Ferill 493. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 493 . mál.


1295. Breytingartillaga



við frv. til l. um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.

Frá Árna R. Árnasyni.



    Í stað 21. og 22. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
    Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda 1. janúar 1998. Þann 1. janúar 1998 falla úr gildi lög nr. 81 31. maí 1976, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, með síðari breytingum. Jafnframt eru frá sama tíma felld úr gildi ákvæði 2. mgr. 4. gr., 21. gr. og 22. gr. laga nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum. Reglugerðir, sem settar hafa verið með stoð í framangreindum lögum, halda gildi sínu.

Greinargerð.


    Hér er lögð til lagfæring á uppsetningu gildistökuákvæða frumvarpsins. Í upphaflegu frumvarpi var gert ráð fyrir að lögin öðluðust ekki gildi fyrr en um næstu áramót. Hluti þeirra breytingartillagna sem samþykktar voru við 2. umræðu málsins þarf hins vegar að taka gildi strax þótt lögin komi ekki til framkvæmda í heild sinni fyrr en í upphafi næsta árs. Jafnframt er gert ráð fyrir að eldri lög haldi gildi sínu þar til hin nýju lög koma til framkvæmda.