Ferill 257. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 257 . mál.


1054. Nefndarálit



um till. til þál. um breyt. á flugmálaáætlun árin 1996–1999 vegna ársins 1997.

Frá samgöngunefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Þorgeir Pálsson flugmálastjóra og Jóhann H. Jónsson.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til á sérstöku þingskjali. Þær eru eftirfarandi:
    Lagt er til að markaðar tekjur af flugvallagjaldi hækki sem nemur 14 millj. kr. árið 1997, þ.e. úr 483 millj. kr. í 497 millj. kr. Eðlilegt er að gera ráð fyrir slíkri hækkun með hliðsjón af aukinni flugumferð sem orðið hefur á þessu ári.
    Þá er lagt til að 9 millj. kr. verði veittar til viðbótar vegna slitlagsyfirlags á Akureyrarflugvelli, þ.e. í stað 35 millj. kr. verði gert ráð fyrir 44 millj. kr. til þeirra framkvæmda. Því verður gert ráð fyrir 91 millj. kr. á árinu 1997 til liðarins Bundið slitlag, undir liðnum 2.2 Áætlunarflugvellir I, í stað 82 millj. kr. Heildarfjárhæð framkvæmda við Akureyrarflugvöll árið 1997 nemur þá 71 millj. kr.
    Þá er lögð til sú breyting að veittar verði 10 millj. kr. til viðbótar til flugstöðvarinnar á Ísafirði, þ.e. í stað 15 millj. kr. verði gert ráð fyrir 25 millj. kr. til framkvæmda við flugstöðina. Því verður miðað við 50 millj. kr. á árinu 1997 til liðarins Byggingar, undir liðnum 2.2 Áætlunarflugvellir I, í stað 40 millj. kr. Heildarfjárhæð framkvæmda við Ísafjarðarflugvöll árið 1997 nemur þá 31 millj. kr.
    Þá er lögð til sú breyting að 10 millj. kr. verði lagðar í endurnýjun á ljósabúnaði á Hornafjarðarflugvelli. Þannig verður gert ráð fyrir 12 millj. kr. á árinu 1997 til liðarins Aðflugs- og ljósabúnaður, undir liðnum 2.2 Áætlunarflugvellir I, í stað 2 millj. kr. Heildarfjárhæð vegna framkvæmda við Hornafjarðarflugvöll nemur þá 30 millj. kr. árið 1997.
    Lagt er til að 5 millj. kr. verði veittar til viðbótar vegna byggingar farþegaskýlis á Þórshöfn. Þannig verður miðað við 13 millj. kr. til liðarins Byggingar, undir liðnum 2.3 Áætlunarflugvellir II, í stað 8 millj. kr. Heildarfjárhæð framkvæmda við Þórshafnarflugvöll nemur þá 7 millj. kr. árið 1997.
    Með hliðsjón af framangreindum breytingum er lagt til að óskipt fjárhæð, undir lið 2.7 Til leiðréttinga og brýnna verkefna, lækki og verði 18 millj. kr. í stað 38 millj. kr.
    Loks er lagt til að flugvöllurinn í Borgarnesi verði færður í A-flokk (Þjónustuvellir) úr C-flokki (Sportflugvellir) og flugvöllurinn á Bakkafirði verði einnig færður í A-flokk úr D-flokki (Lendingarstaðir) og þannig haldið sömu flokkun og er í núgildandi flugmálaáætlun. Þá er lagt til að flugvellirnir á Steinasandi og Þórisdal verði færðir inn á flugmálaáætlun og settir í D-flokk (Lendingarstaðir) og flugvellirnir í Freysnesi og á Hvolsvelli verði settir í E-flokk (Lendingarstaðir í eigu og í umsjá annarra aðila en Flugmálastjórnar).
    Þá vill nefndin leggja áherslu á að miklar breytingar eru nú að verða á innanlandsflugi með aukinni samkeppni. Því er óhjákvæmilegt að hafa það sérstaklega til hliðsjónar við reglulega aðalendurskoðun flugmálaáætlunar á næsta ári. Þessar breytingar geta meðal annars haft í för með sér aukna þörf á lengingu flugbrauta, svo sem eins og á Vopnafirði, og einnig enduruppbyggingu flugstöðva, t.d. í Vestmannaeyjum, eins og hafist verður handa við á Ísafirði á þessu ári.

Alþingi, 30. apríl 1997.



Einar K. Guðfinnsson,

Magnús Stefánsson.

Stefán Guðmundsson.


form., frsm.



Egill Jónsson.

Árni Johnsen.

Kristján Pálsson.



Guðmundur Árni Stefánsson,

Ásta R. Jóhannesdóttir,

Ragnar Arnalds,


með fyrirvara.

með fyrirvara.

með fyrirvara.