Ferill 310. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 310 . mál.


1049. Nefndarálit



um till. til þál. um skipun nefndar um kaup eða leigu skólabáts og viðvaningshlutaskráningu.

Frá sjávarútvegsnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um tillöguna og farið yfir umsagnir sem nefndinni bárust frá Æfingaskóla Kennaraháskóla Íslands, Grunnskólanum á Hellissandi, Grunnskólanum á Raufarhöfn, Laugagerðisskóla, Glerárskóla, Þinghólsskóla, Heiðarskóla, Holtaskóla, Valsárskóla, Húnavallaskóla, Skólamálaskrifstofu Vestmannaeyjabæjar, Grunnskóla Bolungarvíkur, Grunnskóla Skútustaðahrepps, Kópavogsskóla, Framhaldsskóla Vestfjarða, Grunnskólanum á Ísafirði, Stýrimannaskólanum í Vestmannaeyjum, Skólameistarafélagi Íslands, Skólaþjónustu Eyþings, Hagaskóla, Ölduselsskóla, Grunnskólanum á Bakkafirði, Skólaskrifstofu Reykjanesbæjar, Grunnskólanum á Eiðum, Brekkubæjarskóla, Stóru-Vogaskóla, Snælandsskóla, Hafralækjarskóla, Grunnskólanum á Eskifirði, Grunnskóla Fáskrúðsfjarðar, Stýrimannaskólanum í Reykjavík, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Vélstjórafélagi Íslands og Sjómannasambandi Íslands.
    Tillögutextinn er tvíþættur, þ.e. annars vegar varðar hann kaup eða leigu á skólabát til notkunar við kennslu í sjómennsku en hins vegar viðvaningshlutaskráningu sjóvinnunemenda um borð í fiskiskipum. Nefndin tekur undir meginmarkmið tillögunnar, þ.e. að sett verði á stofn nefnd er falið verði að leita leiða til að auka möguleika íslenskra ungmenna á að kynnast undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar. Í því sambandi verði kannaðar forsendur fyrir rekstri skólabáts, eins eða fleiri, eða leitað annarra leiða til að ná þessu marki. Ekki er talið rétt að binda hendur ráðherra um það hvernig nefndin skuli skipuð. Eðlilega felst í starfi slíkrar nefndar að leita leiða til fjármögnunar á kaupum og rekstri skólabáts.
    Með hliðsjón af framansögðu leggur nefndin til að tillagan verði samþykkt með svofelldum

BREYTINGUM:



    Tillögugreinin orðist svo:
                  Alþingi ályktar að fela sjávarútvegsráðherra að skipa nefnd til að kanna forsendur fyrir kaupum eða leigu á skólabát, einum eða fleiri.
                  Nefndin skili áliti sem fyrst.
    Fyrirsögn tillögunnar verði: Till. til þál. um skipun nefndar um kaup eða leigu skólabáts.

    Guðný Guðbjörnsdóttir sat fundinn sem áheyrnarfulltrúi og er samþykk áliti þessu.

Alþingi, 29. apríl 1997.



Steingrímur J. Sigfússon,

Guðmundur Hallvarðsson.

Stefán Guðmundsson.


form., frsm.



Einar Oddur Kristjánsson.

Vilhjálmur Egilsson.

Árni R. Árnason.



Lúðvík Bergvinsson.

Hjálmar Árnason.

Sighvatur Björgvinsson.