Kjaradeila sjómanna og útvegsmanna

Fimmtudaginn 29. janúar 1998, kl. 13:56:18 (3196)

1998-01-29 13:56:18# 122. lþ. 55.92 fundur 184#B kjaradeila sjómanna og útvegsmanna# (umræður utan dagskrár), GHall
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur

[13:56]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Engum dylst mikilvægi sjómannastéttarinnar. Hér hafa menn rætt um að nauðsynlegt sé að deiluaðilar taki höndum saman. En hvað skyldi standa í kjarasamningum sjómanna um það atriði sem snýr að verðmyndun aflans og það sem mest er líka deilt um, nú í þriðja skipti á skömmum tíma, þ.e. framsal kvótans og það kvótabrask sem sjómenn hafa talað um? Í kjarasamningum segir svo, með leyfi forseta:

,,Útgerðarmaður hefur með höndum sölu aflans og hefur til þess umboð áhafnar að því er aflahlut hennar varðar. Hann skal tryggja skipverjum hæsta gangverð fyrir fiskinn.``

Og síðan stendur:

,,Ekki er heimilt að draga frá verðmæti afla kostnað vegna kaupa á veiðiheimildum, sbr. 1. gr. laga nr. 24/86, 10. gr. laga nr. 79/94 og breytingu á lögum nr. 24/86, um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun, með síðari breytingum.``

Svo tala menn um að það sé kannski rétt að löggjafinn komi betur að því máli sem lýtur að kvótaúthlutun og hvernig með skuli fara. Hér liggur það fyrir svart á hvítu hvernig eigi að fara með aflann, hvernig verðmyndunin eigi að vera en það dugir ekki til. Með hvaða hætti getur þá löggjafinn gripið inn í? Svo eru menn að tala um að launakjör sjómanna séu há. En alltaf er það sama sagan að það gleymist að skoða hver er vinnutímalengdin sem liggur að baki þessum tekjum. Þeir sem hafa hæstu tekjurnar eru teknir og gerðir að útgangspunkti tekna sjómanna eins og raun ber vitni um. Því miður hefur allt of stór hluti sjómanna lág laun eða kauptryggingu upp á 70 þús. kr. eins og málshefjandi talaði um áðan.

Að síðustu vil ég líka koma inn á það starf sem sjómenn inna af hendi. Ég hef talað um mikilvægi sjómennskunnar og sjómannastarfsins. Það er ótvírætt. Þá er heldur ekki úr vegi að geta hinnar miklu slysatíðni við sjómannsstörfin. Ég tel að það hafi haft á sínum tíma mjög slæm áhrif þá. Hæstv. utanrrh. gat þess að hann ætlaði ekki að fara í opinberar erindagjörðir erlendis vegna þess að hann ætlaði að fylgjast með gangi mála hvað áhrærði deilur sjómanna og útgerðarmanna.