Úrskurður umboðsmanns um ólögmæta hótelstyrki

Þriðjudaginn 03. febrúar 1998, kl. 13:51:42 (3309)

1998-02-03 13:51:42# 122. lþ. 57.91 fundur 190#B úrskurður umboðsmanns um ólögmæta hótelstyrki# (umræður utan dagskrár), samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur

[13:51]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Ég vek athygli á því að það var að frumkvæði fjárln. Alþingis sem þessar 20 millj. kr. voru teknar inn í fjárlög og þeim valinn staður undir Ferðamálaráði. Það er athyglisvert við framkvæmd málsins að þegar í janúarmánuði fóru fram viðræður milli Ferðamálaráðs og fulltrúa fjárln. um það hvernig skyldi staðið að úthlutun þessara styrkja. Niðurstaðan varð sú að hinn 31. jan. lá fyrir að fjárln. mundi skrifa Ferðamálaráði bréf um þau vinnubrögð sem fjárln. hafði í huga og þar segir í niðurlagi: ,,Fjárlaganefnd telur eðlilegt að Ferðamálasjóður sjái um framkvæmd þessa.`` Í samræmi við vilja fjárln. samþykkti Ferðamálaráð á árlegum fundi um fjárreiður ráðsins að skipuð skyldi þriggja manna nefnd, einum frá Ferðamálaráði, einum frá Ferðamálasjóði og einum fulltrúa úr hótelnefndinni svokölluðu til að úthluta þessu fé. Þetta mál kom síðan aftur upp hjá Ferðamálaráði. Það skal tekið fram að Sigbjörn Gunnarsson, fulltrúi Alþfl., var á þeim tíma formaður fjárln. En það dróst að nefndin yrði skipuð og að síðustu varð það að samkomulagi að samgrh. skipaði nefndina. Ég vil taka fram að störf nefndarinnar voru unnin í fullu samráði og með fullri vitund formanns og framkvæmdastjóra Ferðamálaráðs. Ég vil líka að það komi skýrt fram að samgrn. hafði engin efnisleg áhrif á niðurstöðu nefndarinnar. Við í samgrn. höfum nú skýrt umboðsmanni frá viðhorfi okkar. Ég tek fram að ég tel að það hafi verið rangt að því staðið hjá samgrn. að senda ekki niðurstöðuna þegar í stað til Ferðamálaráðs í stað þess að afgreiða bréf nefndarinnar frá sér og tel að þar hefði verið staðið rétt að málum með því að endursenda það til Ferðamálaráðs. Ég undirstrika að Ferðamálaráð, fulltrúar þess, formaður og framkvæmdastjóri voru sammála niðurstöðum nefndarinnar en samgrn. kom þar hvergi að efnislega.