Ferill 504. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 504 . mál.


1067. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 2/1995, um hlutafélög.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Kristján Andra Stefánsson frá forsætisráðuneyti, Jón Ögmund Þormóðsson frá viðskiptaráðuneyti og Hallgrím Snorrason og Skúla Guðmundsson frá Hagstofu Íslands. Þá bárust umsagnir um málið frá Hlutafélagaskrá, ríkisskattstjóra og Verslunarráði Íslands.
    Nefndin mælir með að frumvarpið verði samþykkt með svofelldri

BREYTINGU:



    Við 9. gr. Síðari efnismálsgrein orðist svo:
    Ráðherra Hagstofu Íslands er heimilt að setja með reglugerð nánari ákvæði um skráningu hlutafélaga, þar með talið um skipulag skráningarinnar, rekstur hlutafélagaskrár, aðgang að skránni og gjaldtöku m.a. fyrir útgáfu vottorða og afnot af þeim upplýsingum sem hlutafélagaskrá hefur á tölvutæku formi.

    Breytingartillagan felur í sér að fellt er brott ákvæði um að rekstrarkostnaði hlutafélagaskrár verði að hluta mætt með þjónustugjöldum. Í athugasemdum við frumvarpið kemur fram að endurnýja þurfi tölvubúnað hlutafélagaskrár og samhæfa skráningar- og upplýsingakerfi hennar og fyrirtækjaskrár. Samhliða þurfi að hefjast handa við að vinna að varanlegri lausn og smíða nýtt tölvukerfi fyrir heildstæða skráningu fyrirtækja og félaga í einn gagnagrunn. Í athugasemdum við 9. gr. frumvarpsins kemur einnig fram að reiknað sé með að töluverðan tíma muni taka að koma tölvukerfi skrárinnar í nýtanlegt horf og skapa eftirspurn eftir upplýsingum úr henni. Að þessu virtu þykir ekki tímabært að útvega skránni breiðari sértekjustofn en svo að gjöldin svari til kostnaðar af þeirri þjónustu sem unnt er að láta í té meðan á endurskipulagningu stendur. Eftir því sem henni miðar áfram má hins vegar búast við að þjónustan geti aukist. Þess vegna þykir einnig rétt að haga orðalagi gjaldtökuheimildarinnar með þeim hætti að kostnaðarliðir eru tilgreindir í dæmaskyni, en með því móti er leitast við að tryggja að aukin útgjöld af þeim sökum verði ávallt endurheimtanleg.
    Kristín Ástgeirsdóttir sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykk áliti þessu.

Alþingi, 2. maí 1997.



Vilhjálmur Egilsson,

Valgerður Sverrisdóttir.

Jón Baldvin Hannibalsson.


form., frsm.



Sólveig Pétursdóttir.

Steingrímur J. Sigfússon.

Pétur H. Blöndal.



Ágúst Einarsson.

Einar Oddur Kristjánsson.

Ólafur Þ. Þórðarson.