Ferill 524. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 524 . mál.


1200. Nefndarálit



um frv. til l. um Suðurlandsskóga.

Frá landbúnaðarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jón Erling Jónasson frá landbúnaðarráðuneyti, Björn Jónsson skógræktarráðunaut, Jón Loftsson skógræktarstjóra, Gunnar Sverrisson skógarbónda, Stefán Thors og Hólmfríði Sigurðardóttur frá Skipulagi ríkisins, Kristján Geirsson og Trausta Baldvinsson frá Náttúruvernd ríkisins og Jón Gunnar Ottósson frá Náttúrufræðistofnun Íslands. Þá bárust nefndinni umsagnir um málið frá Búnaðarsambandi Suðurlands, Sambandi garðyrkjubænda, Landgræðslu ríkisins, Búnaðarsambandi Vestfjarða, Búnaðarsambandi Kjalarnesþings, Bændasamtökum Íslands og Skógrækt ríkisins.
    Í máli forstjóra Náttúrufræðistofnunar Íslands og Náttúruverndar ríkisins komu fram athugasemdir við fyrirhugaðar framkvæmdir við Suðurlandsskóga um að þær hafi svo víðtæk umhverfisáhrif að slíkar framkvæmdir beri að fara í umhverfismat skv. 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 63/1993. Í athugasemdum skipulagsstjóra ríkisins kom fram að hann leggur ríka áherslu á að áður en verkefnið hefjist verði gerð sérstök skipulagsáætlun sem nái til skógræktar fyrir það svæði sem verkefnið nær til. Haga þurfi skógræktaráætluninni þannig að samráð við hagsmunaaðila verði tryggt og almenningi gefist kostur á því að gera athugasemdir við áætlunina.
    Í ljósi þessara athugasemda telur nefndin að í þeim tilfellum þar sem farið verður í stór ræktunarverkefni á vegum Suðurlandsskóga verði skoðað sérstaklega hvort beita beri 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum. Nefndin leggur sérstaka áherslu á að vandað verði til undirbúnings framkvæmdanna og tillit tekið til flestra þátta og sjónarmiða. Í þessu sambandi má benda á 25. gr. laga um skógrækt, nr. 3/1955, með síðari breytingum, sem kveður á um samþykki skipulagsyfirvalda fyrir notkun lands til nytjaskógræktar.
    Skógrækt ríkisins hefur þróað vinnureglur sem tengjast skipulagsmálum en þær eru m.a. að forðast beri einrækt trjátegunda, skógarjaðrar verði ræktaðir með mörgum tegundum til fegrunar og skjóls, skógrækt verði felld að landslagi bæði hvað varðar jarðvinnslu og gróðursetningu, sjaldgæf vistkerfi verði skilin eftir við gerð skógræktaráætlana og að skilin verði eftir opin svæði kringum fornar mannvistarleifar. Nefndin leggur ríka áherslu á að frekari þróun vinnureglna Skógræktarinnar verði í náinni samvinnu við Skipulag ríkisins svo að þær verði í samræmi við lög og í sátt við hagsmunaaðila.
    Þrátt fyrir þessar áherslur nefndarinnar og athugasemdir sem fram komu við frumvarpið leggur nefndin ekki til að sett verði sérákvæði í þessi lög sem kveði á um að áætlunin skuli fara í mat á umhverfisáhrifum, um það gilda önnur lög. Þær breytingar, sem nefndin leggur til að gerðar verði á frumvarpinu, lúta allar að orðalagi þess en ekki efni.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með svofelldum

BREYTINGUM:



    Við 1. gr. Á eftir orðinu „ræktun“ í 2. mgr. komi: og umhirðu.
    Við 4. gr. 2. mgr. orðist svo:
                  Suðurlandsskógar greiða undirbúnings- og rekstrarkostnað verkefnisins og laun stjórnar og fastra starfsmanna. Enn fremur greiða Suðurlandsskógar ákveðinn hluta af samþykktum kostnaði við skógrækt og skjólbeltarækt á lögbýlum, óháð búsetu, með kvöðum um endurgreiðslu til ríkissjóðs, sbr. 5. gr., samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð er landbúnaðarráðherra setur að fengnum tillögum stjórnar Suðurlandsskóga.
    Við 5. gr.
         
    
    2. mgr. orðist svo:
                            Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um álagningu og innheimtu gjalda skv. 1. mgr.
         
    
    Í stað orðanna „ákvæðum 1. og 2. mgr.“ í 3. mgr. komi: ákvæði 1. mgr.
    Við 7. gr.
         
    
    4. málsl. 1. mgr. orðist svo: Hún ræður framkvæmdastjóra sem annast daglegan rekstur.
         
    
    1. málsl. 2. mgr. falli brott.

Alþingi, 12. maí 1997.



Guðni Ágústsson,

Egill Jónsson.

Ágúst Einarsson.


form., frsm.



Guðjón Guðmundsson.

Magnús Stefánsson.

Sigríður Jóhannesdóttir,


með fyrirvara.



Lúðvík Bergvinsson.

Hjálmar Jónsson.

Árni M. Mathiesen.