Ferill 237. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 237 . mál.


833. Nefndarálit



um frv. til l. um Tryggingasjóð einyrkja.

Frá minni hluta félagsmálanefndar.



    Félagsmálanefnd hefur fjallað um málið og fengið fjölda manna á sinn fund af því tilefni eins og rakið er í áliti meiri hlutans. Þá hefur fjöldi umsagna borist um frumvarpið, m.a. frá samtökum sjálfstætt starfandi einstaklinga, annarra en þeirra þriggja hópa sem frumvarpið tók til þegar það var lagt fyrir Alþingi.
    Minni hlutinn telur það löngu tímabært að tekið sé á málefnum sjálfstætt starfandi einstaklinga hvað varðar rétt til bóta í atvinnuleysi. Á síðari árum hefur þeim fjölgað stórlega sem hefur verið gert að gerast verktakar og skilgreina sjálfa sig sem sjálfstætt starfandi þótt í raun sé um hefðbundið ráðningarsamband að ræða, en þessu formi ráðningar hefur verið gefið nafnið gerviverktaki. Þá hefur það allt frá því að sjálfstætt starfandi fengu fyrst almennan rétt til atvinnuleysisbóta árið 1993 verið vandamál innan Atvinnuleysistryggingasjóðs hvernig skuli fara með skilgreiningar á því hvenær sjálfstætt starfandi einstaklingar eru atvinnulausir og hafa skilyrðin þótt nokkuð ströng. Minni hlutinn gerir því ekki athugasemdir við það að málefni þessara hópa séu tekin sérstaklega fyrir, en vegna forsögu málsins, slælegs undirbúnings í félagsmálaráðuneytinu og ófaglegra vinnubragða við gerð frumvarpsins getur minni hlutinn ekki stutt málið eins og það liggur fyrir nú. Ástæður þess munu verða raktar nánar hér á eftir.
    Eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu er forsaga þess að mál þetta kemur fyrir Alþingi sú að fulltrúar þriggja hópa sjálfstætt starfandi, bænda, vörubílstjóra og smábátaeiganda, mótmæltu þeim reglum sem þessir hópar bjuggu við varðandi atvinnuleysisbætur og komu þeir á fund félagsmálaráðherra og óskuðu eftir að málið yrði tekið sérstaklega upp í ráðuneytinu. Í kjölfarið á því skipaði ráðherra nefnd til þess að kanna réttindi og skyldur sjálfstætt starfandi einstaklinga gagnvart atvinnuleysisbótakerfinu og gera tillögur til ráðherra um framtíðarskipan þeirra mála. Í hana voru skipaðir fulltrúar frá Bændasamtökum Íslands, Landssambandi vörubifreiðastjóra, Landssambandi smábátaeiganda, fjármálaráðuneyti og vinnumálaskrifstofu félagsmálaráðuneytisins. Formaður nefndarinnar var Árni Gunnarsson, aðstoðarmaður félagsmálaráðherra.
    Minni hlutinnn telur það algerlega óviðunandi vinnubrögð af hálfu ráðuneytisins að ganga þannig umhugsunarlaust erinda þessara þriggja hópa á meðan fjöldi manna er í nákvæmlega sömu aðstöðu gagnvart atvinnuleysisbótakerfinu. Samkvæmt upplýsingum sem fram koma í áfangaskýrslu nefndarinnar er það ljóst að í hópi einyrkja eru um 20 þúsund manns, en af þeim eru aðeins um 5.500 innan þeirra þriggja hópa sem frumvarpið náði upphaflega til. Minni hlutinn telur ráðuneytið hafa brugðist þeirri skyldu sinni að gæta jafnræðis í málefnum sjálfstætt starfandi á þeim forsendum einum saman að aðrir hópar hafa ekki verið jafnháværir og þessir þrír. Önnur rök hafa ekki verið færð fram af hálfu þeirra sem sömdu frumvarpið og eru vinnubrögð sem þessi átalin harðlega.
    Eftir að fulltrúar þeirra fjölmörgu sem átti að skilja eftir úti í kuldanum höfðu komið að máli við félagsmálanefnd og einnig félagsmálaráðherra sá ráðuneytið ástæðu til að opna sjóðinn fyrir öðrum sjálfstætt starfandi og leggur meiri hlutinn fram breytingartillögur þess efnis. Þótt þar sé stigið skref í rétta átt telur minni hlutinn að ríkisstjórnin hefði átt að draga frumvarpið til baka og leggja fram nýjar tillögur þar sem allir hópar sjálfstætt starfandi njóta jafnræðis. Eins og frumvarpið lítur út nú njóta þeir þrír hópar, sem áður voru nefndir, forgangs en aðrir hópar eru allir settir undir sama hatt. Engin rök eru færð fram fyrir því af hverju smábátaeigendur, vörubílstjórar og bændur eiga að njóta sérstöðu í þessari löggjöf umfram t.d. arkitekta eða þýðendur.
    Undirbúningstími frumvarpsins er í raun með ólíkindum og gagnrýnir minni hlutinn hroðvirknisleg vinnubrögð af hálfu ráðuneytisins í þeim efnum. Má þar t.d. benda á að nefndin sem undirbjó frumvarpið var ekki aðeins skipuð þröngum hópi manna, heldur var hún með eindæmum fljót að komast að niðurstöðu. Nefndin var skipuð 8. október 1996 og skilaði hún áfangaskýrslu til ráðherra mánuði síðar eða í nóvember. Niðurstöðurnar í þeirri skýrslu eru í stórum dráttum þær sömu og frumvarpið gerir ráð fyrir, enda lokaði nefndin á þann möguleika að hleypa öðrum en fulltrúum hópanna þriggja að málinu. Rökin fyrir þeirri ákvörðun eru þau að aðrir hópar hafi ekki óskað eftir breytingum og að umfangsmikið og tímafrekt yrði að kynna slíkt fyrirkomulag fyrir öllum sjálfstætt starfandi, auk þess sem búast mætti við því að erfitt yrði að ná samstöðu þegar margir kæmu að málinu (áfangaskýrsla, bls. 11). Eins og áður er rakið hefur öðrum hópum nú verið veittur aðgangur að sjóðnum en ekki á sömu forsendum og fyrrnefndum þremur hópum.
    Minni hlutinn lagði á það ríka áherslu í félagsmálanefnd að skoða þyrfti betur annað fyrirkomulag en það sem lagt er til í frumvarpinu. Ýmsir hafa bent nefndinni á að þeir vildu gjarnan eiga val um hvort þeir greiddu tryggingagjaldið þannig að aðeins þeir sem greiddu gætu notið réttar. Bandalag íslenskra listamanna hefur m.a. bent á þetta, ekki síst á þeim rökum að margir innan þeirra samtaka nýti sér aldrei rétt sinn til atvinnuleysisbóta af ýmsum ástæðum. Má nefna sem dæmi rithöfunda, en eðli málsins samkvæmt er erfitt að skilgreina hvenær þeir eru atvinnulausir auk þess sem þeir mundu seint lýsa slíku yfir. Valkvætt kerfi á þessum nótum var að mati minni hlutans ekki skoðað nægilega vel í félagsmálanefnd, líklega vegna þess að ekki var vilji fyrir hendi fyrir því að koma á slíku kerfi auk þess sem ofuráhersla var lögð á það að hraða afgreiðslu málsins af hálfu meiri hlutans. Þá liggur ekki fyrir hvernig ráðuneytið hyggst útfæra reglurnar um sjóðinn, t.d. hve margar deildir eigi að vera í honum, hverjir eigi að veljast saman í deildir o.s.frv., en slíka hluti hefði þurft að undirbúa mun betur af ráðuneytisins hálfu áður en lagafrumvarpið er afgreitt úr þinginu.
    Minni hlutinn getur m.a. af þeim ástæðum sem hér eru raktar ekki stutt frumvarpið eins og það liggur fyrir nú og stendur ekki heldur að breytingartillögum meiri hlutans. Áskilur minni hlutinn sér rétt til að styðja eða greiða atkvæði gegn einstökum breytingartillögum eða leggja fram sjálfstæðar breytingartillögur við afgreiðslu málsins ef ástæða þykir til.

Alþingi, 20. mars 1997.



Bryndís Hlöðversdóttir,

Kristín Ástgeirsdóttir.

Rannveig Guðmundsdóttir.


frsm.