Úrskurður umboðsmanns um ólögmæta hótelstyrki

Þriðjudaginn 03. febrúar 1998, kl. 13:54:08 (3310)

1998-02-03 13:54:08# 122. lþ. 57.91 fundur 190#B úrskurður umboðsmanns um ólögmæta hótelstyrki# (umræður utan dagskrár), KH
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur

[13:54]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Málið snýst um vinnubrögð við úthlutun fjár og við höfum fengið rökstutt álit tveggja virtra stofnana sem lögum samkvæmt eiga að tryggja eftirlit og aðhald með stjórnsýslunni og leiðbeina um réttmæta stjórnsýsluhætti. Niðurstöður þeirra eru skýrar og ótvíræðar. Í því máli sem um ræðir var ekki staðið rétt að málum, það var ekki farið að lögum eins og umboðsmaður Alþingis segir. Aðalatriðið nú er hvernig brugðist verður við. Það er því miður plagsiður ráðamanna að verja gerðir sínar og sinna til hins ýtrasta og taka alltaf á svona málum með þeim hætti að ekki hafi öll kurl komið til grafar, það sé um misskilning að ræða og þar fram eftir götum eins og fram kom í máli hæstv. forsrh. Ábyrgð er sí og æ vísað aftur, a.m.k. að hluta til, aftur til umboðsmanns Alþingis eða annarra sem um hafa fjallað.

Það er mjög áberandi í málinu, og reyndar ýmsum öðrum sem upp hafa komið, að þeir eru enn þá margir og ekki síst sá ráðherra sem um ræðir sem hafa ekki áttað sig á breyttum aðstæðum. Það sem þótti kannski gott og gilt fyrr á árum eða var a.m.k. látið viðgangast og erfitt að taka á, samrýmist ekki nútímakröfum um góða stjórnsýslu. Sem betur fer hefur margt breyst frá þeim dögum þegar pólitík snerist fyrst og fremst um fyrirgreiðslu og hagnýtingu eða jafnvel misnotkun aðstöðu. Það eru svo sem nógu mörg dæmi enn þá um slíkt en aðstæður eru aðrar að taka á þvílíkum málum. Við höfum fengið tæki til eftirlits og aðhalds og við eigum að nota þau. Það dugir ekki lengur að hrópa um pólitíska atlögu þegar ráðherrar og embættismenn eru gagnrýndir fyrir óeðlileg afskipti og röng vinnubrögð, t.d. fyrir að gera einum hærra undir höfði en öðrum. Nú er hægt að leita til þeirra stofnana sem Alþingi hefur sjálft komið á fót og við eigum að taka fullt mark á áliti og niðurstöðum þeirra stofnana sem löggjafinn hefur sett á fót í þessu skyni. Það er umhugsunarefni og ámælisvert hversu illa margir taka athugasemdum og niðurstöðum þeirra stofnana sem gegna því mikilvæga hlutverki að standa vörð um góða, eðlilega og réttmæta stjórnarhætti.