Almannatryggingar

Þriðjudaginn 27. janúar 1998, kl. 18:13:47 (3092)

1998-01-27 18:13:47# 122. lþ. 52.8 fundur 348. mál: #A almannatryggingar# (lögheimilisskilyrði, slysatrygging sjómanna o.fl.) frv., GHelg (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur

[18:13]

Guðrún Helgadóttir (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Svo öllu sé rétt til skila haldið þá hljóðar núverandi lagagrein svo, sem samþykkt var fyrir jól, með leyfi hæstv. forseta:

,,Starf um borð í íslensku skipi eða íslensku loftfari, eða skipi eða loftfari sem gert er út eða rekið af íslenskum aðilum, jafngildir starfi hér á landi samkvæmt þessum lið, enda séu laun greidd hér á landi.``

Tillagan í frv. sem við erum að fjalla um hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Starf um borð í íslensku skipi, skipi sem gert er út af íslenskum aðila, íslenskri flugvél eða flugvél sem rekin er af íslenskum aðila jafngildir starfi hér á landi samkvæmt þessum lið.``

Þetta eru ekki, hæstv. forseti, samhljóða lagagreinar. Ég ætla að vona að það komist til skila í þingtíðindum.

Ég vil jafnframt spyrja hæstv. forseta: Eigum við að búa við það þegar við undirbúum málflutning okkar um frumvörp sem fyrir liggja að allt eins geti svo farið að sú vinna sé gjörsamlega ónýt því að þau verði endanlega ekki eins og þau liggja fyrir þegar kemur að því að mæla fyrir þeim?