Kjaradeila sjómanna og útvegsmanna

Fimmtudaginn 29. janúar 1998, kl. 13:47:07 (3192)

1998-01-29 13:47:07# 122. lþ. 55.92 fundur 184#B kjaradeila sjómanna og útvegsmanna# (umræður utan dagskrár), KHG
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur

[13:47]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Helsti vandinn í málinu er að mínu mati sá að aflahlutur sjómanna hefur frá aldaöðli reiknast af aflaverðmæti þess afla sem skipið veiðir. Með nýjum lögum sem komið hafa til á síðustu árum hefur orðið veruleg breyting á þessu. Nú er verðmætið ekki lengur fólgið í fiskinum sem veiddur er heldur líka í réttindum sem veitt eru til að veiða þann fisk. Verðmæti þeirra réttinda er utan við hlutaskiptakerfið. Þess vegna er núverandi fiskveiðistjórnarkerfi með framseljanlegum veiðiheimildum ósamrýmanlegt núverandi hlutaskiptakerfi. Úrræði til bóta hljóta að markast af því hvernig menn afmarka vandann. Eins og ég nálgast málið sé ég fyrir mér tvær lausnir. Sú fyrri er að færa hlutaskiptakerfið yfir verðmæti leigðra veiðiheimilda. Það kemur til álita að mínu viti en á þeirri leið sé ég þó ýmsa þá annmarka sem lúta að verðmyndun í núverandi kerfi. Hin leiðin er að draga úr verðmætum réttindanna til að róa til fiskjar eða færa þau með einhverjum hætti aftur inn í verðmæti fisksins sjálfs. Það má gera með því að draga úr rétti til að framselja veiðiheimildir, auka skyldu skipa til að veiða kvóta sinn og í þriðja lagi að setja lágmarksverð á nýjan leik á afla eins og var áður. Ég hygg að líti menn á þessar leiðir til þess að leysa þann vanda sem við blasir verði mönnum ljóst að vandinn liggur fyrst og fremst hér, hjá Alþingi, í löggjöf sem það er sett um stjórn fiskveiða en ekki hjá samningsaðilum.