum framkvæmdastjórnarinnar um vátryggingamiðlun frá 18. desember 1991. Mikilvægt er að stjórnvöld gæti þess að viðkomandi aðili fullnægi ófrávíkjanlegum ákvæðum sem í gildi eru hér á landi, þar á meðal varðandi fyrirkomulag starfsábyrgðartryggingar, áður en hann getur hafið miðlun vátrygginga hérlendis.
    Sé starfsemin ekki háð starfsleyfi heima fyrir skal vátryggingamiðlari sækja um starfsleyfi og gilda þá sömu reglur og um innlenda vátryggingamiðlara.

Um 21. gr.


    Fumvarpið gerir ráð fyrir breytingu á 80. grein laganna, sbr. 20. gr. þess, og er því lagt til í a-lið að 1. mgr. 81. gr. gildandi laga falli brott.

Hæfisskilyrði.


    Í b-lið er lögð til breyting á hæfisskilyrðum þeim sem eru í 2. mgr. 81. gr. þannig að þau verði hliðstæð hæfisskilyrðum þeim sem eru í lögum um verðbréfaviðskipti, nr. 13/1996, og í lögum um verðbréfasjóði, nr. 10/1993, líkt og þeim var breytt með lögum nr. 21/1996. Hliðstæðar breytingar á hæfisskilyrðum eru einnig lagðar til í öðrum greinum frumvarps þessa.

Starfsleyfi og/eða skráning.


    Í c-lið er lögð til viðbót við 1. málsl. 4. mgr. 81. gr. Hún felst í því að ef viðkomandi er með starfsleyfi heima fyrir skuli hann ekki hefja starfsemi fyrr en hann hefur verið skráður í vátryggingamiðlaraskrá.

Setning reglugerða.


    Í d-lið er lagt til að breytt verði 6. mgr. 81. gr. Frumvarpið leggur til ítarlegri ákvæði en áður varðandi setningu reglugerða. Við samningu frumvarpsins voru drög að þremur reglugerðum á sviði vátryggingamiðlunar höfð til hliðsjónar.

Um 22. gr.


Þóknun vátryggingamiðlara.


    Með hliðsjón af þeirri breytingu sem lögð er til á fyrirkomulagi 80. gr. gildandi laga, sbr. umfjöllun um vátryggingamiðlara og vátryggingaumboðsmann, þykir nauðsynlegt að endurskoða 1. mgr. 82. gr. eins og gert er ráð fyrir í a-lið. Vátryggingamiðlari má ekki taka við þóknun frá vátryggingafélagi nema vegna vátryggingasamninga sem komið hefur verið á milli vátryggingafélagsins og vátryggingataka. Hann getur tekið við greiðslum af öðru tagi, t.d. vegna útlagðs kostnaðar.

Skrifleg heimild til að taka á móti iðgjöldum.


    Í b-lið kemur fram að að vátryggingamiðlari megi ekki taka við iðgjöldum fyrir hönd vátryggingafélags nema samkvæmt skriflegri heimild. Frá sjónarmiði neytendaverndar er mikilvægt að vátryggingamiðlari geti sýnt fram á að hann hafi heimild til að taka á móti iðgjöldum fyrir hönd vátryggingafélags. Heimildina getur hann fengið frá viðkomandi vátryggingafélagi eða fulltrúa þess. Þetta fer eftir atvikum.

Upplýsa skal um þóknun.


    Óbreytt er að vátryggingamiðlara er skylt að upplýsa þá sem hann starfar fyrir um þóknun sem hann þiggur vegna viðskiptanna fari þeir fram á það sérstaklega. Breytingin skv. c-lið felst í því að ekki er gert ráð fyrir því að vátryggingamiðlari fái umboðslaun.

Um 23. gr.


Upplýsingaskylda um umfang áhættunnar.


    Breytingin felur í sér möguleika á að vátryggingamiðlari hér á landi eigi samskipti við millilið, t.d. erlendan vátryggingamiðlara. Þá skal hann upplýsa viðkomandi um tegund og umfang vátryggingaáhættunnar til þess að unnt sé að gera vátryggingataka tilboð. Hér er um breytingu að ræða sem lögð er til í ljósi fenginnar reynslu.

Um 24. gr.


    Lagt er til að 84. gr. falli brott. Í ljósi tillögu um breytingu á 80. gr. laganna er óþarft að kveða á um að vátryggingamiðlari skuli jafnan upplýsa um að hann sé skráður hér á landi og tengsl sín við einstök vátryggingafélög.
    Reglugerð mun kveða á um skil á gögnum, sbr. 21. gr. frumvarpsins.

Um 25. gr.


Vátryggingamiðlaraskrá.


    Lagt er til að breyta 2. málsl. 1. mgr. 85. gr. þannig að reglugerð kveði á um atriði sem skulu skráð í vátryggingamiðlaraskrá.

Afturköllun starfsleyfis o.fl.


    Í b-lið er lögð til breyting á 3. mgr. 85. gr. Gert er ráð fyrir að Vátryggingaeftirlitið geti að uppfylltum tilteknum skilyrðum afturkallað starfsleyfi vátryggingamiðlara. Ráðherra skal staðfesta afturköllun starfsleyfis innan sjö daga. Nauðsynlegt getur verið að grípa til skjótra aðgerða og því er lagt til að Vátryggingaeftirlitið fái þessa heimild.

Um 26. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum um


vátryggingastarfsemi, nr. 60/1994, með síðari breytingum.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að tilteknar breytingar verði gerðar á lögum um vátryggingastarfsemi til að færa þau til samræmis við ábendingar ESA til íslenskra stjórnvalda.
    Í 15. gr. er kveðið á um að Vátryggingaeftirlitið leggi gjald á starfsemi vátryggingamiðlara til að standa undir kostnaði við eftirlit með starfsemi þeirra. Hér er verið að færa í lög gjaldtöku sem til þessa hefur aðeins verið fyrir hendi í reglugerð. Tekjur af gjaldinu eru hluti af sértekjum Vátryggingaeftirlitsins sem alls eru áætlaðar 51,6 m.kr. í fjárlögum 1997.
    Ekki verður talið að samþykkt þessa frumvarps hafi kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð.