Úrskurður umboðsmanns um ólögmæta hótelstyrki

Þriðjudaginn 03. febrúar 1998, kl. 13:37:54 (3304)

1998-02-03 13:37:54# 122. lþ. 57.91 fundur 190#B úrskurður umboðsmanns um ólögmæta hótelstyrki# (umræður utan dagskrár), forsrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur

[13:37]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Atvik þessa máls eru þau að á fjárlögum fyrir árið 1995 var lögbundið framlag til Ferðamálaráðs hækkað um 20 millj. kr. og hugsað til skuldbreytinga á heilsárshótelum á landsbyggðinni. Samgrh. skipaði sérstaka nefnd til að gera tillögu um úthlutun fjárins samkvæmt tilnefningu Ferðamálaráðs og Ferðamálasjóðs og samgrn. tilkynnti hlutaðeigandi aðilum um styrkveitingarnar en fól Ferðamálaráði að annast greiðslu þeirra. Álit umboðsmanns var það að löggjafinn hefði falið Ferðamálaráði að sjá um úthlutun hótelframlagsins og ráðið eða eftir atvikum framkvæmdastjórn þess hefði getað sett á laggirnar nefnd til að annast þetta verkefni undir yfirstjórn þess. Það hafi hins vegar eingöngu verið á valdi Ferðamálaráðs að mæla fyrir um skipun undirnefndar og þar með visst valdaframsal til ákvarðana á því sviði, en ekki ráðherra enda kveði skýr lagafyrirmæli ekki á um heimildir hans sem æðra stjórnvalds í þeim efnum. Samgrh. hafi því brostið vald eða heimild til að takmarka valdsvið Ferðamálaráðs með þeim hætti sem raun varð á og skipun hinnar sérstöku nefndar fól í sér. Tilnefning í ferðamálaráðsnefndina hafi engu breytt í þessum efnum. Nefndin var með öðrum orðum ekki bær til að annast úthlutun fjárins og því hafi ekki að lögum verið staðið rétt að úthlutun þess fjár.

Samgrh. hefur með bréfi dags. 30. janúar komið á framfæri sjónarmiðum og nýjum upplýsingum um málsatvik sem hann telur að eigi að hafa áhrif á niðurstöðu umboðsmanns, og hefur hæstv. ráðherra beðið hann að taka álit sitt til endurskoðunar á grundvelli hinna nýju upplýsinga. Í ljósi þess má halda því fram að ekki sé heppilegt að þingið ræði mál sem umboðsmaður hefur enn þá til athugunar.

Í bréfi samgrh. kemur fram að fjárln. Alþingis hafi með bréfi í febrúar 1995, þ.e. rösklega mánuði eftir samþykkt fjárlaga fyrir árið 1995, beint því til Ferðamálaráðs að fjárln. telji eðlilegt að Ferðamálasjóður sjái um úthlutun fjárins. Það má segja að við þessi afskipti fjárln. hafi meðferð málsins farið nokkuð út af sporinu.

Í framhaldi af þessu erindi virðist Ferðamálaráð hafa haft í undirbúningi að setja á fót nefnd á sínum vegum til að fjalla um þessa úthlutun en niðurstaðan varð samt sem áður sú að samgrh. skipaði nefndina og hafði þau afskipti af málinu sem lýst er í áliti umboðsmanns.

Eins og að framan var nefnt hefur samgrn. komið sjónarmiðum sínum á framfæri og telur sig hafa verulegar málsbætur en jafnframt er viðurkennt í bréfi ráðuneytisins að hið fyrra svar ráðuneytisins hefði mátt vera nákvæmara og þar með hefði verið komist hjá misskilningi um efni málsins.

Varðandi hitt sem hv. þm. nefndi, hvaða stefnu ríkisvaldið vildi hafa í þessum efnum, þá held ég að fyrir liggi að menn vilja gæta í hvívetna jafnræðis með þeim sem þarna eiga hlut að máli. Það er meginregla sem menn verða að leitast við að fylgja og jafnframt að leggja mat á hvar megi tryggja uppbyggilegan rekstur í ferðamannaþjónustu og byggja til viðbótar á að eðlileg arðsemi hljóti í framtíðinni að verða til staðar hjá þeim aðilum sem styrkja eða aðstoðar njóta. Ég tel reyndar að úr þessu máli hafi verið fullmikið gert miðað við efni þess og aðstæður og að hið nýja bréf samgrn. skýri málið nokkuð þó að ég vilji taka fram að ég tel meðferð umboðsmanns Alþingis á málinu fullkomlega eðlilega.