Kjaradeila sjómanna og útvegsmanna

Fimmtudaginn 29. janúar 1998, kl. 13:51:35 (3194)

1998-01-29 13:51:35# 122. lþ. 55.92 fundur 184#B kjaradeila sjómanna og útvegsmanna# (umræður utan dagskrár), GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur

[13:51]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Nú er senn að bresta á þriðja verkfall sjómanna þar sem deilt er um sömu atriði. Í húfi eru gífurlegir þjóðarhagsmunir og því eðlilegt að málið sé rætt á Alþingi. En hvernig stendur á þessu? Eru sjómenn ekki tekjuhæstir allra launþega og hvað eru þeir eiginlega að kvarta? Hvernig væri að konurnar í frystihúsunum fengju eitthvað af launum þeirra? Hvað eru þeir eiginlega að kvarta? Þessar raddir heyrast svo sannarlega í þjóðfélaginu. Jú, sjómenn þola ekki frekar en aðrir það fyrirkomulag á stjórn fiskveiða og ákvörðun fiskverðs sem löggjafinn hefur lögfest. Það fyrirkomulag særir reyndar réttlætiskennd allrar þjóðarinnar. Því er ég á því að ábyrgð okkar stjórnmálamanna sé mikil og því verði að breyta núverandi löggjöf í þá veru að þjóðin og sjómenn geti sætt sig við hana. Ekki þýðir að grípa inn í kjaradeiluna með einfaldri frestun. Það þarf að gera grundvallarbreytingar á löggjöfinni og þótt fyrr hefði verið. Alþingi á að setjast yfir þetta strax og láta málið hafa algeran forgang. Það er ekki lengur hægt að búa við löggjöf sem hvetur sjómenn til að brjóta gegn eigin samvisku dag hvern og horfa um leið upp á það hvernig eðlileg markaðstenging á fiskverði er sniðgengin og þeir þvingaðir til að taka þátt í kaupum og leigu á kvóta. Sjómönnum og þjóðinni allri er misboðið með þessu kerfi og því er verkfall sjómanna óhjákvæmilegt að óbreyttum lögum.