Ferill 444. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 444 . mál.


1154. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 24 7. maí 1986, um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins, með síðari breytingum.

Frá sjávarútvegsnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Árna Kolbeinsson frá sjávarútvegsráðuneyti, Benedikt Valsson frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Hólmgeir Jónsson og Sævar Gunnarsson frá Sjómannasambandi Íslands, Helga Laxdal frá Vélstjórafélagi Íslands og Kristján Ragnarsson frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er grein fyrir á sérstöku þingskjali.
    Breytingartillaga við 2. gr. frumvarpsins lýtur að því að lækka greiðslur framleiðenda og annarra fiskkaupenda af hráefnisverði afla sem þeir taka við af smábátum inn á greiðslumiðlunarreikning hjá Lífeyrissjóði sjómanna. Að mati Lífeyrissjóðs sjómanna hafa þessar greiðslur verið of háar hingað til og nokkur vinna farið í að endurgreiða smábátaeigendum mismun á inngreiddum fjárhæðum frá greiðslumiðlunarreikningum og þeim iðgjöldum sem þeim hefur borið að greiða til lífeyrissjóðanna. Til að ná fram jafnvægi þarna á milli er jafnframt lögð til nokkur lækkun á hlutfallsgreiðslu til lífeyrissjóðsins skv. 1. tölul. 8. gr. laganna. Breytingar á 2. og 3. tölul. 8. gr. laganna miða að því að fjárhæðir samkvæmt þeim töluliðum verði þær sömu og verið hefur. Breytingarnar eru lagðar til að sameiginlegri beiðni Lífeyrissjóðs sjómanna og Landssambands smábátaeigenda. Breytingartillaga við 4. gr. (er verður 5. gr.) er lögð fram til að taka af allan vafa um hverjir það eru sem geta óskað eftir skipun gerðardóms samkvæmt ákvæðinu. Þá er lagt til að tekið verði fram í lögunum að gerðardómi um skiptingu fjár skv. 3. tölul. 1. mgr. 9. gr. laganna sé heimilt að taka mið af fleiri atriðum en fjölda félagsmanna í dómsúrlausnum sínum. Loks skal tekið fram að í breytingartillögum nefndarinnar er gert ráð fyrir að sambærileg regla og gildir um framleiðendur og fiskkaupendur, um greiðslu inn á greiðslumiðlunarreikninga, gildi um þá er taka sjávarafurðir í umboðssölu.
    Sighvatur Björgvinsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 9. maí 1997.



Steingrímur J. Sigfússon,

Árni R. Árnason,

Stefán Guðmundsson.


form., með fyrirvara.

frsm.



Vilhjálmur Egilsson,

Guðmundur Hallvarðsson.

Lúðvík Bergvinsson,


með fyrirvara.

með fyrirvara.



Hjálmar Árnason.

Einar Oddur Kristjánsson,


með fyrirvara.




Prentað upp.