Minnismerki um breska sjómenn á Vestfjörðum

Miðvikudaginn 04. febrúar 1998, kl. 13:35:16 (3376)

1998-02-04 13:35:16# 122. lþ. 58.1 fundur 296. mál: #A minnismerki um breska sjómenn á Vestfjörðum# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., GHall
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur

[13:35]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Að hleypa af stað deilum um staðsetningu þessa minnisvarða er dapurleg staðreynd, enda þykir breskum aðstandendum þeirra sjómanna sem farist hafa við Íslandsstrendur mjög miður ef deilur um staðarval á minnisvarða hafa áhrif á tilganginn. Ég tek undir með ræðismanni Íslendinga í Grimsby, Jóni Olgeirssyni, svo og öðrum þeim sem vilja reisa minnisvarðann á Hnjóti.

Afstaða mín í máli þessu er sú að landsvæðið frá Hafnarmúla um Blakk fyrir Bjargtanga og inn með Látrabjargi tengist, svo með ólíkindum er, björgunar- og sjóslysasögu Íslands.

Þá er þess að geta að strandstaður breska togarans Sargons sem strandaði undir Hafnarmúla í desember 1948 er í augsýn frá Hnjóti. Á þessu landsvæði var unnið eitt af mestu björgunarafrekum Íslendinga þegar breski togarinn Dhoon strandaði 12. des. 1947 undir Geldingsskorardal á Látrabjargi. Ég bið menn að láta af deilum í máli þessu og sameinast í sátt með virðingu um hina látnu bresku sjómenn og tillitssemi við aðstandendur þeirra. Reisum minnisvarðann á Hnjóti. Þar er hin sögulega staðsetning.